Margt skrýtið í Reykjavíkurhausnum

Mold. Eitthvað sem ætti að vera aðgengilegt þar eð við göngum á henni við nær hvert fótspor, þó búið sé að steypa yfir hana mestan part í borginni.merkiadal%20copy

Mig vantaði mold, ætlaði að fara að umpotta vesalings stofuplönturnar mínar sem lengi hafa verið vanræktar.  Moldin út í garði er þakin illgresi sem ég hef lítið verið að uppræta þetta sumarið, þó ekki væri vanþörf á og ekki treysti ég moltujörðinni minni til að vera orðin nógu niðurbrotinn...En viti menn það er ekki bara sisvona auðvelt í henni Reykjavík að nálgast mold.

Ég tel mig vel í sveit setta (lesist borg) og fer allra minna ferða á reiðhjóli. Eftir að hafa svipast eftir gróðrarmold í poka í einni stærstu verslunarmiðstöð landsins og blómabúð hverfisins, komst ég að þeirri niðurstöðu að ég þyrfti að fara alla leið inn í Skútuvog, eða uppí breiðholt til að nálgast jarðefni til umpottunar.

Mér finnst þetta eitthvað öfugsnúið. Þetta er eitthvað "urban sprawl" með skrýtnum formerkjum.

Talandi um mismunandi sjónarhorn borgarinnar uppgötvar maður oft annað umhverfi á hjóli en úr bíl. Ég hjólaði t.d í breiðholtið, og naut umhverfisins á samfelldum hjólastíg gegnum mitt æskuhverfi Fossvoginn og þaðan uppí Kópavog. Þessi leið sem fer gegnum blesugrófina og gróðrarstöðina Mörk er sælureitur, lætur engan ósnortinn í góða veðrinu, ef maður á annað borð heldur upp á gras og grænar grundir.

Kvöldið áður hjólaði ég kringum Kársnesið í Kópavognum. Það var alveg yndislegt sjónarhorn á borgina, að sjá Nauthólsvíkina hinum megin frá. Það var auk þess gaman að keyra niður á Kópavogshöfn og sjá heilu hlaupahópana þjóta fram hjá smábátahöfninni þeirra. Þegar hinum megin er náð þar sem útsýnið er Álftanes og Bessastaðir og svo Arnarnesið blasir nú við ný smáborg í Sjálandshverfinu svokallaða. Mér finnst hún nú ekki virka aðlaðandi svona að sjá frá Kópavoginum en er sagt að þarna sé hæsta fermetraverðið á höfuðborgarsvæðinu. Æ, má ég þá frekar biðja um hús með einhverjar sálir. 

Í gær var blásið til dans. Eftir að forsetinn tók við embætti sínu að nýju var mikil hljómlistarveisla á NASA kennd við einhvern innipúka sem ég kannast reyndar ekkert við. Ég náði að heyra í múgsefjun og Bennahemmhemm og Hjálmum. Megas var forfallaður en það voru auðvitað nokkur vonbrigði. Eins og gjarna gerist á samkomum sem þessari var heilmikill stígandi í stemmningunni og ég þori að fullyrða að ekki var einn ódansandi maður í salnum eftir að Hjálmar stigu á svið. Þeir voru frábærir einu orði sagt.

Talandi um forsetann, rakst ég á klausu kallaða frá degi til dags í fréttablaðinu. Þar er verið að nefna að megin inntak ræðu forsetann við innsetningarathöfnina, nefnilega að Þjóðin byggi yfir miklum og margbreytilegum auð. Blaðamaðurinn klikkir síðan út með því að skrifa: Fæstir myndu neyta því.

Þetta er stafsetningarblinda unga fólksins undir þrítugu sem að aldrei hefur verið neitað um neitt, en vilja fremur neyta, en fá neitun.

Mér fannst leiðinlegt að vera neitað um mold, svona sjálfsagðan efnivið í nágrenni okkar.

En ég er líka kannski að verða ein af þessum firrtu borgarbúum sem að þurfa að nálgast allt í verslunum en gleyma stundum að líta út um gluggann til að sjá hvað blasir við. Þegar betur er að gáð leynist fyrir utan sandhaugur eftir iðnaðarmenn sem voru að setja ljósleiðara í hverfið fyrir nokkrum vikum..og eitthvað hlýt ég að geta úr því moðað. Nú og svo get ég kannski farið að næturlagi yfir í næstu garða sem að ekki eru svona illgresaþaktir eins og minn og nappað mér smá jarðefni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband