Yndislegt að gefa!

Ég á alveg yndislega syni (þó ég segi sjálf frá). Ég varð fertug fyrir tíu dögum síðan og sá litli vildi endilega gefa mömmu sinni afmælisgjöf þó ekki sé hann fjáður. Hann mundi eftir að hafa lánað mér þúsund krónur sem ég borgaði honum til baka einhverju áður. Hann fór bísperrtur út í búð og kom eins og stoltur páfi til baka með afmælisgjöf handa mömmu sinni. Þegar ég opnaði aðra gjöfina sem var úr Tiger kom í ljós jarðkúla sem einnig var baukur. OH, mig hefur alltaf langað í globus, en hann sniðugur. Drengurinn klikkti síðan með að segja mér að þetta væri þarfaþing í heimskreppunni. Heimskringla sem hægt væri að setja peninga í. Ég átti ekki til aukatekið orð yfir snilld barnsins sem er jú bara níu ára en veit sínu viti.

Globusinn hefur fengið heiðurstað á heimilinu og ég hugsa með hlýju til drengsins í hvert sinn sem ég ber hann augum, enn hafa ekki neinir aurar leitað ofan í búk jarðkúlunnar en vonandi mjatlast þetta nú einhvern veginn samt. 

Þetta er ein besta gjöfin sem ég hef fengið - hún var gefin af svo mikilli hjartahlýju og hugulsemi að ég þarf ekkert annað. Ég hélt skemmtilegt hóf og hitti vini og bað þá helst ekki að gefa gjafir, því mér leið þannig að mig vantar ekkert nema bara skemmtilegt fólk í kringum mig og þúsund bros. Þá er ég glöð. 

Eldri sonur minn hélt ræðu um hvað ég væri skrýtin en samt allt í lagi, hálfgerður nörd en þó góður matargerðarmaður þrátt fyrir að vera alltaf að hugsa um lífrænt!! (fyrir honum er það skammaryrði). Ég áttaði mig á að það helsta sem ég hef gefið honum hingað til eru upplifanir af mörgum toga og að hann mun njóta þeirra sem minninga í tengslum við mig mun fremur en veraldlegra hluta þegar fram í sækir. Það fékk mig til að skæla af gleði, svo snortin varð ég.

Það besta í heimi er að eiga fólk í kringum sig sem elskar mann og maður elskar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Linda Óskarsdóttir

Hverjum þykir sinn fugl fagur. Já, bara sætt .... okkur þykir svo vænt um börnin okkar að þau eru öll frábærust:) sumir skrifa um þau, aðrir ekki, en sagan þín er sæt .... hann er greinilega mikið krútt, strákurinn þinn :)

Katrín Linda Óskarsdóttir, 1.12.2008 kl. 23:45

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Takk fyrir innlitið katrín - jú ég er þér sammála. Finst að manni eigi að þykja sínir fuglar fagrir og passa vel upp á þá.

Anna Karlsdóttir, 2.12.2008 kl. 12:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband