Þegar minnið þvælist fyrir

Ertu eitthvað skyggn spurði kunningi minn mig um daginn þegar ég innti hann svara um hvernig dvöl hans við skriftir fyrir austan fjall hefði gengið. Ég varð hálf hvumsa, er farin að gleyma að taka eftir að fólk í kringum mig er svo minnislaust. Ég minnti hann á að við hefðum síðast hist þegar hann var á leið þangað og ég bað hann að heilsa melgresinu í flóanum frá mér. Hann var auðvitað búinn að steingleyma því.

Stundum líður mér eins og ég búi á einhverri annari plánetu. Af hverju man fólk ekki eftir mér. Af hverju man það ekki eftir um hvað var verið að tala síðast þegar hist var? Er ég eitthvað brjáluð. Það er eins og harði diskurinn uppi í hausnum hafi verið eitthvað prógrammeraður skringilega.

Frá því ég man eftir mér hef ég þjáðst af því að vera mjög mannglögg (en hins vegar man ég sjaldan nöfn). Þetta lím minni hefur oft komið mér í vandræði af því að gjarnan man ég eftir öllum öðrum en muna eftir mér á augnaráði, líkamsburðum og andlitsdráttum. Ég reyni að heilsa fólki sem að ranghvolfir bara augunum og heldur að ég sé eitthvað andlega skert.

Þetta er óþægilegt og gerir mig feimna. En stundum broslegt að þurfa að kynna sig upp á nýtt, setja fólk inn í aðstæður þar sem hist var og svo framvegis.  Á stundum var ég farin að halda að ég væri ósýnileg - væri með huliðshjálm. Eins gott að ég þjáist ekki líka af því að vera hraðlyginn.

En svo áttaði ég mig á því að það getur verið mjög gagnlegt að vera gæddur þessum kostum, ég yrði til dæmis algjört súper vitni ef til þess kæmi. Svo snúast hlutirnir í höndunum á manni. Um leið og ég var farin að meta þessa áráttu að verðleikum byrjaði mannglöggvi minnið að daprast. Eftir að fleiri nemendur fóru að fara í gegnum námskeiðin mín urðu nöfnin þokukenndari og stundum andlit.

Svo ég hef reynt að taka þá stefnu að brosa bara til þeirra sem vilja brosa til mín - og taka þessa hluti ekki inn á mig. 

Og fyrir þá sem halda að ég sé skyggn - mæli ég með inntöku á fiski og bláberjum með slettu af spínati. Það bætir nefnilega minnið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

ég hef líka gott minni ´andlit, en man alls ekki nöfn og það hefur oft komið mér í mikil vandræði.

ég er viss um að þú ert bara frábær og ekkert annað, þetta með bláberin er örugglega skilaboð að handan hehehe

knús á þig flotta kona

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 4.8.2008 kl. 09:52

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Kæru Þrymur og Steina

Takk fyrir kommentin ykkar. Bláber að handan! Hvort ætli það séu aðalbláber eða ekki? Góður þessi

Anna Karlsdóttir, 4.8.2008 kl. 12:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband