Færsluflokkur: Bloggar

Reiðitjáning og innilegir formannskossar

Íslenskt samfélag iðar af lífi þessa dagana. Lýsingar af stjórnarmyndunarviðræðunum er í stíl við lýsingar í dýralífsmyndum frá BBC. Á meðan keyrir reið kona ofan í bílakjallara kringlunnar um miðja nótt og úðar lykkjum á skilti. Kannski átti hún harma að hefna, hafði verið svikin um kaupið sitt í einhverri verslun samtíma lystigarðs okkar neytenda. Hver veit. Ég er allavega sammála því að þetta er meira skemmtifrétt en samfélagskrufning í fréttaformi og álitamál hvort að slíkur fréttaflutningur eða miðlun vefsjónvarpsbúts á rétt á sér Big brother. Geir og Ingibjörg eru sýnd kyssast á mynd í fréttablaðinu og staðhæft að þau séu hin innilegustu m.a í rembingskossum þessa dagana. Ja, ástin hreiðrar víða um sig á vordögum, t.d í skólaskjóli sonar míns en þar hafa tveir samstarfsmenn nýlega náð saman. Ég veit ekki hvað mér finnst um svona fréttaflutning - ég er svo rotleiðinleg að mér finnst þetta jaðra við að verið sé að höfða til einhverra lægri hvata fólks en upplýsa það....veit ekki...

Mér fannst allavega bakþankar Þráins Bertelsonar verulega upplýsandi, sem einmitt hefur verið spalti helgaður svona kæruleysishjali góðra penna. Þar kom fram að rekstrarkostnaður utanríkisráðuneytis hefur verið slíkur að ef deilt á hvert mannsbarn í landinu eru það 380 þúsund krónur á ári (væntanlega miðað við síðasta ár).


mbl.is Kona „graffar" í skjóli nætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæp vika í Barbados

Þá er tæp vika í ferðalög okkar mæðgina suðvestur um haf. Lifrarbólgusprautur í lagi og nú ríður á að vera skipulagður, og leggja lokahönd á ýmis verkefni sem bíða þess. Lesa bs.ritgerðir til dæmis svo hægt sé að útskrifa nemendur með sóma, og klára skýrslur sem hafa hangið í smá tíma. Volcanogirl verður að breytast í supergirl svo allt gangi upp. Samkvæmt Lailu vinkonu eru engir snákar eða kóngulær í kringum Bridgetown, en einhverjir litlir fuglar sem ryðjast inn í hús gegnum gluggarimla og reyna að ná sér í æti. Það verður fróðlegt að sjá og hlýtur að vera sérstakt. Það verður gott að ná úr sér vöðvabólgunni og drekka í sig A og D vítamín, hlaða batteríin.barb_ecology_lg_01

Ætli áform um fækkun ráðuneyta séu gleymd?

Það er gleðilegt ef að nú er að myndast ný ríkisstjórn. Ég mundi allt í einu eftir heitri umræðu fyrir kosningar um nauðsyn þess að búa til eitt öflugt atvinnu- og viðskiptamálaráðuneyti úr þremur.

Ætli þessi áform standist eða ætli það gleymist í hita leiksins þar sem þarf að raða framafúsum þingmönnum á stóla?

Bara spyr sisvona?


mbl.is Fundað um stjórnarmyndun á Þingvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vítahringur á Vestfjörðum - samfélag í uppnámi

Tilflutningur starfsemiÞað er skelfilegt að fá staðfest endurtekið hversu mikið starfsóöryggið er í sjávarútvegi á landinu, og eitt er víst að auglýsingar fjöltækniskólans í augnablikinu þar sem er fjasað um spennandi, vel borgað og hátæknilegt starfsumhverfi hljóta að hljóma eins og hjóm eitt í eyrum ungs upprennandi fólks í dag. Veruleikinn er annar, lítil strandsamfélög sem hafa breyst gífurlega undanfarin áratug eru í útrýmingarhættu sem sjávarútvegsver. Sem betur fer eru aðrir kostir, en ekki ýkja margir. Á Flateyri búa margir erlendir íbúar sem væntanlega munu ekki standa upp með hávær mótmæli, og væntanlega ekki heldur vera leiðandi í frumkvöðlastarfsemi eða stofnun nýrra fyrirtækja á staðnum. Það mun ekki einu sinni vera forsenda fyrir að hrinda af stað verkefnum sem geta styrkt byggðina, t.d hagur á heimaslóð því það verður ekki fyrir að fara íbúum sem geta borið slíkt uppi. Það eru ef til vill um tíu ár síðan að byggðarlagið Flateyri sogaðist inn í vítahring sem erfitt gæti verið að snúa við. Jaðarsamfélög eins og Flateyri eiga ekki uppreisn æru von, því þurft hefði að grípa inn miklu fyrr. Ég bind þó vonir við útlendingana sem þar búa. Það er þyngra en tárum taki að þurfa að flytja frá verðlausri fasteign, en tengsl þeirra við heimalönd getur ef til vill hrundið af stað ferðamannastraum inn á staðinn og skapað markað fyrir frístundaleigu húsanna þannig að hægt sé að reka eignirnar í það minnsta. Flateyri verður ekki líflegt samfélag fólks sem elst þar upp við háleita drauma, heldur jaðarbyggð til afslöppunar. Það er frekar nýlega að pólítikusar og skoðanamyndendur hafa sett spurningamerki við hvort réttlætanlegt væri að ætlast til þess að sjávarútvegur beri uppi byggð við ströndina. Þá spyr ég, er raunhæft að halda að ferðaþjónusta ein geti borið uppi byggð á landsbyggðinni?

Tilflutningur starfsemi
getur sett í gang vítahringi

Fyrirtæki lokar starfsstöð
Grunngerð fyrir atvinnulíf og íbúa versnar
Minni spurn eftir vörum og þjónustu innan svæðisins
Samdráttur í framleiðslu fyrir markað svæðisins
Minna fjármagn í samfélaginu
Minni skatttekjur sveitarfélags
Fækkun starfa og fólks á svæðinu
Minna framboð á hæfu vinnuafli
Bak- og framtengsl rofna
Hópunar-hagkvæmni úr sögunni
L

mbl.is „Minn tími í sjávarútvegi er liðinn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Móttaka nýrra starfsmanna við Háskóla Íslands

Mér hefur alltaf fundist HÍ vera sérkennilegur vinnustaður. Eftir að ég byrjaði þar að störfum gekk samstarfsmaður minn að mér reglulega og sagði mér að ég væri undarlega klædd. Hann gerði sér far um að vekja athygli á þessu við mig á ýmsan hátt og ég sveiflaðist milli þess að vera pirruð og finnast þetta hjákátlegt. Hvað í ósköpunum kom honum við hvernig ég væri klædd á meðan ég mætti ekki berössuð í vinnuna?  Hann er löngu hættur þessu, búinn að gefast upp karlanginn og er ágætis maður. Okkur semur vel. Ég held raunar að það hafi truflað hann að honum fannst ég ekki falla vel inní mótið. En ég er haldin svo mikilli lesblindu á hvernig mótið lítur út, að ég skildi hann engan veginn. Mörg önnur dæmi eru um sérkennileika gangs lífsins í háskólanum. Dæmi eru um að starfsmaður hafi mætt til starfa og það hafi verið búið að fela ráðningarsamning viðkomandi, dæmi eru um að starfsmaður hafi mætt og verið sagt að enginn lykill sé að skrifstofu viðkomandi, dæmi eru um að starfsmaður hafi fengið dauðan snák í pósti frá fyrrum starfsmanni. Dæmi eru um að ekki sé samræmi milli deilda í hvaða laun eru borguð fyrir kennslu og dæmi eru um ýmiskonar aðrar hefndaraðgerðir á persónulegu nótunum.  Mér hefur stundum dottið í hug að eitt af skyldunámskeiðum meðal háskólafólks ætti að vera mannrækt, ég held að þetta hljóti að vera einhver misþroski í félagslegum gáfum. Af hverju þarf háskólafólk ekki að læra að koma almennilega fram við hvort annað?


Risessan er Kínversk?

Ég var svo heppin að geta tekið mér frí og farið með Elíasi Snæ syni mínum og árgangnum hans og kennurum Hlíðaskóla niður í bæ. Það var gengið af stað rétt áður en hin risavaxna átti að vakna upp við tjörnina. Á leiðinni var staldrað við á skólavörðuhæðinni og nesti borðað í brekkunni fyrir neðan MR á meðan að sundurskorin strætó var barinn augum. Þetta var æðislegt, alveg eins og að verða barn aftur. Ég var jafn spennt og krakkarnir, við veltum vöngum yfir hvernig þetta hefði allt verið hægt og Hildur kennari sem hefur frábæra sagnagáfu gerði ævintýrið um hið stóra tröll/risa svo spennandi að krakkarnir trúðu því að í raun væri sofandi risi undir borginni.

Þau urðu fyrir talsverðum vonbrigðum þegar þau áttuðu sig á að kannski væri þetta sviðsett, og ekki alvöru. Við röbbuðum um þetta á meðan við gengum um miðbæinn. Já, en Anna er þetta þá bara saga? Þetta er ævintýri, og það sem er spennandi við ævintýri er að maður veit ekki hvort þau hafi gerst og séu að gerast í raun eða hvort þau séu skálduð saga. JÁA!

Risessan hin stirða og fagra olli ekki vonbrigðum og krakkarnir (7 og 8 ára) voru samstillt og hlýðin og góð og það sem meira er, biðu rólega eftir því að um tveir tugur krakka fengju að vega salt á höndum risessunar áður en hún var keyrð upp Bankastræti.

Mikið er gaman að byrja daginn á svona ævintýri. Vonandi verða fleiri dagar þannig!


Ætti að banna skoðanakannanir 2.vikum fyrir kosningar

Ég er satt best að segja orðin verulega þreytt á skoðanakönnunum sem flæða úr öllum hornum. Því miður hafa þær ekki tilætluð áhrif (að vera upplýsingaveita) því niðurstöður þeirra óma svo ört í ljósvakamiðlum, prentmiðlum og á netinu, og með svo mismunandi niðurstöðum, úrtaki og svörunarhlutfalli að enginn nennir að binda sig við þær nema fjölmiðlafólkið sem notar þær til að þjarma að mismunandi frambjóðendum, sem í raun hafa kannski lítil komment þegar allt kemur til alls. Og að þessu leyti hef ég samúð með frambjóðendum úr hvaða flokki sem þeir eru, því að þeir eru að keppast um hylli til að fá að starfa í umboði fyrir fólk í landinu, leggja margt undir og svo er alltaf verið að nudda þeim uppúr jákvæðum/dræmum/neikvæðum niðurstöðum spekúlasjóna úr símhringingatörn. Mér finnst ég stundum vera veðhlaupahestur í minni vinni, hvernig ætli þeim líði?

 Ja, hérna, segi ég bara. Réttast væri að við fengjum frið, kjósendur jafnt sem frambjóðendur, svo hægt væri að rökræða málefnin. Því þau gleymast í fjaðrafoki um prósentur á uppleið eða niðurleið. Upp með upplýsta umræðu, niður með spekúlasjónir og yfirborðsmennsku.


mbl.is Hafa kannanir áhrif á kjósendur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Metnaður og heimsveldisbrölt

Nýjasta bók Noam Chomsky ber nafnið "Imperial Ambitions - conversations on the post-9/11 world". Ég keypti hana í Bandaríkjunum á dögunum. Noam Chomsky er einn fremsti hugsuður samtímans, málfræðingur að mennt og hefur lengi gegnt stöðu prófessors í málvísindum og heimspeki við hinn virta Massachussetts Institute of Technology (MIT). Í bókinni ræðir Chomsky m.a um innrásina í Írak ásamt fleiru er snýr að tilburðum Bandaríkjanna sem heimsveldis. Honum verður einkum tíðrætt um áróðurskerfi og hvernig þau virka, til dæmis hvernig hægt er að skapa og framleiða goðsagnakennda fortíð meðal annars með því að storka yfir óþægilegar staðreyndir úr sögunni.

Mér er hugleikinn ein tilvitnun í bókinni, sem reyndar er frá Schumpeter og úr bók hans, félagsfræði heimsvelda (The sociology of imperialisms) frá 1919.

"The was no corner of the world where some interest was not alleged to be in danger or under actural attack. If the interests were not Roman, they were of Rome's allies; and if Rome had no allies, then allies would be invented. When it was utterly impossible to contrive such an interest - why, then it was the national honor that had been insulted. The fight was always invested with an aura of legality. Rome was always being attacke by evil-minded neighbors, always fighting for a breathing space. The whole world was pervaded by a host of enemies, an it was manifestly Rome's duty to guardd against their indubitably aggressive designs."

Þessi tilvisun gæti allt eins átt við í dag og hægt væri að skipta Róm út fyrir t.d Washington, eða aðra staði þar sem heimsveldisdraumar og árásargirni hafa farið og fara saman.


Kínverjar hrista upp í heiminum

Upprisa hungraðrar þjóðar (China shakes the world - The rise of a hungry nation) er bók eftir James Kynge sem skrifar alveg hreint frábæra bók um það kínverska fólk og staði sem móta umbreytingar fjölmennustu þjóðar heims síðustu árin. Við erum að rýna í hana í námskeiði í hagrænni landafræði og ég get sagt svo mikið sem, að hún er alveg kyngimögnuð - ef fólk er á annað borð áhugasamt um samfélagskrufningu í samtímabókmenntum. Efnið er ekki tekið fræðilegum tökum, en atburðir og efnahagsævintýri eru tengd vel saman með frásögnum af lífssögum (oft ótrúlegum). Kína hristir upp í heiminum er skrifuð af manni sem að hefur mikla þekkingu á kínverskri menningu. Hann er Breti sem menntaður er að hluta í Kína og hefur gegnt starfi aðalfréttaritara Financial Times um árabil fyrir svæðið.

Hér er smá tilvitnun

"It has all happened so suddenly. Only a few years ago China loomed for most of us, as a large but far-off presence. Now it affects almost everything. The competition for our jobs, the prospects for our economies, the things we buy, the  vanishing Amazon rainforest, the price of oil, the balance of global power and many of the other trends that are remaking our world are, in some ways made in China."

Ég mæli með henni, engin spurning.


Það er erfitt að djóka með Jóga!

f_my_pictures_joga.jpg

Jóga er allra meina bót. Ég reyni að fara í hádegisjóga þrisvar í viku. Það er alveg yndislegt að ná tengslum við líkamann, ásamt því að teygja alla vöðva rækilega. Ég er ein af þessum sem að fæ reglulega sinadrátt, vakna á nóttunni meira að segja. Svo eru það öndunaræfingarnar sem að hjálpa manni verulega til að komast í tengsl við eigin líðan, og fá mann til að slaka. Það er frábært að fara í leikfimi til að hlaða batteríin. Sú sem kennir okkur í augnablikinu heitir Sólveig og er alveg yndisleg. Hún sendi okkur heim um daginn með upplýsingablað um om, en það er eitthvað sem við gerum í upphafi og enda hvers tíma, þetta er svona búkhljóðaraul, mæli líka með því.

Mér sýnist vera fjölgun á karlmönnum í tímunum, en yfirleitt er hlutfall kynjanna nokkuð svipað. Ég get mér til um að mikið af þessu fólki sé skrifstofulið að drepast úr vöðvabólgu og í andnauðum af streitu og andlegu álagi. Það er einmitt það sem er hið æðislega við jógaiðkun, að komist maður upp á lagið með hana, getur maður tappað streituna af sér, og losnað við vöðvabólguna. Það gerði ég að minnsta kosti. Lifi Jógaiðkun!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband