Sitt af hverju og fyrirmyndir

Ég horfði á Kiljuna í kvöld, einn af mínum uppáhaldssjónvarpsþáttum. Þar kom fram að Margrét Guðnadóttir veirufræðingur væri um það bil að komast að leyndarmálum alnæmis að því leyti að mæði og visna (riða) í sauðfé og  eyðni mannfólksins ættu ýmislegt skylt. Hugsanlega væri hægt að þróa lyf í baráttunni gegn alnæmi sem þekking af sauðfjársjúkdómi hefði skapað. Ef það er rétt er mikilvægt að fagna því. Bragi, viðmælandi Egils taldi Margréti Guðnadóttur alltaf hafa verið töluvert sérstæða konu með ástríðufullar skoðanir og litla félagsfærni í samstarfi (ekki hans orð, mín túlkun).

Ég veit bara að hún er ein af mínum fyrirmyndum í lífinu eftir að mamma mín sagði mér frá henni. Hún bjó í litlu húsi með börnin sín tvö einhvers staðar (held ég upp við Elliðavatn) og starfaði við Keldur. Mamma var ljósmóðir barna hennar og þegar hún hitti hana í annað skiptið á spítalanum sagðist frú Margrét hafa verið með fyrsta barnið í heimsókn (held ég í NY, allavega í Bandaríkjunum) til að sýna honum barnsföðurnum frumburðinn en æ, svo einhvern veginn var svo notalegt að vera í heimsókn. Heim kom hún og fæddi annað barnið. Samvistir við föðurinn allavega hvað varðaði sambúð með móður barnanna var víst eitthvað lítil. Margrét var því kona sem þurfti að bjarga sér á alla vegu, bæði í starfi og á heimavelli (og í það sæki ég fyrirmynd). Kannski litaði það skoðanir hennar að einhverju leyti í átt til félagshyggju og jafnvel hreinræktaðri afbrigða sósílismans.

 

Svo var rætt við  Gunnar Hersvein um bókina hans um lífsgildi. Gunnar var mér mikil fyrirmynd í MH þar sem hann kenndi mér sálfræði. Ég saug í mig fræðin og lífspeki hans. Hann var einn af megin goðunum í menntaskólanum. Gaman er að fylgjast með manni eins og honum sem hefur haldið meginþræðinum í lífinu þrátt fyrir hristing og skjálfta versunnar sem eltir hvern einn mann. Hann stendur uppi sem hetja.

Annars er ég búin að eiga viðburðaríka daga með Rússum frá Norðvestur Rússlandi, nánar tiltekið frá Kóla skaga og Karelíu. Ingibjörg Elsa hefur haft veg og vanda af heimsóknum sex manna hóps í samráði við samtökin Landvernd, sem koma frá umhverfssamtökum af þessum svæðum og vilja efla vistvæna ferðamennsku m.a á þessum svæðum. Þau leggja heilmikið á sig til að koma til Íslands til að sækja hugmyndir og samræðu um möguleika á að skapa mótvægi í lífsafkomu við ráðandi hráefnismiðaða iðnvæðingu á svæðinu. Það eitt er athyglivert.

Á mánudaginn hittist hópurinn á farfuglaheimilinu í Laugardal sem er góður staður að hittast á þar eð það farfuglaheimili er einhvers konar fyrirmynd um hvernig gistiheimili geta forgangsraðað hugmyndum sínum og rekstri í þágu vistvænna viðmiða.  

Ég taldi mig vita sitthvað um svæðið þar eð ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa tvisvar ferðast um Norðvesturhéruð Rússlands en ég lærði heilmikið nýtt af spjalli við fólkið og að hlusta á hvað þau höfðu að segja.

Anna nafna mín frá Kólaskaga (nánar tiltekið Apatiti) sagði frá ferðamálasetri í Apatiti sem er útibú frá háskólanum í Petrazavodsk sem hún vinnur við. Hún er efnafræðingur sem vinnur í 30% starfshlutfalli við háskólann, er gæðastjóri við litla matvælaverksmiðju á svæðinu og heldur auk þess úti náttúruskóla fyrir börn og unglinga þar sem megin áherslan er á að fá þau til að tengja við náttúru og skjóta rótum á svæðinu. Eitt af megin baráttumálunum á svæðinu er að vernda Khibiny fjöll og svæðin þar í kring sem þau telja mun betri efnivið í þjóðgarð en margt annað, frá gasleiðslulagningu þvers og kruss um svæðið vegna framkvæmda við gas og olíuboranir í Barentshafi.

Ivanov Yuri samstarfsmaður hennar er forsvarsmaður fyrir Kola Environmental Center en það hefur starfað síðan 1992 (frá upphafi nýs Rússlands eftir fall kommúnismans og Sovét heimsveldisins..Ivanov hló reyndar rosa mikið þegar mér hugkvæmdis að segja Soviet Empire..honum fannst það ekki 2007 (eins og Íslendingar segja gjarna um timann fyrir hrunið)..honum fannst það fornt.

Samkvæmt honum hafa umhverfissamtök verið að byggjast upp frá byrjun tíunda áratugar síðustu aldar en hafa haft lítið í mjög ríka hagsmuna aðila í námugreftri, sjávarútvegi osfrv. þó að megin markmið umhverfissamtaka á svæðinu hafi hneigst að sakleysislegum málefnum eins og t.d  fræðslu, náttúrvernd og vitsmunavakning meðal almennings.

Eftir árið 2001 fóru náttúrverndarsamtök að sjá ljósið í möguleikum vistvænnar ferðaþjónustu sem mótvægi við öllum þeim áformum af jarðraski og óafturkrefjanlegum eyðileggingaráformum á náttúruna sem þrifust á svæðinu....Vandinn er bara sá að sú hráefnamiðaða hugsun sem tröllríður öllu á þessum slóðum Rússlands er ekki alveg að gefa þessum atvinnuvegi séns.

Eina tegund náttúrutengdrar ferðamennsku fyrir utan  laxveiði í ám eru skíðastaðir vegna stöðugra og harðsvíraðra vetra. Íbúum á svæðinu langar í meira mæli að tengja landbúnaðarafkomu við ferðaþjónustu, en eins þróa flúðasiglingar og annað sem gæti veitt verðmætum náttúrunnar athygli á öðrum forsendum en að grafa eftir glópagulli í jörðu.

Ég mun segja meira frá Karelíu og framtíðaráformum í samstarfi Íslendinga við þetta áhugaverða fólk þegar ég fæ færi á á komandi dögum.

Lifið heil!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband