Hvernig ég eignaðist blaðafulltrúa!

Ja hérna. Hann Stefán Valsson, sem er með mögnuðustu leiðsögumönnum hér á landi (ég hef það frá erlendum ferðamönnum sem hafa ferðast með honum) gerðist uforvarendes blaðafulltrúi minn.

Það vildi þannig til að ég var með erindi á þjóðarspeglinum, uppskeruhátíð félagsvísinda við Háskóla Íslands í lok árs. Nema hvað, nokkrum dögum síðar var umfjöllun um erindið komin í morgunblaðið og á heimasíðu leiðsögumannafélagsins. Læt hana fylgja með, bara í gamni.

Þó greinin hafi fyrst og fremst fjallað um atferli stórfyrirtækja í beinum alþjóðlegum fjárfestingum í ferðaþjónustu er hægt að draga ályktanir sem lofa ekki endilega góðu fyrir leiðsögumenn framtíðarinnar. 

Nokkur umræða spannst fyrir tilstuðlan bloggs Berglindar Steinsdóttur leiðsögumanns um hvernig íslenskir bílstjórar á rútum hafa orðið að bjarga lítt vitandi leiðsögumönnum hér á landi vegna þess að vöntun er á þeim og því er ráðist í að ráða fólk sem hvorki hefur menntun né þjálfun. Leiðsögumönnum er víða misboðið hvernig þekking þeirra og þjálfun er ekki nægilega viðurkennd og jafnvel gjaldfelld og vilja meina að þeir þurfi löggildingu starfsheitis til þess að halda velli. Ég þekki reyndar ekki mörg dæmi sjálf um ófarir íslenskra leiðsögumanna með menntun en hef heyrt að þess séu dæmi að ferðaþjónustuaðilar hafi í neyð verið að flytja inn erlenda leiðsögumenn sem lítið þekktu til staðhátta og lásu mest af bók, í "míkrafóninn" í rútunni. Það boðar auðvitað ekki gott.

En heimasíða leiðsögumannafélagsins er auk þess allrar athygli verð, þeir hafa verið að spá í ímynd stéttarinnar og einkennisbúninga í þeim tilgangi. Það fannst mér áhugavert.

Innrás erlendra fyrirtækja í ferðaþjónustu á Íslandi   Prenta Senda 
  
 
smelltu10.12.2007. „Ekkert í okkar löggjöf stendur í vegi fyrir eignarhaldi erlendra aðila á fyrirtækjum í ferðaþjónustu á Íslandi.“ Þetta sagði Anna Karlsdóttir lektor í ferðamálafræðum við Háskóla Íslands á ráðstefnu um félagsvísindi á nýju háskólatorgi 7. desember.   Fjölbreytt eignatengsl í heimsviðskiptum eru líkleg til að smitast inn í ferðaþjónustugreinina hér á landi sem annarsstaðar. „Það er einungis tímaspursmál hvenær erlendir fjárfestar fara að líta íslensk ferðaþjónustufyrirtæki hýru auga sem fjárfestingarkost,“ segir Anna sem hefur rannsakað áhrif skemmtiferðaskipa í hnattrænu samhengi. Og margt ber að varast. „Með auknum láréttum og lóðréttum tengslum í ferðaþjónustu getur skapast sú staða að hagsmunir fyrirtækjanna verði allsráðandi í þróun ákveðinna ferðamannastaða eins og farið er að gæta víða“. Anna nefnir sem dæmi ítök alþjóðasamsteypa í Alaska þar sem hagnaður af starfseminni rennur að litlu leyti til samfélagsins á meðan álag á samgönguæðar er borinn af samfélaginu. „Með auknum ítökum alþjóðlegra samsteypa eru staðbundin sjónarmið ekki endilega efst á baugi í þróun og mótun greinarinnar. Valdahlutföll riðlast og svæðisbundin ávinningur getur orðið óverulegur“. Anna vitnaði til rannsóknar sem kom út árið 2003. Í rannsókinni kom fram að á eins árs tímabili frá árinu 2000-2001 hafi 7 skipafélög á um 10 leiðum hætt starfsemi í kjölfar yfirtaka. Þrjú skipafélög eru orðin langsamlega stærst og þess vegna allsráðandi í greininni enda hafa þau ítök á öllum stigum söluferlisins frá ferðaskrifstofum til hótela og hópbifreiðafyrirtæki. Aðeins um tugur minni og óháðra skipafélaga starfar enn í skemmtiferðasiglingum. Yfirtaka á hópbifreiðafyrirtækjum er dæmigert fyrsta skref skipafyrirtækjanna þegar þau byrja að hasla sér völl í landi, segir Anna. „Ef skipafélögunum finnst þjónustan sem þau fá ekki nógu góð eða þeim finnst hún of dýr hugsa þau sér til hreyfings.“ Lítil ítök erlendra eignaraðila hafi einkennt íslenska ferðaþjónustu hingaðtil. Anna segir það koma til með að breytast eins og annarsstaðar. „Það er aðeins tímaspursmál hvenær erlendir aðilar hasla sér völl hér á landi og hvernig það muni þróast.“ 

Stefán Helgi Valsson

Heimild: Anna Karlsdóttir (2007). „Að hafa heiminn í hendi sér! Skemmtiferðaskip í hnattvæðingarsamhengi“. Rannsóknir í félagsvísindum VIII. Viðskipa- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Erindi flutt á ráðstefnu 7. desember 2007. Ritstj. Ingjaldur Hannibalsson.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Og maður er alltaf á vaktinni ... Við reynum að þétta hóp þeirra sem standa vörð um landið og ferðaþjónustuna, gaman að lesa færsluna þína.

Kveðja,

Berglind Steinsdóttir, 11.1.2008 kl. 00:28

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Sæl Berglind!

Flott síðan þín líka og gaman að lesa viðbrögðin við færslunni þinni.

kveðja

Anna Karlsdóttir, 11.1.2008 kl. 17:39

3 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Ég hef fylgst með ferðamönnum í marga áratugi og var landvörður um skeið fyrir um 20 árum; ég sá mörg dæmi um hversu miklu máli lskipti að leiðsögumennirnir hefðu góða menntun og þjálfun, að þeir þekktu landið, kynnu sitt fag ... er ekki viss um að allar þær sögur eigi erindi á bloggið (nema kannski ef ég hef tíma til að skella inn einni jákvæðri) ... nú þarf ég að vinda mér í að lesa það sem þú vísar í á síðu Berglindar.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 12.1.2008 kl. 23:52

4 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Sæll Ingólfur

Ég er viss um að það er mikilvægt að þjappa íslenskum leiðsögumönnum saman eins og Berglind talar fyrir. Gegn þeirri óáran að hrokafullir ferðaskipuleggjendur virði að vettugi þekkingu á staðarháttum af því að það á að þjarma ferðamönnum í gegn um sem flest á sem stystum tíma. Þennan hugsunarhátt þarf að uppræta (grisja úr, taka upp eins og hvert eitt illgresi og henda) í íslenskri ferðaþjónustu.

Anna Karlsdóttir, 13.1.2008 kl. 12:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband