Færsluflokkur: Matur og drykkur

Margt gott og nothæft býr í náttúrunni

Þetta er veikleiki, ég viðurkenni það - ég læt hluti fara í taugarnar á mér. Ég held samt líka að það sé kostur að þegar vora fer sé ég ýmis teikn um möguleika sem tengjast grósku náttúrunnar..og ég átta mig á að alls ekki allir eru læsir á það í okkar samtíma. Ég lét um daginn frétt um pirring Stykkishólmsbúa á óheftri grósku fífla fara í taugarnar á mér. Til hvers að eyða orku í pirring, ég gremst sjálfa mig.
Túnfífill er frábært blóm sem er eins og ísjaki að því leyti að það sem fólk sér er einmitt hverfandi hluti þeirra eiginleika sem plantan býr yfir. Sem lækningajurt býr hann yfir þeim eiginleikum að vera blóðhreinsandi, góður við blóðleysi meltingartruflunum og hægðatregðu. Hægt er að brugga úr blómunum vín og eins er hægt að djüpsteikja þau og borða og njóta.

Ísland býr yfir yndisþokka grósku í formi plantna sem nothæfar eru til allskyns nota.

Ég ætla að deila með ykkur teblöndu og útskýra virkni hennar ykkur vonandi til yndisauka

Sumar teblanda Önnu
Hvannablöð og fræ (týnd á leið í Landdmannalaugar)
Þistlablóm (týnd í Reykjadal við Hveragerði)
Morgunfrúrblóm (ræktuð af fræjum í eigin garði)
Mjaðurt ( týnd við Apavatn)
Rauðsmári (týndur í Mosfellsbæ)

Hvönn er notuð við hverskyns meltingartruflunum, verk- og vindeyðandi, krampastillandi, slímlosandi, svitadrífandi, vatnslosandi, bakteríu- og sveppadrepandi, örvar meltingu og blóðflæði (heimildir: Anna Rósa, Íslenskar lækningajurtir, Politikens helbredende urter og Alaska wilderness medicines).
Mjaðurt er barkandi, bólgueyðandi,ð og dregur úr magasýrum, er hitalækkandi, verkjastillandi, svitadrífandi, bakteríudrepandi, vatnslosandi og græðand og hefur meira að segja orðspor fyrir að græða magasár. (Heimildir: Anna Rósa Íslenskar lækningajurtir, Politikens helbredende urter og Alaska wilderness medicines).
Rauðsmári er slímlosandi, húðhreinsandi, vægt krampastillandi og græðandi ( góður við húðsjúkdómum eins og exem og sóríasis), er góður við hálsbólgu og hefur orðspor um að hreinsa blóð, þynna blóð og örva lifur ( Heimildir: Anna Rósa Íslenskar lækningajurtir og Mckinnon, Kershaw, Arnason et.al Edible & medicinal plants of Canada).
Þistill er notaður til að hreinsa blóð og örva lifur, og hjálpa við lifur- og nýrnavandamálum, gigt en hefur einnig virkni gegn gigt og háum blóðþrýstingi. Ekki er vísindalega sannað en þó haldið fram að þistill geti dregið úr sykurstigi í blóði og leyst upp nýrnasteina. (Heimild: Mckinnon, Kershaw, Arnason et.al Edible & Medicinal plants of Canada)
Morgunfrúr eru græðandi og virka gegn sveppasýkingum. blómin eru bólgueyðandi og nýtast sem meltingarörvandi meðal sem örvar útskiljun galls.

ATH: varast ber að nýta þessa blöndu sé maður þungaður eða sykursjúkur

Munið kæra fólk að íslensk náttúra býr yfir magnþrungnum töfrum og nytjum
Njótið vel


Óvönduð blaðamennska Mbl.is

Það er gaman að heyra um sköpunargáfu Íslendinga sem brýst út í framleiðslugleði og alveg óhætt að styðja góð verk hvort sem þau koma úr ranni kvenna eða karla. Guðbjartur Hannesson afhenti styrki til 42. verkefna kvenna sem höfðu af hugviti sínu komið nýjum afurðum og þjónustu á framfæri í Sjóminjasafninu.

Hinsvegar er verra þegar blaðamenn sem um málefni fjalla og flytja almenningi fréttir gleyma að vanda sig og eru þáttakendur í sögufölsun. Að baki liggur annað hvort vinnuþrælkun á lélegum launum þannig að starfsmenn eru hreinlega undir of miklu álagi. Eins gæti metnaðarleysi eða vöntun á aga verið málið.

Það vakti athygli mína að sjá mynd við greinina af ungum stúlkum drekkandi úr pappa- eða plastglösum fyrir framan kynningarborð Sláturfélags Suðurlands, sem greinilega var að koma birkireyktu hangikjöti á framfæri í Smáralindinni. 

Myndatextinn hljóðaði svo:  Bragðað á íslensku nýsköpuðu góðgæti.

Er verið að gera grín að okkur eða finnst blaðafólki Morgunblaðsvefjarins að það geti borið á borð hvaða þvælu sem er fyrir lesendur. Í fyrsta lagi er hangikjöt ekki nein nýsköpun í íslensku samfélagi, hugsanlega í dönsku, bresku eða á öðrum erlendum vettvangi þar sem reyndar Íslendingar hafa ekki enn haft hugvit til að markaðssetja sínar vörur af því taginu enn. Í öðru lagi er myndefnið sótt úr allt öðru samhengi sem hefur afar lítið með fréttina að gera.

Nú þegar Osama Bin Laden er fallinn og Vesturheimur fagnar því að Grýla samtímans hafi verið dregin til dauða. Nú þegar að Miðausturlönd loga í uppreisnum sem vonandi færa samfélög þeirra inn í giftusamari tímabil upplýsingarinnar  - eru Vesturlönd á hraðleið inn í forheimskun, hégóma og ofstæki.

Bon appetit!


mbl.is 30 milljónir í nýsköpun kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TERRA MADRE dagurinn í dag

Eftir langt hlé ætla ég ekki að skrifa um Icesave samninginn. Ég er að vona að forsendurnar sem samninganefndin gaf sér muni standast að mestu því það þýðir að börnin okkar og barnabörn sleppa við þá leiðu arfleifð að sitja uppi með skuldir gróðahyggjukynslóðanna.

Ég ætla að vekja athygli á að TERRA MADRE dagurinn er í dag  - Íslandsdeild Slowfood samtakanna vekur athygli á þessu:

Terra Madre dagurinn 10. desember 2010
 
Í fyrra var fyrsti Terra Madre dagurinn haldinn um heim allan, Slow Food samtökin voru 20 ára og ca. 1500 viðburðir voru skipulagðir í öllum 130 löndum þar sem eru Slow Food convivia eða deildir. Það stefnir í það sama í ár, en þessar samkomur munu einnig safna pening fyrir "1000 gardens in Africa" verkefni þar sem stefnt er að því að móta matjurtagarða með heimamönnum eftir Slow Food hugmyndafræði (good, clean and fair), til að rækta staðbundnar matjurtategundir, lífrænar, sem munu brauðfæða þorpin í mörgum löndum. Hér verður Terra Madre dagurinn haldinn undir merki "Meet the producer" - sem sagt "hittu framleiðandann" og verða smáframleiðendur á eftirfarandi stöðum:
Frú Lauga (v/Laugalæk): bakari frá Sólheimum og fleiri bjóða að smakka á sinni framleiðslu, Bændamarkaðurinn sívinsæli hefur á boðstólum matvörur frá íslenskum smáframleiðendum - og gerir undanþágu fyrir ítalskar vörur, pasta og vín, sem gleðja sælkerann
Búrið (Nóatúni 17): Jóhanna frá Háafelli (ís úr geitamjólk og kjötvörur) og Urta Islandica (íslenskar jurtir) - sælkerabúðin þar sem áluð fagmannsins ræ´ður ríkjum og margt úr matarkistu Íslands stendur til boða
Ostabúðin (Skólavörðustig 8): lífræn vín og heimatilbúnar kjötvörur - nýtni í hámarki og gæðavörur á móti freyðivíni frá frönskum lífrænum vínbændum sem sanna að allt þarf ekki að vera iðnaðarframleitt
Dill Restaurant: Jólamatseðill með alíslensku hráefni - Gunnar og Óli sýndu í Torino hvernig frábærir fagmenn vinna sem best úr því sem náttúran býður uppá
Höfn í Hornafirði: Slow Food deild "Í Ríki Vatnajökuls" verður með kvöldverð með hráefni frá héraðinu
Fleiri aðilar munu halda Terra Madre deginum á eigin forsendum, til dæmis með matarboð tileinkuðu staðarmatvæli eins og á Patreksfirði og Flateyri.
Okkar skilaboð: hafðu það "slow" 10. desember, andaðu í jólaösinni, taktu þinn tíma til að velja og borða góðan mat: hreinan og sanngjarn. 

Lifið heil!

 

 


Að lepja ekki dauðann úr skel

Árið 2004 ferðaðist ég um landið að taka viðtöl við starfsfólk í fiskeldi. Það var lærdómsríkt.

Á þeim tíma hafði einungis ræst eitthvað úr einu bláskels-ræktarverkefni  við landið að svo komnu máli - þrátt fyrir áralangar tilraunir, óþreytandi vinnu m.a Sigfúsar Jónssonar landfræðings, við að draga lærdóm af reynslu þeirra Prince Edward Island manna sem þetta höfðu reynt, framlag byggðastofnunar og fleiri sem hér eru ekki upptaldir.

Réttilega var árið 2004 einungis einn aðili með gilt rekstrarleyfi en fimm fyrirtæki voru með tilraunaeldi sem þá var talaðu um að myndu sýna sig og sanna með framleiðsluaukningu á komandi árum.

Heildarframleiðsla bláskeljar í tölfræði eldiframleiðslu var ekki sýnileg og útflutningsverðmæti var núll.

 Þá stóð yfir fyrsta uppskera Norðurskeljar í Hrísey og þeim virðist ef eitthvað er hafa farnast ágætlega - ég veit til dæmis fyrir víst að hægt er að kaupa lifandi bláskeljar í frú Laugu, hef gert það sjálf og mæli óhikað með því að íslendingar nýti sér heima-aldar krásir sem bragð er að.

Mér finnst spá um 1.500 tonna framleiðslu á næstu árum full bjartsýn þó að maður voni að slíkt gangi eftir, ekki veitir nú af.

Fyrri reynsla af tilraunum úr eldi þessu líku sýna að ófyrirsjáanleg áföll geta riðið yfir eins og dæmi eru um m.a úr Arnarfirðinum þar sem fyrirtækið Hlein eftir áralangar tilraunir í bláskels-eldi varð fyrir Cadmin mengun, eða réttara sagt kræklingurinn, sem menn eru ekki á eitth sáttir hvaðan kom. Það urðu því miklar búsifjar af slíkri tilraunamennsku sem þó hafði lofað góðu um árabil.

Ég vitna hér beint í skýrslu sem ég skrifaði á þessum tíma og aðra eftir Valdimar Inga Gunnarsson um framtíðaráform í fiskeldi.

"Framleiðsla kræklings (bláskeljar) hefur ekki enn uppfyllt þær vonir sem bundnar voru við slíka framleiðslu í lok tíunda áratugarins. Segja má að ýmis skakkaföll í framleiðslu hafi átt þátt í því. einnig hafa neikvæðar mælingar á m.a. Cadmin efnainnihaldi kræklings dregið úr áætlaðri framleiðslu. Ber þar helst að nefna áfall Hleinar sumarið 2004. Árið 2003 var áætlar að hægt yrði að framleiða 500, en raunin varð einungis 4 tonn.

Ekki ætla ég að draga úr væntingum fólks til nýrrar/fornrar atvinnustarfsemi á landsbyggðinni - það er bara alltaf gott að hafa varann á og byggja væntingar sínar á raunhæfum viðmiðum

Lifið heil og eigið góða jólahátíð og áramót! (Bláskelsveisla í lok árs er t.d alveg ágætis hugmynd!)


mbl.is Bláskel ræktuð fyrir milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

spennandi nýbreytni

Það er gaman að sjá að hægt er að hausta olíurepju undir Eyjafjöllunum. Ég mun fylgjast spennt með framvindunni. Man eftir að hafa keypt lífræna repjuolíu af Borgundarhólmsbændum sem var alveg sérlega ljúffeng í matargerð. Nú skylst mér á þessari frétt að tilraun eigi að gera til að nýta þá olíu sem fæst úr uppskerunni til eldsneytis á flotann, en fjölþættir notkunar og markaðsmöguleikar aðrir eru á þessari afurð. Það er ljóst.
mbl.is Þreskja repju á Þorvaldseyri og ætla að vinna olíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Streitulosandi meðferð

Fyrir utan að njóta ásta (hehe) er mikilvægt að gera eitthvað í frístundum sem að fyllir mann gleði. Þannig getur maður orðið betra foreldri og fólkið í kringum mann hamingjusamara. Mitt framlag í dag til að bæta líf fólks í kringum mig - ef það kýs svo - er að leggja hér fram pottþétta uppskrift að Mjaðar-saft. Alveg skotheldur sumardrykkur sem feilar ekki og kostar ekki mikið að laga.

Týnið minnst 40-50 knúppa af Mjaðurtablómum (sem eru í blóma nú) einhvers staðar út í móa.

Sjóðið 2 lítra af vatni með 1.kíló af sykri (gæti t.d verið helmingur hvítur og helmingur brúnn eða minna unninn sykur).

3 -4 sítrónur (helst lífrænar, annars vel skrúbbaðar) í sneiðum

Leggið blóm og sítrónur í skál eða pott í lög eins og lasagna - hellið síðan sykurvatninu yfir.

Látið kólna niður í stofuhita á meðan að hrært er varlega í mjöðnum.

Setjið skál á kaldan stað í fjóra sólarhringa og passið að hræra vel að minnsta kosti tvisvar sinnum á dag.

Síið vökvann í gegnum sigti og grisju og setjið á flöskur

Ef að þið notið glerflöskur þurfið þið að halda þeim í kælingu - annars plastflöskur.

Njótið - útþynnts drykkjarins með kolsýrðu vatni og klaka eða kranavatni - Astminn hverfur og sumarið verður ykkar.

Njótið vel!

 


mbl.is Streita hefur áhrif á astma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Herbalisti prófar sig áfram

Nú er svo komið að ég þarf að fara að færa út kvíarnar og fá meira rými til að þurrka allar jurtirnar sem við höfum verið að safna að undanförnu.  Stofuborðið bognar undan jurtum af ýmsu tagi sem eiga að veita yndisauka og lina þjáningar á næsta vetri.

Mjaðurtabunkinn er farinn að þorna og hann mun veita gleði í formi drykkjar.

Gulmaðran mun einnig veita ánægju í formi tes

Blágresið er búið að hvíla í olíu um stund og mun verða að nuddolíu þegar hún er tilbúin

Kerfilsfræin munu fara í brauðgerð

Ég bjó til yndislegan sumardrykk úr kerfilsblómum - þetta er sannkallaður sumarsmellur - ekkert betra en blómasaft þegar sólin skín og gróðurinn horfir á mann montinn.

Birkið er notað í ýmsar veigar

rauðsmárinn verður að lyfi

klóelftingin verður að linandi og græðandi áburð

blóðbergið fer í drykk og krydd og hvönnin sömuleiðis

Ég er búin að þurrka papayafræ sem munu notast ef einhver fær magakveisu

Ég fann umfeðming - sem ég ætla að rannsaka betur hvaða eiginleika hefur upp á að bjóða..

vivia cracca

og svo er ég auðvitað að rækta kryddjurtir og salöt af ýmsu tagi villt og galið í bakgarðinum.

Allt þetta yndislega  og meira til hefur íslensk náttúra upp á að bjóða yfir sumartímann  - njótið tímabilsins því vel.

Þetta útskýrir kannski að einhverju leyti afhverju ég er orðin svona löt að láta heyra frá mér hér.


Mig langar líka í matjurtagarð eins og Obama

Ég þarf að ganga kurteisislega og banka á dyr nágranna minna til að fá leyfi fyrir því að pæla í garðinum, en nú, já nú ætla ég að gera það. Ég er búin að vera á leiðinni í mörg ár en hef ekki haft í mér uppburði til þess, eða tíma. Ekki gefið mér tíma. Ég er búin að kaupa fræ og á bæði útsæði að gulrótum, dilli og öðru sem síðar getur orðið góðgæti.

Tíminn er svo skrýtinn, ef maður gefur sér hann ekki hleypur hann frá manni.


mbl.is Obama fær matjurtagarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Naglasúpa getur verið hollmeti

Með bakgrunn frá Norður Afríku þar sem atvinnuleysi ungs fólks er nær 50% er kannski ekki skrýtið að menn grípi til örþrifaráða til að vekja á sér athygli með því að borða nagla og annað sem venjulega er ekki tengt manneldi.

Alveg á hinum enda rófsins eru Norðurlönd hin (allavega áður) velmegandi velferðarlönd sem að nú ætla að flauta til átaks um hollar matvörur og markaðssetja sérstöðu sína á þessu sviði  með fulltingi norrænu ráðherranefndarinnar.

...og ég gæti vel hugsað mér að Íslendingar tækju þátt í þessu þó ég viti svo sem ekki nema MATÍS eða aðrir hafi þegar tekið þátt. Leiðin er merking á matvörum sem uppfylla ákveðin skilyrði hollustu.

Merkið, sem til stendur að setja í notkun á þessu ári á að auðvelda neytendum að velja hollar matvörur.

Skráargatið hefur verið notað í Svíþjóð í 20 ár og nýtur mikils trausts meðal sænskra neytenda. Með því að ákveða viðmið fyrir ákveðnar fæðutegundir hefur skráargatið orðið merki um matvæli sem innihalda minni fitu, salt, sykur og meira af heilu korni og trefjum.

Þörfin fyrir sameiginlegt hollustumerki er til komin vegna þess að matar- og kaupvenjur í Skandínavíu eru afar líkar. Þrátt fyrir að margt sé líkt í löndunum hefur komið í ljós að nokkur munur er á þeim. Norræna ráðherranefndin hefur fjármagnað rannsókn á Skráargatinu, en greiningarstofnunin Zapera gerði hana. Tekin voru 1216 vitöl í Danmörku, 1223 í Noregi og 1210 í Svíþjóð og kom í ljós að Danir hafa áhyggjur af fitu í mat, Svíar af sætuefni en Norðmenn einbeita sér að saltinnihaldi.

Rannsóknin sýnir einnig að aðeins 37-48 prósent íbúa í Skandínavíu lesa að jafnaði innihaldslýsingar á umbúðum þeirra matvæla sem þeir kaupa. Þegar notkun á Skráargatinu hefst munu neytendur á einfaldan hátt geta séð hvaða vörur eru heilsusamlegar. Merkið krefst engrar undirstöðuþekkingar á næringarfræði og auðveldar aðgang íbúa að hollum matvælum. Þetta styður við markmið um heilbrigðara líferni, sem norrænu ríkin urðu sammála um í aðgerðaáætlun um matvæli og hreyfingu á árinu 2006.

Stjórnvöl í löndunum þremur hafa samþykkt nýjar reglur sem byggja á þeim sem gilda um notkun Skráargats-markisins í Svíþjóð. Í því starfi hafa stjórnvöld byggt á niðurstöðum samstarfs við Norrænu ráðherranefndina, m.a. með því að taka tillit til norrænu næringarráðanna. Tekið er tillit til þess mismunar sem er á löndunum og hefur samstarfið haft í för með sér umbætur bæði hvað varðar vöruhópa og viðmið. Verið er að fjalla um nýju viðmiðin í framkvæmdastjórn ESB og getur Skráargatið í fyrsta lagi tekið gildi sem norrænt næringarmerki í maí 2009.

Með því að sameinast um eitt næringarmerki munu löndin einnig koma í veg fyrir stjórnsýsluhindranir í viðskiptum milli landanna. Þegar vara er merkt Skráargatinu munu sameiginleg viðmið tryggja að samkomulag er í löndunum um sölu á vörunni. Þetta er til hægðarauka bæði fyrir framleiðslufyrirtæki og smásölum.

Enn sem komið er, eru það einungis Svíþjóð, Noregur og Danmörk sem taka þátt í verkefninu, en öll norrænu ríkin hafa samþykkt notkun þess. Finnsk stjórnvöld nota enn ekki merkið, en velta því fyrir sér hvort nota megi viðmið þess ásamt þeim sem þegar eru notuð í tengslum við Hjartamerkið sem er finnskt næringarmerki. Til lengra tíma litið er einnig mögulegt fyrir Ísland að taka þátt í samstarfinu þannig að það verði almennt notað á norrænum grundvelli.

Könnun um Skráargatið 2009: http://www.helsedirektoratet.no/vp/multimedia/archive/00096/Rapport_N_kkelhullme_96339a.pdf

Norrænu næringarráðin: http://www.norden.org/pub/sk/showpub.asp?pubnr=2004:013


mbl.is Maður sem borðar allt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er mjólkurlamb?

Valdir matgæðingar fengu að smakka á mjólkurlambi í veisluturninum í Kópavogi í fyrrakvöld og lýstu þeir mikilli ánægju með kjötið, segir í frétt mbl.is Ef ég les rétt milli línanna er hið svokallaða mjólkurlamb sauður sem alinn er á mjólk - þetta er því varla hið góða frjálsa lamb sem fær að hoppa frjálst um í íslenskri víðáttu yfir sumartímann áður en því er slátrað. Spurning er hvort þau fá nokkuð að fara út í haga eða víðlendi áður en þeim er slátrað. 

Ég hélt satt best að segja að mjólkurfé væri sauðfé sem væri mjólkað og úr afurðunum búnir til ostar, og annað ljúfmeti. 

Mjólkurkálfar þykja lostæti víða, en hér á landi hefur ekki verið hefð að slátra mjólkurkálfum vegna bragðgæða (allavega ekki svo ég viti til).

 Þeir sérvöldu matgæðingar sem fengu að smakka gripinn hafa kannski fyrst og fremst einblínt á bragðgæði og strúktur kjötsins, en ætli þeir hafi spurt eitthvað til hvernig framleiðsluhættir að baki mjólkurlambseldinu væri háttað?


mbl.is Mjólkurlamb kynnt matgæðingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband