Hvernig notkun ferðarýma breytist!

Á meðan að fólki með íslenskt vegabréf fækkar á rölti um flugstöð Leifs Eiríkssonar eru erlendir ferðamenn fjölmennari. Fréttir herma að Íslendingum á flugvellinum hafi fækkað um nær 50% síðustu mánuði og ekki líklegt að það breytist til hins meira á næstunni. Það er því nokkuð ljóst að til að bæta upp fyrir þá fækkun þarf að huga að efla erlendan ferðamannastraum hingað frá sem flestum löndum. Það leggjast allir á eitt um að ýta undir það nú og er það vel.

Í öllu þessu hef ég verið að velta fyrir mér hvernig hlutverk ferðalaga-rýma og aðstöðu breytist yfir tíma og í mismunandi aðstæðum.

Nú hefur það gerst að á meðan að íslendingum fækkar í flokki þotuliðs fjölgar þeim verulega í hópi strætóliðs. Nær 50% fjölgun hefur verið á farþegum strætó síðustu tvo mánuði og sýnir það og sannar fyrri staðhæfingu um hlutverkabreytinga ferðarýma yfir tíma. Mér finnst svo áhugavert í þessu sambandi hvernig að fólkið býr til félagsrými með notkun. Sú var tíð á meðan á gróðærinu stóð að maður hitti helst fólk úti í leifstöð á leið útí þotu. Aðal hittingsstaðurinn á Íslandi var alþjóðlega flughöfnin. Þar kyssti maður fólk sem maður hafði ekki gefið sér tíma til að sjá lengi og því varð flugvöllurinn aðal umferðamiðstöð Íslands á meðan að rútustöð BSÍ drabbaðist niður.

Nú er öldin önnur. Aðal félagsrými borgarinnar er strætó - þar kyssir maður fólk sem maður hefur ekki gefið sér tíma til að hitta lengi og þar hittir maður endurtekið fólk sem maður umgengst. Strætó og biðstöðvar eru því orðnar heilmikill hittingsstaður.

Þegar einhver staður verður vinsælt félagsrými hópast enn fleiri á staðinn. Flugvöllurinn var jú stækkaður í gróðærinu og bílastæðum fjölgað eins og við værum milljónaþjóð. Á meðan gengu frustreraðir unglingar um á höfuðborgarsvæðinu og eyðilögðu biðskýli, brenndu sæti og brutu rúður af því enginn þeirra bómullarbarna bar virðingu fyrir tómarýminu strætó.  Þegar einhver staður verður vinsælt félagsrými fara fyrirtæki og hagsmunaaðilar af ýmsu tagi að líta félagsmiðstöðina hýru auga...og þá eru auglýsendur komnir á staðinn. Eins og í gróðærinu þegar að ekki varð þverfótað eða horft á bera veggi í Leifstöð fyrir allskyns draumórakenndum auglýsingum auglýsenda og stórhuga fyrirtækja. Nú hins vegar er farið að þekja veggi leifstöðvar með listaverkum eftir því sem fleiri auglýsingar úreldast og engar fást upp í staðinn.

Eina auglýsingaskiltið í Leifsstöð sem einhver hefur virkilega látið sig varða í langan tíma er það sem  Láru Hönnu og stuðningsmönnum hennar tókst að knýja á um að yrði tekið niður af því það talaði Íslendinga og Ísland niður í flughöfninni.

Í strætó er hinsvegar að verða fjör. Fleiri auglýsingar og tilkynningar eru að verða inní strætó - og svei mér ef að við ættum ekki bara að fá fjörugar vörukynningar og uppákomur inn í það rými núna.

Það er tíminn.

Ferðarými eru félagsrými. Þau eru viðkomustaðir en aldrei áfangastaðir. Sem slík eru þau áhugaverð og rannsókna verð.


mbl.is Erlendum gestum fjölgar í Leifsstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband