Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
1.12.2008 | 23:28
Yndislegt að gefa!
Ég á alveg yndislega syni (þó ég segi sjálf frá). Ég varð fertug fyrir tíu dögum síðan og sá litli vildi endilega gefa mömmu sinni afmælisgjöf þó ekki sé hann fjáður. Hann mundi eftir að hafa lánað mér þúsund krónur sem ég borgaði honum til baka einhverju áður. Hann fór bísperrtur út í búð og kom eins og stoltur páfi til baka með afmælisgjöf handa mömmu sinni. Þegar ég opnaði aðra gjöfina sem var úr Tiger kom í ljós jarðkúla sem einnig var baukur. OH, mig hefur alltaf langað í globus, en hann sniðugur. Drengurinn klikkti síðan með að segja mér að þetta væri þarfaþing í heimskreppunni. Heimskringla sem hægt væri að setja peninga í. Ég átti ekki til aukatekið orð yfir snilld barnsins sem er jú bara níu ára en veit sínu viti.
Globusinn hefur fengið heiðurstað á heimilinu og ég hugsa með hlýju til drengsins í hvert sinn sem ég ber hann augum, enn hafa ekki neinir aurar leitað ofan í búk jarðkúlunnar en vonandi mjatlast þetta nú einhvern veginn samt.
Þetta er ein besta gjöfin sem ég hef fengið - hún var gefin af svo mikilli hjartahlýju og hugulsemi að ég þarf ekkert annað. Ég hélt skemmtilegt hóf og hitti vini og bað þá helst ekki að gefa gjafir, því mér leið þannig að mig vantar ekkert nema bara skemmtilegt fólk í kringum mig og þúsund bros. Þá er ég glöð.
Eldri sonur minn hélt ræðu um hvað ég væri skrýtin en samt allt í lagi, hálfgerður nörd en þó góður matargerðarmaður þrátt fyrir að vera alltaf að hugsa um lífrænt!! (fyrir honum er það skammaryrði). Ég áttaði mig á að það helsta sem ég hef gefið honum hingað til eru upplifanir af mörgum toga og að hann mun njóta þeirra sem minninga í tengslum við mig mun fremur en veraldlegra hluta þegar fram í sækir. Það fékk mig til að skæla af gleði, svo snortin varð ég.
Það besta í heimi er að eiga fólk í kringum sig sem elskar mann og maður elskar.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.10.2008 | 00:42
Barnagrafir í Eyjum
Hugur minn og líkami var allt annar staðar en í frétta- og fjármálakreppu fárviðrinu um helgina. Það var ákveðin hvíld.
Ég skrapp til Vestmannaeyja um helgina í jarðarför að kveðja konu föðurbróður míns, hana Beggu (Indíönu Björg). Blessuð sé minning hennar.
Athöfnin var hin fallegasta og Heimaey skartaði sínu fegursta þegar að við gengum í líkfylgdinni inn Landakirkjugarðinn. Einmana Lóa sem væntanlega hefur misst af félögum sínum á leið til suðurs fylgdi okkur nokkurn spöl. Á meðan að við gengum í hægðum okkar á eftir kistunni og ættingjum mínum las ég á leiðin sem voru orðin um hálfrar aldar gömul eða eldri og fór smá saman að bregða í brún að nær öll leiðin voru barnaleiði. Mér var brugðið yfir að ganga fram hjá svona mörgum gröfum í röð sem geymdu jarðneskar leifar ungbarna og ungra barna, enda ekki algengt á okkar tímum að börn nái ekki að lifa af fyrstu árin, eins og þá var. Ég veit svo sem ekki hvort að Vestmannaeyjar voru sérlega slæmur staður hvað það varðaði.
Eftir jarðsetninguna, gekk ég með foreldrum mínum að gröfum ömmu og afa til að kasta á þau kveðju. Lóan fylgdi í humáttina á eftir okkur. Aumingja Lóan, hún á eftir að frjósa þarna í hel í vetur.
Pabbi vatt sér þá að baki leiði foreldra sinna og gerði krossmark yfir leiði sem að ég vissi ekki hvers var. Í ljós kom að þar lá bróðir hans sem hafði látist tæplega árs gamall.
Í góðum hópi ættingja síðar um daginn varð honum tíðrætt um mynd sem að hefði eilíflega verið á náttborði við rúm foreldra hans af barnalíkinu í kistunni. Hann var að velta fyrir sér hvað hefði orðið af myndinni af honum Jóhannesi litla.
Stella, kona Einars föðurbróður gerði sér þá lítið fyrir og fann hana í kommóðu. Við horfðum öll á litla mynd af fallegu barnslíki dúðað blómum ofan í opinni kistu. Skrýtið að taka svona mynd af barnslíki (jafnvel þó það væri barnið manns) og hafa við rúmið sitt það sem maður ætti eftir ólifað. Það gerðu nú afi minn og amma engu að síður og var föður mínum mjög minnisstætt. Þarna var greinilega ekki verið að reyna að gleyma því sem orðið hafði og minningu barnsins var haldið á lofti á þennan hátt. Að signa sig fyrir svefninn horfandi á myndina.
Við ræddum um að allir hefðu verið harmi slegnir yfir dauðsfalli drengsins (sem mér skylst hafi dáið úr sýkingu við nafla..). Þau útskýrðu fyrir mér að ástæða fyrir að ljósmyndari var fenginn til að taka mynd af líkinu og það síðan rammað inn, var vegna þess að enginn önnur ljósmynd var til af barninu. Það var hreinlega ekki siður að taka myndir af börnum fyrr en þau væru orðin eldri. Jóhannes litli varð bara ekki eldri, og því var sem var.
Barnagrafirnar í Kirkjugarðinum og þessi einhvern veginn áhrifamikla mynd fékk mig til að hugsa hvað við erum heppin en líka firrt. Þetta er einhvern veginn menning sem að íslendingum í dag þykir í hæsta máta framandleg. Það var mjög fallegt hvernig að litla barnið var baðað í blómum í sjálfri kistunni og mér skylst að það hafi ekki verið óalgengt, sérstaklega þegar um börn var að ræða.
Þrátt fyrir að við lifum sem betur fer ekki lengur á tímum þar sem ungbarnadauði er algengur eða smábörn farast úr flensum eða sóttum er þarna engu að síður vangavelta um hvernig við umgöngumst hina látnu í dag miðað við þá.
6.8.2008 | 21:46
Gengið á hjara veraldar - Græna kortið.. og Ómar og Þórunn!
Nú fer að líða að því að vinnudagana stytti - því að ef allt gengur eftir get ég farið að hreyfa mig Norðaustur á bóginn, á hjara veraldar, útnára Íslands - minn uppáhaldsstað á Íslandslandakortinu. Er raunar að vona að ég komist til að ganga Melrakkasléttuna eða ströndina eins og hefur verið vaninn undanfarin tvo ár. Það er allra meina bót að leggja land undir fót og þá á ég ekki við að fara utan, heldur ganga, eins og ég geri ráð fyrir að upprunaleg merking orðatiltækisins sé.
Það er blásið til Sléttugöngu á laugardaginn 9.ágúst og ég ætla bara rétt að vona að það verði góð mæting. Kannski er heldur tæpt að ég nái í byrjun göngunnar en kannski á hálfleiðinni næ ég hópnum í strandhluta ferðarinnar. Ætla samt að ganga eins og ég get. Ég get nú ekki farið að missa af því að koma við og enda í Grjótnesi, ættgarði forfeðranna.
Vona síðan að potturinn hennar Birnu frænku standi til boða að enduðu rölti (það hefur verið hrein unun að hvíla þreytt læri þar liðin ár í góðum félagsskap).
Síðan er ég að plana göngu um Langanesið - 12 og 13 ágúst. Ætla að vitja rústa býlis forfeðra minna í Ásseli, og langar að líta Font og Skála augum líka. Eyþór er búin að senda mér göngukortið frá Þórshöfn og ég vænti einhvers liðsinnis kunnugra við ráðleggingar um gönguna þar eð ég er ókunn staðháttum nákvæmlega. Síðan ætla ég að athuga hvort að Vilhjálmur pabbi Margrétar skólasystur minnar sem býr í Heiði geti ekki sagt mér góðar sögur. OH, ég hlakka til.
Umhverfið er ógleymanlegt, það er fallegt og snertir viðkvæma strengi (mig langar að semja ljóð, hefði ég talentana) og einhvern veginn er eins og sálin róist á einhvern hátt sem ekki er útskýranlegur.
Baldur frændi minn benti mér á alveg frábærar bækur í fyrra. Sagnaþætti Benjamíns Sigvaldasonar um fólk og viðburði á 19. öld og byrjun 20. aldar þar sem koma fyrir skemmtilegar sögur af svæðinu. Ég hef notið þess að lesa þetta mér til fróðleiks, en hafði upp á bókunum eftir mikla leit í fornbókabúð þeirra feðga Braga og Ara Gísla.
Græna Íslands-kortið er annars tilbúið þó það sé í sífelldri þróun og er aðgengilegt á síðunni www.natturan.is og á www.nature.is.
Heiðurinn af því verki eiga einkum Guðrún Tryggvadóttir myndlistarkona og framkvæmdastjóri og Einar Bergmundur tækniþróunarstjóri, með aðstoð minni og Tryggva þýðanda. Þetta er mikilvægur áfangasigur. Verkefnið er þó eðli málsins samkvæmt endalaust.
Og svo verð ég að lokum að nefna hann Ómar og óska honum til hamingju með að hafa unnið alþjóðleg umhverfisverndarverðlaun Seacology. Hann er sannarlega vel að þeim kominn, loks fékk hann uppreisn æru, því mér fannst þjóðin einhvern veginn hikandi í að hrósa honum eftir allt það sem hann hafði lagt á sig til að kynna sér auðlindanýtingarmálefni nágrannalandanna til að upplýsa íslenskan almenning um umhverfisleg áhrif virkjanaframkvæmda.
Að síðustu langar mig að segja að mér fannst Þórunn umhverfisráðherra standa sig vel í Kastljósinu þar sem hún var í eldlínunni gagnvart hárbeittri Jóhönnu Vilhjálmsdóttur. Þar fóru tvær ákveðnar konur, en Þórunn hafði betur, svaraði rökföst öllum tilbrigðum spurninga um að baki ákvörðun hennar væri hvati til að stöðva áform um framkvæmdir. Ég vildi sjá fleiri stjórnmálamenn á þennan hátt.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.4.2008 | 21:44
Jónas Hrafn 17 ára!
Það eru 17 ár síðan að hann Jónas Hrafn fæddist fimm mínútur í hálf tólf eftir 36 stunda raunir móðurinnar sem hafði verið sett í gang vegna þess að það var farið að líða á þriðju viku áætlaðrar fæðingar og spítalafólkið eitthvað hálf hrætt við að barnið væri farið að líða næringarskort inn í fylgjunni. Pálmi Jónasar, vinur minn sagðist vera svo ánægður með að hann hefði ekki fæðst eftir miðnætti, því þá hefði hann átt sama afmælisdag og Hitler. "Thank god for that!"
Barnið var heilbrigt sem betur fer og er nú í kórferð með Kór Menntaskólans við Hamrahlíð, blessaður.
Ég hringdi í hann í morgun milli hálfátta og átta í morgun og söng fyrir hann danska afmælissönginn enda mun frumlegri en sá íslenski. Hann bar sig vel, taldi daginn ekkert sérlega merkilegan og hann finndi nú ekkert sérstaklega til neinna breytinga, nema ef vera skyldi að lungnabólgan sem hann kom sér upp í síðustu viku væri í rénum vegna pensilínsins. Ég, dramadrottning af guðs náð, felldi nokkur tár við þessi tilsvör. Hann er svo hugrakkur og duglegur.
Fyrrverandi tengdamamma mín sagði alltaf, mömmurnar eiga líka afmælisdag þegar börnin eiga það, vegna þess að tilkoma barnanna var svo stór viðburður. Það er gaman að vera mamma, þó ég sé í fríi sem slík um þessar mundir og eiga að minnsta kosti þrjá afmælisdaga á ári.
5.4.2008 | 15:55
Vinnukonan í (fílabeins)turninum!
Jæja, þá sit ég hérna í turninum mínum og hlusta á Susanne Vega. Sat til hálf sex í morgun að reyna að klára kafla sem að ég var auðvitað á síðasta snúning með, eins Önnulegt og það er nú. Það var fyrir öllu að ég náði síðasta fresti, gat sent skjölin rafrænt yfir á vesturströnd Norður Ameríku - ég græddi á tímamismuninum.
Það vakti ýmsar minningar - þegar ég var á "i tyverne" höfðum við þann sið að sitja fram á miðjar nætur og vinna hérna við Norður Atlantshafs svæðasetrið sem ég var að læra við. Eftir að ég varð þrítug átti ég orðið erfitt með að næturvökur og vinnu, eins og ég naut þeirra rósemdarstunda áður. Ég var því eiginlega hissa yfir að ég væri ekki alveg úldin. En ég er hress og í góðu stuði (lesist: vinnustuði).
Ég er aftur komin í stúdentagarða-pakkann þó það verði einungis um sinn, í þetta skiptið. Ég yngist bara öll í anda. Hér er allt strípað og ég kemst að því hvað maður kemst í raun af með lítið. Það er ótrúlegt frelsistilfinning sem fylgir því. Maður þarf lítið annað en einn disk og svo einhver hnífapör, rennandi vatn, eitthvað til að elda á,rúm til að sofa í og síðast en ekki síst lúxus þann að vera í sambandi við alheiminn gegnum tölvu. Hér er meira að segja svarthvítt sjónvarp - Það er hreinlega ekki hægt að kvarta í svona lífsins lystisemdum.
Ef ég á að hugsa um eitthvað sem ég sakna, þá er það helst að faðma ekki strákana mína á meðan að ég er hérna og svo klappa kettinum.
Þegar ég vaknaði loks um hádegisbil, eftir að einhverjir stúdentar höfðu vakið mig í morgunsárið alveg logandi fullir (það er svona sem lífið er hjá þessum ungu háskólastúdentum!) dreif ég mig á bændamarkaðinn á miðju Dómkirkjutorginu. Það fyrsta sem ég keypti voru að sjálfsögðu blóm, í þetta skiptið túlípanar. Þó gengið íslenska sé ekki hliðhollt í augnablikinu og það sé orði hálfdýrt að vera hér í Danaríki allt í einu, þá þarf íslenska krónan að lækka talsvert meira gagnvart dönsku gengi til að ekki borgi sig lengur að kaupa um tuttugu túlípana miðað við íslenskt verðlag.
Uhm, ég naut þess að ganga um hið gamla biskupsvígi og kaupa perur, kartöflur, aspargus, makríl og fleira gott. Mikið vildi ég óska að svona kúltúr væri til heima.
Nú koma sveitavargarnir frá Selsö slot í kvöldmat til mín. Ég vona að ég eigi nóg að hnífapörum til að gefa þeim að borða.
2.3.2008 | 18:23
Í kjölfar mannfagnaðar.
Eftir allar annirnar tengdar IFEA þingi og auðvitað fyrst og fremst Journeys of Expression VII - Edges of the world..er spennufall.
Ohohoho - ég var búin að gleyma hvað er gaman að dansa. Ég segi þetta reyndar alltaf í hvert skipti eftir að ég tek sveiflu.
Það sem einkenndi ráðstefnuna okkar í háskólanum um helgina var yndislegt og skemmtilegt fólk. Þáttakendur voru frá um 16 þjóðum og allir töluðu um hvað það væri góð og glöð stemning. Þarna voru mörg fróðleg erindi sem bæði var hægt að læra af en líka nýta í tengslum við eigin verkefni.
Ég held að þegar upp er staðið skipti svona jákvæð stemning, yfirlætislaus samskipti og gagnkvæm virðing mestu máli um hvort maður a) nenni að byggja upp langtíma samstarfstengsl hvort heldur er í rannsóknum eða þróunarverkefnum b) hvort maður nenni að byggja upp langtíma vinatengsl.
Ég hef áður upplifað að skipuleggja svona alþjóðlegan viðburð þar sem fólkið sem var innanborðs var absolut ekki eins skemmtilegt. Það var reyndar sumarskóli doktorsnema í norðurslóðafræðum sem haldinn var sumarið 2003. Þar var finnsk eiturnaðra (reyndar virt fræðikona) sem eitraði stemninguna svo að við urðum fegnust þegar hún var komin upp í flugvél Icelandair. Jóhanna samstarfskona lét meira að segja færa henni bjór um borð, svo fegnar vorum við að sleppa undan þessum leiðindaskarfi.
Ég er eiginlega komin á þá skoðun að maður eigi ekki að leggja lag sitt við fólk sem að étur af manni hælana (hef kynnst þeim nokkrum) - heldur fyrst og fremst einbeita sér að hinum, og sem betur fer er fullt af slíku fólki eins og dæmin sanna.
Ég ræddi þetta við Guðbjörgu Lindu vinkonu og samstarfskonu fyrr í vetur og við vorum sammála um að lífið væri of stutt til að vera að vinna með leiðindapúkum. Við vorum líka sammála um að maður verður að passa upp á að vinna þvert á deildir, stofnanir og skorir til að fá sem mestan, bestan og breiðastan snertiflötinn.
Ég elska að hitta fólk sem hefur ástríðu fyrir því sem það er að gera - er fullt af áhuga og elju án þess að valta yfir aðra. Þannig fannst mér margir þarna sem ég náði að kynnast. Auðvitað eru margir kræklóttir kvistir í þessum háskólaheimi, þar sem persónuleg samkeppni manna í milli, oftast um fjármagn, viðurkenningu og heiður, er samofið vinnunni hvar sem er hvenær sem er.
Því miður hefur maður kynnst mörgum sem eiga við andlega bresti að stríða meðal háskólafólks, því fer ekki fjarri. Held kannski að það tengist einsemdinni yfir fræðunum, yfirálagi sem leiðir til kulnunar í starfi og svo mætti lengi telja.
Ég dansaði til klukkan fjögur í nótt. Eftir móttöku í Öskju í lok ráðstefnunnar - frumsýndi Vala vinkona leiklistaratriði um menningarfrumkvöðulinn í ferðaþjónustu. Það braust út mikill fögnuður yfir þessu atriði og mæli ég eindregið með því ef einhverjum vantar gott atriði til að gleðja samkomur. Við fórum síðan nokkur hópur saman á Thorvaldsenbar þar sem við snæddum, drukkum og dönsuðum.
Peter, Eddie, Daniel, Lars, Vala, Darrell, John, Maura og fleiri dönsuðu inn í nóttina á meðan að Suður- og Austur Evrópu fólkið og Taiwanarnir reyndu að spotta norðurljós. Takmarkinu er því náð. Að tryggja góðar minningar af ráðstefnunni og Íslandsferðinni.
En í dag geri ég lítið annað en að brosa, og liggja í leti. Ætla samt alveg örugglega bráðum aftur út að dansa.
Þá verður kannski komið vor á Íslandi -- því nú er að einbeita sér að styrkjaumsóknum, fjármálum, ferðaplönum, greinaskrifum og öðru áður en Ísland er kvatt að þessu sinni.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.2.2008 | 12:28
Aðgát í nærveru sálar!
Ég hugsa að maður leiði of sjaldan hugann að því að maður skyldi hafa aðgát í nærveru sálar. Ég er oft sjálf auðsærð, þó ég láti ekki á því bera. En ég held líka að maður eigi að vera einlægur og trúr sjálfum sér og sannfæringu sinni. Hún er vandfarin sú lína að feta að vera bæði hreinskilinn og nærgætinn. En það er gott takmark að hafa.
Flest sem maður upplifir sem einstætt foreldri er ekki til þess fallið að auka traust manns á umburðarlyndi samfélagsins eða nærgætni. Ég var t.d stödd með syni mínum hjá tannréttingasérfræðingi og bara heimsóknin í morgun, kostaði 44 þúsund krónur. Þetta er mánaðar fæðispeningur fjölskyldunnar!
Ég verð að viðurkenna að mig langaði bara mest til að fara að gráta, en gerði það auðvitað ekki.
Það sem er gott í heimi hér og eykur manni traust á að samfélagið sé ekki svo slæmt þrátt fyrir allt er einlægt fallegt bros á förnum vegi. Ég upplifði það áðan í fokinu. Það er einhvern veginn ekki annað hægt en að brosa að veðrinu í augnablikinu og gefa fótgangandi hvetjandi augnaráð.
Það sem er best í heimi er gott faðmlag, hrós stöku sinnum og gott hláturskast.
Og svo mannleg samskipti!
Vona að allir fái það stöku sinnum - því það er vegur upp öll ógætileg orð eða viðtökur.
5.2.2008 | 10:41
Vettlingaþurrð í kuldanum!
Það er eins með sokkana og vettlingana. Það er eins og þeir gufi upp. Ég hef fyrir löngu komið fram með þá tilgátu að ég ætti gráðuga þvottavél sem endrum og sinnum gæddi sér á sokkum.
En nú er annað uppi á teningnum. Vettlingarnir hans Elíasar hverfa bara út um dyrnar. Í síðustu viku fóru tvö pör, vikuna þar áður ég veit ekki hvað mörg. Þegar gengið er á drenginn er hann alltaf með mjög loðin svör - þeir voru svo blautir - er algengt svar. Þegar gengið er meira á hann verður hann pirraður og segir mig alltaf vera að með ágengar spurningar. Það er ekki á vinsældalistanum.
Svo flýgur hann út um dyrnar með næsta par. Ég verð ægilega fegin þegar vettlingatímanum er lokið og ég get farið að hafa áhyggjur af öðru
Já það er flókið að lifa í henni versu!
5.1.2008 | 01:22
Samskipti kynjanna sífelld áskorun.
ýmislegt í samtölum kvöldsins fengu mig til að hugsa farin veg. Samskipti kynjanna þegar kemur að tilfinningalegum tónum er sífelld áskorun. Ég hef upplifað ýmislegt í þeim efnum, örugglega ekkert meira eða merkilegra en hver annar, en hef auðvitað ekki farið varhluta af blekkingum, ástar tilburðum, óhreinskiptum samskiptum og svikum líkt og væntanlega margir aðrir.
Þegar maður blindast af ástarsorg er erfitt að skilja milli þess sem er og þess sem var, hvað var sagt, hvernig hegðunin í samskiptunum var ef til vill í hrópandi ósamhengi við staðhæfingar. Það er segin saga. Stundum finnst mér eins og lífið og það sem ég verð vitni að í samskiptum kynjanna í raunverulegu lífi sé mun kryddaðra en nokkur skáldsaga.
Við erum öll tilfinningaverur og ef eitthvað er særandi er það þegar ástvinir sem treyst var á koma illa fram við mann, eru ekki heiðarlegir, fara á bak við mann. Ástin er flókin en ef hún er sönn fer maður alla leið og engar refjar (sorrý, ég er pínulítið frumstæð hvað þetta varðar).
Ég er sem betur fer ekki í þeirri aðstöðu í dag en hlusta auðvitað á vini og vandamenn sem eiga í slíku. Maður á að hugga og styðja þá sem manni þykir vænt um. Annað er aumingjaskapur.
Við erum auðvitað fyrst og fremst tilfinningaverur þegar kemur að tilfinningamálum. Það er einungis heilbrigðisteikn að gráta þegar maður hefur verið særður, örvænta þegar maður skilur ekki. Það er miklu betra að hreinsa út, tala en að byrgja innra með sér, verða bældur og skorpinn.
Tölum um hlutina, hreinsum til, lifum í reisn og leyfum okkur að vera manneskjur meðal manneskja.
En umfram allt verum einlæg og sönn, jafnvel þó það geti verið sárt - en þá er líka búið að stinga á helv.meinið.
1.12.2007 | 21:52
Have you been a dad today?
Ég sá þessa auglýsingu frá National Fatherhood initiative á myspace síðu sonar míns. Mér varð hugsað til samtakana félag ábyrgra feðra sem hafa meðal annars barist fyrir auknu jafnrétti í umgengni við börnin sín. Ég held að þessi samtök hafi á sér einhverskonar tuðarastimpil og einhvern veginn fær maður stundum á tilfinninguna að þeir feður sem berjist harðast þar hafi kannski ekki mikið verið standa sig í föðurhlutverkinu/eiginmannshlutverkinu á meðan að fjölskyldan bjó saman. Ég hugsa nú að það séu líka menn í þessum samtökum sem að eru virkilega af heilum hug að berjast við erfiðar og eigingjarnar mæður barna þeirra.
Ég fer ekki ofan af því að börnum er best að eiga fyrirmyndir í báðum foreldrum, mömmu sinni og pabba sínum.
Þau geta fengið mjög brenglaðar og upphafðar hugmyndir um annað foreldrið sem þau eru ekki í tengslum við eða sem ekki er að standa sig gagnvart því. Ég trúi því að maður eigi sem foreldri að styðja börnin sín í að verða sem heilsteyptastir einstaklingar. Það geta þau best ef þau fá að kynnast báðum foreldrum sínum.
Vonandi er nú að þróast ríkjandi siðgæðisvitund meðal feðra sem ábyrgra feðra. En því miður hafa feður nú ekki alltaf verið að standa sig gagnvart sínum ástvinum. Um það eru mýgrútur dæma í kringum hverja og einustu íslenska fjölskyldu. Þannig að kannski er það útskýringin á tortryggni gagnvart fráskildum feðrum sem röfla um aukin rétt.
Það er auðvitað sárt að sjá á eftir barninu sínu í fang mannsins sem sveik mann eða olli hjartasári á einhvern annan hátt, sem manni finnst kannski ekki hafi mikið þroskast og sé jafn ótillitssamur sem áður. Þó ég geri mér grein fyrir að skilnaðir foreldra geti verið stofnað til af konum jafnt sem körlum.
En ég fer samt ekki ofan af því að það er siðferðisskylda sem hvílir á öllum foreldrum (og sem þeir verða að átta sig á áður en þeir fara út í barneignir) að börnin þeirra fái að njóta beggja foreldra ef hægt er.
Ég hef prófað það á eigin skrokk, og viti menn það er bara miklu auðveldara en hitt.