3.3.2009 | 23:55
Þrúgur reiðinnar
Ekkert hafði gert seðlabankastjóra Bandaríkjanna eins reiðan eins og að átta sig á að stærsta tryggingafyrirtækið hafði hagað sér ótrúlega óábyrgt og hefði í raun verið vogunarsjóður. Það er ýmislegt í endurskoðun stjórnvalda á atferli fyrirtækja á undanförnum árum sem er til þess fallið að gera menn frá sér numda af hneykslun. Í fræðunum er þetta kallað eftir-rationalisering og hefur nú ekki alltaf þótt góð fræði.
Menn við stjórnvölinn hefðu nú kannski átt að vera meira vakandi og minni kóarar þegar allt kom til alls.
Eftir að hafa horft á þáttinn um ENRON í fyrrakvöld stendur uppúr að þrátt fyrir að það stórfyrirtæki hefði svo óglæsilega farið á hausinn hélt viðskiptalíf í Bandaríkjunum uppi viðteknum hætti sem hafði verið áunninn og jafnvel lærður af viðskiptaháttum og bókhaldsviðmiðum svindlfyrirtækisins ENRON.
Það má jafnvel halda því fram að allir þeir viðskiptamenntuðu íslendingar frá Bandaríkjunum sem að síuðust inn í íslenskt viðskiptalíf í lok tíunda áratugar síðustu aldar hafi komið inn prógrammeraðir af hugmyndum sem að það stórfyrirtæki féll svo rækilega á. Bókhaldsviðmiðin voru allavega orðin eitthvað uppskrúfuð og öðruvísi en áður hafði þekkst í viðskiptaheimum.
Var að renna yfir sjö síðna grein úr Vanity Fair sem að hæðist að Íslendingum og íslensku viðskiptasiðferði, durtslegum viðhorfum Íslendinga í viðskiptalífi og finnst í rauninni sárt að mannorð okkar sé orðið svo svart að landinu okkar sé líkt við að hafa verið orðinn vogunarsjóður eins og bandaríski seðlabankastjórinn hneykslast yfir. Veit samt að þetta er að nokkru rétt.
Arðsemisviðmið margra fyrirtækja voru snarklikkuð og uppskrúfuð. Ég kannast samt ekki persónulega við að hafa hagnast á þessum tíma nema ef vera skyldi vitsmunalega. Það er erfitt að lesa um það að allir Íslendingar hafi bara átt peninga eins og sand af því að það er fjarri því að vera rétt en auðvitað voru margir sem leyfðu sér margt meira en þeir annars höfðu gert - ég kannast bara ekki við það úr eigin lífi. Stjórnarheimilið var leiksvið strengjabrúða sem að gátu fengið pening í kosningasjóði sína ef þeir höguðu ákvörðunum sínum í þágu hagsmuna ákveðinna aðila í viðskiptalífi.
Einmitt þess vegna er sárt til þess að hugsa að nú er eins og engin málefni séu mikilvæg í íslenskum stjórnmálum af því að allir eru uppteknir af eigin persónu í forvölum, prófkjörum eða landsfundaundirbúningi flokkanna. Það er þó væntanlega ekki lengur viðskiptalífið sem stjórnar dagskránni fremur sjálfhverfa frambjóðenda.
Persónukjör getur verið ágætt að sumu leyti en ef það er á kostnað þess að málefni hverfa í bakgrunninn, samstaða og samvinna fellur í skuggann og sami þúfnahugsunarhátturinn fær að vaða uppi og áður - er ég orðin fráhverf slíkum vangaveltum.
Hefur einhver frambjóðandi góða hugmynd um hvernig hægt er að breyta viðmiðum í hugsunarhætti fyrirtækja til reksturs þannig að sanngjarnir viðskiptahættir og eðlileg arðsemi fari saman og að fyrirtæki geti lifað af í kreppunni? Ég bara spyr.
![]() |
AIG í raun vogunarsjóður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.2.2009 | 17:25
Aukin þjóðremba og einangrunarstefna helsta ógn Íslands
Við á Íslandi, í fortíð og samtíð höfum aldrei og munum aldrei geta algjörlega reitt okkur á okkur sjálf þó að sjálfsbjargarviðleitni á ýmsum sviðum sé af hinu góða.
Það særir réttlætiskennd mína að heyra að ungur maður sem hér hefur starfað og borgað til samfélagsins sé meðhöndlaður af kerfinu á þann hátt sem hér er lýst. Ég hef sjálf starfað erlendis í mörg ár og hef þar ákveðin réttindi ef ég vildi í krafti þess.
Aukin þjóðremba er það sem þjóðinni stafar helst ógn af um þessar mundir. Við erum íbúar á eyju út í ballarhafi og við erum háð viðskiptum og samstarfi við aðrar þjóðir. Það þýðir einfaldlega líka það að við fáum til okkar gesti og nýa íbúa í krafti fjölþjóðlegra samninga sem við höfum gengist undir.
Ég yrði sorgmædd í hjarta mínu ef að vitsmunastigi þjóðarinnar hrakar í efnahagslegum hamförum sem við erum að ganga í gegnum. Það er því miður margt sem bendir til þess að við getum lent í því, bæði þegar að fera að verða vart stórfelldra búferlaflutninga héðan en ekki síst þegar að hámenntað fólk af erlendu bergi brotið sem hefur þolað okkur í vinnu hér sem er langt undir faglegri getu margra þeirra, gefst upp á hrokanum í landanum og hverfur héðan.
Ég talaði við vinkonu sem að er menntaður sálfræðingur og er að vinna hér á leikskóla. Hún sagðist verða vör við vaxandi andúð meðal foreldra sem birtist í að sumir ignoreruðu hana í daglegu starfi, neituðu að yrða á hana - vildu eiga orð við íslenska starfsmenn. Ég hef heyrt svipað gefið í skyn af fleirum sem ég þekki til af erlendu bergi hér. Sem betur fer hef ég raunar líka heyrt að stutt sé vel við bakið á erlendu fólki hér. Svo þetta er ekki alveg einhlýtt.
Ég skammast mín ekki fyrir þetta fólk sem lætur svona, ég er leið yfir að á þessu guðsvolaða skeri lifi svona þröngsýnt og skammsýnt fólk....og stundum verð ég að viðurkenna að mér finnst fólk sem hefur annan bakgrunn en íslenskan hreinlega skemmtilegra og heiðarlegra fólk í samskiptum.
Þegar hinsvegar opinberar stofnanir fara að ákvarða í málum sem hróplega eru í ósamræmi við alþjóðlegar skuldbindingar okkar er alvara komin í málið. Ég þekki auðvitað aðeins málið útfrá viðtalinu hér...en mér finnst margar blikur á lofti um aukna þjóðrembu íslendinga og það hreinlega fer um mig. Ég er ekki viss um að ég hafi áhuga á að búa og starfa í landi á miðaldastigi.
![]() |
Farðu heim, góði minn! |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.2.2009 | 13:35
Naglasúpa getur verið hollmeti
Með bakgrunn frá Norður Afríku þar sem atvinnuleysi ungs fólks er nær 50% er kannski ekki skrýtið að menn grípi til örþrifaráða til að vekja á sér athygli með því að borða nagla og annað sem venjulega er ekki tengt manneldi.
Alveg á hinum enda rófsins eru Norðurlönd hin (allavega áður) velmegandi velferðarlönd sem að nú ætla að flauta til átaks um hollar matvörur og markaðssetja sérstöðu sína á þessu sviði með fulltingi norrænu ráðherranefndarinnar.
...og ég gæti vel hugsað mér að Íslendingar tækju þátt í þessu þó ég viti svo sem ekki nema MATÍS eða aðrir hafi þegar tekið þátt. Leiðin er merking á matvörum sem uppfylla ákveðin skilyrði hollustu.
Merkið, sem til stendur að setja í notkun á þessu ári á að auðvelda neytendum að velja hollar matvörur.
Skráargatið hefur verið notað í Svíþjóð í 20 ár og nýtur mikils trausts meðal sænskra neytenda. Með því að ákveða viðmið fyrir ákveðnar fæðutegundir hefur skráargatið orðið merki um matvæli sem innihalda minni fitu, salt, sykur og meira af heilu korni og trefjum.
Þörfin fyrir sameiginlegt hollustumerki er til komin vegna þess að matar- og kaupvenjur í Skandínavíu eru afar líkar. Þrátt fyrir að margt sé líkt í löndunum hefur komið í ljós að nokkur munur er á þeim. Norræna ráðherranefndin hefur fjármagnað rannsókn á Skráargatinu, en greiningarstofnunin Zapera gerði hana. Tekin voru 1216 vitöl í Danmörku, 1223 í Noregi og 1210 í Svíþjóð og kom í ljós að Danir hafa áhyggjur af fitu í mat, Svíar af sætuefni en Norðmenn einbeita sér að saltinnihaldi.
Rannsóknin sýnir einnig að aðeins 37-48 prósent íbúa í Skandínavíu lesa að jafnaði innihaldslýsingar á umbúðum þeirra matvæla sem þeir kaupa. Þegar notkun á Skráargatinu hefst munu neytendur á einfaldan hátt geta séð hvaða vörur eru heilsusamlegar. Merkið krefst engrar undirstöðuþekkingar á næringarfræði og auðveldar aðgang íbúa að hollum matvælum. Þetta styður við markmið um heilbrigðara líferni, sem norrænu ríkin urðu sammála um í aðgerðaáætlun um matvæli og hreyfingu á árinu 2006.
Stjórnvöl í löndunum þremur hafa samþykkt nýjar reglur sem byggja á þeim sem gilda um notkun Skráargats-markisins í Svíþjóð. Í því starfi hafa stjórnvöld byggt á niðurstöðum samstarfs við Norrænu ráðherranefndina, m.a. með því að taka tillit til norrænu næringarráðanna. Tekið er tillit til þess mismunar sem er á löndunum og hefur samstarfið haft í för með sér umbætur bæði hvað varðar vöruhópa og viðmið. Verið er að fjalla um nýju viðmiðin í framkvæmdastjórn ESB og getur Skráargatið í fyrsta lagi tekið gildi sem norrænt næringarmerki í maí 2009.
Með því að sameinast um eitt næringarmerki munu löndin einnig koma í veg fyrir stjórnsýsluhindranir í viðskiptum milli landanna. Þegar vara er merkt Skráargatinu munu sameiginleg viðmið tryggja að samkomulag er í löndunum um sölu á vörunni. Þetta er til hægðarauka bæði fyrir framleiðslufyrirtæki og smásölum.
Enn sem komið er, eru það einungis Svíþjóð, Noregur og Danmörk sem taka þátt í verkefninu, en öll norrænu ríkin hafa samþykkt notkun þess. Finnsk stjórnvöld nota enn ekki merkið, en velta því fyrir sér hvort nota megi viðmið þess ásamt þeim sem þegar eru notuð í tengslum við Hjartamerkið sem er finnskt næringarmerki. Til lengra tíma litið er einnig mögulegt fyrir Ísland að taka þátt í samstarfinu þannig að það verði almennt notað á norrænum grundvelli.
Könnun um Skráargatið 2009: http://www.helsedirektoratet.no/vp/multimedia/archive/00096/Rapport_N_kkelhullme_96339a.pdf
Norrænu næringarráðin: http://www.norden.org/pub/sk/showpub.asp?pubnr=2004:013
![]() |
Maður sem borðar allt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.2.2009 | 13:05
Margur er knár þó hann sé smár!
![]() |
Vill listaverk bankanna í ríkiseigu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.2.2009 | 10:28
Af hverju eru ungir menn svona reiðir?
Af tveimur fréttum mbl.is má ætla að ungir íslendingar af karlkyninu séu í bráðri þörf fyrir "anger management" þerapíu.
Þeir hafa stundað skemmdarverk á eigum/mannvirkjumsem sem því miður er bara nokkuð algengt meðal landans þó á ólíkum stigum sé (strætóskýlið mitt er t.d búið að vera smallað á aðra viku).
Ég hef áður skrifað um íslenskan vandalisma og tel að unga fólkið sem stundar slíkt (og það er allt of algengt) búi við félagslega fátækt, bælingu af einhverju tagi sem á sér hliðstæðu einungis í fátækrahverfum annara ríkja (og þá er ég að tala um alvöru fátækt, ekki einhverja íslenska þykistufátækt) þar sem gremjan fær útrás í eyðileggingu. Þegar betur er að gáð er annars vegar um þjófnað og skemmdir því tengdar með stálpaðra gaura á Akranesi og hinsvegar smápatta sem virðast bara illa uppaldir á Ísafirði.
Þetta eru fjöregg íslensku þjóðarinnar gáum að því.
Það þarf að taka á því afhverju svona margir ungir menn eru svona reiðir. Varla eru þeir allir á sterum eða öðrum örvandi lyfjum sem fá þá til að gera heimskulega, vanhugsaða hluti stjórnað af aggression.
Ég hef oft grun um að þeir ungu reiðu menn sem ganga um séu samankrepptir einstaklingar af einhverjum ástæðum. Annað hvort af því að við þá er ekki talað af foreldrum og nánasta umhverfi, af því að þeir eru hluti af curling kynslóðinni sem er gjörspillt og veruleikafirrt (hafa aldrei þurft að taka á neinu, bera ábyrgð - svellið hefur í gríð og erg verið slettað fyrir þá).
Við þurfum að þora að nefna hlutina réttum nöfnum (ég veit svo sem ekki hvort ég er að fanga hina eiginlegu ástæðu einkennisins, en leyfi mér að velta þessu fyrir mér). Um daginn voru æpandi fréttir um soltin börn og félagslega óreiðu á Grænlandi. Spyrja má hvort okkur sé ekki allt eins nauðsyn að líta í eigin barm þegar kemur að ofbeldisþörf ungra manna. Það má svo sem segja að á meðan að skemmdarverk eru fréttaefni er samfélagið kannski einmitt ekki á vonarvöl. Ég tel þó samt vert að huga að þessu. Einhversstaðar verða ungir menn að fá útrás og betra væri að þeir fengju það í hnefaleikum eða góðum og gegnum bardagaíþróttum (mun heilbrigðara en skemmdarverk) eða jafnvel í parkour sem um leið skapaði þeim færni og reisn.
Það er meinsemd í íslensku samfélagi sem tengist því að í hraðanum og asanum til móts við ríkidóm voru allt of margir heilbrigðir en aktívir einstaklingar greindir sjúklingar. Þeir voru í röðum vaxandi kynslóða og fengu lyf við því að vera lifandi.
Íslendingar eiga þar af leiðandi því miður heimsmet í að dópa börnin sín með geðlyfjum af ýmsu tagi.
Þurfum við ekki eitthvað að endurhugsa hlutina og samskipti við unga fólkið - einkum unga menn.
![]() |
Skemmdarverk á Skaganum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.2.2009 | 19:06
Það sem skapar (hag)Ávöxt!
Hugmyndir og færni í ákveðinni list eða handverki eða máli, myndmáli nú eða jafnvel hugmyndaheimi er uppspretta afkomu. Engin ástæða er til þess að gera lítið úr því.
Tvær fyrirsagnir vöktu athygli mína hérna í flensurúmlegunni í dag - önnur var yfirskrift greinar um innsenda grein Ársæls Valfells hagfræðing í breskt dagblað og hét greinin landið án hagkerfis. Þetta er náttúrulega svona "sensational" titill en algjört bull að innihaldi. Það er að samfélag er alltaf með einhvers konar hagkerfi - hið rótgróna velþekkta hagkerfi getur hinsvegar verið í uppnámi eða breytingum háð. Margir hagfræðingar gleyma stundum hvað orðið hagkerfi þýðir í grunninn - það þýðir tilhögun og dreifing gæða í samfélagi (efnislegra, fjármagnstengdra osfrv.). Hagkerfi voru til bara í annarskonar formi en við þekkjum í dag, löngu áður en peningar komu til sem gjaldmiðill eða merkantilisminn ruddi sér til rúms með stofnun bankastofnana.
En víkjum nú aftur að hugmyndunum og færninni sem er fjarri því að vera nokkuð loft sé hún samtvinnuð saman á hátt sem skapar eitthvað nýtt. Tónlistin og bókmenntalistin eru góð dæmi um þetta og einmitt vegna þess að ímyndunarafl, líðan og tilfinningaróf fólks hverfur ekki þó það eigi eitthvað minni peninga, eru slíkir hlutir góðs í gildi. Þörfin fyrir að lifa, anda og ímynda sér er jafn rík samt sem áður. Vei því.
Apropos!
Var að fletta í gömlum bréfum frá tímabilinu 1983-1988. Þarna gætir margra grasa - allt frá ofurheitum ástarbréfum til vinkonafliss milli landa. Eitt bréfið var alsett varalitakossum, skrifað í Þýskalandsdvöl ungrar yngismeyjar - hennar Lindu Blöndal (útvarpskonu á rás 2) þar sem hún fullyrti að Nina Hagen væri bara ekkert klikkuð heldur venjuleg mamma. Þarna fann ég líka lista úr félagi sem ég var meðstofnandi að - fjölleikaleikafélaginu Veit mamma hvað ég vil. Þar var bréf um flóamarkað á galdralofti ofl. Hvernig væri að hafa reunion með flóamarkaði í þessum félagsskap svona tuttugu árum síðar!!hihi
Garpur Dagsson sendi mér boðskort í matarboð með aðgangsmiða og lista yfir aðra þá heldri gesti sem boðnir voru. Og fleira og fleira...Það jafnast ekkert á við hugarvíl unglinga af ýmsu tagi.
Þetta var alveg yndislegt - ég hló svo mikið yfir öllum þessum bréfum að ég held ég sé bara að hressast í veikindunum.
Önnur útvarpskona (í leyndarmálinu) hún Brynhildur Björnsdóttir sendi mér greinilega jólakort árið 1986 þar sem hún þakkaði samstarfið og sendi mér jafnframt eftirfarandi orð hins persneska spekings Iranschair.
"Seek refuge in
inner calm
Free your thoughts
from the external
world and you
will feel the
rays of god's
goodness and love
pouring over you
and the universe."
![]() |
Kreppan selur íslenska tóna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.2.2009 | 23:35
Konur og framlag þeirra til samfélagins
Landnámssetrið er vel að verðlaunum Eyrarósarinnar komið. Ég var búin að spá þessu þó að Eyrbyggja - sögusetur í Grundarfirði hefði líka átt skilið að fá viðurkenningu. Ég var búin að spá að Skaftfell fengi ekki verðlaunin að þessu sinni þó að forsvarsmenn þess hafi sýnt ákveðið þrekvirki þar eð lungAð á Seyðisfirði fékk verðlaunin fyrir skömmu.
Kjartan Ragnarsson er forstöðumaður landnámsseturs en á bak við hann er kona sem að hefur verið býsna öflug og þó hann sé ef til vill kunnari landsmönnum en Sigríður kona hans (þó hún hafi verið sjónvarpsfréttakona) er eitt víst að þau hafa verið ótrúlega flott team (megi þau halda áfram á sömu braut).
Einmitt þetta fékk mig til að hugsa um flottar konur. Í kastljósi var viðtal við Katrínu Ólínu gamla skólasystur mína sem hefur verið að gera ótrúlega flotta hluti í hönnun út um allan heim. Hún trúir á eigin sköpunarkraft og það er einmitt það sem er svo dýrmætt okkur íslendingum, að eiga slíkt fólk.
Anna Hildur sendiherra íslenskrar tónlistar erlendis er einnig alveg sérdeilis flott kona sem bæði á sögu á Íslandi sem pólitískt meðvituð og sem skapandi og skipuleggjandi kraftur. Ég þekki hana frá því til forna en hún skapaði sér fyrst almennilega nafn sem framúrskarandi umboðsmaður, fyrst leikhússfólks í Bretlandi og síðan tónlistarfólks.
Og..svo var það hún Hrefna frá Reyðarfirði sem að einmitt valdi að trúa á eigin útsjónarsemi og sköpunarkraft við að nýta það sem annars hefði verið sóað, ber úr íslenskri náttúru og sveppi. Ég óska henni alls góðs gengis og fullyrði að ég mun meðvitað sniðganga aðrar sultur en hennar ef ég fæ tækifæri til að velja þær í verslunum hér á landi.
Það eina sem gerði mér lífið leitt í tengslum við íslenskar konur í kvöld var val Þorgerðar Katrínar fyrrverandi menntamálaráðherra að veðja ekki á formannsstól flokksins. Hún er einn flottasti fulltrúi íslenskrar kvenþjóðar í pólitík (án þess að bregða skugga á aðrar). Ég hef verið ánægð með hana sem menntamálaráðherra og finnst hún almennt flott stjórnmálakona.
..og svo langar mig að bæta við að við þurfum á því að halda að fólk trúi á eigin sköpunarmátt og fari eigin leiðir í stað þess að elta aðra í atvinnusköpun og viðskiptum með íslenskar vörur og hugvit. Við getum ekki lifað á því að alli geri það sama...ef eitthvað eitt tekst vel að allir fari þá þá leið og í kjölfarið kroppi augun úr hvor öðrum. Eigum við ekki að leggja slíka hugsun að baki og gera eins og hjónin að baki landnámssetri, nýta það sem við kunnum ( í þeirra tilfelli miðlun og leiklist) til nýrrar og frumlegrar framsetningar á verkum sem eru einstök.
![]() |
Landnámssetrið fékk eyrarrósina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2009 | 00:18
Sjálfstæður seðlabanki í 40 ár - hvað er þetta fólk að amast!?
9.2.2009 | 00:35
Martraðir markaðshyggjunnar
Ég horfði á upptökur af verkakonum í Póllandi reitandi lifandi gæsir í fréttatímanum á sænska ríkissjónvarpinu síðastliðinn sunnudag. Ég
Ég hef síðan reglulega haft martraðir yfir hljóðunum sem bárust frá gæsunum á meðan að fólkið reif í fiðrið og reitti þær lifandi. Skuggahliðar markaðshyggjunnar í alþjóðaviðskiptum eru því miður margar og stundum lítt til þess fallnar að efla með manni trú á frjálst alþjóðavætt hagkerfi.
Marx gamli hafði rétt í því þegar hann ályktaði að með aðskilnaði heimilis og framleiðslu hefði innsýn almennings í framleiðsluhætti rofnað. Úthýstar framleiðslueiningar alþjóðasamsteypa oft ýkt dæmi um slíkt. Þar eru því miður oft kjöraðstæður fyrir grunsamlega framleiðsluhætti þar sem ýmsum misbrengluðum aðferðum er beitt til að ná fram aukinni arðsemi fjármagnseigenda. Um það eru ótal dæmi allt frá barnaþrælkun til misþyrmingar á dýrum.
Vinsælar gæludýrabrúður voru til að mynda búnar til úr hundshárum af hundum sem höfðu verið píndir, þjakaðir og limlestir og var upplýst um í sjónvarpsþætti sem allavega hélt fyrir mér vöku nokkrar nætur fyrir nokkrum árum. Sem betur fer hafa ýmis dýraverndarsamtök vakið athygli á misbrestum sem þessum og sjónvarpsstöðvar hafa tekið til sýningar. Svíar eru þjóða samviskusamastir í að standa sig á þessu sviði og því hlýtur fólk þar að vera mjög miður sín þegar að flaggskip fyrirtækja er oftsinnis tekið í því að beita ógeðfelldum aðferðum í framleiðslu vara sinna.
IKEA er að verða tákn fyrir víðsjárverða viðskiptahætti svipað og NIKE var á tíunda áratugnum. Svei því.
![]() |
Ikea notar dún af lifandi fuglum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.2.2009 | 00:25
Ljós í myrkrinu
ég veit að á þessum síðustu og verstu tímum er þessi yfirskrift orðið ofnotuð en get ekki varist að nota hana þar eð vetrarhátíð er afurð duglegs fólks hjá Reykjavíkurborg sem ég nú ætla að nota tækifærið til að hrósa. Þar ber auðvitað hæst Sif Gunnarsdóttir hjá höfuðborgarstofu sem undanfarin ár ásamt samstarfsfólki hefur borið hitann og þungann af hátíð sem er ljós í myrkrinu miðað við árstíma. Ég hef stundum getað lagt mín lóð á vogarskálarnar til að virkja nemendur úr HÍ til að vera með og aðstoða en svo ber ekki við í ár. Þessi hátíð er mikilvæg fyrir borgarbúa. Hún er funaboðskapur í frostinu og gerir veturlagða borg að upplifanahöll á nokkrum dögum. Á undanförnum árum hefur hátíðin Food and Fun farið saman við hátíðina sem hefur ennfremur blásið lífi í upplifanaþyrsta borgarbúa - kveikt vitin á fleiri sviðum en einu. Ég veit raunar ekki hvernig því er háttað í ár en er glöð og stolt yfir að ekki hefur verið sljákkað á metnaðinum hvað vetrarhátíðina varðar þó illa ári.
Ég ætla að mæta á grænlensku reggí popp sveitina enda örugglega einn fárra íslendinga sem met grænlenska músík mikils. Vei fyrir vetrarhátíð. Mætum öll og lyftum okkur uppúr skammdeginu.
![]() |
Dagskrá Vetrarhátíðar í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |