Færsluflokkur: Ferðalög

Aðgerðir um samgöngustefnu í dag!

Ég var stödd í hádeginu hjá samgönguráðherra ásamt félögum mínum úr samtökum um bíllausan lífsstíl. Við vorum greinilega ekki með nógu æsilega efnisskrá fyrir fréttafólk (sem mætti ekki - fattar ekki hvað við erum skemmtilegt fólk;)!) en markmiðið var að vekja athygli á tilmælum sem sendar voru frá samtökunum til stærstu fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu um að taka upp samgöngustefnu. Markmið okkar var að grípa til aðgerða til að stuðla að fjölbreytilegri samgönguformum í borginni.

Ráðherra sagði okkur að ráðuneytið hans hefði þegar tekið upp stefnu og nú hjóluðu allavega þrír starfsmenn reglulega - einn meira að segja úr Grafarvogi og niður í bæ. Ráðuneytið greiðir þá strætókort fyrir starfsmenn í stað stæðisgjalds í miðbæ fyrir bifreið hans/hennar. Hann upplýsti okkur ennfremur um nokkur áform sem hrint verður af stað nú á næstu dögum....vonandi fer eitthvað að mjakast í þessum málum.

Hér er fréttatilkynningin frá samtökunum!

Samtök um bíllausan lífsstíl hafa það meginmarkmið að stuðla að bættum ferðavenjum á höfuðborgarsvæðinu og telja það afar þýðingarmikið málefni í nútímasamfélagi.

 

Flestir Íslendingar fara til vinnu einir á einkabíl, með tilheyrandi umferðarþunga, slæmum loftgæðum og kostnaði, sem lendir á þeim sjálfum, vinnuveitendum þeirra og samfélaginu öllu. Þær ferðavenjur verða ekki skýrðar með landfræðilegri legu, veðráttu, þéttleika byggðar eða öðrum utanaðkomandi þáttum eins og dæmi frá nágrannalöndum okkar sanna, vandamálið liggur í hefðum og hugarfari. Fjölmargir aðrir faramátar eru í boði, svo sem að taka strætó, hjóla, ganga, skokka, fara á línuskautum eða í samfloti með öðrum, sem allir eru hagkvæmari, stuðla að bættri lýðheilsu og bæta umhverfi okkar.

 

Í byrjun apríl munum við senda bréf til allra stærstu fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og skora á þau að taka upp samgöngustyrki fyrir þá starfsmenn sem kjósa að nota ekki einkabíla til ferða til og frá vinnu. Slíkur styrkur er ætlaður til þess að verðlauna þá starfsmenn sem ekki kæmu til vinnu á einkabíl og spara fyrirtækinu um leið talsverðan kostnað vegna bílastæða.

 

Fjölmargir Íslendingar fara á þessum tímum í gegnum gagngera endurskoðun á sínum útgjöldum og lífsstíl. Hóflegri notkun einkabíla gæti skilað flestum heimilum fleiri hundruðum þúsunda á ári hverju. Nú óskum við eftir liðsinni fyrirtækja í landinu við að hvetja og styðja starfsfólk sitt í heilbrigðari lífsvenjum, fyrir jafnt sál, líkama og buddu. Um leið gerum við almenningssamgöngur að samkeppnishæfari valmöguleika og höfuðborgarsvæðið okkar að betri stað til að búa á.

 

Fyrsta bréfið verður afhent samgönguráðherra fyrir utan samgönguráðuneytið að Tryggvagötu fimmtudaginn 2. apríl kl. 12.00. Við hvetjum ykkur til að mæta á staðinn og sýna málefninu samstöðu. Afrit af bréfinu má finna hér:

 

http://billaus.is/images/skjol/Billaus_Fyrirtaekjabref.pdf

 

Við hvetjum þá til að mæta sem vilja sýna málefninu samstöðu.

 

Einnig viljum við vekja athygli á því að umferðarráð er í dag nær eingöngu skipað fulltrúum þeirra sem eru akandi í umferðinni. Slíkt teljum við tímaskekkju og óskum við eftir því að okkar fulltrúi skipi einnig ráðið.

 

 

 

 


Sitt af hverju og fyrirmyndir

Ég horfði á Kiljuna í kvöld, einn af mínum uppáhaldssjónvarpsþáttum. Þar kom fram að Margrét Guðnadóttir veirufræðingur væri um það bil að komast að leyndarmálum alnæmis að því leyti að mæði og visna (riða) í sauðfé og  eyðni mannfólksins ættu ýmislegt skylt. Hugsanlega væri hægt að þróa lyf í baráttunni gegn alnæmi sem þekking af sauðfjársjúkdómi hefði skapað. Ef það er rétt er mikilvægt að fagna því. Bragi, viðmælandi Egils taldi Margréti Guðnadóttur alltaf hafa verið töluvert sérstæða konu með ástríðufullar skoðanir og litla félagsfærni í samstarfi (ekki hans orð, mín túlkun).

Ég veit bara að hún er ein af mínum fyrirmyndum í lífinu eftir að mamma mín sagði mér frá henni. Hún bjó í litlu húsi með börnin sín tvö einhvers staðar (held ég upp við Elliðavatn) og starfaði við Keldur. Mamma var ljósmóðir barna hennar og þegar hún hitti hana í annað skiptið á spítalanum sagðist frú Margrét hafa verið með fyrsta barnið í heimsókn (held ég í NY, allavega í Bandaríkjunum) til að sýna honum barnsföðurnum frumburðinn en æ, svo einhvern veginn var svo notalegt að vera í heimsókn. Heim kom hún og fæddi annað barnið. Samvistir við föðurinn allavega hvað varðaði sambúð með móður barnanna var víst eitthvað lítil. Margrét var því kona sem þurfti að bjarga sér á alla vegu, bæði í starfi og á heimavelli (og í það sæki ég fyrirmynd). Kannski litaði það skoðanir hennar að einhverju leyti í átt til félagshyggju og jafnvel hreinræktaðri afbrigða sósílismans.

 

Svo var rætt við  Gunnar Hersvein um bókina hans um lífsgildi. Gunnar var mér mikil fyrirmynd í MH þar sem hann kenndi mér sálfræði. Ég saug í mig fræðin og lífspeki hans. Hann var einn af megin goðunum í menntaskólanum. Gaman er að fylgjast með manni eins og honum sem hefur haldið meginþræðinum í lífinu þrátt fyrir hristing og skjálfta versunnar sem eltir hvern einn mann. Hann stendur uppi sem hetja.

Annars er ég búin að eiga viðburðaríka daga með Rússum frá Norðvestur Rússlandi, nánar tiltekið frá Kóla skaga og Karelíu. Ingibjörg Elsa hefur haft veg og vanda af heimsóknum sex manna hóps í samráði við samtökin Landvernd, sem koma frá umhverfssamtökum af þessum svæðum og vilja efla vistvæna ferðamennsku m.a á þessum svæðum. Þau leggja heilmikið á sig til að koma til Íslands til að sækja hugmyndir og samræðu um möguleika á að skapa mótvægi í lífsafkomu við ráðandi hráefnismiðaða iðnvæðingu á svæðinu. Það eitt er athyglivert.

Á mánudaginn hittist hópurinn á farfuglaheimilinu í Laugardal sem er góður staður að hittast á þar eð það farfuglaheimili er einhvers konar fyrirmynd um hvernig gistiheimili geta forgangsraðað hugmyndum sínum og rekstri í þágu vistvænna viðmiða.  

Ég taldi mig vita sitthvað um svæðið þar eð ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa tvisvar ferðast um Norðvesturhéruð Rússlands en ég lærði heilmikið nýtt af spjalli við fólkið og að hlusta á hvað þau höfðu að segja.

Anna nafna mín frá Kólaskaga (nánar tiltekið Apatiti) sagði frá ferðamálasetri í Apatiti sem er útibú frá háskólanum í Petrazavodsk sem hún vinnur við. Hún er efnafræðingur sem vinnur í 30% starfshlutfalli við háskólann, er gæðastjóri við litla matvælaverksmiðju á svæðinu og heldur auk þess úti náttúruskóla fyrir börn og unglinga þar sem megin áherslan er á að fá þau til að tengja við náttúru og skjóta rótum á svæðinu. Eitt af megin baráttumálunum á svæðinu er að vernda Khibiny fjöll og svæðin þar í kring sem þau telja mun betri efnivið í þjóðgarð en margt annað, frá gasleiðslulagningu þvers og kruss um svæðið vegna framkvæmda við gas og olíuboranir í Barentshafi.

Ivanov Yuri samstarfsmaður hennar er forsvarsmaður fyrir Kola Environmental Center en það hefur starfað síðan 1992 (frá upphafi nýs Rússlands eftir fall kommúnismans og Sovét heimsveldisins..Ivanov hló reyndar rosa mikið þegar mér hugkvæmdis að segja Soviet Empire..honum fannst það ekki 2007 (eins og Íslendingar segja gjarna um timann fyrir hrunið)..honum fannst það fornt.

Samkvæmt honum hafa umhverfissamtök verið að byggjast upp frá byrjun tíunda áratugar síðustu aldar en hafa haft lítið í mjög ríka hagsmuna aðila í námugreftri, sjávarútvegi osfrv. þó að megin markmið umhverfissamtaka á svæðinu hafi hneigst að sakleysislegum málefnum eins og t.d  fræðslu, náttúrvernd og vitsmunavakning meðal almennings.

Eftir árið 2001 fóru náttúrverndarsamtök að sjá ljósið í möguleikum vistvænnar ferðaþjónustu sem mótvægi við öllum þeim áformum af jarðraski og óafturkrefjanlegum eyðileggingaráformum á náttúruna sem þrifust á svæðinu....Vandinn er bara sá að sú hráefnamiðaða hugsun sem tröllríður öllu á þessum slóðum Rússlands er ekki alveg að gefa þessum atvinnuvegi séns.

Eina tegund náttúrutengdrar ferðamennsku fyrir utan  laxveiði í ám eru skíðastaðir vegna stöðugra og harðsvíraðra vetra. Íbúum á svæðinu langar í meira mæli að tengja landbúnaðarafkomu við ferðaþjónustu, en eins þróa flúðasiglingar og annað sem gæti veitt verðmætum náttúrunnar athygli á öðrum forsendum en að grafa eftir glópagulli í jörðu.

Ég mun segja meira frá Karelíu og framtíðaráformum í samstarfi Íslendinga við þetta áhugaverða fólk þegar ég fæ færi á á komandi dögum.

Lifið heil!

 


Sótt á í ferðamálafræði og landfræði

Tíu umsóknir bárust í framhaldsnám á meistarastigi í ferðamálafræði og í landfræði hér við skólann. 23 nemendur bætast í hóp bs.nema í ferðamálafræði á meðan að 12 landfræðinemar bætast við á fyrsta ári grunn-náms. Þetta þýðir gróflega samkvæmt mínum útreikningum og miðað við skráningar sem fyrir voru - að um 75 nemendur verða hjá mér í landfræði hnattvæðingar og um 80 í ferðalandfræði. Vantar einhverjum vinnu við stundakennslu og sem hefur þekkingu á sviði hagrænnar landfræði og landfræði ferðamála, svo ég verði ekki lögð inn á geðdeild á vormisseri?


mbl.is 1.625 sækja um nám við HÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólin nálgast

anna_yulelad1.jpg

Fyrir fimm árum sagði ég upp áskriftinni að jólunum. Ég var langþreytt á neysluæðinu og átinu sem einkenndi hátíðina og flúði með fjölskylduna til Sikileyjar upp á fjall og eldaði dúfur á aðfangadagskvöld. Það voru að mörgu leyti góð jól þar sem samvera við fólk, sætar appelsínur og villiketti voru í forgrunni fremur en að æði af öllu tagi, saltur og sætur matur ásamt myrkri væru aðalsmerkið.

Í ár verð ég heima og hlakka bara til. Ég var svo heppin að vera með á fundi á Húsavík um daginn um verkefnið Wild North og í tengslum við hann fórum við um Mývatnssveitina og upplifðum sitt lítið af hverju, t.d hitti ég jólasveina í Dimmuborgum (sjá mynd að ofan) og fann aftur jólabarnið í hjarta mér, hló eins og ær og langaði að syngja jólalög (humm, það er af sem áður var). Keypti hangilæri í Vogafjósi og skellti mér í jarðböðin ásamt hópi yndæls fólks frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Noregi og Skotlandi. 

Sonurinn eldri fer úr landi og mun ég sakna hans töluvert en líka una honum að fá hvíld frá neikvæðum fréttum og áhyggjum sem fylla andlegar kyrnur fólks hér á Fróni um þessar mundir. Sá yngri verður hér með mér og hans jólaskap feilar ekki. 

Hvet alla til að kveikja kerti og spara við sig í ofdekri - göngutúr í snjónum getur gert meira kraftaverk en hálfur konfektkassi. ...Og svo er bara að syngja með jólasveinunum.


Hvernig notkun ferðarýma breytist!

Á meðan að fólki með íslenskt vegabréf fækkar á rölti um flugstöð Leifs Eiríkssonar eru erlendir ferðamenn fjölmennari. Fréttir herma að Íslendingum á flugvellinum hafi fækkað um nær 50% síðustu mánuði og ekki líklegt að það breytist til hins meira á næstunni. Það er því nokkuð ljóst að til að bæta upp fyrir þá fækkun þarf að huga að efla erlendan ferðamannastraum hingað frá sem flestum löndum. Það leggjast allir á eitt um að ýta undir það nú og er það vel.

Í öllu þessu hef ég verið að velta fyrir mér hvernig hlutverk ferðalaga-rýma og aðstöðu breytist yfir tíma og í mismunandi aðstæðum.

Nú hefur það gerst að á meðan að íslendingum fækkar í flokki þotuliðs fjölgar þeim verulega í hópi strætóliðs. Nær 50% fjölgun hefur verið á farþegum strætó síðustu tvo mánuði og sýnir það og sannar fyrri staðhæfingu um hlutverkabreytinga ferðarýma yfir tíma. Mér finnst svo áhugavert í þessu sambandi hvernig að fólkið býr til félagsrými með notkun. Sú var tíð á meðan á gróðærinu stóð að maður hitti helst fólk úti í leifstöð á leið útí þotu. Aðal hittingsstaðurinn á Íslandi var alþjóðlega flughöfnin. Þar kyssti maður fólk sem maður hafði ekki gefið sér tíma til að sjá lengi og því varð flugvöllurinn aðal umferðamiðstöð Íslands á meðan að rútustöð BSÍ drabbaðist niður.

Nú er öldin önnur. Aðal félagsrými borgarinnar er strætó - þar kyssir maður fólk sem maður hefur ekki gefið sér tíma til að hitta lengi og þar hittir maður endurtekið fólk sem maður umgengst. Strætó og biðstöðvar eru því orðnar heilmikill hittingsstaður.

Þegar einhver staður verður vinsælt félagsrými hópast enn fleiri á staðinn. Flugvöllurinn var jú stækkaður í gróðærinu og bílastæðum fjölgað eins og við værum milljónaþjóð. Á meðan gengu frustreraðir unglingar um á höfuðborgarsvæðinu og eyðilögðu biðskýli, brenndu sæti og brutu rúður af því enginn þeirra bómullarbarna bar virðingu fyrir tómarýminu strætó.  Þegar einhver staður verður vinsælt félagsrými fara fyrirtæki og hagsmunaaðilar af ýmsu tagi að líta félagsmiðstöðina hýru auga...og þá eru auglýsendur komnir á staðinn. Eins og í gróðærinu þegar að ekki varð þverfótað eða horft á bera veggi í Leifstöð fyrir allskyns draumórakenndum auglýsingum auglýsenda og stórhuga fyrirtækja. Nú hins vegar er farið að þekja veggi leifstöðvar með listaverkum eftir því sem fleiri auglýsingar úreldast og engar fást upp í staðinn.

Eina auglýsingaskiltið í Leifsstöð sem einhver hefur virkilega látið sig varða í langan tíma er það sem  Láru Hönnu og stuðningsmönnum hennar tókst að knýja á um að yrði tekið niður af því það talaði Íslendinga og Ísland niður í flughöfninni.

Í strætó er hinsvegar að verða fjör. Fleiri auglýsingar og tilkynningar eru að verða inní strætó - og svei mér ef að við ættum ekki bara að fá fjörugar vörukynningar og uppákomur inn í það rými núna.

Það er tíminn.

Ferðarými eru félagsrými. Þau eru viðkomustaðir en aldrei áfangastaðir. Sem slík eru þau áhugaverð og rannsókna verð.


mbl.is Erlendum gestum fjölgar í Leifsstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tortryggð vinasambönd

Ég á vini tvo úr sitthverri heimsálfunni sem eru mér afar dýrmætir. Þeir eru mjög ólíkir hver um sig og þó. Þeir eru báðir mjög góðir vinir mínir, einskonar sálufélagar þó á ólíkan hátt. Annar þeirra er Finni, hinn Brasilíumaður. Þeir hafa staðið með mér í gegn um þykkt og þunnt þótt oft væri það í fjarska. Við eigum í intellektual sambandi, elskum að tala saman um heima og geima, nördast svolítið, taka púlsinn á heimsmálunum og spjalla um eigin hag og annarra.

Margir hafa orðið til þess að tortryggja þessi sambönd mín, sérstaklega íslenskir karlmenn - sem mér finnst skrýtið. En Ok, eins og Leo vinur minn segir. Þú getur ekki ætlast til að karlmenn skilji að svona fögur kona eins og þú Anna sért svona mikill free spirit. Mér þykir auðvitað ekki leiðinlegt að vera skjölluð og ég er stolt yfir því að hafa haldið þessum vinasamböndum til streitu þrátt fyrir mótbyr á stundum frá ytra umhverfi.

Tek fram að ég hef aldrei átt þessa menn fyrir kærasta enda myndi það spilla því góða sambandi sem ég á við þá.

Fjarskiptasambönd geta þó verið flókin. Eins og um daginn þegar brasilíski vinur minn skypaði mig eins og hann gerir gjarnan (og þá ekki endilega á besta tíma. Oft er það um það bil þegar ég er að elda kvöldmat). Nú átti hann í hjónabandsörðugleikum og hvað átti hann að gera. Ég sálufélaginn dásamaði konuna hans, sem ég þekki vegna þess að ég hef heimsótt þau og hún er mér mjög kær..og sagði honum að hann væri líklega að ganga í gegnum tíu ára krísuna (yebb, alltaf svo gott að vera vitur fyrir aðra).  Reyndar tölum við sjaldnast á þeim nótum. Ég held þó og vona að mér hafi tekist að koma vitinu fyrir hann. Hann er háskólakennari og upplifir eins og þeir margir að nemendur eru bara alveg til í að gefa honum undir fótinn. Ég var að segja við hann að dirfast ekki að vera latino í því sambandi, ég vona að hann hafi hlustað. Þessir brasilísku eru, held ég, svoítið blóðheitir. Hann á bara svo frábæra konu. Hún er sálfræðingur af gyðingaættum og ég held einmitt að þess vegna hafi hún tekið mér svona vel, ég er ekki viss um að ef hún hefði verið kaþólsk að hún og hennar fjölskylda hefðu bara gúdderað einhverja íslenska vinkonu sisvona. Samtal okkar þennan dag var um margt óvenjulegt en aðstæðurnar eru væntanlega ekki óalgengar meðal fólks á okkar reki.

Við Leo tölum þó oftast um þjóðfélagsástandið í sitthvoru landinu, um vistvænt borgarskipulag, hagkerfi, félagskerfi og stundum spillingu og annað sem er sameiginlegt áhugamál enda höfum við starfað saman beint og óbeint í grænkortaverkefni í um áratug. Þegar ég heimsótti hann og Tönju í Brasilíu í vor pössuðu þau svo ofboðslega upp á mig að ég var með verndara í hverri einustu borg sem ég heimsótti. Ég hef bara aldrei upplifað aðra eins gestrisni.

Lassi, finnski vinur minn er stjórnmálafræðingur. Við spjöllum líka um heima og geima en þó mest um Norðurslóðarannsóknir sem eru sameiginlegt áhugamál, strauma og stefnur í pólitík og öryggismál og annað þvíumlíkt. Við vorum einmitt að hittast nú í kvöld því í hvert skipti sem hann á leið um Ísland borðum við saman og spjöllum. Lassi hefur að mörgu leyti verið mér mentor síðan ég kynntist honum fyrir tæpum áratug. Eg hef ferðast með honum á ráðstefnur og fundi í fjarlægum löndum ásamt öðru góðu fólki og í gegnum hann hef ég kynnst mígrút af fræðafólki í pælingum um Norðurslóðir. Fyrir það er ég honum einlæglega þakklát. Hann er svona maður sem á auðvelt með að gefa af sér og svo er hann týpískur Finni að því leyti að honum finnst bara alls ekkert óþægilegt að þegja saman, þegar þannig ber undir. Ég hef gert mér far um að sýna honum borgina eða nágrenni borgarinnar þegar hann hefur haft tíma og við höfum borðað saman picnic á þingvöllum. Þá var minn maður með finnskt rúgbrauð með og að sjálfsögðu vasahníf og við fengum okkur íslenskt álegg. Það var gaman.

Ég býst við að sumum gæti fundist skrýtið að vera svona þrjóskur - en fyrir mér er þetta nauðsynlegt frelsi að fá að eiga vini, sama af hvoru kyninu þeir eru, sem ég næ góðu sambandi við. Þeir eru báðir skemmtilegir í tilsvörum og analýtískir og ég met það mikils. Það er allt of mikið til af fólki sem einhvern veginn er alltaf að passa upp á einhvern front.  Ég er viss um að fleiri upplifa það sama og ég og aðrir munu væntanlega bara dæsa og tortryggja - eins og ég hef svo oft upplifað.

Skítt með það. Mér er sama. Góður vinur er meira virði en almenningsálitið.


Mikið vatn hefur runnið til sjávar

Fjölbreytileiki í afþreyingu í borginni hefur aukist til muna á síðustu árum. Fyrir fimm árum hófum við hér við Háskóla Íslands að kenna námskeið sem að heitir Borgir og ferðamennska. Sumum þótti þetta námskeið svolítið framandi voru greinilega fastir í að hálendið væri órjúfanlegur þáttur ferðamennsku og að skrýtið væri að kenna svona sérhæft námskeið í ferðamálafræði. Á þeim árum sem að námskeiðið hefur verið kennt hefur rannsóknum erlendis sem og hérlendis á ýmsum víddum borgarferðamennsku fleygt fram.  Það er því gott að sjá að tölfræði um sýn ferðamanna á borgina er að þróast og verða reglulegri.

Ef ég man rétt var síðast gerð könnun meðal ferðamanna þá hinar hefðbundnu á vegum ferðamálaráðs/núverandi ferðamálastofu fyrir nokkrum árum síðan - en hún tekur til alls landsins og ekki sérstaklega til borgarinnar. Það er fagnaðarefni að Höfuðborgarstofa hafi ráðist í að framkvæma slíka könnun, þó hún taki einungis til flugfarþega sem koma inn í borgina. Það vantar að mörgu leyti meira af tölfræðilegu efni um sérstaka staði/þéttbýli og upplifun ferðamanna af þeim hér á Íslandi. Slíkar upplýsingar eru að litlu leyti aðgengilegar einnig.

Rögnvaldur Guðmundsson hefur unnið þetta fyrir Höfuðborgarstofu. Hann er flugfær í kannanavinnu og því geri ég fastlega ráð fyrir að hér sé um vandað verk að ræða.

 


mbl.is Gestir Reykjavíkur aldrei ánægðari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnagrafir í Eyjum

Hugur minn og líkami var allt annar staðar en í frétta- og fjármálakreppu fárviðrinu um helgina. Það var ákveðin hvíld.

Ég skrapp til Vestmannaeyja um helgina í jarðarför að kveðja konu föðurbróður míns, hana Beggu (Indíönu Björg). Blessuð sé minning hennar.

Athöfnin var hin fallegasta og Heimaey skartaði sínu fegursta þegar að við gengum í líkfylgdinni inn Landakirkjugarðinn. Einmana Lóa sem væntanlega hefur misst af félögum sínum á leið til suðurs fylgdi okkur nokkurn spöl. Á meðan að við gengum í hægðum okkar á eftir kistunni og ættingjum mínum las ég á leiðin sem voru orðin um hálfrar aldar gömul eða eldri og fór smá saman að bregða í brún að nær öll leiðin voru barnaleiði.  Mér var brugðið yfir að ganga fram hjá svona mörgum gröfum í röð sem geymdu jarðneskar leifar ungbarna og ungra barna, enda ekki algengt á okkar tímum að börn nái ekki að lifa af fyrstu árin, eins og þá var. Ég veit svo sem ekki hvort að Vestmannaeyjar voru sérlega slæmur staður hvað það varðaði.

Eftir jarðsetninguna, gekk ég með foreldrum mínum að gröfum ömmu og afa til að kasta á þau kveðju. Lóan fylgdi í humáttina á eftir okkur. Aumingja Lóan, hún á eftir að frjósa þarna í hel í vetur.

Pabbi vatt sér þá að baki leiði foreldra sinna og gerði krossmark yfir leiði sem að ég vissi ekki hvers var. Í ljós kom að þar lá bróðir hans sem hafði látist tæplega árs gamall. 

Í góðum hópi ættingja síðar um daginn varð honum tíðrætt um mynd sem að hefði eilíflega verið á náttborði við rúm foreldra hans af barnalíkinu í kistunni. Hann var að velta fyrir sér hvað hefði orðið af myndinni af honum Jóhannesi litla. 

Stella, kona Einars föðurbróður gerði sér þá lítið fyrir og fann hana í kommóðu. Við horfðum öll á litla mynd af fallegu barnslíki dúðað blómum ofan í opinni kistu. Skrýtið að taka svona mynd af barnslíki (jafnvel þó það væri barnið manns) og hafa við rúmið sitt það sem maður ætti eftir ólifað. Það gerðu nú afi minn og amma engu að síður og var föður mínum mjög minnisstætt.  Þarna var greinilega ekki verið að reyna að gleyma því sem orðið hafði og minningu barnsins var haldið á lofti á þennan hátt. Að signa sig fyrir svefninn horfandi á myndina.

Við ræddum um að allir hefðu verið harmi slegnir yfir dauðsfalli drengsins (sem mér skylst hafi dáið úr sýkingu við nafla..). Þau útskýrðu fyrir mér að ástæða fyrir að ljósmyndari var fenginn til að taka mynd af líkinu og það síðan rammað inn, var vegna þess að enginn önnur ljósmynd var til af barninu. Það var hreinlega ekki siður að taka myndir af börnum fyrr en þau væru orðin eldri. Jóhannes litli varð bara ekki eldri, og því var sem var.

Barnagrafirnar í Kirkjugarðinum og þessi einhvern veginn áhrifamikla mynd fékk mig til að hugsa hvað við erum heppin en líka firrt. Þetta er einhvern veginn menning sem að íslendingum í dag þykir í hæsta máta framandleg.   Það var mjög fallegt hvernig að litla barnið var baðað í blómum í sjálfri kistunni og mér skylst að það hafi ekki verið óalgengt, sérstaklega þegar um börn var að ræða.

Þrátt fyrir að við lifum sem betur fer ekki lengur á tímum þar sem ungbarnadauði er algengur eða smábörn farast úr flensum eða sóttum er þarna engu að síður vangavelta um hvernig við umgöngumst hina látnu í dag miðað við þá.


Ísafjörðurinn og kollsteypur borgarísjaka

dsc01724.jpgMyndin er af brettinu í Ilullisat, einum helsta sölustað veiðibráðar þar í bæ. Brettin eins og þau kallast og eru sölubúðir hvalkjöts, selkjöts, fisks og annars ljúfmetis er að finna í flestum bæjum Grænlands og þar er heilbrigðiseftirlitið sjaldan langt undan og því er maður alveg öruggur. Næsta mynd að neðan af siglingu í lok apríl 2006 um Ísafjörðinn þar sem við lokuðumst inni í Ísjakadal (það var svolítið angistarvekjandi - sérstaklega þegar að sumir borgarísjakanna voru að kollvarpast eða steypa niður jökum í sjóinn).

Það er góð frétt að tengingum til Grænlands sé að fjölga því að víst er að Grænland með allar sínar dýrðir er frábært heim að sækja. Hinsvegar hefur mér stundum fundist vanta á hugsun í hina átttina, að fylla vélarnar tilbaka. Alveg eins og að fjölmargar ferðaskrifstofur og flugfélög hafa gegnum tíðina flogið til Spánar, eins vinsælasta áfangastaðar Íslendinga í útlöndum, en mjög lítið hefur verið um ferðaflæði tilbaka, þ.e að Spánverjar nýti sér flugtengingarnar til að sækja Ísland heim. Ég lenti svosem í því líka fyrir tveimur árum síðan að þurfa að fljúga milli flugmannanna í cockpittinu á dash8 vélinni sem var tóm af farþegum...sjá færslu. Ég sat einnig í hálfri vél frá Nuuk til Reykjavíkur þá.Sjónvarpshúsið í Ilullisat

Ég veit að mörgum Grænlendingum þætti gott að geta flogið í gegnum Ísland og nýta tengingar þaðan til margra átta sérstaklega í Norður Ameríku tengingunum. Sérstaklega ef að farið er á samkeppnishæfu verði við AirGreenland og SAS. 

Ég var svo ægilega ánægð með beina flugið í sumar til Nuuk og ætlaði aldeilis að nýta mér það til að fara á ráðstefnu ICASS (International Circumpolar Association in Social Science), alþjóða heimskautaráðstefnu í félagsvísindum....en farið var 100 þúsund, hótelið hefði verið annað eins (ef ég hefði verið heppin) og uppihald það líka (fyrir utan svo auðvitað ráðstefnugjaldið). Það er meira en ruppinn og háskólakennarinn ég hafði bolmagn til, þó ergilegt væri.

sleðahundar og ísþurrkuð bráð á stultum

Þannig að það er ekki hægt að  segja að Grænland sé eða verði í bráð eitt af ódýru áfangastöðunum, en vissulega er það eitt af áhugaverðustu áfangastöðunum í nágrenni okkar og því gott að tengingarnar eru margar.ferðaskrifstofa Grænlendinga í Illullisat Ég fer kannski bara að íhuga að skella mér almennilega á Austurströndina sem ég á alveg eftir að stúdera til botns. Ég veit um skála sem að kunningjar mínir eiga hlut í, sem ég fæ kannski gistingu í. 

Gleymdi að segja: Gott framtak og "vision" hjá flugfélaginu. Vei þeim sem að því standa.

 


mbl.is Grænland vinsæll áfangastaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ballið vestanhafs rétt að byrja

Greip orð Hildar Helgu Sigurðardóttur á lofti þar eð ég var að koma að vestan, nánar tiltekið af fundi með samstarfsfólki í verkefninu Arctic Observation Network - social indicator project. Þar voru gamlir kunningjar frá Ameríkunni BNA, Kanada, Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Rússlandi. Við vorum á yndislegum stað nærri Amherst, Leverett heitir hann. Hæðóttir skógar, gamalt landbúnaðarsvæði sem áður var þekkt fyrir tóbaksrækt og nú hefur breyst í búsetulandslag velmegandi sem vilja svæði, læki og fuglasöng í kringum sig. OH, það var  borðaður nýr maís alveg út í eitt, enda uppskerutímabil - leiðinlegt að ég skildi hafa misst af því að stinga tönnunum í gott og safaríkt epli. Ég er mikil eplaæta og sakna þess ávallt hvað íslenskir kaupmenn hafa lítinn sans fyrir gæða eplum. Massachussetts fylki er í eplabelti Bandaríkjanna og ekki vantaði hlaðbúðirnar við vegina sem seldu maís, tómata og aðra dýrindis uppskeru.

Nú og tilbaka til ballsins. 

Með mér voru talsvert af Alaska búum sem ég þurfti að sjálfsögðu að spyrja útúr hvað varðaði varaforseta-framboð fylkisstjóra þeirra, nefnilega hana Söru Palin. Marie vinkona mín og samstarfskona var ekki allt of uppveðruð. Hún hefur reyndar verið dugleg í Alaska en á greinilega erfitt með að aðgreina persónulega hagsmuni frá starfslegum þar eð hún er viðriðin dómsmál í augnablikinu vegna þess að hún gerði yfirmann í fylkisstjórninni brottrækan vegna þess að hann vildi ekki reka fyrrverandi mág hennar sem hafði skilið við systur hennar nokkru áður. Mér finnst það auðvitað ekki meðmæli. Sharman hafði á hornum sér að hún væri svo trúuð að hún gæti ekki séð út fyrir þau gleraugu, t.d hefði hún mikið á móti fóstureyðingum og finndist að guð ræki stríðið í Írak. Ég er sammála því að það eru ekki beysin baráttumál en er viss um að mörgum Ameríkönum finnst það alveg ágæt stefna. Svo segir hún sig  vera baráttukonu gegn andsnúnum fjölmiðlum, sem mér skylst að sé sama stefna og Nixon rak á sínum tíma og gekk vel í almenning. Matt Berman samstarfsmaður minn sagði hana vera "social conservative" og að hún væri absolut ekki sín Ella. Við ræddum um að það væru örugglega margir miðstéttar-ameríkanar sem þó finndist hún einmitt svöl vegna þess að hún hefur skorið upp herör gegn fjölmiðlum og finnst blaðamenn of einstrengingslegir i umfjöllun sinni. Aðstandendur fatlaðra barna sjá líka fyrir sér góðan fulltrúa í lobbýi fyrir þroskaheftum innan ríkisins.

Athyglisverðust fannst mér þó innsend lesendagrein í dagblaðinu USA Today einn daginn, þar sem að kona kvartaði yfir umfjöllun dagblaða um að  gerð hefði verið athugasemd um að Sarah Palin hefði einungis fyrir mjög skömmu síðan eignast vegabréf. Sem er auðvitað nokkur vísbending um að hún er ekki mjög mikill kosmopolitan eða mjög fjölreist manneskja. Sendandinn vildi benda á að margir Bandarikjamenn ættu ekki vegabréf vegna þess að í eigin landi væri svo gífurlega mikill fjölbreytileiki að lítill þrýstingur væri á að sjá aðra heimshluta. Við innsendu greinina var ljósmynd af nýlegri ferð Sörunnar til Afganistan þar sem hún heimsótti bandaríska hermenn. Það má til sanns vegar færa að einungis 15-20% bandarísku þjóðarinnar á vegabréf og eru rök innsendandans því allskostar rétt þó að athugasemdir megi gera við að hugsanlegur fulltrúi eins mesta heimsveldis heims sé svo lítið sigldur. Það ætti allavega ekki að styrkja víðsýni í utanríkisstefnu, svo mikið er víst.

Kollegar mínir töldu að lítil ferðareynsla dömunnar væri ávísun á heimsku, sbr. íslenska orðatiltækið heimskt er heimaalið barn. Þannig að það má segja  að ég hafi ekki komið heim með mjög jákvæða umsögn um dömuna. Tel þó að Obama hafi farið fram úr sér með því að líkja henni við svín. Það finnst mér pínulítið ósmekklegt...og er reyndar alveg viss um að margar bandarískar konur snéru sér í rúminu ergilegar yfir að Hillary komst ekki áfram og urðu honum andsnúnar í kjölfarið. Kallinn skaut sig í fótinn, svo mikið er víst. Því að þó að Sarah sé örugglega ekki besti varaforsetakostur þessarar 300 milljóna borgara þjóðar er hún kona sem hefur ýmsa fjöruna sopið.  Það falla margir fyrir því, jafnvel þó hún sé með varalit og að ýmissra mati í of stuttu pilsi (afhverju rannsakar enginn buxnasídd karlframbjóðendanna).

Bandaríkjamenn eru gífurlega ginnkeyptir fyrir hégóma. Sarah er orðin uppáhalds grín tól spjallþátta stjórnenda sem hafa tveimur vikum eftir látið gera dúkkur sem að sýna konu með gleraugu og hnút í stuttu pilsi að skjóta úr byssu. Humm. Voðalega er ég fegin að vera ekki alvöru hluti slíks samfélags. Einhvern veginn. Úff. 

Finnst samt gaman að borða á diner..þegar ég er í AMERICA.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband