Spegill, spegill herm þú mér!

Já ég var stödd á þjóðarspeglinum í gær og tók þátt í tveimur málstofum um ferðamálafræði. Ég var stolt af mætingunni á málstofurnar og fannst gaman að erindum og umræðum. Fólk var áhugasamt og mjög spurult. Svoleiðis eiga málþing að vera.

Sat síðan málstofu um háskólanám þar sem fyrrverandi nemandi minn úr ferðamálafræði, nú útskrifaður meistari úr mannauðsstjórnun var með erindi um ástæður þess að nemendur við hagfræði og viðskiptadeild klára ekki lokaverkefnin sín. Það sem kom mér mest á óvart var að sálfræðilegur stuðningur eða hagnýtur stuðningur eða vöntun á því sama frá hendi leiðbeinanda virtist ekki hafa úrslitaáhrif, heldur var það fyrst og fremst vinna meðfram námi eða það að nemendur voru of uppteknir af eigin persónulega lífi. Ég var ofurstolt af Thelmu Ámundardóttur.

Eftir málstofur var tími til að spjalla við fullt af skemmtilegu fólki og rífast um tilfæringarnar í háskólanum sem standa fyrir dyrum vegna skipulagsbreytinga og sameiningar HÍ og KHÍ. Þar varð ég vör við að nokkrir samstarfsmenn úr félagsvísindadeild voru nokkuð hnuggnir yfir að ferðamálafræðin myndi ekki flytjast yfir í félagsvísindadeild...en það er auðvitað efni í sér umræður hér.

Mér fannst ljúft að heyra frá Sigrúnu Júlíusdóttur að í rauninni væru það ekki fagleg landamæri sem að skiptu máli, heldur að fá frið og almennilega aðstöðu til að vinna við...og svo að samvinna við fólk innan HÍ helgast oft ekki endilega af því í hvaða hólfi fólk er, heldur því að maður er að vinna að líkum viðfangsefnum og fellur vel við ákveðið fólk í samstarfi óháð skor eða deild.

Ég ætla bara að halda þeirri stefnu áfram...og nenni ekki að eyða tíma mínum í  fólkið sem horfir einungis á kassana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Kærar þakkir fyrir síðar, Anna Þetta voru góðar málstofur hjá ykkur í ferðamálafræðunum sem ég hafði gagn og gaman af. Sá greinina hennar Thelmu og kom niðurstaðan ekki á óvart miðað við okkar reynslu í HA. Vaknar spurning hvort það þurfi ekki að stórefla möguleika til styrkja og námslána þannig fólk geti tekið sér frí frá vinnu, eiginlega ekki spurning hvort heldur hvernig ...

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 9.12.2007 kl. 07:42

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Sömuleiðis kærar þakkir fyrir síðast Sniðugt að þú skyldir þekkja hana Margréti vinkonu mína. Nú man ég allt í einu eftir því að hún var alltaf að tala við einhvern Bordieu sérfræðing þarna fyrir norðan á tímabili - Já varðandi vinnu meðfram námi og örmagna námsmenn, þá held ég líka að það tengist því að fólk er að fara í nám á öllum aldri og stigum lífsins, oft hefur það fyrir fjölskyldu að sjá - og þá þarf fólk auðvitað að hafa tekjur svo það fái salt í grautinn fyrir fleiri en sjálfa sig. Ég veit ekki alveg hvernig er hægt að leysa slíkt, ég er allavega á móti því að fara að miða kröfur í háskólanámi við þann hóp sem stundar nám í hjáverkum. En styrkir gætu hugsanlega leyst eitthvað.

Anna Karlsdóttir, 9.12.2007 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband