Færsluflokkur: Menntun og skóli

Prumpið úr Michael Jackson

Það er komin út bók um minni sem ber það sérkennilega nafn: Moonwalking with Einstein. Bókin fjallar hreinlega um hvernig mannskepnunni tekst að muna og hún fjallar á opinskáan hátt um að hægt er að þjálfa minnið ótrúlega með því að þjálfa sjónminni og nýta sýnir sem brenna sig í heilabörkinn (úps, ætli sérfræðingar myndu ekki mótmæla þessu, ég er ekki nógu vel að mér til að vita hvar minnisttöðvarnar eru í heilanum).

 

Ég hef ekki enn lesið þessa bók en hún stendur efst á óskalistanum yfir ólesin verk. Höfundurinn heitir Joshua Foer.

Ég hef oft velt því fyrir mér í kennslu, að með öllum þeim aukahlutum/tækni sem mannskepnan hefur tekið til notkunar sér til hjálpar í námi er mikið af þessum tækjum haldið þeim eiginleikum að mannfólkið  hefur meiri tilhneigingu til að útvista minnið, gleyma meira, muna minna sjálf. Um þetta ritaði Nicolas Negroponte áhugaverða bók sem bar heitið Being Digital og ég las einhvern tíma fyrir fimmtán árum síðan.

negroponteEYE

Hans hugmynd var sú að fólk útvistar minninu með aukinni notkun stafrænnar tækni og það getur verið kostur. Við getum melt meira en munum það ekki.

Ég hef af þessu smá áhyggjur því að þetta þjálfunaratriði. Minnið er mjög vanmetið í skólum samtímans. Það er mikilsvert að muna hlutina. Mér hefur oft verið núið um nasir að vera með límheila, muna allt. Sjálf held ég því fram að heilinn í mér hafi alveg sérstaka gáfu til að safna saman ónærtækum og lítið mikilvægum upplýsingum til að stríða mér. Þannig man ég ólíklegustu og alveg ónýtilegustu hluti, og ég ræð illa við að stjórna þessari náðargáfu eða galla, allt eftir því hvernig á það er litið.

Samkvæmt umfjöllun bókarinnar tunglganga með Einstein var minnið áður fyrr í mun meiri hávegum haft. Sókrates taldi til dæmis ekki sitt eigið verk að skrifa niður eigin vangaveltur og hugmyndir. Hann hélt því fram að hið ritaða orð væri minna um vert en minnið. Á þessum tíma æfðu menn sig í að muna og notuðu til þess ýmis konar tækni og æfingar. Á þeim tíma var slík þjálfun jafn mikilvæg faggrein og stafsetning, lógík (stærðfræði) og retorik (málfarslist). 

Athyglisvert er að í þessari bók er því haldið fram að minni hafi lítið með greind að gera, en sálfræðingar samtímans hafa reynt að koma þeirri tálsýn haganlega fyrir í vitund almennings. Hvorki háskólapróf né gáfuleg framkoma eru  tengd góðu minni.

Kúnstin felst í að skapa "kreativar" ímyndanir/hugmyndir í höfðinu og staðstetja þessar eftirminnilegu myndir á leiðir í svokölluðum hugmyndahöllum. Á góðri íslensku heitir þetta hugskotssjónir og  hugrenningar. Maður býr til myndir í hugrenningum sínum og tengir þær við það sem maður er að læra eða melta til að muna það og svo staðsetur maður það á góðan stað, sem er erfitt að gleyma. Ég veit þetta hljómar pseudo, en aðeins of spennandi til að maður vilji ekki reyna sig við það. Samkvæmt bókinni er tenging við æskuheimili afar árángursrík leið, vilji maður örugglega muna hlutina.

Eitt af minnisverðari dæmum í bókinni er þegar höfundurinn í Bandaríkjameistarakeppninni í minni sér fyrir sér Michael Jackson kúka á hamborgara og prumpa inn í blöðru. 

 moonwalking-with-einstein

Aðalmálið er að því skrýtnari, skældari og óvenjulegri hugskotssjónirnar og hugrenningatengslin eru við það sem á að læra þess betur munum við. Þetta vissu munkar á miðöldum sem rjóðir í kinnum viðurkenndu að fagurleggjaðar ungmeyjar héldu þeim við efnið:)

Mér finnst þetta áhugavert eins skrýtilega og það hljómar.

Gera má ráð fyrir að siðmenning okkar vanmeti mátt minnisins vegna tæknivæðingar sem hefur útvistað flest allt minnisvert á tölvutækt og rafrænt form. En mun okkar siðmenning ná einhverjum hæðum án innra minnis fólksins? Er líklegt að nýsköpun, brandarar, skilningur og listaverk verði sköpuð af útvistuðu minni í framtíðinni?

Hm. Það er nú það.

 


Kostnaður við heilbrigðis- og menntakerfi

Það er margt sem ber að athuga í útgjaldamálum ríkiskassans þegar betur er að gáð.

Einir þyngstu liðir útgjalda ríkisins eru heilbrigðismálin en þar á eftir koma menntamálin það er að segja þegar að ríkisrekin stóriðjupólitík er  undanþegin og svo nú auðvitað öll fyrirtækin sem í raun eru rekin af ríkinu vegna þess að hið opinbera hefur fengið þau í fangið í kjölfar hruns.

Mig langar að benda á að ríkiskassinn (rikiskassinn.is) sem er aðgengilegur vefur á vegum fjármálaráðuneytis er með nokkuð skondna útreikninga á útgjaldaliðum og hvað hlutirnir kosta.

Samkvæmt þessum útreikningum kostar lungnabólga 727 þúsund ef hún er meðhöndluð í íslensku heilbrigðiskerfi, hjartaþræðing ekki nema 200 þúsund sem er lágt allavega ef miðað er við mjaðmakúluaðgerð sem samkvæmt þessu er dýrari og kostar 700 þúsund.

Ef hinsvegar er litið til menntakerfis er þar margt sérkennilegra upplýsinga.

Þar kemur fram að það kostar ríkið 2,4 milljónir að framleiða framhaldsskólanema á meðan það kostar einungis 600 þúsund að framleiða háskólanema. Nú veit ég ekki hvenær þessi síða var uppfærð en samkvæmt frétt frá Degi sáluga árið 2005 var ódýrast að mennta háskólanema við Háskólann á Akureyri og þá nam sá kostnaður 560 þúsund á nema á meðan að hann var 863 þúsund á nema við Háskóla Íslands. Það eru semsé fimm ár síðan það var greinilega nokkuð dýrara en nú er haldið fram.

Nú er ég nýbúin að þurfa að sitja og skila af mér svokallaðri sjálfsmatsskýrslu fyrir ferðamálafræði Háskóla Íslands og sé að kostnaður við hvern nema þar er 238 þúsund krónur þegar allur kostnaður er tekinn með (bæði beinn kostnaður, kennsluhluti launa fastra kennar, kostnaður vegna annara kennara, rekstrarkostnaður námskeiða og kostnaður  vegna kennslutækja) - og auk þess kostnaður vegna sameiginlegrar stjórnssýslu, kostnaður vegna sjóða Háskólans og sambærilegra liða, vegna reksturs og viðhalds húsnæðis og hlutdeild í stofnkostnaði þessum tengdum.

Og þá spyr ég, miðað við að ekki er talið hægt að borga mannsæmandi laun kennurum sem aflað hafa sér sérmenntunar til að geta stundað kennslu á háskólastigi, og fyrirhugaðar eru 25% niðurskurður hið minnsta á háskólastiginu, hvað halda þá andans menn og ákvarðanatökufólk að við getum girt mikið niður um okkur og samt sagt að við ætlum að vera meðal 100 bestu háskólanna?

 

 


mbl.is Vill fund um niðurskurð í heilbrigðiskerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verksmiðjuvæðing skóla - The Wall!

Ég tek heilshugar undir með Jóhanni Björnssyni heimspekingi og kennara við Réttarholtsskóla að það er eitthvað annarlegt við þá tímasóun að setja upp stimpilklukku fyrir kennara, eyða tíma í að útskýra gleði og gagnsemi slíks Taylorisma og annars skerða fjármagn til gagnlegra þátta skólastarfs sem í raun hafa nemandann og hag hans að leiðarljósi (samanber niðurskurð á ákveðnum greinum vegna fjárskorts osfrv.).

Ég lenti í því að eiga leið um stjórnsýsluskrifstofu Háskóla Íslands í byrjun sumars þar sem ég kenni og þá tjáði þar starfskona mér að réttast væri að setja upp stimpilklukku á kennara skólans. Þetta var bara svona frjálsleg tjáning hennar en mig rak í rogastanz verð ég að viðurkenna. 

Já, sagði ég, ég er nú ekki viss um að HÍ kæmi vel útúr því allavega ef að taka ætti mið af stimpilklukkunni í launum. Hún leit niður á skrifborðið og áttaði sig greinilega eitthvað frekar illa á starfsskyldum, viðveru og undirbúningi ásamt ýmsu öðru. Hafði greinilega raunar takmarkaða innsýn í skólastarf, enda auðvitað einungis ráðin til að ráða í tölur en ekki analysera eðli starfsemi.

Svona erum við takmörkuð manneskjurnar - skiljum ekki hvort annað - en reynum að setja okkur á háan hest gagnvart þeim sem við skiljum ekki þegar færi gefst!

Móðir mín gegndi ljósmóðurstörfum í 50 ár, langamma mín eitthvað svipað. Ég man sem barn eftir því að hafa svarið þess eið að aldrei skyldi ég koma mér í þá aðstöðu að þurfa að vinna slíka krefjandi vaktavinnu. Ég saknaði svo eðlilegs fjölskyldu-rythma þegar hún var fjarri dögum,kvöldum, nóttum og helgum saman.

Ég las með ógeði gamlar dagbækur formóður minnar sem þurfti að staldra stundum við á aðra viku á öðrum bæjum vegna fæðandi kvenna - las um andvana börn og jafnvel úldin sem komu úr kviðum kvenna, farsóttir og vandkvæði við að lífga börnin við sem dró á langinn viðveru hennar með ókunnu fólki sem fékk hana til að vanrækja fjölskyldu sína en bjarga öðrum.

Og nú er ég stödd þannig í lífinu að síðastliðinn áratug hef ég helgað lífi mínu meira eða minna kennslu sem krefst endalauss undirbúnings, eilífs naggs og ótrúlegs yfirvinnuálags. Ég gæti skrifað marga kvæðabálka um líf kennarans..en skýrasta mynd þess er ef til vill viðbrögð sona minna sem hafa svarið þess eið að fara aldrei í háskóla í lífinu því það sé ávísun á vinnuþrælkun af alvarlegri gráðu og lítillar uppskeru annars en vanskilnings og lítilla launa.

Kannski er ég bara svona lélég fyrirmynd - það er hugsanlegt. En þegar ég dreg undanfarin áratug saman eru fáar helgar þar sem ég hef ekki eitthvað setið yfir vinnunni, fá kvöld sem ég hef átt þess kost að fara að sofa fyrir miðnætti vegna vinnuálags.

Ætli skólayfirvöld væru tilbúin til að borga fyrir slíka "devotion". Ég er ekki sannfærð.

Ég þarf ekki að vaka á nóttunni - ekki að taka við andvana börnum - en oft koma upp erfið persónuleg mál sem þarf að taka á þó maður sé óneitanlega mismunandi upplagður,eins og gengur.

Í kennarastarfinu koma upp ýmis mál sem þarf að fjalla um utan þröngt skilgreindra fyrirlestra - eða spurningatíma sem ákvarðaður og viðurkenndur er af kjaranefndum þessa lands eða segjum kassa-skilgreinendum Menntamálaráðuneytis.

Man í svipinn eftir að hafa verið niðurhringd af nemanda á öllum tímum sólarhrings vegna vanlíðunar á sálinni. Man í svipinn eftir að hafa verið vakin um miðja nótt af grátandi nemanda sem að taldi sig misskilda.

Man í svipinn eftir að hafa þurft að halda fundi með nemendum sem að áttu í vandræðum vegna fyrirlagðrar hópasamvinnu sem ekki var að fúnkera miðað við væntingar.

og svo mætti lengi halda áfram að telja það sem telst utan formlegrar viðveru vegna kennslu....Til dæmis þegar að skilgreind stjórnun (12% af vinnutíma) dregst á langinn vegna mikillar umsýslu á umsóknum, undanþágum,staðfestingum á fyrirhuguðu námsferli og svo mætti lengi halda áfram að telja.

Það koma upp mál stjörnunemenda sem hafa greinst með krabbamein - hvernig tekur maður á því? Horfir maður á stimpilklukkuna og segir - æ, ég er búin með mína tíma..hann getur róið sinn sjó!?

Minni á myndina the WALL - hún var býsna góð og sýndi hvernig að verksmiðjuvæðing skólanna hefur áhrif á afurðirnar - nemendurnar! 

Viljum við slíkt samfélag.

Ekki ég

Vilt þú það?

 

 

 


mbl.is Uppreisn gegn stimpilklukku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannlíf skrýtið og hálft hjarta

Það er að færast yfir mig ró og ég hlakka til friðargöngunnar í dag. Hef einsett mér að láta verkefni dagsins vera a) klára að fara yfir verkefni og próf og gefa einkunnir svo blessuð börnin fái nú námslán. b) gera harissa, niðursoðnar sítrónur og heimagerðan ís, c) skrifa almennilegt jólabréf (eitthvað sem rekið hefur á reiðanum þetta árið, skítt með það, það verður þá bara áramótakveðja í staðinn).

Jólakveðju Lingua -  Norðan Jökuls ( fékk ég um daginn og má til með að láta hana fljóta með til ykkar því þau vanda sig alltaf svo á hverju ári, mér finnst það aðdáunarvert.Í ár er hreyfimyndin eftir Guðjón Braga Stefánsson en tónlist og flutningur er í höndum kvennabandsins Dúkkulísur. Ljóðið sem er gullfallegt er eftir Börk Stefánsson. Sjá hér!

Þar er minnt á mikilvægi fjölskyldunnar og heimilis sem griðastaðar fyrir ást og væntumþykju - þar sem hægt er að öðlast innri frið. Því miður er ekki svo fyrir suma. Sum börn eiga ekki heimili og lítið hjartarúm meðal hina fullorðnu. Reyndar er það svo að sumir t.d skilnaðarbörn eru klofin, eiga tvö heimili, tvö hálf heimili á stundum og þegar að þau eru á einum staðnum sakna þau hins og öfugt.

Umfjöllun um þetta í fjölmiðlum undanfarna daga hefur verið þörf og bráðholl, og þeir sem hafa lagt orð í belg hafa sem betur fer haft skynsama og eðlilega nálgun á þessa hluti að mínu mati. Gott væri að heyra frá fleirum sem hafa svipaða reynslu.

Ég skil þetta svolítið með að vera alltaf svolítið hálfhjarta - en maður verður að lifa með því og viðurkenna söknuðinn innra með sér. Öll þessi átta ár sem ég hef búið hér á Íslandi hef ég verið klofin því stundum hef ég verið með börnunum mínum og stundum ekki, ég hef verið mismunandi sátt við það en hef þurft að læra að lifa með því glöð. Þannig kemst maður helst í gegnum hremmingar í lífi sínu að enduruppgötva gleðina í því smáa.

Ég er að auki klofin vegna þess að ég sakna alltaf míns gamla heimalands Danmerkur og þá sérstaklega á jólunum. Ég sakna alls notalega og rólega umstangsins í kringum mismunandi huggustundir og þá serstaklega áherslu fólks á ánægjulega samveru (sem ég held að íslendingar gætu lært eitthvað meira um). En þá hef ég bara lært að vera með mínu fólki í Danmörku í huganum (skála í snafs og borða síld í draumum mínum og hugsa hlýlega til vina minna og gömlu fjölskyldu).

Laila með jólakörfu úr héraði

Laila ein besta vinkona mín í Danaveldi (sem raunar er grænlensk/dönsk) er orðin ferðamálastjóri Frederikssund sveitarfélagsins og tók upp á því í haust að gera samning við nær alla framleiðendur héraðsins á ólíkum sviðum. Það er því hægt að markaðssetja algerlega staðbundna matarkörfu frá firðinum beggja vegna Ísafjarðarins (við Hornsherred).

Ég sakna samverustunda við hana og hennar fjölskyldu um jólin. Við höfum átt mörg góð jól saman í gegnum tíðina, en þá er gott að hugsa að vonandi eigum við eftir að eiga aftur góð jól saman einhvern tíma seinna. Ég keypti fasana í tilefni af því að þá get ég farið í huganum að Selsö marken og Selsö slot (horfið í tíma og rúmi en samt verið á staðnum).

 Jæja best að koma sér að verki - svo ég missi ekki af skötunni í kvöldTounge

 

 


Frekar Þorgrímur en Goggi mega!

Mér er farið að líða eins og mömmunni í bókinni 101 Reykjavík, nema ég er ekki lesbísk. Sonur minn fékk fartölvu og hefur setið nánar stanslaust síðan við spilið World of warcrafts. Hann hefur ekki sinnt vinnu undanfarna daga og er algjörlega "hooked", talar online við æskuvini sína í Kaupmannahöfn....klukkan þrjú um nótt, í miðju spili. Ég er algjörlega að fara úr límingunum.

Sumum finnst Þorgrímur væminn, mér finnst hann sætur maður með einlægan vilja og hann hefur fallegt og einlægt bros, það er allt sem ég þekki til mannsins.  Ég er mest hrædd um að sonur minn verði gjörsamlega glataður maki til framtíðar, haldi hann svona einarður áfram þessari tölvuleikjaiðju. Það eina sem fékk hann til að gera hlé á þessari iðju sinni, var að fara að sjá Batman myndina í bíó. Sér er nú hver veruleikaflóttinn.

Það er yndislegt að eiga góðan maka. Það er eitt. 

Það væri mjög gaman að eiga unglingsson sem að lifir nokkuð heilbrigðum lifnaðarháttum. Leikur tölvuleiki í hófi og hefur eðlileg samskipti við sína líka. Ég sem kvartaði sáran undan því fyrir hálfu ári að drengurinn væri svona ákaflega félagslyndur, hef nú séð að það er skárra en skjálíferni hans.

Samstarfskona mín sagði mér fyrr í dag að jafnaldrar hennar, strákar á þrítugsaldri hefðu margir misst kærustur, eigur, vinnu, flosnað úr námi og annað verra vegna fíknar sinnar á tölvuleikjum. Ég er dugleg að mála skrattann á vegginn- veit það, en er samt áhyggjufull.

En vona svona að hann Jónas Hrafn minn muni frekar líkjast Þorgrími en Gogga mega. OOOHHHH! 


mbl.is Karlmenn læra um konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki amalegt að fara til Krk!

 tourist-croatia-map

Svo segir í frétt mbl.is að sænsk hjón, sem ætluðu á ráðstefnu á Íslandi og ætluðu að fljúga til Reykjavíkur á Íslandi (lesist Keflavíkur) höfðu óvart bókað flug til Rijeka í Króatíu, og þangað fóru þau.

Krk er einmitt ein af þeim dásemdar eyjum sem Króatía á í Adríahafinu. ég hef áður farið á Hvar og Losinj og mæli með eyjaferð á svæðið. Krk er ein af óskaeyjunum þar eð hún er stærsta eyjan í þúsund eyja beltinu undan ströndum landsins. Rijeka er iðnvæddasta borgin en hún er líka merkileg fyrir þær sakir að árið 1750 eyddist þar nær öll byggð fyrir tilstuðlan mikilla jarðskjálfta.

Mér finnst Króatía algjört ævintýraland og gæti dvalið þar mun meira en ég hef gert.

Ég hitti annars merkismann hér um daginn frá Ástralíu að nafni Ross K. Dowling sem að vinnur við ferðamálafræði eins og ég, nema bara hinum megin á hnettinum. Hann er mikill talsmaður þess að jarðfræðileg fyrirbæri verði betur teng inn í ferðamál sem aðdráttarafl.

Geotourism kallar hann það á enskunni. Við ætlum að vinna eitthvað saman í framhaldinu. Ég hef einmitt svolítinn áhuga á að tengja Króatíu (þar eru mjög færir kollegar í landfræði sem að vinna við að skoða þróun sjávartengdrar ferðamennsku og bæjarhátíða þar í landi).

Það þarf víst varla að fjölyrða um að Ísland hefur heilmikið samkeppnis-forskot þegar kemur að jarðfræðilegum fyrirbærum sem aðdráttaröflum. En það hefur Ástralía og Nýja Sjáland reyndar líka og jafnvel Króatía og raunar mun fleiri lönd.

Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt, og segja má að hjónin umtöluðu í fréttinni hafa allavega fengið verklega lexíu í landafræði og bæjarnöfnum þó ekki væri annað, og umtalsvert betra veður en hefðu þau farið til ReykjavíkurWink


mbl.is Ætluðu til Reykjavíkur - lentu í Rijeka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppgröftur gamalla listrænna vina!

Ég er eins fornleifafræðingur þessa daganaWink. Þrátt fyrir annir hef ég sem betur fer tíma til að hitta gamla vini. Ég fór að hitta fornvin minn og gamlan skólafélaga Andreas, en við útskrifuðumst saman. Andreas er þeim gæðum gæddur að hann fer alltaf út fyrir sinn ramma og þrátt fyrir sex ára háskólanám sem landfræðingur starfar hann nú sem sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðarmaður í sífelldri leit að góðum heimildasprettum. Ég er stolt af honum, að hann hafi þorað, maður á að gera það sem hjartað býður manni.

 

Putte

Um daginn rakst ég á gamla vinkonu, hana Lilju, reyndar ekki á götu en framan á forsíðum blaðanna. Nágranni minn og félagi frá Peder Fabersgade var að gefa út barnasögu sem nær allir útgefendur danskir höfðu hafnað vegna þess að umfjöllunarefnið var umdeilanlegt. Þeir töldu að ástríðufullar ástir og ofbeldi heyrðu frekar heima í tölvuspilum en  á prenti fyrir börn. Athyglisvert. Þð segir okkur auðvitað svolítið um gildin sem ríkja í samfélaginu. Allar barnabækur eru jú hugarheimur fullorðinna þýddur fyrir börn, líka í tölvuspilum. Og afhverju mega börn ekki lesa um ástríðufullar og kjánalegar ástir milli hænu og refs, jafnvel með kynferðislegum undirtónum ef þau lesa það með foreldrum sínum, en allt í lagi er að þau spili eitthvað svipað eða verra á tölvunni? 

Lilja er barnabarn Hans Scherfig sem eflaust nokkrir íslendingar kannaðist við, en hann var mikill listamaður..og kommúnisti hér í landi. Skrifaði meðal annars det forsömte foraar. 

 

doristivolieraaben

Konan hans Andreas vinar míns, hún Ditte Stensballe sem ég hitti í fyrsta skipti í gær, er alveg frábær. Hún er ljóðskáld og rithöfundur en er að gefa út hljómdisk með frekar svona lummulegum tívolí slögurum í augnablikinu.

Nú þegar er GAFFA búið að koma með ritdóma (frekar frumleg nálgun) um lögin hennar, kannski helst lagið "balder der kalder" og er algjört bíó. Listamannsnafnið á disknum er Doris - Tivoli er aaben.

Um daginn hitti ég svo af tilviljun Thomas, gamlan sambúðarfélaga úr kommúnunni forðum daga (já ég viðurkenni og kem út úr skápnum, ég bjó í kommúnu - en ekki alveg stereótýpískri hippa-kommúnu). Hann sagði mér m.a að Anders gamall sambúðarfélagi og vinur sem var með ljóðskáldadrauma í þá daga, er búin að gefa út nokkrar barnabækur. Ég verð að grafa þær upp á næstunni er ég hrædd um, ég  á ennþá gamlan bol með ljóði eftir hann framan á. Haha. 

Anders Rostrup

Anders hefur skrifað fjórar til fimm barnabækur, tvær þeirra eru Rosita og skilsmissekatten og Asger Angaard duellerer.

Ég er auðvitað rosa stolt af þeim að hafa fundið sinn farveg  og gera það á svona skemmtilegan hátt. 

Ja, svei mér þá það hefur bara eitthvað ræst úr okkur öllum en hverjum á sinn hátt. 

Ég er algjörlega rykug háskólamús í samanburði við þetta skemmtilega skrýtna fólk úr fortíð minni, ..já nútíð..og vonandi framtíð. 


Hvernig væri ad taka jákvædan pól í hædina?

Thetta er hreinræktadur vandalismi, enginn spurning um thad.

En er ekki hægt ad vera med mótvægisadgerdir, t.d koma upp samkeppni i listsköpun á húsveggjum á einskismannslöndum borgarinnar sem er svo óskaplega mikid af, bakhlidar bílskúra og annad ljótt grátt steypuvirki sem freistar sem krotflötur.

Bara hugmynd - hvernig væri ad snúa neikvædni upp í jákvædni og bjóda skemmdarvörgum birginn med hlátri og skemmtun.  Thannig er hægt ad hía á leidindadurga.


mbl.is Röktu slóð krotaranna frá miðborg upp í Hlíðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kennarar og nemendur sem skotspónar

Kennari á hvaða skólastigi sem er sem fremur þann glæp að gefa hagstæðar einkunnir gegn greiðslu á bæði að missa æruna og réttinn til að kenna. Að mínu viti er það svipaður glæpur og ef læknir skrifar út vottorð á (eitur)lyf fyrir sjúkling gegn betri vitund. Hvort heldur er kennarinn eða læknirinn er orðinn siðblindur og afvegaleiddur, búin að missa sjónar á takmarkinu með starfa sínum. 

Sem kennari lendir maður stundum í því að nemendur banka dyra og vilja fá mann til að endurskoða einkunnagjöf hvort heldur varðar prófniðurstöður eða einkunnagjöf fyrir lokaverkefni. Í þeim sporum lendir maður í því að þurfa að færa rök fyrir viðmiðunum að baki einkunnagjöfinni. Stundum er það einfalt ef um stigagjöf er að ræða t.d á prófum. Þegar um lokaverkefni er að ræða og ritgerðarsmíð, beiting aðferðafræði, rannsóknargögn og meðferð þeirra er matsefnið er samhengið oft heldur flóknara. Þá er ein vídd matsins huglægari heldur en svo að hægt sé einhæft að benda á gátlistann sem liggur til grundvallar einkunnagjöfinni. Maður þarf að geta fært góð og gild rök og gera sig skiljanlegan svo nemandinn hafi möguleika á að átta sig á hvort maður hefur lagt vandað mat til grundvallar einkuninni.

Ég met yfirleitt mikils þegar að nemendur vilja skoða frammistöðu sína og fá ígrundun fyrir mati kennarans á framlögðu verki og fá samtal um það. Mér finnst það bera vott um einlægan áhuga á eigin framlagi og oftar en ekki er hvatinn að spurningunni afhverju var ég metin(n) svona drifinn af þörfinni fyrir að skilja og jafnvel læra af mistökum, gera betur. Það finnst mér heilbrigð afstaða til náms.

En stundum er nemendum slétt sama um efnislegar röksemdir, vilja bara hærri einkunn, sama  hvað. Það á ég erfiðara með að sýna mikla virðingu, en ég hef líka lent í að gera mistök í yfirferð prófa, svo ég veit að mannlegi þátturinn spilar alltaf verulega inn bæði frá hendi kennara og nemenda.

Þá man ég að ég var grautfúl yfir að þurfa að fara aftur yfir tæplega 70 próf, en á eftir var ég líka miklu ánægðari - bæði af því að ég var búin að gera hreint borð, og vegna þess að ég hafði líka sjálf lært af þessum mistökum. Nemandinn átti reyndar svefnlausa nótt þegar hún áttaði sig á, eftir að hafa bent mér á yfirsjón mína, að það gæti ef til vill þýtt að einhverjir nemendur myndu falla. Svo fór nú ekki og hún gat unað vel við sitt. Ef ég man rétt voru tveir nemendur sem hækkuðu um hálfan í aðaleinkunn.

Ég hef aldrei lent í hótun af hendi nemanda nema einu sinni, sem betur fer. Í því tilfelli var um ærukæran erlendan nemanda að ræða sem sendi mér kansellískan email um að ef að ég gæfi sér ekki almennilega einkunn fyrir prófið myndi hann kæra mig. Ég verð að viðurkenna að eftir það átti ég erfitt með að sjá nemandann í réttu ljósi. Sem betur fer hafði ég ekki af honum að segja aftur. 

Annar nemandi grátbað mig um að hækka einkunn á þeim forsendum að hún gæti ekki komið heim til heldri gáfumanna tengdaforeldra sinna sem myndu fá staðfestingu á fordómum sínum um að hún væri bágur kvenkostur fyrir einkasoninn. 

Nemendur geta lent í að vera skotspónar en það geta kennarar líka. Grundvallarreglan hlýtur að þurfa að vera virðing, samviskusemi og réttsýni (kennarar verða til dæmis að átta sig á að þeir eru ekki að gefa einkunnir, þeir eru að meta eitthvað verk af hendi nemenda til einkunna). Á sama hátt eru kennarar ekki að meta persónuna eins og sumir nemendur halda, heldur verklega eða skriflegt framlag þeirra. Og þó það sé eitthvað sem maður sem nemandi tekur ákaflega persónulega eins og leikari eða rithöfundur sem fær dóm, er maður enn sama manneskjan með sömu möguleika og áður því framtíðin er í flestum tilfellum óskrifað blað. Maður er alltaf að læra, hvort sem maður er í skóla eða ekki, hvort sem maður er að kenna eða nema. 


mbl.is Hækkaði einkunnir gegn greiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn tími til að spyrna við!

Ég tel mig ekki vera talsmann forræðishyggju, en þegar kemur að netnotkun og ókræsilegu efni á netinu hef ég sterkar skoðanir þar sem mér finnst að þurfi að beita henni upp að vissu marki.

Það morar allt internetið af efni sem er til þess fallið að særa siðferðiskennd eða er beinlínis niðurlægjandi eða höfðar til verstu og lægstu hvata fólks, eins og t.d uppskriftir af sprengjum, dýraklám eða annað ofbeldisefni í dulargervi leikja. Hvernig er hægt að verja viðkvæmar sálir, saklaus börn og óharðnaða unglinga ásamt kjánalegum og misvitrum fullorðnum gegn því?

Ég held að börn læri það sem fyrir þeim er haft, en það gera fullorðnir reyndar líka. Ég held að ef að maður stillir fegurð og gleði fyrir framan fólk muni það endurspegla það sem það sér og hugsar, en sé illsku og dimmu stillt fyrir framan það, mun það hafa áhrif á hugsanir og hugsanlega gjörðir. OK, viðurkenni að þetta er einföldun - en ég trúi þessu samt.

Ég styð þetta framtak framkvæmdastjórnar ESB. Og jafnvel þótt Frakkar séu þekktir fyrir hroka þá hafa þeir stundum komist ágætlega langt á honum, t.d í tengslum við vernd eigin menningar og tungu.

Það er auðvitað líka undir foreldrum sjálfum komið að hlaða t.d niður netnanny og annað til að hefta vafr inn á óæskilegar síður. 


mbl.is ESB íhugar að taka upp frönsk netlög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband