Færsluflokkur: Ferðalög

Flogið á vængjum sumarsins (væri flottara ef það væri vorsins)

Þrátt fyrir að vera ein án strákanna um þessar mundir er margt skemmtilegt að sýsla.

Helgin hefur sannarlega verið viðburðarík og full af skynhrifum og upplifunum. Eftir að hafa farið að skoða íbúð með Völu vinkonu og spjallað við hana yfir hvítvínsglasi á vegamótum um framtíðina, málningarvinnu og skemmtileg matarboð, hjólaði mín heim.

Einhverra hluta vegna er Rósa sambýlisköttur minn ekki alveg að uppfylla félagslega þörf mína um þessar mundir þannig svo að ég hjólaði yndislegan spotta meðfram nauthólsvíkinni yfir í skerjafjörð og sá hvernig sumarið fer með ungviðið sem dansaði fjöruglega við logandi varðeld á ylströndinni og naut lífsins (mér sýndist þetta vera allt í sómanum, allir að skemmta sér).

Lykthrifin bárust að vitum mér á leiðinni og það eru gæði hjólamannsins, að þau skiftast, sætur keimur blómanna berst í vitin, grasið og hvönnin hafa annan og svo mætti lengi telja og úr verður besta sinfónía vitanna. Ekki er verra að vera með góða tónlist í eyrum - þá líður mér eins og fugli, frjálsri - er einhvern veginn að lifa í botn.

Við tók spjall við Pálma og Sigrúnu fornvini mína um lífið og tilveruna og skrýtnar aðgerðir borgarinnar í bakgarðinum...fram á nótt.

Sumarnóttin er þögul við Nauthólsvíkina - ég flaug tilbaka á hjólinu, hélt að klukkan væri rétt eftir miðnætti en leit á klukkuna...úps, hún var að ganga fjögur.

Í gær fórum við Sigrún Birgis síðan í fjallaferð, nánar tiltekið í anddyri Höfuðborgarsvæðisins og gengum á Hengilssvæðinu í nokkra klukkutíma. Þar var ægifagurt og jarðhitaholurnar hvissuðu og hvæstu, einar um að rjúfa friðinn í ólíkum dalverpum.  Við enduðum síðan á að borða nestið okkar í laut og horfðum á ægifagurt útsýni að Skeggja og í hina áttina til Þingvallavatns. Veðrið var með besta móti, sól að mestu og hlýtt. Við völdum Fræðslustíginn í gegnum Dyradal. Hittum engann nema nokkra ferðamenn á einstaka útsýnispöllum og svolítið rjátlulegar kindur sem að hefðu þurft rúningu. Ég mæli með því að fara ekki of langt yfir skammt, og fá útrás fyrir hreyfiþörfina í þeim mörgu göngumöguleikum sem að svæðið býr yfir.

Fra_dyradal Eftir að hafa legið eins og skötur og notið lífsins í sundlauginni í Laugaskarði í Majorka veðri var stefnan tekin á þokulagt Reykjavíkursvæðið í dásamlegt matarboð hjá Heiðu sætu og Einari - þar sem urðu ánægjulegir endurfundir við menntaskólavinkonur ásamt öðru góðu fólki.

Í millitíðinni höfðum við Sigrún komið við í nýrri íbúð hennar sem er með útsýni yfir gömlu höfnina, eitthvað sem að kitlaði sjóntaugar mínar. Ég elska að horfa yfir hafnir og ekki er verra skoða mannlífið í leiðinni. Hópur fólks var að koma tilbaka úr hvalaskoðun með Eldingu. Það var gaman að sjá höfnina svona lifandi, þó á nýjum forsendum væri.

Þá var stefnan tekin á ölstofu Kormáks og Skjaldar þar sem margt var um manninn og nokkuð af kunnuglegum andlitum, auk vina. Skrýtið samt hvað maður nær lítið sambandi við fólk svona til að eiga einhverjar vitrænar samræður. Ég ílentist út í reyktjaldi þar sem gömul skólasystir úr menntaskóla söng og gerði grín. Önnur (líka gömul skólasystir) bættist í hópinn og fór mikinn (mikill húmoristi þar á ferð). Sú fyrrnefnda byrjaði þá að segja mér að hún hefði í mörg ár reglulega mætt á ölstofuna til að finna ástina og eftir að vera algjörlega búin að missa vonina, hefði hún nú loks fyrir stuttu hitt mann sem að hefði snortið hana í hjartastað (úti í tjaldinu). Hún var algjört kjútípæ þegar hún var að segja frá þessu. Ég eins takmörkuð og ég er, á samt erfitt með að sjá sjálfa mig vera svona þolinmóða. Mörg ár! Mér finnst að auki þessi rammi (þ.e barinn og umgjörð hans) ekki alveg vera staðurinn þar sem maður bara hittir þann rétta. En hver veit.

Í dag skellti ég mér í kolaportið og kom út klyfjuð...af bókum. Mér er ekki bjargar auðið, þegar ég kemst í bækur. Fann tvær ferðasögur, aðra frá nítjándu öld um Íslandsferð Dufferin lávarðar og er nú alveg djúpt sokkin í hana, aðra eftir danskar konur tvær frá fjórða áratug tuttugustu aldar. Ég fann að auki algjöran dýrgrip um síldarsögu Íslendinga.

Ef þetta heldur svona áfram enda ég á því að þurfa að borða bækur.

Í lok síðdegisins fór ég að sjá heimildarmyndina Kjötborg í Háskólabíói. Það er ekki oft sem ég er stolt af að vera Reykvíkingur en svo snart þessi mynd mig að ég kom gangandi út stolt sem páfi yfir  því að í borginni okkar er griðastaður og sölustaður sem sameinar bæði mannkærleik og viðskipti. Gunnar annan kaupmannanna þekki ég úr æsku minni, við vorum nágrannar þegar ég var unglingur. Gunnar og Inga kona hans eru yndælisfólk og eljusemi þeirra bræðra er til að vera stoltur af. Ég þekki svosem líf hornkaupmannsins af eigin raun sem unglingur þar eð pabbi minn rak Birkiturninn ásamt félaga sínum til margra ára. Ég kynntist mörgum Vesturbæingnum á þeim árum þar sem ég hímdi í lúgunni og afgreiddi. Margt af því fólki sem kom fram í myndinni kynntist ég einnig þar. Þeir félagar gáfust upp á rekstrinum þegar að magninnkaup urðu reglan og lítil sjoppa mátti sín lítils í samkeppni við stórmarkaði og vídeóhallir. Birkiturninn er nú blómabúð (var áður bæði söluturn og blómabúð), og byggi ég í þeim enda bæjarins væri ég reglulegur gestur, enda mjög háð blómum og yndisauka þeirra.

Óvæntar gestakomur á reykvískum heimilum heyra orðið undantekningana til, en svo heppin var ég að eftir kvöldmat var hringt á dyrabjöllunni uforvarendes. Þar stóðu Helgi og Tóta sem höfðu verið að viðra nýju vespuna í fjölskyldunni. Ég heppin! Spjall yfir kaffibolla, hlátursrokur og gamanmál.

Þetta hefur greinilega bara verið annasamasta helgi eftir allt. Sannarlega flogið á vængjum sumarsins (oh bara að þessi árstíð væri lengri). 


Ætla að hjóla á náttúra tónleikana

Ég er svo heppin að ég  skipti úr vetrardekkjum yfir á sumardekk á vetrarhjólinu mínu svo að ég er vel búin til samgangna. Skrýtið orð - samgöngur. Að ganga saman. Karlarnir á upphækkuðu jeppunum hafa greinilega misskilið þetta orð eitthvaðWink

Fer í laugardalinn og hjálpa Gunnu og Einari Bergmundi á natturan.is, þar sem við ætlum að gefa góð og uppbyggileg ráð um vistvæna lífshætti, sultugerð og annað. Úff voðalega hljómar þetta eitthvað hippalegt. Ætli ég sé ekki bara eilífðarhippi eftir allt.Tounge

Hlakka til að heyra góða músík. Allir í laugardalinn!


Áhrif bíómynda á ferðalög fólks

 DSC00815

Bíómyndin brúðguminn var skemmtileg og reglulega góð mynd. Flatey er reglulegur töfrastaður með eða án bíómyndar.

Ég dvaldi í nokkra daga með fjölþjóðlegum hópi doktorsnema og kennara þar sumarið 2003 í sumarskóla sem ég hélt utan um. Þá var Vogur opinn og við bjuggum bæði þar í húsinu og uppi í Krákuvör. Eyjan er griðastaður þar sem ekki er hægt að ná í mann með góðu móti og þar er hægt að sitja einn með hugsunum sínum og horfa á lunda í túnfæti.

 lundar a� gl�pa � mig

Það er umhugsunarvert hvernig að eyjurnar í Breiðafirði urðu meira og meira afskekktar þegar að samgöngur hættu að miklu leyti að fara sjóleiðina. Í dag hefur vegna þrjósku og myndarskap einnar bændafjölskyldu og afkomenda annara íbúa í Flatey varðveist perla sem að hægt er að flykkjast til. Hið afskekkta hefur snúist upp í aðdráttarafl.

DSC00839

Vonandi eru fleiri aðstandendur í ferðaþjónustu á landsbyggðinni sem átta sig á þessu...en engin spurning, bíómynd hjálpar.

Ég vona bara að bíómyndin geri ástandið ekki óbærilegt á háannatímanum. Flatey hefur mjög ákveðin félagsleg þolmörk - þau eru svona nokkurn veginn þau að það má ekki vera svo margt um manninn þar í einu að manni finnist að maður hefði allt eins getað verið heima hjá sér. Arctic games competition

Perlur eins og Flatey verða einstakar fyrir nokkurra hluta sakir. Flatey skartar bæjarmynd sem hefur verið varðveitt og viðhaldið og eiga sér enga líka á landinu, eru minnisvarði um arfleifð samfélagshátta sem að forfeður okkar sættu sig við, en fáir gera í dag.  Eins er þar náttúru- og fuglalíf sem þéttbýlis-manneskjan vill leita í sér til hugarhægðar og afþreyingar, ásamt því að finna frelsið í að vera stökk, fjarrri glaum og gys og asa borgarinnar. Farsímatengingar eru fjarri og ef eitthvað vantar, þá vantar það bara.

Back to basics, var þetta einu sinni kallað. Það er í tísku í dag. 

 

Hér má sjá liðið í leikjum. Við kölluðum það Arctic games competition og vorum nokkuð aðhlátursefni farþega af skemmtiferðaskipum sem komu í land með gúmmíbátum. 


mbl.is Metdagur í siglingum um Breiðafjörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bleika ryksugan og flugdrekinn

Jæja, þá gafst sú gamla upp, sá eðalgripur af ryksugu sem keyptur var fyrir um áratug eftir mjög svo skipulagðar rannsóknir undirritaðrar á neytendatestum bæði dönsku, bresku og amerísku neytendasamtakanna. Það átti greinilega ekkert að klikka í ákvarðanatökunni um væntanlega ryksugu, enda sú sem skrifar þá ólétt og óeðlilega skipulögð. Á þessum undratímum óléttunnar hef ég orðið alveg agalega upptekin af perfektionisma. Skrýtið, það er greinilega kveikt á einhverri hormónastarfsemi sem ertir heilastöðvar fullkomnunaráráttunnar í mínu tilviki.

Nema hvað, hún brann bara yfir, eðalgripurinn sem átti að endast heila ævi - AEG vampíran. Þar eð kötturinn er búinn að vera að leggja hárbreiðu yfir íbúðina á undanförnum vikum er hreinlega ekki hægt að lifa án gripsins góða. Svo nú voru góð ráð dýr. Ekki tími ég að eyða peningum í einhvern róbót sem getur ekki ryksugað ofnana hjá mér, eða farið milli púða í sófanum eða farið undir allar kommóðurnar og innvolsið í íbúðinni.

Ég skrapp út og kom að vörmu með bleikt tryllitæki frá Electrolux sem hafði í ofanálag unnið einhver hönnunarverðlaun.

Strákarnir urðu rosa glaðir enda gripurinn mjög aðlaðandi og ég fæ ekki betur séð en að það verði hreinlega rifist um að ryksuga hér á þessu heimili á næstunni, og ekki ætla ég að kvarta yfir því.

Heldur njóta með tærnar upp í loftið að lesa góða bók og glotta útí annað.

Við Elías skruppum síðan út í Viðey á fjölskylduhátíð til að smíða flugdreka. Það var hin mesta áskorun fyrir mæðgin enda ekki mjög æfð í slíku. Margar fjölskyldur láu einbeittar yfir þessu og margt meistaraverkið leit dagsins ljós. Okkar var bleikur og svolítið skakkur en gekk samt. Við lærðum að það þarf að gera góðan hala á gripinn til að hann virki vel. Gerum það næst. Veðrið lék við okkur og eftir þessa góðu endurfundi við eynna út á sundi er næsta víst að við notum tækifærið fljótt aftur til að fara og njóta náttúrunnar þar. 


Sól sól skín á mig á Marbjerg mark og Selsö marken

Hér er búið að vera yndislegt að vera og dvelja síðustu tvo mánuði. Ég hef átt innihaldsríka tíma hér og mun sakna alls þess góða fólks sem ég þekki og hef umgengist hér.  Tölvuskjárinn hefur togað en raunar líka sólin og það er búið að vera góð tilbreyting að geta borðað hádegismatinn undir berum himni án þess að sitja í flíspeysu.

Danmörk er yndisleg á þessum tíma. Tími blómsturs magnoliutrésins (sem er mitt uppáhald) er liðinn, repjan er einnig búin að hafa háblómatímabil og eplablómin eru orðin að ávaxtavísum.

Þegar ég lít yfir akrana hér sé ég að Danmark er yndig. Nú líða rauðir valmúar um túnin, vanga við grasið.

Ég svona seinþroska, átta mig fyrst nú á hvað Danmörk á mikil tök í mér, ég verð alltaf hálfbauni.

Það var hér sem ég mótaðist og þroskaðist og varð að fullorðnum einstaklingi. Hér sem ég fékk fyrstu höggin og upplifði margar af yndislegustu stundunum, t.d að eiga börnin.Heart

Nú mun ég svífa í faðm þeirra er heim kemur undir nótt. Ég er með svo mörg fiðrildi í maganum og hlakka svo til.

Laila vinkona sótti mig í gær og við sátum í garðveislu í Skuldelev og borðuðum, drukkum og spjölluðum í gærkvöldi með öðru fjölskyldufólki. 

Á föstudaginn sátum við Sören svo meðal rónanna í latinerhaven í HróarskelduSideways og ræddum saman um lífið og tilveruna og sleiktum ís. 

Ég hitti enn fleiri gamla fyrrum skólafélaga  á kirkjutorginu við mikinn fögnuð.

Danir hafa mikla yfirburði yfir Íslendinga í mannlegum samskiptum. Íslendingar eru alltaf að flýta sér, halda að þeir virki betur þannig út á við.

Ég á eftir að sakna þess héðan.

Best að fara að pakka og þrífa og ganga frá. 


mbl.is Sólríkasti mánuður í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komin heil og höldnu frá Rússlandi ofl

Ég lenti á heilu og höldnu (hvad ætli thad thýdi annars!) í morgun eftir vidburdaríka viku med Calotte Academy sem afreksmadurinn Lassi Heininen hefur borid hitann og thungann af sídan 1991 (geri adrir betur!).

Vid vorum í Inari í Finnlandi, Kirkenes í Noregi og Murmansk í Rússlandi.

Hitti gamla félaga eftir langan vidskilnad, t.d Tuula Tuisko, Larissa Riabova, Vladimir Didyk ofl. En kynntist lika nýju afbragds fólki, m.a íslendingum sem ég hef aldrei hitt ádur (er thad hægt?)

Samvera med fólki sem er skemmtilegt, vel gefid og hefur talsvert til málanna ad leggja er ein af mínum uppáhaldsidjum. Slík samvera reynir thó stundum á, eins og gengur, madur er saman frá morgni til kvölds (og stundum fram á morgunCool ef fjör er). Ég vona ad ég hitti flest thetta fólk aftur og er raunar viss um thad.

Efni fundarins í ár var "Climate change defining human security".

Nú er ég búin ad vera í nánast óslitinni vinnutörn í tvo mánudi en er samt afslappadri en oft ádur. Thad er svo skrýtid ad stress er mismunandi. Fólkid í kringum mann hefur heilmikid um thad ad segja hvort stressid verdur uppbyggilegt eda nidurbrjótandi, en audvitad líka hugarfar manns sjálfs.

Thó hér hafi ad mörgu leyti verid yndislegt ad dvelja aftur er ég farin ad hlakka mikid til ad koma heim til Íslands - get ekki bedid, tel dagana.


15 milljónir gistinátta á íslenskum tjaldsvædum!

Ég er ad taka saman tölfrædi í heimskautaverkefni thar sem vid erum m.a ad bera saman ferdamálin thvert á heimskautalöndin. Thar komst ég ad thví ad íslensk tjaldsvædi hafa notid mikilla vinsælda sérstaklega thau á Nord-Austurlandi og Sudurlandi á árabilinu 1997-2007 en thar var á hvoru svædinu um sig um 4 milljónir gistinátta. Alls voru 15 milljónir gistinátta á íslenskum tjaldsvædum á thessu tímabili. Í samanburdi vid thrjú nyrstu fylki Noregs en í nordanverdum Noregi er einn mest heimsótti ferdamannasegull Nordurheimskautslandanna Nord Cap, var tæplega 2,8 milljónum gistinátta eytt á árabilinu 2005-2008 (Nordland, Troms og Finnmark).

Thetta fellur víst undir irrelevante länderkundern, en skemmtilegt samt!Wink

 

 


Fór til Tromsö og keypti sippuband

Ég var á fundum í Tromsö. Hitti margt gott fólk og ræddi breytingar í strandsamfélögum. Hitti Jahn Petter gamlan vin min, nú fræðimann við Norsk Fiskerihögskole, og Hermann (íslending). Það var kallt veturinn var að byrja af alvöru í Tromsö, 90 cm snjólag þakti bæinn sem er aðlaðandi, sætur og þrátt fyrir að 60 þúsund manns búi í þessum iðandi háskólabæ, finnst manni maður samt vera að fara um smábæ. Maður skynjar hann eiginlega frekar eins og samsuðu af Ísafirði og Akureyri en tugþúsunda manna borg. Nema hvað, fyrst ég var þarna og var að láta mér leiðast síðustu tvo tímana áður en ég átti að fljúga til baka, keypti ég mér fenalaar (þurrkað lambakjöt) og sippuband. Nema hvað!

Danskir menn tilfinningalega opnari en íslenskir bræður!

Ég er búin að vera að endurnýja kynni við gamla skólafélaga og vini. Hitti Kenneth gamlan skólabróður minn í lestinni í dag sem nú er lektor við Hróarskelduháskóla í karlmennsku og kynjafræðum. Við skiptumst á upplýsingum á gömlum sameiginlegum vinum. Síðan spjölluðum við um lífið og tilveruna og hann sagði mér frá börnunum sínum, síðasta skilnaði og tilfinningum sem bærðust með honum í kjölfarið, og hvernig hann væri að takast á við það um þessar mundir. Ég er búin að vera að vinna með Sören sem var að missa mömmu sína um daginn. Hann er búin að vera að segja mér frá undanförnum ástarævintýrum, tilfinningum í tengslum við móðurmissi og almennt lífsins málum. Jóakim gamall skólafélagi sem nú er á krossgötum vegna þess að nýja kærastan hans er ófrísk og hann mun allt í einu breytast úr föður eins barns í fjögurra barna föður og er ekki alveg með doktorsstyrk í höfn enn hefur leitað mikið til min með andlegan styrk, held ég, og bara svona samveru almennt. Við Sören fórum í bæinn í gær að hitta Samal, þjóðskjalavörð færeyinga og okkar gamla vin frá því í náminu. Hann er nýskilinn eftir tuttugu ára samband og hafði þörf fyrir að ræða það þó það væri allt á rólegri nótum.

Ég er eiginlega alveg paff yfir öllum þessum umræðum um mikilvægari málefni lífsins við þessa gömlu félaga mína, því ég held hreinlega að íslenskur karlmaður myndi aldrei setjast með gamalli vinkonu/félaga og eiga svona auðvelt með að velta upp tilfinningalegum málefnum.

Ég verð að viðurkenna að ég kann ágætlega við einlægni í samskiptum og ég túlka þetta á þann veg að danskir karlmenn séu almennt meira í tengslum við eigin tilfinningar, allavega eiga þeir auðveldara með að tjá þær en íslenskir bræður þeirra. Við erum jú einu sinni bara mannfólk öll saman, lifum við sorgir og gleði, háflæði og fjöru eins og lífsins gangur er. Mér finnst allavega undursamlegt að vita að karlmenn lifa og hrærast, gleðjast og syrgja, eins og ég. 


Kæri Neytandi: Tengsl oregano-bónda við neytendur

Í framhaldi af markaðsferðinni minni á dómkirkjutorgið í Hróarskeldu hélt ég ferð minni áfram í Kvickly eina af matvörubúðum hérlendra. Ég stóðst ekki mátið að kaupa smá kryddjurt til að flikka upp á matinn með og til að prýða gluggasylluna heima hjá mér í turninum.

Kryddjurtin, Oregano var í leirpotti og hjúpuð plastumbúðum. Á þeim stóð (í lauslegri þýðingu):

"Kæri Neytandi.

Ég heiti Christen Olsen og er fjórða kynslóð kryddjurtabænda í fjölskyldunni. Fjölskyldan hefur í meira en öld fengist við að rækta grænmeti og kryddjurtir í Torslunde við Kaupmannahöfn. Ég byrjaði strax að fást við eigin kryddjurtarækt um átta ára aldur, þá í garðyrkjustöð foreldra minna. Siðan 1980 hef ég verið sjálfstæður bóndur og rekið eigin garðyrkjustöð en við ræktum margar ólíkar kryddjurtir sem eru vítamínríkar, steinefnaríkar og eru bæði ilmandi og bragðefnaríkar.

Við ræktum í leirpottum af því að það gefur rótunum betra súrefnis og vatnsjafnvægi og vegna þess að það bætir geymsluþol jurtarinnar en heldur einnig betur bragði og ilmi.

Skordýraeitur er bannfært í okkar ræktun. Við nýtum lífræna vernd þar sem náttúran hefur sinn eigin gang. Við nýtum t.d mikið af maríuhænum í gróðurhúsunum sem elska blaðlús."

Svona hélt þulan áfram.

Ég held að svona markaðsaðgerðir virki. Christen Olsen hefur þegar höfðað til mín og vitandi að hann gerði sér ómak við að koma plöntunni minni á legg, mun ég passa hana betur og njóta hennar í ýmsa góða rétti. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband