Færsluflokkur: Bækur

Prumpið úr Michael Jackson

Það er komin út bók um minni sem ber það sérkennilega nafn: Moonwalking with Einstein. Bókin fjallar hreinlega um hvernig mannskepnunni tekst að muna og hún fjallar á opinskáan hátt um að hægt er að þjálfa minnið ótrúlega með því að þjálfa sjónminni og nýta sýnir sem brenna sig í heilabörkinn (úps, ætli sérfræðingar myndu ekki mótmæla þessu, ég er ekki nógu vel að mér til að vita hvar minnisttöðvarnar eru í heilanum).

 

Ég hef ekki enn lesið þessa bók en hún stendur efst á óskalistanum yfir ólesin verk. Höfundurinn heitir Joshua Foer.

Ég hef oft velt því fyrir mér í kennslu, að með öllum þeim aukahlutum/tækni sem mannskepnan hefur tekið til notkunar sér til hjálpar í námi er mikið af þessum tækjum haldið þeim eiginleikum að mannfólkið  hefur meiri tilhneigingu til að útvista minnið, gleyma meira, muna minna sjálf. Um þetta ritaði Nicolas Negroponte áhugaverða bók sem bar heitið Being Digital og ég las einhvern tíma fyrir fimmtán árum síðan.

negroponteEYE

Hans hugmynd var sú að fólk útvistar minninu með aukinni notkun stafrænnar tækni og það getur verið kostur. Við getum melt meira en munum það ekki.

Ég hef af þessu smá áhyggjur því að þetta þjálfunaratriði. Minnið er mjög vanmetið í skólum samtímans. Það er mikilsvert að muna hlutina. Mér hefur oft verið núið um nasir að vera með límheila, muna allt. Sjálf held ég því fram að heilinn í mér hafi alveg sérstaka gáfu til að safna saman ónærtækum og lítið mikilvægum upplýsingum til að stríða mér. Þannig man ég ólíklegustu og alveg ónýtilegustu hluti, og ég ræð illa við að stjórna þessari náðargáfu eða galla, allt eftir því hvernig á það er litið.

Samkvæmt umfjöllun bókarinnar tunglganga með Einstein var minnið áður fyrr í mun meiri hávegum haft. Sókrates taldi til dæmis ekki sitt eigið verk að skrifa niður eigin vangaveltur og hugmyndir. Hann hélt því fram að hið ritaða orð væri minna um vert en minnið. Á þessum tíma æfðu menn sig í að muna og notuðu til þess ýmis konar tækni og æfingar. Á þeim tíma var slík þjálfun jafn mikilvæg faggrein og stafsetning, lógík (stærðfræði) og retorik (málfarslist). 

Athyglisvert er að í þessari bók er því haldið fram að minni hafi lítið með greind að gera, en sálfræðingar samtímans hafa reynt að koma þeirri tálsýn haganlega fyrir í vitund almennings. Hvorki háskólapróf né gáfuleg framkoma eru  tengd góðu minni.

Kúnstin felst í að skapa "kreativar" ímyndanir/hugmyndir í höfðinu og staðstetja þessar eftirminnilegu myndir á leiðir í svokölluðum hugmyndahöllum. Á góðri íslensku heitir þetta hugskotssjónir og  hugrenningar. Maður býr til myndir í hugrenningum sínum og tengir þær við það sem maður er að læra eða melta til að muna það og svo staðsetur maður það á góðan stað, sem er erfitt að gleyma. Ég veit þetta hljómar pseudo, en aðeins of spennandi til að maður vilji ekki reyna sig við það. Samkvæmt bókinni er tenging við æskuheimili afar árángursrík leið, vilji maður örugglega muna hlutina.

Eitt af minnisverðari dæmum í bókinni er þegar höfundurinn í Bandaríkjameistarakeppninni í minni sér fyrir sér Michael Jackson kúka á hamborgara og prumpa inn í blöðru. 

 moonwalking-with-einstein

Aðalmálið er að því skrýtnari, skældari og óvenjulegri hugskotssjónirnar og hugrenningatengslin eru við það sem á að læra þess betur munum við. Þetta vissu munkar á miðöldum sem rjóðir í kinnum viðurkenndu að fagurleggjaðar ungmeyjar héldu þeim við efnið:)

Mér finnst þetta áhugavert eins skrýtilega og það hljómar.

Gera má ráð fyrir að siðmenning okkar vanmeti mátt minnisins vegna tæknivæðingar sem hefur útvistað flest allt minnisvert á tölvutækt og rafrænt form. En mun okkar siðmenning ná einhverjum hæðum án innra minnis fólksins? Er líklegt að nýsköpun, brandarar, skilningur og listaverk verði sköpuð af útvistuðu minni í framtíðinni?

Hm. Það er nú það.

 


Maður sem veit sínu viti

Ég fagna því að Logi Geirsson sé áræðinn og skapandi karakter, því það er hann greinilega. Hann er því engan veginn búinn að missa neitt. Hann er einfaldlega skarpskyggn á hvar mannlífið þrífst og hefur áttað sig á möguleikunum á þessum nýja pr.vettvangi höfuðborgarbúa. Það er verra að ná til fólks sem situr lokað inn í einkabílhylkjunum sínum eða snarar sér inn í firrtar verslunarmiðstöðvar.

Flott hjá honum!


mbl.is Logi Geirs búinn að missa það - selur bókina í strætó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig ferðamannastaðir missa marks!

Ísland ber með sér margbreytilega ímynd allt eftir hvaða þjóðarhópar eiga í hlut eða hvaða þjóðfélagsstéttir um ræðir. Það má þakka fyrir það, því á það má spila í markaðssetningu..eitthvað sem við eigum hugsanlega eftir að læra heilmikið betur en hingað til (við dettum mjög oft niður í klisjukennda umfjöllun um okkur sjálf og landslagið, upphafningu sem að fjölmiðlalæsir neytendur sjá í gegn um).

Bretar sem ferðamenn eru samkvæmt öllum rannsóknum ekki mjög ævintýragjarnir ferðamenn, þeir eru bleyður inn við beinið - vilja ekki lenda í framandleika að of háu marki. Umfjöllun um Ísland í Bretlandi hefur markast af frásögnum um þjóð sem féll af stalli í svo mörgum blæbrigðum að ekki er undarlegt að það hafi síast inn í vitund fólks að hér er ekki eins og var (þó það sé líklega mjög orðum aukið eins og verða vill í fjölmiðlum. 

Hin heimsveldistregaða-heimóttalega þjóð er fræg fyrir að yfirfæra sín viðmið yfir á ferðamannastaði (umbreyta þeim í pöbba og beikonbúllu svæði) til að þeim hugnist staðirnir verulega. Það hefur Bretum sem betur fer ekki tekist hér, enda hefur Ísland svo sem aldrei verið fjöldaferðamennskustaður líkt og Miðjarðarhafslöndin. Þetta er þó ekki bundið endilega bara við sólarstaði sem Bretar heimsækja.  Ákveðin hverfi Amsterdam eru verulega löskuð á mánudagsmorgnum eftir ágang Breta á ýmsum búllum og húshornum sem þeir hafa migið upp við, snyrtipinnarnir. 

Amsterdam er þó annars borg sem mætti ætla að þyrfti lítið að sníða sig að þörfum þess fjölda heimsækjenda af öllum þjóðernum sem borgina sækir á ári hverju - hún er að mörgu leyti sannkölluð heimsborg -  en hún hefur sannarlega ekki farið ósnortin útúr samskiptunum við breska ferðamenn eftir að breskar ferðaskrifstofur og flugfélög fóru að markaðssetja helgarferðir þangað.

Flestir Bretar sem okkur sækja heim eru hin mestu prúðmenni, meira menntað fólk  en gengur og gerist þar í landi og af skemmtiferðaskipunum er ferðafólkið eldra en hinn dæmigerði rusltúristi þeirra. Svo við höfum verið að fleyta rjómann má segja. 

Ísland er "fandenivoldsk" (glannalegt og bíræfið), eitthvað sem ferðafrömuðir þessa lands hafa verið afar tregir að viðurkenna eða bera á borð.  Það gerir landið spennandi fyrir forvitnar sálir. Það er því ekki amalegt fyrir okkur að vera komin í flokk fornra stórvelda. Við höfum þó eitt fram yfir sem allavega ætti að höfða til Breta, og það er að við erum meðal öruggustu staða heim að sækja í alla staði. Hins vegar komumst við ekki með tærnar þar sem samanburðarríkin Grikkland, Tyrkland, Rússland og Rúmenía hafa hælana sem fornmenningarvöggur jafnvel þó við reyndum að flagga vímuþokuðum Íslendingasögunum. 

Eitt sinn rak á fjörur mínar áhugaverð bók sem ber nafnið "All poins North" eftir Simon Armitage. Bókin er samansafn fjölmargra smásagna sem eru "hálf-dokumentarískar". Þar er kafli sem ber heitið "Mum's Gone to Iceland".

Þetta er svona óbærilegur léttleiki tilverunnar frásögn af hvernig að móðir höfundar dregur hann með sér i sólarhrings-geðveikisferð til Íslands á vegum Thomas Cook. Fyrir utan að peningarnir (hinar íslensku krónur) líta út fyrir að vera einhvers konar leikfangapeningar er margt framandlegt í svona turboferð ekki síst meðal farþega. Fyrir utan að vera af eldri gerðinni voru þeir merktir til að enginn týndist og höfðu tekið hvatningunni um að vera klæddur til ferðarinnar bókstaflega. Klæðnaðurinn sagði jafnvel meira um hugmyndir farþeganna um hvaða áfangastað þeir væru að heimsækja en þörfina.

"Suitable ranges from Gortex cagoules, North Face rucksacks and strap-on compasses to M&S car coats and driving gloves, to pac-a-macs and five penny transparent rain-hoods available from all godd newsagents and tobacconists. For Mr Green, a seventy- or eighty-year-old complete with name-badge presumably sewn on by an anxious relative, "suitable" means a thick woolen suit, a thin wollen tie, a handknitted waistcoat and a pair of stout leather brogues. He stands next to you, rummaging in his pockets. somebody calls his nams over the tannoy, but he can't hear it because of the mound of black, wiry hair growing out of each ear, and the Sony Walkman playing tinnitus at full volume. You picture him at the end of the day, an Icelandic flag pinned to his tie, queuing up in the duty-free with a bag of toffees and a half-bottle of Navy rum in his basket." (bls.205)

Ferðalýsingin er hin skoplegasta, ekki síst frásögnin af ferðamönnunum . Þetta er greinilega engin nautnaferð fyrir utan fyrir þá fáu sem enda ofan í Bláa lóninu í ferðalok.  Flestum finnst matartilboð pakkaferðarinnar of dýr og nær allir hafa því smurt sér nesti til ferðarinnar sem þau eru að smygla upp í sig á kaffihúsum. Þau eru dregin í gegnum land og menningu sem að því er virðist er algjörlega tekið úr samhengi. Yorkshire post hefur sett saman ferð um vatn og fyrsta stoppið er glápstaða við útisundlaug í Reykjavík en síðan er brunað á ýmsa staði. Eftirfarandi lýsing gefur ef til vill til kynna hvað vakti mesta athygli í rútuferðinni.

"The woman behind you has become obsessed with the opening and closing of the back door of the coach. Stopping at the sulphur pools, she leans over to Mum, saying "The back door is open". Mum nods in agreement. "They haven't opened it this time" she announces at the fish processing plant, then "Open again" at the president's house. The president, as it happens is not at home, which is just as well for him because half the party go lumbering across the lawns and gawp through the windows. No doubt he saw the fleet of blue buses, trundling up towards him out of town, and slipped out the back, scooting along the spit of land in his Nissan Micra, making for the interior." (bls.209).

Sem betur fer lögðust svona turboferðir af í nafni mismunandi þema eftir því sem ég best veit, en lifa þó góðu lífi meðal farþega skemmtiferðaskipa sem hingað koma. ..um það er hægt að ræða frekar. 

Bretar eru fínir en ekki endilega áhugaverðasti ferðamannahópurinn að fá heim - margir aðrir ferðamannamarkaðir gefa okkur færi á að þróa meira spennandi ferðatilboð en akkúrat þeir.

Breskir fagurkerar og menntafólk mun halda áfram að heimsækja okkur eins og það hefur ávallt gert enda oft komið í öðrum tilgangi en til að eyða tímanum í að hrjóta inni í rútu eða smygla ofan í sig samlokur á kaffihúsum.

 


mbl.is Vilja ekki ferðast til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vondslegt á voru landi verður enn tíðarfar

Leyfi mér hér að birta kveðskap -Vormenn Íslands- eftir Jónas Friðrik Guðnason sem kom út í bókinni - Flóðhestar í glugga árið 1978.

Þetta á við nú sem aldrei fyrr!

Vormenn Íslands (brot)

Vondslegt á voru landi

verður enn tíðarfar

Magnaður margur fjandi

mannlífsins hér og hvar.

Þrælarnir prúðir þreyja, 

þegjandi síðast deyja. 

Hagnast svo höfðingjar.

 

Verðbólgin vella fljótin

víða, og gera tjón.

Væta þó varla fótinn

velalinn bisnessljón.

Eiga sitt allt á landi,

aðrir þá lenda í standi.

Heyra ei hálfa sjón.

 

Valdsmanna váleg iðja

verður á flesta grein.

Hver annan státnir styðja.

Stela og vinna mein.

Almúgans axlir hlaða

álögum, tapi og skaða

Fælast ei fjörráð nein.

 


Sitt af hverju og fyrirmyndir

Ég horfði á Kiljuna í kvöld, einn af mínum uppáhaldssjónvarpsþáttum. Þar kom fram að Margrét Guðnadóttir veirufræðingur væri um það bil að komast að leyndarmálum alnæmis að því leyti að mæði og visna (riða) í sauðfé og  eyðni mannfólksins ættu ýmislegt skylt. Hugsanlega væri hægt að þróa lyf í baráttunni gegn alnæmi sem þekking af sauðfjársjúkdómi hefði skapað. Ef það er rétt er mikilvægt að fagna því. Bragi, viðmælandi Egils taldi Margréti Guðnadóttur alltaf hafa verið töluvert sérstæða konu með ástríðufullar skoðanir og litla félagsfærni í samstarfi (ekki hans orð, mín túlkun).

Ég veit bara að hún er ein af mínum fyrirmyndum í lífinu eftir að mamma mín sagði mér frá henni. Hún bjó í litlu húsi með börnin sín tvö einhvers staðar (held ég upp við Elliðavatn) og starfaði við Keldur. Mamma var ljósmóðir barna hennar og þegar hún hitti hana í annað skiptið á spítalanum sagðist frú Margrét hafa verið með fyrsta barnið í heimsókn (held ég í NY, allavega í Bandaríkjunum) til að sýna honum barnsföðurnum frumburðinn en æ, svo einhvern veginn var svo notalegt að vera í heimsókn. Heim kom hún og fæddi annað barnið. Samvistir við föðurinn allavega hvað varðaði sambúð með móður barnanna var víst eitthvað lítil. Margrét var því kona sem þurfti að bjarga sér á alla vegu, bæði í starfi og á heimavelli (og í það sæki ég fyrirmynd). Kannski litaði það skoðanir hennar að einhverju leyti í átt til félagshyggju og jafnvel hreinræktaðri afbrigða sósílismans.

 

Svo var rætt við  Gunnar Hersvein um bókina hans um lífsgildi. Gunnar var mér mikil fyrirmynd í MH þar sem hann kenndi mér sálfræði. Ég saug í mig fræðin og lífspeki hans. Hann var einn af megin goðunum í menntaskólanum. Gaman er að fylgjast með manni eins og honum sem hefur haldið meginþræðinum í lífinu þrátt fyrir hristing og skjálfta versunnar sem eltir hvern einn mann. Hann stendur uppi sem hetja.

Annars er ég búin að eiga viðburðaríka daga með Rússum frá Norðvestur Rússlandi, nánar tiltekið frá Kóla skaga og Karelíu. Ingibjörg Elsa hefur haft veg og vanda af heimsóknum sex manna hóps í samráði við samtökin Landvernd, sem koma frá umhverfssamtökum af þessum svæðum og vilja efla vistvæna ferðamennsku m.a á þessum svæðum. Þau leggja heilmikið á sig til að koma til Íslands til að sækja hugmyndir og samræðu um möguleika á að skapa mótvægi í lífsafkomu við ráðandi hráefnismiðaða iðnvæðingu á svæðinu. Það eitt er athyglivert.

Á mánudaginn hittist hópurinn á farfuglaheimilinu í Laugardal sem er góður staður að hittast á þar eð það farfuglaheimili er einhvers konar fyrirmynd um hvernig gistiheimili geta forgangsraðað hugmyndum sínum og rekstri í þágu vistvænna viðmiða.  

Ég taldi mig vita sitthvað um svæðið þar eð ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa tvisvar ferðast um Norðvesturhéruð Rússlands en ég lærði heilmikið nýtt af spjalli við fólkið og að hlusta á hvað þau höfðu að segja.

Anna nafna mín frá Kólaskaga (nánar tiltekið Apatiti) sagði frá ferðamálasetri í Apatiti sem er útibú frá háskólanum í Petrazavodsk sem hún vinnur við. Hún er efnafræðingur sem vinnur í 30% starfshlutfalli við háskólann, er gæðastjóri við litla matvælaverksmiðju á svæðinu og heldur auk þess úti náttúruskóla fyrir börn og unglinga þar sem megin áherslan er á að fá þau til að tengja við náttúru og skjóta rótum á svæðinu. Eitt af megin baráttumálunum á svæðinu er að vernda Khibiny fjöll og svæðin þar í kring sem þau telja mun betri efnivið í þjóðgarð en margt annað, frá gasleiðslulagningu þvers og kruss um svæðið vegna framkvæmda við gas og olíuboranir í Barentshafi.

Ivanov Yuri samstarfsmaður hennar er forsvarsmaður fyrir Kola Environmental Center en það hefur starfað síðan 1992 (frá upphafi nýs Rússlands eftir fall kommúnismans og Sovét heimsveldisins..Ivanov hló reyndar rosa mikið þegar mér hugkvæmdis að segja Soviet Empire..honum fannst það ekki 2007 (eins og Íslendingar segja gjarna um timann fyrir hrunið)..honum fannst það fornt.

Samkvæmt honum hafa umhverfissamtök verið að byggjast upp frá byrjun tíunda áratugar síðustu aldar en hafa haft lítið í mjög ríka hagsmuna aðila í námugreftri, sjávarútvegi osfrv. þó að megin markmið umhverfissamtaka á svæðinu hafi hneigst að sakleysislegum málefnum eins og t.d  fræðslu, náttúrvernd og vitsmunavakning meðal almennings.

Eftir árið 2001 fóru náttúrverndarsamtök að sjá ljósið í möguleikum vistvænnar ferðaþjónustu sem mótvægi við öllum þeim áformum af jarðraski og óafturkrefjanlegum eyðileggingaráformum á náttúruna sem þrifust á svæðinu....Vandinn er bara sá að sú hráefnamiðaða hugsun sem tröllríður öllu á þessum slóðum Rússlands er ekki alveg að gefa þessum atvinnuvegi séns.

Eina tegund náttúrutengdrar ferðamennsku fyrir utan  laxveiði í ám eru skíðastaðir vegna stöðugra og harðsvíraðra vetra. Íbúum á svæðinu langar í meira mæli að tengja landbúnaðarafkomu við ferðaþjónustu, en eins þróa flúðasiglingar og annað sem gæti veitt verðmætum náttúrunnar athygli á öðrum forsendum en að grafa eftir glópagulli í jörðu.

Ég mun segja meira frá Karelíu og framtíðaráformum í samstarfi Íslendinga við þetta áhugaverða fólk þegar ég fæ færi á á komandi dögum.

Lifið heil!

 


Dönskum fjölmiðlum þykja flóðin ekki fréttnæm

Flóð á götum Kaupmannahafnar er ekki nýtt nýmæli þegar að kemur úrhellisskúr. Gamalt niðurfallskerfi sem er löngu orðið úr sér gengið er aðal ástæðan, ekki vegna þess að það sé neitt sérstakt úrhelli. Borg með mörg hundruð ára gamalt klóak kerfi á köflum getur ekki tekist á við aukaálag sem þetta.

Danskir fjölmiðlar (DR, Information og Politiken) upplýsa að Jakob Ejersbo er nýlátinn en hann er höfundur m.a bókarinnar Nordkraft sem síðar var kvikmynduð. Það er missir af honum úr flóru danskra rithöfunda.

Tour de France er auðvitað aðal fréttauppsprettan í augnablikinu (ég er alltaf að fylgjast með því, nær eina íþróttin sem ég nenni að horfa á í sjónvarpi).

...og svo í fyndnu deildinni. Stórverslunin Bilka sem selur allt frá a-ö seldi sófa um daginn og þegar að eigandinn (kona) kom heim með fenginn fannst eiturslanga í honum. Þetta er svona eitt af spaugilegri áhrifum hnattvæðingar viðskipta (launflutningar dýra með vörum).

 

 


mbl.is Flóð í Kaupmannahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppgröftur gamalla listrænna vina!

Ég er eins fornleifafræðingur þessa daganaWink. Þrátt fyrir annir hef ég sem betur fer tíma til að hitta gamla vini. Ég fór að hitta fornvin minn og gamlan skólafélaga Andreas, en við útskrifuðumst saman. Andreas er þeim gæðum gæddur að hann fer alltaf út fyrir sinn ramma og þrátt fyrir sex ára háskólanám sem landfræðingur starfar hann nú sem sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðarmaður í sífelldri leit að góðum heimildasprettum. Ég er stolt af honum, að hann hafi þorað, maður á að gera það sem hjartað býður manni.

 

Putte

Um daginn rakst ég á gamla vinkonu, hana Lilju, reyndar ekki á götu en framan á forsíðum blaðanna. Nágranni minn og félagi frá Peder Fabersgade var að gefa út barnasögu sem nær allir útgefendur danskir höfðu hafnað vegna þess að umfjöllunarefnið var umdeilanlegt. Þeir töldu að ástríðufullar ástir og ofbeldi heyrðu frekar heima í tölvuspilum en  á prenti fyrir börn. Athyglisvert. Þð segir okkur auðvitað svolítið um gildin sem ríkja í samfélaginu. Allar barnabækur eru jú hugarheimur fullorðinna þýddur fyrir börn, líka í tölvuspilum. Og afhverju mega börn ekki lesa um ástríðufullar og kjánalegar ástir milli hænu og refs, jafnvel með kynferðislegum undirtónum ef þau lesa það með foreldrum sínum, en allt í lagi er að þau spili eitthvað svipað eða verra á tölvunni? 

Lilja er barnabarn Hans Scherfig sem eflaust nokkrir íslendingar kannaðist við, en hann var mikill listamaður..og kommúnisti hér í landi. Skrifaði meðal annars det forsömte foraar. 

 

doristivolieraaben

Konan hans Andreas vinar míns, hún Ditte Stensballe sem ég hitti í fyrsta skipti í gær, er alveg frábær. Hún er ljóðskáld og rithöfundur en er að gefa út hljómdisk með frekar svona lummulegum tívolí slögurum í augnablikinu.

Nú þegar er GAFFA búið að koma með ritdóma (frekar frumleg nálgun) um lögin hennar, kannski helst lagið "balder der kalder" og er algjört bíó. Listamannsnafnið á disknum er Doris - Tivoli er aaben.

Um daginn hitti ég svo af tilviljun Thomas, gamlan sambúðarfélaga úr kommúnunni forðum daga (já ég viðurkenni og kem út úr skápnum, ég bjó í kommúnu - en ekki alveg stereótýpískri hippa-kommúnu). Hann sagði mér m.a að Anders gamall sambúðarfélagi og vinur sem var með ljóðskáldadrauma í þá daga, er búin að gefa út nokkrar barnabækur. Ég verð að grafa þær upp á næstunni er ég hrædd um, ég  á ennþá gamlan bol með ljóði eftir hann framan á. Haha. 

Anders Rostrup

Anders hefur skrifað fjórar til fimm barnabækur, tvær þeirra eru Rosita og skilsmissekatten og Asger Angaard duellerer.

Ég er auðvitað rosa stolt af þeim að hafa fundið sinn farveg  og gera það á svona skemmtilegan hátt. 

Ja, svei mér þá það hefur bara eitthvað ræst úr okkur öllum en hverjum á sinn hátt. 

Ég er algjörlega rykug háskólamús í samanburði við þetta skemmtilega skrýtna fólk úr fortíð minni, ..já nútíð..og vonandi framtíð. 


Næring óánægðu konunnar

Ég lyfti mér upp og fór í  bíó að sjá sænsku myndina Himlens hjerte. Hún er frábær...segi ekki meir.

Ætla að hjúfra mig undir sæng og lesa bók sem Sören gaf mér úr dánarbúi móður sinnar, og heitir Bryd! um kvenleika og feminisma eftir Mette Bryld og Nina Lykke. Hún er algjört bíó þessi bók, andar hugmyndum frá áttunda áratug síðustu aldar. Ég veit ég á eftir að skemmta mér konunglega yfir kafla sem fjallar um líkamstjáningu og kynin.  Þar er tugur mynda þar sem menn gera sig breiða og nýta talsvert pláss á meðan að konurnar eru eins og þvörur og reyna að gera sig mjórri á ýmsa vegu, t.d með því að sitja og standa með fæturnar læstar saman....og ef mér leiðist get ég jú alltaf flett upp í tímaritinu alt for damerne sem er næring óánægðu konunnar!Cool


Svar til Kiljunnar. Ég man vel eftir Oddnýju Guðmundsdóttur!

Ég horfði á einn af mínum uppáhaldsþáttum á Ruv, kiljuna þar sem að herra Bragi fór yfir ritasögu Oddnýjar Guðmundsdóttur farkennara og rithöfundar. Bragi hélt því fram að enginn myndi eftir Oddnýju á Íslandi í dag nema ef vera skyldi fjórar eldri konur eða eitthvað á þá leið. Mig langar að leiðrétta þetta.

Þegar ég var unglingur bjó Oddný endrum og sinnum hjá ömmu og afa á Raufarhöfn. Hún og afi voru andans systkini, gátu setið tímunum saman og rabbað og skrifað inni á skrifstofu á Sjónarhóli. Hún var kvikk í tilsvörum, fannst ég unglingurinn lítið forvitnileg, hégómleg að mestu og ég hló í laumi yfir því að þessi eldri skrýtna kona skyldi flétta sig eins og smástelpa. Fannst þó ekkert skrýtið að amma mín sem var örugglega ef eitthvað aðeins eldri var líka alltaf fléttuð. Ég var örugglega pínulítið abbó yfir því hvað Oddný og afi náðu vel saman inni á skrifstofu.

Oft kom Oddný blaðskellandi var búin að komast að einhverjum dýrindis sannleik sem hún varð að fá niður á prent. Hún var eftirtektarverð kona, enginn vafi á því.

Við frænkurnar lágum í krampa yfir bók hennar sem hét eitthvað á þá leið, slangur og önnur orðskrípi. Þetta var pólítískt sannleiksrit um gryfjur og gildrur í þróun íslensks málfars. Ég held að þetta sé einn af hápunktum gleðistunda minna unglingsára, þessi félagslegi lestur okkar frænkna.

 Þegar ég var 17 ára og var í sumarvinnu á elliheimilinu Grund bárust váleg tíðindi um að Oddný hefði verið keyrð niður á einu umferðargötu þorpsins. Hvernig gat slíkt gerst, í ekki umferðarmeira og stærra samfélagi? Steinunn Jóh, mamma æskuvinkonu minnar, ástríðufull að vanda, sagði við mig: Anna, ég held bara að þessir strákar hafi keyrt hana niður að ásettu ráði!

Ég vissi að Oddný var lögð í einelti af mörgum þorpsbúum, líkt og afi minn var á stundum fyrir að vera með skegg og sérlund sem einhverjum hugnaðist ekki, en í dag held ég að um slys hafi verið að ræða.

Ég man allavega vel eftir Oddnýju. Hún var frábær og skilur eftir sig ljúfar, skemmtilegar og góðar minningar í mínum huga. Og í sjálfsmynd minni er ég ekki gömul kona Bragi! 

 


Vindurinn í þögninni!

Hann segir fíiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii,shhhhhhhhhhhhhhhhhhhhhhhhh,fúúuuuuuuuuuuuuuuuuuuu inn um gluggana hjá mér.  Það er náðugt að sitja inni í hlýjunni þegar rokið beljar fyrir utan. Fór og keypti mér tvær ljóðabækur í tilefni dagsins.

Ætlaði að hreppa bókina eftir Kristínu Sóleyju Tómasdóttur sem ég hef miklar mætur á eftir að hafa lesið spaltana hennar og er viss um að hún er spennandi skáld. 

Náði að hreppa síðustu bók Gerðar Kristnýjar vinkonu minnar - Höggstaður -  í Eymundsson (haha rétt nappaði henni fyrir framan nefið á annari konu sem leit vonsvikin á mig!). Ég er líka viss um að ég er með góðan grip í höndunum þar. Afgreiðslustúlkan sagði við mig: "Þú veist að þú getur ekki skilað henni, því þetta er sýningareintak!". TIL HVERS ætti ég að skila henni, sagði ég þá. Ég held að aumingja starfsfólk bókabúðanna þurfi að fara komast í frí. Maður getur alveg keypt bækur fyrir sjálfan sig.

Greip síðan bókina hans Þórarins Eldjárns, Fjöllin verða að duga. Líst vel á hana. Ætla að hjúfra mig í stól og kveikja á kertum. Kósý!

Oj, þarna sprakk flugeldur! PÚFF - PANG! 

Fyrir akkúrat ári síðan lést frænka mín af slysförum, af völdum flugeldasprengingar. Hún var á hestbaki blessunin og datt af baki þegar hesturinn fældist, fékk högg beint á banakringluna. Búið - bless!

Eftir þetta setur að mér leiða í hvert skipti sem ég heyri hvellina. Ég veit ekki hvenær ég get aftur farið að líta flugelda réttum augum. En finnst í raun að banna ætti sprengingar fram að gamlársdag, jafnvel þó veðurspáin væri óhagstæð.

Bið ykkur vel að lifa, líka yfir áramótin!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband