Færsluflokkur: Menning og listir

TERRA MADRE dagurinn í dag

Eftir langt hlé ætla ég ekki að skrifa um Icesave samninginn. Ég er að vona að forsendurnar sem samninganefndin gaf sér muni standast að mestu því það þýðir að börnin okkar og barnabörn sleppa við þá leiðu arfleifð að sitja uppi með skuldir gróðahyggjukynslóðanna.

Ég ætla að vekja athygli á að TERRA MADRE dagurinn er í dag  - Íslandsdeild Slowfood samtakanna vekur athygli á þessu:

Terra Madre dagurinn 10. desember 2010
 
Í fyrra var fyrsti Terra Madre dagurinn haldinn um heim allan, Slow Food samtökin voru 20 ára og ca. 1500 viðburðir voru skipulagðir í öllum 130 löndum þar sem eru Slow Food convivia eða deildir. Það stefnir í það sama í ár, en þessar samkomur munu einnig safna pening fyrir "1000 gardens in Africa" verkefni þar sem stefnt er að því að móta matjurtagarða með heimamönnum eftir Slow Food hugmyndafræði (good, clean and fair), til að rækta staðbundnar matjurtategundir, lífrænar, sem munu brauðfæða þorpin í mörgum löndum. Hér verður Terra Madre dagurinn haldinn undir merki "Meet the producer" - sem sagt "hittu framleiðandann" og verða smáframleiðendur á eftirfarandi stöðum:
Frú Lauga (v/Laugalæk): bakari frá Sólheimum og fleiri bjóða að smakka á sinni framleiðslu, Bændamarkaðurinn sívinsæli hefur á boðstólum matvörur frá íslenskum smáframleiðendum - og gerir undanþágu fyrir ítalskar vörur, pasta og vín, sem gleðja sælkerann
Búrið (Nóatúni 17): Jóhanna frá Háafelli (ís úr geitamjólk og kjötvörur) og Urta Islandica (íslenskar jurtir) - sælkerabúðin þar sem áluð fagmannsins ræ´ður ríkjum og margt úr matarkistu Íslands stendur til boða
Ostabúðin (Skólavörðustig 8): lífræn vín og heimatilbúnar kjötvörur - nýtni í hámarki og gæðavörur á móti freyðivíni frá frönskum lífrænum vínbændum sem sanna að allt þarf ekki að vera iðnaðarframleitt
Dill Restaurant: Jólamatseðill með alíslensku hráefni - Gunnar og Óli sýndu í Torino hvernig frábærir fagmenn vinna sem best úr því sem náttúran býður uppá
Höfn í Hornafirði: Slow Food deild "Í Ríki Vatnajökuls" verður með kvöldverð með hráefni frá héraðinu
Fleiri aðilar munu halda Terra Madre deginum á eigin forsendum, til dæmis með matarboð tileinkuðu staðarmatvæli eins og á Patreksfirði og Flateyri.
Okkar skilaboð: hafðu það "slow" 10. desember, andaðu í jólaösinni, taktu þinn tíma til að velja og borða góðan mat: hreinan og sanngjarn. 

Lifið heil!

 

 


Að slá eign sinni á náttúruna - hvernig má geirfugl líta út?

Gaman að ljósanótt hafi farið svona vel fram. Þessi hátíð er mikil bragarbót í starfi bæjarfélagsins og hefur ávallt verið vel heppnuð. Ingólfur Magnússon nemandi minn í ferðamálafræði gerði afar vandaða könnun í bs.verkefni sínu á upplifun og þáttöku íbúa í undirbúningi og hátíðahaldi ljósahátíðar. Það var nær óblendin ánægja með hana. Hátíðir af þessu tagi gegna ekki einungis því hlutverki að efla samstöðu íbúa og eiga sameiginlega ástæðu til að fagna því þær hafa einnig aðdráttarafl fyrir brottflutta og þá sem ættir eiga að rekja á svæðið. Það er því ekki að ástæðulausu að hátíðir af þessu tagi hafa oft orðið uppspretta svokallaðrar ættjarðarferðamennsku.

Ég vil þó gera deilu um Geirfuglskúlptúrinn að umræðuefni mínu hér.

Settur hefur verið upp skúlptúr af geirfugli eftir erlendan listamann sem hefur gert það að sínu þema að móta dýr í útrýmingarhættu út í minnisvarða sem settir eru upp á stöðum þar sem þeir eru upprunnir. Íslenskur listamaður hefur fyrir nokkrum árum fengið að setja upp minnisvarða um geirfugl á allt öðrum stað (nánar tiltekið í Skerjafirði) í allt öðru samhengi.

Nú snýst einhver annarleg umræða um það að hve miklu marki hinn nýuppsetti skúlptúr erlenda listamannsins er eftirlíking eða ekki, og hversu ósvífið það er að endurtaka leikinn (sem nb. var í öðru samhengi settur upp).

Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum halda listamenn að þeir geti slegið (einka) eign sinni á náttúruna eins og hún er sköpuð, með sköpun sinni. Þýðir þetta að ef að Van Gogh málaði einu sinni sólblóm þá má enginn annar mála sólblóm, og auðvitað sérstaklega ekki ef hann er í nærliggjandi firði. Má þá enginn annar listamaður móta svan í höggmynd ef einhver annar hefur gert það. Það má kannski grínast með það að það séu óteljandi möguleikar í að móta ólíka kynbætta og úrkynjaða kjúklinga úr landbúnaðariðnaðarframleiðslu. Þar væru menn vissulega ekki að líkja eftir sérkennum veru úr villtu dýraríki, náttúrunni.

Í alvöru talað. Það er meira að segja látið að því liggja að minnisvarðinn um geirfuglinn sé of líkur þeim sem Ólöf Nordal (með allri virðingu fyrir þeirri mætu listakonu) kópíeraði í málm á sínum tíma.

ég spyr: hvaða rétt hafa listamenn á að eiga einkarétt á mótun náttúrunnar sem speglun við náttúruna eins og við sjáum hana. Eigum við ekki bara að banna sköpunarkraftinn eða fella hann undir einkaleyfi? Nei takk - njótum beggja geirfugla í ólíkum tilgangi. Lifið vel.


mbl.is Tugþúsundir á Ljósanótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott framtak hjá íbúum - koma svo, gera eitthvað skemmtilegt!

Það er gott að móbilisera sig á uppbyggilegan hátt á menningarnótt. Ég var einmitt að leggja lokahönd á að mála bakið á syni mínum sem vildi slagorðin " Ég brenni fitu - ekki olíu" - en við erum að fara að hjóla berbakt mæðginin núna klukkan þrjú.

Það er kannski spurningin um  að koma við á Haðarstígnum?

Nánar hér:

Kl. 15:00 á Menningarnótt í Reykjavík munu glaðir hjólakappar hittast á miðju Miklatúni og rúlla þaðan saman á reiðhjólum sínum um bæinn.

Allir eru velkomnir, látið orðið berast til vina og vandamanna!

Það verður gríðarleg stemning í hópnum. Tónaflóð mun fylgja okkur á leiðinni (eldhress hjólalög) og við hvetjum fólk til að hjóla með bökin ber og skrifa á þau skemmtileg hjólaslagorð eða skrifa slagorð á boli. Svo er um að gera að mæta í búningum eða skrautlegum fötum.
Mætum endilega á fjölskrúðugum farartækjum (þeir sem eiga), t.d. liggihjóli, tvímenningshjóli, körfuhjóli, hjóli með aftanívagn, með tengihjól o.s.frv.

Leiðin sem við hjólum verður nokkurnvegin svona:
Miklatún - Flókagata - Langahlíð - Miklabraut - Snorrabraut - Bergþórugata - Barónsstígur - Eiríksgata - Njarðargata - Sóleyjargata - Skothúsvegur - Tjarnargata - Vonarstræti - Fríkirkjuvegur - Skothúsvegur - Suðurgata - Sturlugata - Sæmundargata - Hringbraut - Sóleyjargata - Hljómskálagarðurinn.

Við hjólum á götunum, förum að öllu með gát og erum á eigin ábyrgð.

 

 

 


mbl.is Íbúarnir tyrfa Haðarstíg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikrit sem þarf að setja aftur á fjalirnar

Mér fannst gaman að sjá Grímu verðlaunaathöfnina og kraftinn sem býr í sviðslistafólkinu okkar. Af því er ég stolt enda alltaf verið heilluð af listformum leikhússins í sinni víðustu mynd. Leikritið Utangátta var verk sem ég missti af á sínum tíma þegar það var sýnt og var svolítið leið yfir því. Ég vona þess vegna að það verði sett aftur á svið svo ég geti notið meistaraverksins með haustinu.
mbl.is Utan gátta fékk flest verðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sitt af hverju og fyrirmyndir

Ég horfði á Kiljuna í kvöld, einn af mínum uppáhaldssjónvarpsþáttum. Þar kom fram að Margrét Guðnadóttir veirufræðingur væri um það bil að komast að leyndarmálum alnæmis að því leyti að mæði og visna (riða) í sauðfé og  eyðni mannfólksins ættu ýmislegt skylt. Hugsanlega væri hægt að þróa lyf í baráttunni gegn alnæmi sem þekking af sauðfjársjúkdómi hefði skapað. Ef það er rétt er mikilvægt að fagna því. Bragi, viðmælandi Egils taldi Margréti Guðnadóttur alltaf hafa verið töluvert sérstæða konu með ástríðufullar skoðanir og litla félagsfærni í samstarfi (ekki hans orð, mín túlkun).

Ég veit bara að hún er ein af mínum fyrirmyndum í lífinu eftir að mamma mín sagði mér frá henni. Hún bjó í litlu húsi með börnin sín tvö einhvers staðar (held ég upp við Elliðavatn) og starfaði við Keldur. Mamma var ljósmóðir barna hennar og þegar hún hitti hana í annað skiptið á spítalanum sagðist frú Margrét hafa verið með fyrsta barnið í heimsókn (held ég í NY, allavega í Bandaríkjunum) til að sýna honum barnsföðurnum frumburðinn en æ, svo einhvern veginn var svo notalegt að vera í heimsókn. Heim kom hún og fæddi annað barnið. Samvistir við föðurinn allavega hvað varðaði sambúð með móður barnanna var víst eitthvað lítil. Margrét var því kona sem þurfti að bjarga sér á alla vegu, bæði í starfi og á heimavelli (og í það sæki ég fyrirmynd). Kannski litaði það skoðanir hennar að einhverju leyti í átt til félagshyggju og jafnvel hreinræktaðri afbrigða sósílismans.

 

Svo var rætt við  Gunnar Hersvein um bókina hans um lífsgildi. Gunnar var mér mikil fyrirmynd í MH þar sem hann kenndi mér sálfræði. Ég saug í mig fræðin og lífspeki hans. Hann var einn af megin goðunum í menntaskólanum. Gaman er að fylgjast með manni eins og honum sem hefur haldið meginþræðinum í lífinu þrátt fyrir hristing og skjálfta versunnar sem eltir hvern einn mann. Hann stendur uppi sem hetja.

Annars er ég búin að eiga viðburðaríka daga með Rússum frá Norðvestur Rússlandi, nánar tiltekið frá Kóla skaga og Karelíu. Ingibjörg Elsa hefur haft veg og vanda af heimsóknum sex manna hóps í samráði við samtökin Landvernd, sem koma frá umhverfssamtökum af þessum svæðum og vilja efla vistvæna ferðamennsku m.a á þessum svæðum. Þau leggja heilmikið á sig til að koma til Íslands til að sækja hugmyndir og samræðu um möguleika á að skapa mótvægi í lífsafkomu við ráðandi hráefnismiðaða iðnvæðingu á svæðinu. Það eitt er athyglivert.

Á mánudaginn hittist hópurinn á farfuglaheimilinu í Laugardal sem er góður staður að hittast á þar eð það farfuglaheimili er einhvers konar fyrirmynd um hvernig gistiheimili geta forgangsraðað hugmyndum sínum og rekstri í þágu vistvænna viðmiða.  

Ég taldi mig vita sitthvað um svæðið þar eð ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa tvisvar ferðast um Norðvesturhéruð Rússlands en ég lærði heilmikið nýtt af spjalli við fólkið og að hlusta á hvað þau höfðu að segja.

Anna nafna mín frá Kólaskaga (nánar tiltekið Apatiti) sagði frá ferðamálasetri í Apatiti sem er útibú frá háskólanum í Petrazavodsk sem hún vinnur við. Hún er efnafræðingur sem vinnur í 30% starfshlutfalli við háskólann, er gæðastjóri við litla matvælaverksmiðju á svæðinu og heldur auk þess úti náttúruskóla fyrir börn og unglinga þar sem megin áherslan er á að fá þau til að tengja við náttúru og skjóta rótum á svæðinu. Eitt af megin baráttumálunum á svæðinu er að vernda Khibiny fjöll og svæðin þar í kring sem þau telja mun betri efnivið í þjóðgarð en margt annað, frá gasleiðslulagningu þvers og kruss um svæðið vegna framkvæmda við gas og olíuboranir í Barentshafi.

Ivanov Yuri samstarfsmaður hennar er forsvarsmaður fyrir Kola Environmental Center en það hefur starfað síðan 1992 (frá upphafi nýs Rússlands eftir fall kommúnismans og Sovét heimsveldisins..Ivanov hló reyndar rosa mikið þegar mér hugkvæmdis að segja Soviet Empire..honum fannst það ekki 2007 (eins og Íslendingar segja gjarna um timann fyrir hrunið)..honum fannst það fornt.

Samkvæmt honum hafa umhverfissamtök verið að byggjast upp frá byrjun tíunda áratugar síðustu aldar en hafa haft lítið í mjög ríka hagsmuna aðila í námugreftri, sjávarútvegi osfrv. þó að megin markmið umhverfissamtaka á svæðinu hafi hneigst að sakleysislegum málefnum eins og t.d  fræðslu, náttúrvernd og vitsmunavakning meðal almennings.

Eftir árið 2001 fóru náttúrverndarsamtök að sjá ljósið í möguleikum vistvænnar ferðaþjónustu sem mótvægi við öllum þeim áformum af jarðraski og óafturkrefjanlegum eyðileggingaráformum á náttúruna sem þrifust á svæðinu....Vandinn er bara sá að sú hráefnamiðaða hugsun sem tröllríður öllu á þessum slóðum Rússlands er ekki alveg að gefa þessum atvinnuvegi séns.

Eina tegund náttúrutengdrar ferðamennsku fyrir utan  laxveiði í ám eru skíðastaðir vegna stöðugra og harðsvíraðra vetra. Íbúum á svæðinu langar í meira mæli að tengja landbúnaðarafkomu við ferðaþjónustu, en eins þróa flúðasiglingar og annað sem gæti veitt verðmætum náttúrunnar athygli á öðrum forsendum en að grafa eftir glópagulli í jörðu.

Ég mun segja meira frá Karelíu og framtíðaráformum í samstarfi Íslendinga við þetta áhugaverða fólk þegar ég fæ færi á á komandi dögum.

Lifið heil!

 


Hvernig notkun ferðarýma breytist!

Á meðan að fólki með íslenskt vegabréf fækkar á rölti um flugstöð Leifs Eiríkssonar eru erlendir ferðamenn fjölmennari. Fréttir herma að Íslendingum á flugvellinum hafi fækkað um nær 50% síðustu mánuði og ekki líklegt að það breytist til hins meira á næstunni. Það er því nokkuð ljóst að til að bæta upp fyrir þá fækkun þarf að huga að efla erlendan ferðamannastraum hingað frá sem flestum löndum. Það leggjast allir á eitt um að ýta undir það nú og er það vel.

Í öllu þessu hef ég verið að velta fyrir mér hvernig hlutverk ferðalaga-rýma og aðstöðu breytist yfir tíma og í mismunandi aðstæðum.

Nú hefur það gerst að á meðan að íslendingum fækkar í flokki þotuliðs fjölgar þeim verulega í hópi strætóliðs. Nær 50% fjölgun hefur verið á farþegum strætó síðustu tvo mánuði og sýnir það og sannar fyrri staðhæfingu um hlutverkabreytinga ferðarýma yfir tíma. Mér finnst svo áhugavert í þessu sambandi hvernig að fólkið býr til félagsrými með notkun. Sú var tíð á meðan á gróðærinu stóð að maður hitti helst fólk úti í leifstöð á leið útí þotu. Aðal hittingsstaðurinn á Íslandi var alþjóðlega flughöfnin. Þar kyssti maður fólk sem maður hafði ekki gefið sér tíma til að sjá lengi og því varð flugvöllurinn aðal umferðamiðstöð Íslands á meðan að rútustöð BSÍ drabbaðist niður.

Nú er öldin önnur. Aðal félagsrými borgarinnar er strætó - þar kyssir maður fólk sem maður hefur ekki gefið sér tíma til að hitta lengi og þar hittir maður endurtekið fólk sem maður umgengst. Strætó og biðstöðvar eru því orðnar heilmikill hittingsstaður.

Þegar einhver staður verður vinsælt félagsrými hópast enn fleiri á staðinn. Flugvöllurinn var jú stækkaður í gróðærinu og bílastæðum fjölgað eins og við værum milljónaþjóð. Á meðan gengu frustreraðir unglingar um á höfuðborgarsvæðinu og eyðilögðu biðskýli, brenndu sæti og brutu rúður af því enginn þeirra bómullarbarna bar virðingu fyrir tómarýminu strætó.  Þegar einhver staður verður vinsælt félagsrými fara fyrirtæki og hagsmunaaðilar af ýmsu tagi að líta félagsmiðstöðina hýru auga...og þá eru auglýsendur komnir á staðinn. Eins og í gróðærinu þegar að ekki varð þverfótað eða horft á bera veggi í Leifstöð fyrir allskyns draumórakenndum auglýsingum auglýsenda og stórhuga fyrirtækja. Nú hins vegar er farið að þekja veggi leifstöðvar með listaverkum eftir því sem fleiri auglýsingar úreldast og engar fást upp í staðinn.

Eina auglýsingaskiltið í Leifsstöð sem einhver hefur virkilega látið sig varða í langan tíma er það sem  Láru Hönnu og stuðningsmönnum hennar tókst að knýja á um að yrði tekið niður af því það talaði Íslendinga og Ísland niður í flughöfninni.

Í strætó er hinsvegar að verða fjör. Fleiri auglýsingar og tilkynningar eru að verða inní strætó - og svei mér ef að við ættum ekki bara að fá fjörugar vörukynningar og uppákomur inn í það rými núna.

Það er tíminn.

Ferðarými eru félagsrými. Þau eru viðkomustaðir en aldrei áfangastaðir. Sem slík eru þau áhugaverð og rannsókna verð.


mbl.is Erlendum gestum fjölgar í Leifsstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnagrafir í Eyjum

Hugur minn og líkami var allt annar staðar en í frétta- og fjármálakreppu fárviðrinu um helgina. Það var ákveðin hvíld.

Ég skrapp til Vestmannaeyja um helgina í jarðarför að kveðja konu föðurbróður míns, hana Beggu (Indíönu Björg). Blessuð sé minning hennar.

Athöfnin var hin fallegasta og Heimaey skartaði sínu fegursta þegar að við gengum í líkfylgdinni inn Landakirkjugarðinn. Einmana Lóa sem væntanlega hefur misst af félögum sínum á leið til suðurs fylgdi okkur nokkurn spöl. Á meðan að við gengum í hægðum okkar á eftir kistunni og ættingjum mínum las ég á leiðin sem voru orðin um hálfrar aldar gömul eða eldri og fór smá saman að bregða í brún að nær öll leiðin voru barnaleiði.  Mér var brugðið yfir að ganga fram hjá svona mörgum gröfum í röð sem geymdu jarðneskar leifar ungbarna og ungra barna, enda ekki algengt á okkar tímum að börn nái ekki að lifa af fyrstu árin, eins og þá var. Ég veit svo sem ekki hvort að Vestmannaeyjar voru sérlega slæmur staður hvað það varðaði.

Eftir jarðsetninguna, gekk ég með foreldrum mínum að gröfum ömmu og afa til að kasta á þau kveðju. Lóan fylgdi í humáttina á eftir okkur. Aumingja Lóan, hún á eftir að frjósa þarna í hel í vetur.

Pabbi vatt sér þá að baki leiði foreldra sinna og gerði krossmark yfir leiði sem að ég vissi ekki hvers var. Í ljós kom að þar lá bróðir hans sem hafði látist tæplega árs gamall. 

Í góðum hópi ættingja síðar um daginn varð honum tíðrætt um mynd sem að hefði eilíflega verið á náttborði við rúm foreldra hans af barnalíkinu í kistunni. Hann var að velta fyrir sér hvað hefði orðið af myndinni af honum Jóhannesi litla. 

Stella, kona Einars föðurbróður gerði sér þá lítið fyrir og fann hana í kommóðu. Við horfðum öll á litla mynd af fallegu barnslíki dúðað blómum ofan í opinni kistu. Skrýtið að taka svona mynd af barnslíki (jafnvel þó það væri barnið manns) og hafa við rúmið sitt það sem maður ætti eftir ólifað. Það gerðu nú afi minn og amma engu að síður og var föður mínum mjög minnisstætt.  Þarna var greinilega ekki verið að reyna að gleyma því sem orðið hafði og minningu barnsins var haldið á lofti á þennan hátt. Að signa sig fyrir svefninn horfandi á myndina.

Við ræddum um að allir hefðu verið harmi slegnir yfir dauðsfalli drengsins (sem mér skylst hafi dáið úr sýkingu við nafla..). Þau útskýrðu fyrir mér að ástæða fyrir að ljósmyndari var fenginn til að taka mynd af líkinu og það síðan rammað inn, var vegna þess að enginn önnur ljósmynd var til af barninu. Það var hreinlega ekki siður að taka myndir af börnum fyrr en þau væru orðin eldri. Jóhannes litli varð bara ekki eldri, og því var sem var.

Barnagrafirnar í Kirkjugarðinum og þessi einhvern veginn áhrifamikla mynd fékk mig til að hugsa hvað við erum heppin en líka firrt. Þetta er einhvern veginn menning sem að íslendingum í dag þykir í hæsta máta framandleg.   Það var mjög fallegt hvernig að litla barnið var baðað í blómum í sjálfri kistunni og mér skylst að það hafi ekki verið óalgengt, sérstaklega þegar um börn var að ræða.

Þrátt fyrir að við lifum sem betur fer ekki lengur á tímum þar sem ungbarnadauði er algengur eða smábörn farast úr flensum eða sóttum er þarna engu að síður vangavelta um hvernig við umgöngumst hina látnu í dag miðað við þá.


Dönskum fjölmiðlum þykja flóðin ekki fréttnæm

Flóð á götum Kaupmannahafnar er ekki nýtt nýmæli þegar að kemur úrhellisskúr. Gamalt niðurfallskerfi sem er löngu orðið úr sér gengið er aðal ástæðan, ekki vegna þess að það sé neitt sérstakt úrhelli. Borg með mörg hundruð ára gamalt klóak kerfi á köflum getur ekki tekist á við aukaálag sem þetta.

Danskir fjölmiðlar (DR, Information og Politiken) upplýsa að Jakob Ejersbo er nýlátinn en hann er höfundur m.a bókarinnar Nordkraft sem síðar var kvikmynduð. Það er missir af honum úr flóru danskra rithöfunda.

Tour de France er auðvitað aðal fréttauppsprettan í augnablikinu (ég er alltaf að fylgjast með því, nær eina íþróttin sem ég nenni að horfa á í sjónvarpi).

...og svo í fyndnu deildinni. Stórverslunin Bilka sem selur allt frá a-ö seldi sófa um daginn og þegar að eigandinn (kona) kom heim með fenginn fannst eiturslanga í honum. Þetta er svona eitt af spaugilegri áhrifum hnattvæðingar viðskipta (launflutningar dýra með vörum).

 

 


mbl.is Flóð í Kaupmannahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

27 staðir samþykktir á heimsminjaskrá, fjögur ný ríki með í fyrsta skipti

Surtsey er nú meðal 174 náttúruminja sem eru skráð á heimsminjaskrá Unesco. Papúa Nýja Gínea, Saudi Arabia, örríkið San Marino og Vanuatu sem er að sökkva í sæ komu með í fyrsta skipti.

Á fundinum í gær voru samþykkt 19 menningarminjasvæði, t.d Stari Grad sléttan í Króatíu og sögumiðstöð Camaguey á Kúbu (nefni þá nú bara sérstaklega af því að ég hef verið þar). 

Átta náttúruminjar voru samþykktar og ein af þeim er Surtsey en hinar eru klettar og jarðfræðileg fyrirbæri, vistkerfi og vatnakerfi, skerjagarður - en ekkert þeirra er ein heild, ein eyja eins og Surtsey.

Við eigum því að vera stolt yfir því að geta komist á kortið í bókum eins og 100 eftirsóknarverðustu staðirnir að fara á áður en ég dey samhliða því að efla vitund um verndun einstakra náttúruminja.

 

Leyfi mér að birta hér ljósmyndir tvær af tilurð Surtseyjar sem er teknar voru af sjálfum Sigurði Þórarinssyni (fékk þær með vinsemd Magnúsar Tuma, við undirbúning ráðstefnu um sjávartengda ferðamennsku).  

 

Sjá fréttatilkynningu UNESCO

 og hér að neðan

 

UNESCO's World Heritage List now numbers a total of 878 sites, 679 cultural and 174 natural sites and 25 mixed in 145 countries.

 Surtsey expl_SThor

New cultural sites inscribed during the 32nd session:

Preah Vihear Temple (Cambodia)
Fujian Tulou (China)
Stari Grad Plain (Croatia)
Historic Centre of Camagüey (Cuba)
Fortifications of Vauban (France)
Berlin Modernism Housing Estates (Germany)
Armenian Monastic Ensembles in Iran (Iran)
Baha'i Holy Places in Haifa and Western Galilee (Israel)
Mantua and Sabbioneta (Italy)
The Mijikenda Kaya Forests (Kenya)
Melaka and George Town, historic cities of the Straits of Malacca (Malaysia)
Protective town of San Miguel and the Sanctuary of Jesús de Nazareno de Atotonilco (Mexico)
Le Morne Cultural Landscape (Mauritius)
Kuk Early Agricultural Site (Papua New Guinea)
San Marino Historic Centre and Mount Titano (San Marino)
Archaeological Site of Al-Hijr (Madâin Sâlih) (Saudi Arabia)
The Wooden Churches of the Slovak part of Carpathian Mountain Area (Slovakia)
Rhaetian Railway in the Albula / Bernina Cultural Landscape (Switzerland and Italy)
Chief Roi Mata's Domain (Vanuatu) surtseysolarfilma


Natural properties inscribed on UNESCO's World Heritage List during the 32nd session:

Joggins Fossil Cliffs (Canada)
Mount Sanqingshan National Park (China)
Lagoons of New Caledonia: Reef Diversity and Associated Ecosystems (France)
Surtsey (Iceland)
Saryarka - Steppe and Lakes of Northern Kazakhstan (Kazakhstan)
Monarch Butterfly biosphere Reserve (Mexico)
Swiss Tectonic Arena Sardona (Switzerland)
Socotra Archipelago (Yemen)

Extensions added onto properties already on the World Heritage List:

Historic centres of Berat and Gjirokastra (Albania)
Mountain Railways of India
Paleolithic Cave Art of Northern Spain
The Antonine Wall (United Kingdom) 


Styð þetta ágæta átak

Fyrir um tveimur árum síðan heyrðust raddir óánægðra ferðaþjónustuaðila sem að vildu endilega að ferðamenn hefðu aðgang að því að stíga á land í eyjunni. Sem betur fer var þeirri vitleysu afstýrt og þessi leið frekar farin. Mikið er ég ánægð með það.

Skemmtiferðaskip hafa löngum lagt leið sína þangað - það sér maður á leiðalýsingum og e.t.v hafa einhver skip sent fólk á gúmmíbátum í land. Ég hef þó engar sönnur fyrir því.

Þetta mætti þó hafa betra eftirlit með.

Ef ferlið sem endanlega kemur stöðum á heimsminjaskrá UNESCO er rétt að byrja eru þó nokkur ár í land þangað til að Surtsey er opinber heimsminjastaður.


mbl.is Surtsey á heimsminjaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband