Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
26.9.2007 | 20:26
The Unnatural History of the Sea
Ég keypti mér bókina The Unnatural History of the Sea eftir líffræðinginn Callum Roberts. Hún er einkar forvitnileg og í flokki um tugs bóka sem hafa verið gefnar út á undanförnum áratug, en íslendingar hafa lítið veitt athygli .(t.d.Goodwin 1990, Blades 1997, Suzuki 1997, Dwyer 2001, Clover 2005).
Gnægð lífvera í hafinu eins og því er lýst í rituðum heimildum frá miðöldum væri algjörlega óhugsandi í dag samkvæmt höfundi (ég get þó ekki varist að hugsa um loðnuna sem ég sá fljóta í hrönnum eins og silfur á yfirborðinu við Ísafjörðinn í Ilullisat í fyrrasumar). Útgangspunktur hans er að greina frá sögu fiskveiða víða um höf frá miðöldum til okkar daga.
Ég er ekki búin að lesa bókina enn, en hún greinir frá sögu ofveiða af ýmsum svæðum heims. Myndirnar í bókinni eru einkar áhugaverðar af því að á flestum þeirra má sjá risastóra fiska sem ekki er lengur á hægt að veiða á þeim svæðum sem að þeir eru myndaðir á (í byrjun eða um miðbik tuttugustu aldar). (Þá man ég eftir öllum undirmálsfisknum á fiskmarkaðnum á Norður Spáni sem ég heimsótti seint árið 2004).
Hlakka til að lesa þessa bók í 36 stunda ferðalaginu mínu sem ég á fyrir höndum.
25.9.2007 | 22:16
Schwartzenegger, Jena6, Ahmadinejad og O.J.
Fjölmiðlar hér vestra eru fullir af umfjöllun um bæði fyrirmenn og skúrka. Allar fréttir eru fullar umfjöllun um ræðu Ahmadinejad í Kólumbiaháskólanum í gær. Mikið hefur verið gert úr mismæli hans (að eigin sögn) á staðhæfingu um að ekki væru samkynhneigðir í Íran. Einræðisherrann brosir þó sínu breiðasta í myndavélarnar (hann veit sem er, að sviðsljósið er mikilvægt). Íran er ekkert lýðræðisríki þar er internetumferð undir miklu eftirliti stjórnvalda (eins og í Kína og fleiri stöðum), þar er tjáningarfrelsi ekki í hávegum haft, ætti því einhverjum að koma á óvart að minnihlutahópar og samkynhneigðir séu heftir?!
Bush er í svo mikilli vörn gagnvart Vesturlöndum vegna loftslagsmála og mengunar aðgerðaleysis að hann sendi flokksfélaga sinn Schwartzenegger á fund þjóðarleiðtoga hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Forsetinn er stoltur af aðgerðum hans í Kaliforníufylki, var haft eftir honum í blöðum hér. Hann ætlar því að sýna auðmýkt og mæta einungis í galakvöldverð þjóðarleiðtogana.
Það er rétt og að nokkru athyglisvert að Schwartzenegger og aðrir fylkisstjórar í vestri og austri (mið- og suðurríki eru alveg apatísk í umhverfismálum) hafa tekið frumkvæði að aðgerðaáætlunum í umhverfismálum, vegna frustrationa yfir því hvað stjórn Bush yngri hefur verið með allt á hælunum. Hér er því að hægt að tala um bottom-up approach, ef svo má að orði komast. Eða Bandaríki ríkjanna (eins og Evrópa svæðanna). Eftir því sem ég best veit er Kalifornía með eigin útblástursviðmið, í Massachussets er verið að fara að taka upp koltvísýringsskatta og svo mætti lengi telja (hvenær ætli Montana taki upp Methan skatt af blessuðum beljunum?)
O.J.Simpson, uppáhaldsskúrkur þjóðarinnar er búin að vera mikið í fjölmiðlum vegna vopnaðs ráns, sem ég satt best að segja hef ekki nennt að setja mig inn í . Ég horfi bara á líkamstjáningu fréttamanna og átta mig á að enginn þolir þennan mann hér.
Á meðan hefur ýmislegt merkilegt verið að gerast. Í litlum bæ Jena í Louisiana við menntaskóla sem enginn hafði heyrt um áður, varð uppi fótur og fit fyrir hálfu ári þegar að þeldökkir skólabræður mygluhvítra drengja spurðu hvort þeir mættu standa með undir tré sem var hangs-staður hinna hvítu í skólanum. Þeir játtu því, en daginn eftir var búið að setja upp táknrænar hengingarólar i sama tré. Skólayfirvöld brugðust við og felldu tréð og vísuðu meintum sökudólgum úr skóla. Hálfu ári síðar urðu áflog þar sem einn hvítra nemenda var barinn til óbóta. Sex þeldökkir drengir voru handteknir og sakaðir og dæmdir fyrir morðtilraun. Nú eru að verða 40-50 ár síðan að kynþáttamálin voru í brennidepli síðast her í landi. Þúsundir ameríkana allstaðar að flykktust til Jena bæjarins til að mótmæla kynþáttabundnu óréttlæti. Það er skemmst frá því að segja að ameríkanar eru mjög skeptískir á eigið dómskerfi, ekki síst vegna tilburða forseta landsins til að pólitísera dómstóla á síðustu kjörtímabilum. Það var þetta sem fyllti mælinn. Blaðamenn voru í sjöunda himni, loks eitthvað almennilegt að segja frá.
Hér í Alaska er líka fjör. Það stendur yfir dómsmál yfir Kotts fyrrum þingmanni fylkisins (og fylkisstjóra) sem virðist hafa hagað sér eins og vitsmunalegur dvergur í embætti. Hann á að hafa þegið mútur frá VECO, stóru verktakafyrirtæki í olíunni og í áraraðir hagað pólitískum málstað sínum eftir hagsmunum, seðlum,áfengi og ýmiskonar sukki frá fyrirtækjum. Hann var semsagt engan veginn fulltrúi almennings eða kjósenda, fremur gráðugur grís með siðblindu á háu stigi. Ég skil ekki hvernig svona fólk getur komist til valda og fær að sitja í áraraðir.
Ég er endalaust að segja samstarfsfólki mínu fréttir, en það virðist enginn nenna að horfa á fréttir hér. Ekki einu sinni háskólafólk. Það láta sig fáir hér sig varða fréttaflutning, nema háskólanemar og einstaka sérfræðingar. HUMM - Krufl, krufl!
24.9.2007 | 05:21
Haustlitir í villta vestrinu
Þetta skrýtna og stórbrotna land, Ameríkan, færir mér alltaf hálfgerða andkófstilfinningu. Ég dvaldi um stund í Leverett, smábæ/sveit í Massachussets fylki að vinna áður en ég kom hingað norðvestur til Alaska. Í gær var eini dagurinn sem ég átti til að nota í afþreyingu og ég fór í siglingu frá Seward um firðina við Blying sound. Sá hryssingsleg fjöllin, jöklana m.a hinn ört smækkandi Ailik jökul, vöðusel, sæljón sofandi á hólma, svartabirni að ná sér í soðið, mjaldahvali, "orcas", otra osfrv. Það var frábært veður svo ekki sé meira sagt en auðvitað farið að hausta og hér í Alaska er stutt í harðan vetur. Lundarnir voru því farnir til sjávar, einhverjar nokkrar álkur eftir sem biðu haustsins á klettum.
Ég blandaðist hópi af efnafræðingaráðstefnu og eignaðist vinkonu úr þeim hópi. Hún heitir Judith Auslander og býr í Westport. Hún sagði mér að hún væri alin upp í Moldavíuhluta Rúmeníu og hefði eftir stríðið farið til Ísrael í nokkur ár en ekki alveg fílað það. Hafði síðan sem 24 ára ung kona komið til Bandaríkjanna og gifst þýskum gyðingi sem var innflytjandi í Bandaríkjunum. Mér finnst eftirnafnið hennar svo flott og lýsandi "auslander". Hún elskar Evrópu og finnst Bandaríkjamenn hátt talandi með eins og hún sjálf sagði "bad manners", en er ein af þeim, einhvern veginn. Hún bar okkur Íslendinga við Japani og sagði, já þið eruð ennþá svona "homogenic". Henni fannst það svolítið flott, en arrogant!
Ég er annars búin að vera umvafin fólki sem hefur svo áhugaverðar sögur að segja. Fyrstu dagana vorum við Jack, Marie og Larry að vinna. Jack og Marge konan hans fluttu frá Alaska til foreldra hennar svo þau gætu gætt þeirra betur síðustu lífdagana. Þau lifa enn foreldrarnir, eins og blóm í eggi, Fred og Betty. Marge er fædd og alin upp í Íran þar sem faðir hennar Fred var kristniboði. Hann er prestur og við kvöldmatartíma var hann við stjórnvölinn búin að elda guðdómlegan persneskan mat sem við nutum saman eftir borðbæn. Ég hef ekki alist upp við slíkt en að upplifa slíkt er að mörgu leyti yndislegt, af því boðskapurinn er að þakka fyrir matinn áður en hans er neytt, og þarmeð verður kvöldmatarstundin heilagri og mikilvæg samverustund að auki.
Fred er yndisleg persóna sem lenti í því að vera gerður að útherja Bandaríkjastjórnar eftir byltinguna í Íran þegar að gíslatakan átti sér stað. Fred þekkti vel til þar í landi átti marga vini og var eins og milli steins og sleggju í gíslaviðræðunum. Hann var vel virtur í Íran sem kristilegur trúboði en átti lítið upp á pallborðið hjá klerkastjórninni, þó að honum væri tekið með ákveðinni virðingu af fulltrúum hennar. Hann sagðist að sumu leyti hafa upplifað meiri arrogans og fyrirlitningu fyrir lífsafstöðu og aðstæðum fólks í Íran meðal fulltrúa Bandaríkjastjórnar. Hafði meðal annars upplifað að ganga inn á skrifstofu Ollie North þáverandi varnarmálaráðherra og við blasti stórt plakat með orðunum "Khomeini eats pork". Vitsmunirnir voru ekki á hærra stigi.
Ég gekk marga göngutúrana á fallegu landsvæði þeirra með árfarvegi sem hægt var að baða sig í , um plantekrur með ávöxtum haustsins ber af ýmsu tagi og epli og naut íkornana. Marie samstarfskona hló að mér þegar ég tók upp hnetur af götunni og dásamaði. Þær eru í tonnum á þessum árstíma íkornunum til mikillar gleði, og íslendingnum til mikils yndisauka.
Jack og Marge eru ævintýrafólk sem hafa lent í ýmsu. Voru meðal annars að segja mér hérna eitt kvöldið yfir matnum að þegar verið var að vinna í SLICA rannsókninni var mikilvægt að viðtalsvinnan í Rússlandi gengi vel fyrir sig. Starfsmaður verkefnisins í Chukotka var í vandræðum með peninga og því þurfti að bjarga. Þó að það sé næstum hægt að sjá héðan til Rússlands er engu beinu flugi fyrir að fara milli Alaska og Chukotka (Allir vegir liggja til Moskvu). Starfskonan og vinir í olíugeiranum í Barrow höfðu því gírað milljarðamæring svæðisins til að lána einkaflugvél sína til að flytja rannsóknarféð. Þau hjón sögðu það vissulega hafa verið undarlega tilfinningu að stíga uppí flugvél Abromovitz og fljúga yfir. Það tókst og verkefnið hafði sinn gang.
Til að vinna þvert á landamæri hér í norðrinu þarf maður að vera tilbúin að setja blóðið á ísstig og framkvæma hlutina. Ég er til dæmis ábyrg fyrir að safna gögnum um ferðamál þvert á norðurheimskautið og hef vægast sagt kvíðatilfinningu fyrir hvernig mér eigi að takast það í Rússlandi. En kannski tekst það með hjálp góðs fólks.
Eitt er allavega víst að ég er búin að vera að kynnast mikið af óhemju góðu fólki hér sem ýtir undir hamingjutilfinningu og bjartsýni. Það spillir heldur ekki fyrir að hér er náttúra og landslag alveg ógleymanlegt. Litirnir sem ég upplifa sterkar og lyktin sem ég skynja betur er örugglega góðs viti fyrir framhaldið.
15.9.2007 | 11:30
Afturför í sláturgerð! Vambaleysi sláturhússtjóranna.
Blaðið er með umfjöllun um sláturgerðarfólk sem heldur hefðinni á lofti og tekur slátur á hverju hausti. Raunar kom í ljós þegar betur var að gáð að enginn viðmælendanna hafði tekið slátur síðast en tvö gerðu það reglulega. Ég elska slátur af dekkri gerðinni, þ.e blóðmör og er alveg sama um kaloríurnar sem fylgja fitukögglunum, þetta er örugglega mun hollara en gegnum-unnar pepperonipylsur kjötvinnslanna.
Því miður hefur orðið talsverð afturför eftir að yngri kynslóð framkvæmdastjóra tók við sífellt fækkandi sláturhúsum landsins. Þó ekki ætli ég að rekja þessar breytingar er ég á því að það hafi verið til mikillar miska fyrir bændur í landinu og dýravelferð sláturdýra. ...En nóg um það. Það eru VAMBIRNAR. Þær eru úr óætu plasti nútildags og fást ekki öðruvísi. Ég veit að Hildur nágrannakona mín á Hvanneyri forðum daga vissi orðið um eitt sláturhús á landinu sem eftir var sem hægt var að semja við um ekta vambir. Það er auðvitað búið að loka því.
Slátur er engan veginn það sama án lífrænna vamba. Ég þekki engan sem étur plast og hef aldrei orðið þess áskynja að það bæti bragð matarins. Ég ætla að kenna framkvæmda- og verkstjórum sláturhúsanna um þessa leiðinlegu afturför....og þó þeir sjálfsagt væli um að erfitt sé að fá fólk í svo mannaflafrek störf, þá er þetta einungis spurning um forgangsröð í ákvarðanatöku og spurning um djúpstæðari skilning á því hvað er bragðgóður og heilsusamlegur hefðarmatur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2007 | 12:14
Áhrif leiðinlegra forstjóra
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Var að hlusta á Vilhjálm Bjarnason útskýra afhverju íslenska krónan væri ekki lengur eftirsóknarverður gjaldmiðill í íslensku viðskiptalífi. Kjarni máls hans var að íslenska krónan væri orðinn leiksoppur spákaupmennsku. Eins og ég held stundum að Vilhjálmur sé fljótfær í ályktunum held ég raunar að hann hafi svolítið á réttu að standa nú. Þetta hlýtur að eiga sérstaklega við þegar að sífellt fleiri fyrirtæki færa uppgjör sín yfir í evru. Þá eru það einstaklingarnir og meðalstór og lítil fyrirtæki, opinberar stofnanir og frjáls félagasamtök sem taka mið af krónunni og eru leiksoppar vaxtastefnu þeirra fyrirtækja sem velja að skrifa bókhaldið sitt í erlendri mynt. Mér finnst þessi umræða að hluta til svolítið barnaleg þó. Við erum ekki fullgildir aðilar að Evrópusambandinu og því höfum við ekki boðskort inn í myntbandalagið getum við ekki breytt um gjaldmiðil sem þjóðríki. Það væri marklaust skref. Svo er annað að ekki er víst að við fengjum neitt boðskort inn í myntbandalagið þó við værum fullgildir aðilar að Evrópusambandinu. Þar myndi til dæmis ríkjandi vaxtastefna og stefna í ríkisbúskap standa okkur fyrir þrifum. Þetta snýst um hver hefur fjármálastjórnunarvöld í landinu. Ég er sannfærð um að það er af því góða að íslenskt viðskiptalíf hefur verið að opnast og að hagkerfið sé ekki eins gegnumsýrt af flokkspólitískum hagsmunum og áður gat gerst. Það breytir þó ekki því að stjórnvöld hafa hlutverk í að skapa ramma fyrir efnahagslífið þannig að fyrirtæki geti þrifist almenningi í landinu til hagsbóta. Mér sýnist svolítið að þetta hafi verið að taka á sig snúning að undanförnu. Nú vilja forstjórar stórfyrirtækja vera í hlutverki fjármálaráðherra, efnahagsráðgjafa ríkisins og seðlabankastjóra að því leyti að þeir vilja eiga síðasta orðið um fjármála- og vaxtastefnu ríkisins. Heima hjá mér væri talað um yfirgang, en það getur auðvitað verið að fólki finnist eðlilegt að stórfyrirtæki stjórni stjórnmálamönnum og ákvarðanatöku lýðræðislega kosinna fulltrúa almennings. Stjórnendur fyrirtækja sem vinna og starfa þvert á landamæri eða eru í útflutningi geta vissulega fært bókhald sitt í erlendum (yfirþjóðlegum) gjaldmiðli, og jú forsvarsmenn fyrirtækjanna okkar geta beitt stjórnvöld þrýstingi með því að ulla framan í yfirmenn stjórnvalda og gefa í skyn að þeir vilji ekki lengur vera memm af því að þeim finnist stefna stjórnvalda ekki hagstæð fyrir sig. En mér sýnist að í landvinningum sínum og yfirtökum á öðrum fyrirtækjum erlendis séu þessi sömu fyrirtæki að díla við allskyns þröskulda og yfirfærslur (bæði í menningarlegum, viðskiptahefðalegum og fjármálalegum skilningi) og sem verður grundvöllur að hæfileikum þeirra í samkeppni og starfi. Ekki setja þau það fyrir sig, eða hvað. Aðdáun samstarfsbræðranna byggist einmitt á hæfni þessara sömu einstaklinga til að klífa yfir þessar hömlur.
Ég held að við séum svo heppin að eiga snjalla kaupsýslumenn (hver hefði trúað því fyrir 20 árum?). Sumir eru kaldrifjaðri en aðrir, sumir snjallari í refskák, aðrir hugmyndaríkir osfrv...en það er staðreynd að enginn þeirra er lýðræðislega kjörin af almenningi með kosningarétt til að fara með fjárreiður ríkisins.
Viljum við sem þjóð hlýta einhlýtri fjármálastjórn stórfyrirtækja?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2007 | 23:34
Fjölmenning eina leiðin framávið!
Fyrir sex árum síðan urðu uppþot í Bradford í Jórvíkurskíri á Englandi sem skildu hluta borgarinnar eftir í rústum. Þessi uppþot fóru kannski ekki eins hátt og uppþotin í úthverfum Parísarborgar árið 2005 en spruttu uppúr svipuðum aðstæðum þar sem félagslegar andstæður innflytjenda og dapurlegar framtíðarhorfur urðu farvegur fyrir árásarhneigð og uppreisnaranda. Birtingarmynd sífellt vaxandi tortryggni milli múslima og ekki-múslima. Í sumar þegar ég var í Leeds rak upp á fjörur mínar fyrsta tölublað tímaritsins The Suburb, skrifað af múslimum sem búa í Bradford, Burnley, Oldham og Leeds. Í blaðinu gætir margra grasa. Þar er umfjöllun um hvernig Múhammeð boðar víðsýni, skilning og auðmýkt gagnvart öðrum menningarheimum. Þar er einnig grein um frelsishugtakið í kóraninum ásamt mjög forvitnilegri grein um umhverfismálahreyfingar meðal múslíma í samtímanum. Mér fannst verulega gaman að lesa flestar greinar þessa tímarits. En það fékk mig líka til að hugsa að ég hef eiginlega aldrei lesið tímaritsgreinar skrifaðar af múslimum á vesturlöndum um Íslam ef frá er talið félagsfræðilegt efni eftir Naser Khader.
Það er umhugsunarvert. Kannski birtingarmynd þess að efni með íslömskum gildum á ekki upp á pallborð ritstjóra fjölmiðla nema í gegnum þéttmöskvaðar síur nútildags. Ég er sannfærð um að fjölmenning er eina leiðin framávið í vestrænum borgarsamfélögum í dag og því fagna ég að innflytjendur sýni það framtak sem tímaritið the suburb er dæmi um. Það efldi minn skilning á að ein heitasta óskin sem múslímar og aðrir eiga sameiginlega er friðsamleg samvera.
Læt að endingu fylgja boðorð úr síðustu ræðu spámannsins Muhammat frá Hajj
"People, remember all mankind is from Adam and Eve. An Arab has no superiority over a non-Arab nor does a non-Arab have any superiority over an Arab. Also, a white has not superiority over a black nor does a black have any superiority over a white - except by piety and good action. Nothing shall be legitimate to a Muslim which belongs to a fellow Muslim unless it was given freely and willingly. Do not therefore do injustice to yourselves. Remember one day you will meet Allah and answer your deeds. So beware: do not stray from the path of righteousness after I am gone."
26.7.2007 | 23:46
Fjör í hvalfjarðagangaáformum!?
3.7.2007 | 09:55
Orð í tíma töluð - Skynsemisrödd formanns sjómannasambandsins
Mikið var gaman að heyra skynsemisafstöðu sjómannasambandsins í viðtali við Sævar Gunnarsson í kaffispjalli morgunútvarps rásar 1 í morgun til fyrirsjáanlegs niðurskurðar í þorskveiðiheimildum. Sævar var skeleggur og rödd hans endurómaði ekki eignahaldshagsmuni í sjávarútvegi sem gjarnan hefur fengið að hljóma hæst í umræðu um sjávarútveginn á Íslandi hingað til. Sævar taldi að svo mikið væri í húfi, svo margir samverkandi þættir sem hefðu haft áhrif á slæmt ástand stofnsins. Hann taldi að hér við land hefðu verið stundaðar ofveiðar að því leyti að hingað til hafa stjórnvöld ávallt látið undan þrýstingi og aukið aflaheimildir miðað við ráðlagt umfang. ORÐ Í TÍMA TÖLUÐ. Hann lagði áherslu á að þó að vísindi HAFRÓ væru ekki óbrigðul eins og beinhörð dæmi sýndu væri ekki ráðlegt að hundsa ráðleggingar þeirra. KOMIN TÍMI TIL AÐ HAGSMUNAAÐILAR Í SJÁVARÚTVEGI SJÁI LENGRA FRAM Í TÍMANN EN NEF ÞEIRRA NÆR. Sjálfbær þróun veiða byggist á því að komandi kynslóðir geti fengið að njóta viðlíka eða ríkari auðlinda hafsins en núverandi. Hið sjálfbæra verður oft svona flottur innpökkunarfrasi í umræðunni um fiskveiðistjórnunarkerfi sem lítið innihald er í, ef langt er milli orða og efnda.
Sævar fullyrti að brottkast væri enn stundað þó það hefði hugsanlega eitthvað dregið úr því síðan það var í hámarki um aldamótin (2000). ÓþARFI AÐ ÞYRLA RYK Í AUGU FÓLKS. Margt taldi hann bogið í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og nefndi helst leigukerfið og ýmis undanbrögð, eins og löndun framhjá vigt og annað. ...Ég er sammála þessu. Fólk mér nátengt talar stundum um hvernig fiskveiðitegundir skipta um ham á vigtinni, þorskur verður eitthvað annað....segi ekki meir. Ég gæti orðið lögsótt.
Hann taldi að byggðakvóta (aukning í hlutfalli hans af heildaraflaheimildum) væri ekki EITT svarið við eða ákjósanleg mótvægisaðgerð við byggðavandanum sem nú blasir við. ÉG ER einnig SAMMÁLA ÞESSU!
Það er verið að færa vandann til, miðlæg stjórnvöld munu þá geta fríað sig. En dæmin utan úr heimi og úr ýmsum byggðarlögum hér heima sýna í fyrsta lagi að það verður ósætti og menn eiga erfitt með að komast að niðurstöðu um hver eigi að hreppa aflaheimildir, og það hleypur "nepótismi/tilhneiging til að hygla ættingjum, vinum og þeim sem standa nærri" í úthlutunarferlið. Með því getur skapast órofa klofningur sem verður ljótur eða blundar undir niðri í nærsamfélaginu og eitrar út frá sér í samskiptum fólks í daglega lífinu. Ég þekki þess dæmi t.d frá Djúpavogi að maður hafði sótt um byggðakvóta í fimm ár og átti 25 ára veiðisögu í samfélaginu en fékk ekki þó aðrir með styttri sögu væru að fá. Ég þekki ekki mál nánar í þessu tilfelli, en ég hef hins vegar á viðtölum mínum um landið við konur í sjávarútvegi fengið að heyra fleiri dæmi þessa að úthlutun byggðakvóta væri verulega bogin. Svo ég er þess fullviss að Sævar hefur á réttu að standa með því að reyna að leysa mál og stemma stigu við byggðavanda með auknum byggðakvóta er ekki verið að gera byggðunum greiða.Ég tel þó að byggðakvóti verði að vera til staðar að einhverju leyti sem mótvægi við markaðskvótakerfið.
Ég hef lengi verið talsmanneskja þess að endurskoða beri úthlutunarkerfi veiðiheimilda verulega með það að leiðarljósi að opna stjórnsýsluna betur almenningi með beinharðari þáttöku ýmissa fagaðila að því ferli (slík stjórnsýsla hefur oft verið nefnd á ensku "co-management"). Þetta er ekki auðvelt og því miður hef ég nokkrar efasemdir um að í stjórnsýslunni búi sá félagslegi og faglegi þroski sem þarf til að menn beri virðingu fyrir sjónarmiðum mismunandi aðila í ákvarðanatöku - og eins að stjórnmálamenn láti sig það varða. En ég vil vera bjartsýnismanneskja og tel verulega að það þurfi að setja endurskoðunarferli í gang í þessu máli.
Sævar talaði einnig um að hann teldi að oft gleymdust sjómenn í núverandi umræðu um við hverjum vandinn blasi og að þar væri fyrst og fremst talað um útgerðarmennina (sem eru eignaraðilar í sjávarútvegi eða reka skipin) og fiskvinnslufólk en að sjómenn þeir sem sækja sjóinn væri stór hópur sem gleymdist í umræðunni. Ég hef til dæmis ekki skilið af hverju hafa fulltrúar sjómanna (þeirra sem eru að veiða fyrir okkur og eru ekki LÍÚ fólk) hafa ekki fengið að hafa meiri áhrif á ákvarðanatöku um sjávarútveginn hingað til! Hvernig væri nú að endurskoða það!!!!
20.6.2007 | 15:02
Aftur um vinnuafl á faraldsfæti
Ýmsar goðsagnir verða til um innflytjendur. Goðsagnirnar festa innflytjendur í ákveðnum hlutverkum sem leiðir til alþjóðlegrar verkaskiptingar innan þjóðlegra marka þar sem þörf er á innfluttu verkafólki. Í Bretlandi hefur þannig orðið rótgróin hugmynd um Fillipseysku hjúkrunarkonuna, Karabísku barnfóstruna osfrv. Í Asíu hefur hugmyndin um tælendinga og vefjariðnað orðið ansi samofin. Í Bandaríkjunum er talað um mexíkanana í landbúnaðinum og latinó-fólk í matvælaiðnaði. Í London er talað um indverjana í samloku- og kaffibúðunum og raunar í öðrum þjónustustörfum. Þannig hefur orðið til ansi rótgróin hugmynd um pólska pípulagningamanninn. Um 120 þúsund pólverjar starfa í Noregi í dag, Um 250 þúsund starfa Bretlandi. Í Tékklandi eru það slóvakar sem er stærsti hópur iðnverkafólks af erlendum uppruna. Því miður hefur það orðið svo að sú hugmynd hefur orðið hávær í Bretlandi að pólverjar séu komnir til að stela störfum frá landsmönnum. Þetta á ekki við nokkur rök að styðjast því að það er hrópandi þörf eftir innflutningi vinnuafls í byggingariðnað og ákveðin þjónustustörf.
Mjög líklegt er að svipað sé uppi á teningnum í Kína þar sem kvika hefur orðið og mikið er um vinnuafl á faraldsfæti innanlands og þá aðallega frá vestri til austurs - en ljóst er að þjóðirnar og þjóðarbrotin eru þá nokkuð önnur, samsetning og goðsagnir aðrar.
Stærstu innflutningsþjóðir erlends vinnuafls eru Bandaríkin og Rússland - stærstu útflytjendaþjóðir heims eru Mexíkó og Kazakstahn. Þannig flytja Mexíkanar til BNA og Kasakstanar til Rússlands. En hæsta tíðni vinnandi fólks af erlendum uppruna er að finna í löndunum Lúxemborg, Kanada og Sviss (eða yfir 50% vinnandi fólks). Hér er auðvitað verið að gera fólk upp í ríkisborgararétti (umhugsunarefni ef fólk er búið að búa lengi á svæðinu).
Helmingur þessa fólks eru konur. Á Fillippseyjum eru konur helst hvattar til að fara. Ríkið treystir á fjárframlög þeirra. Oft eru þessar konur mæður og í þeim tilfellum taka ættingjar við uppeldiskeflinu en brottflutta konan verða fjárframlagsuppspretta fjölskyldunnar að utan. Slíkt breytir eðli móðurhlutverksins á mjög róttækan hátt. En hugmyndin um hlutverk móðurinnar hefur lengi einkennst af nánd, sterkum tengslum milli móður og barna. Það má ímynda sér að þetta horfi þannig við móðurinni að hennar samfélagsskylda stangist á við þörfina fyrir að kynnast börnum sínum náið.
Þegar maður reynir að bera samtímann saman við aðstæðurnar í Bretlandi eftir seinni heimstyrjöldina er ýmislegt líkt og annað ólíkt. Það sem er líkt er að það var mikill skortur á vinnuafli á bretlandi þá eins og er nú. Margar samverkandi ástæður ullu þessu, margar hendur þurfti til að vinna við uppbyggingu samfélagsins, þá var að konur voru draga sig út af vinnumarkaði inn á heimilin og vinnumarkaður dróst því verulega saman, en eins voru margir sem höfðu sinnt hernaði að hverfa aftur til síns heima; fyrrum nýlendna breta, skólaskyldualdur hækkaði einnig.
Það má segja að það hafi verið heppni breta á þessum tíma (þó kaldranalegt sé) að um 9 milljónir manns voru heimilislausar í Evrópu á þessum tíma. Bretar lögðu áherslu á að flytja inn konur og þeir forgangsröðuðu þeim. Þannig voru fluttar inn 18 þúsund konur. Margar þessara kvenna voru úr Eystrasaltsríkjunum, fátækar, grindhoraðar og niðurbrotnar eftir vinnubúðastrit og stríðið. Þarna fór fram eins konar "stock exchange of bodies" þar sem framboð og eftirspurn bætti hvert annað upp. Svipað og í dag þar sem er hagvöxtur og markaður og eftirspurn eftir vinnuafl þar má greina helstu aðliggjandi strauma vinnuafls á faraldsfæti.
Samkvæmt Lindu formgerast "etnísk" stigveldi í slíkum breytingum, bæði þá og nú. Oftast er viðmiðið sem liggur til grundvallar húðhvíta. Þannig var litið á konur úr Eystrasaltinu sem hreinar af góðum rótum (Baltic cygnets - clean of good stock), mögulegar mæður breta framtíðarinnar. Húðhvíta er notuð til að meta hvar í stigveldinu þú hefur möguleika á að staðsetja þig. Ýmsar tilfærslur urðu á sjálfsmynd fólks vegna þessa. Til dæmis urðu Írar allt í einu hvítir í Bretlandi en ekki lágstéttar- svertingjar eins og þeir höfðu upplifað sig í eigin landi gagnvart bretunum. Sú sjálfsmynd styrktist þegar bretar tóku að flytja skipulega inn fólk til vinnu frá Karabísku nýlendunum...
Já þessi heimur, félagslega umgjörð hans og hagrænn ráðahagur (imperative) er óumræðanlega margræður. Hér erum við að upplifa kapítalismann beint í æð en hann er auðvitað að anda í gegnum reynslu og upplifanir fólks sem þarf að flytja búferlum til að skapa sér og sínum aukin efnahagsleg tækifæri. Hvatar að flutningum eru auðvitað af ýmsu tagi, en ekki er hægt að horfa framhjá því að sífellt hnattvæddari fjármálageiri lifir góðu lífi á fjármagnsyfirfærslum alþjóðlega. Talið er að fjármagn að jafnvirði um 18 milljarða bandaríkjadala sé flutt í fyrrnefndum tilgangi (frá erlendum verkamanni til fjölskyldu heima) Í HVERJUM MÁNUÐI. Það er meira það fjármagn sem fer í þróunarhjálp. Hið hnattvædda samtengda heimshagskerfi er því háð "remittances" sem smyr gangverk vélarinnar ásamt öðru eldsneyti. Peter Dicken og félagar (Global Shift 2007) nefna reyndar svolítið aðrar upphæðir en Linda. Samkvæmt þeim jafngiltu fjármagnsyfirfærslur af fyrrnefndu tagi um 173 milljörðum bandaríkjadala árið 2003. Bara til Rómönsku Ameríku og Karabísku eyjanna var umfangið 54 milljarðar bandaríkjadala árið 2005, meira en samanlögð fjármagnsflæði Beinna erlendra fjárfestinga og þróunarhjálpar. Það segir allt sem segja þarf.
Landfræði fjallar um fólksflutninga (af ýmsu tagi), ný tengsl milli hins staðbundna og alþjóðlega, milli sjálfsmyndar og að heyra til einhversstaðar. Landfræði lætur menningarlega heimsveldisþróun varða, samfélög, staðfélög í tengslum við goðsagnir og tengslin milli hér og þar og svo framvegis.
enda á tilvitnun úr Dicken et.al (2007)
"For some people, remittances allow them to buy a basic basket of essential goods," says Rodolf Tuiran, of Sedesol, Mexico's social development ministry. "But overall, in terms of poverty, remittances do not have a significant impact. They do, however, have an important impact on inequality - they increase it. Of every $100 received, $75 goes to homes that aren't poor". Anecdotal evidence support this. In areas of high migration, the houses in good repair, with a satellite dish, are the ones that receive remittances."