Færsluflokkur: Lífstíll
3.8.2010 | 12:24
Hvernig ferðamannastaðir missa marks!
Ísland ber með sér margbreytilega ímynd allt eftir hvaða þjóðarhópar eiga í hlut eða hvaða þjóðfélagsstéttir um ræðir. Það má þakka fyrir það, því á það má spila í markaðssetningu..eitthvað sem við eigum hugsanlega eftir að læra heilmikið betur en hingað til (við dettum mjög oft niður í klisjukennda umfjöllun um okkur sjálf og landslagið, upphafningu sem að fjölmiðlalæsir neytendur sjá í gegn um).
Bretar sem ferðamenn eru samkvæmt öllum rannsóknum ekki mjög ævintýragjarnir ferðamenn, þeir eru bleyður inn við beinið - vilja ekki lenda í framandleika að of háu marki. Umfjöllun um Ísland í Bretlandi hefur markast af frásögnum um þjóð sem féll af stalli í svo mörgum blæbrigðum að ekki er undarlegt að það hafi síast inn í vitund fólks að hér er ekki eins og var (þó það sé líklega mjög orðum aukið eins og verða vill í fjölmiðlum.
Hin heimsveldistregaða-heimóttalega þjóð er fræg fyrir að yfirfæra sín viðmið yfir á ferðamannastaði (umbreyta þeim í pöbba og beikonbúllu svæði) til að þeim hugnist staðirnir verulega. Það hefur Bretum sem betur fer ekki tekist hér, enda hefur Ísland svo sem aldrei verið fjöldaferðamennskustaður líkt og Miðjarðarhafslöndin. Þetta er þó ekki bundið endilega bara við sólarstaði sem Bretar heimsækja. Ákveðin hverfi Amsterdam eru verulega löskuð á mánudagsmorgnum eftir ágang Breta á ýmsum búllum og húshornum sem þeir hafa migið upp við, snyrtipinnarnir.
Amsterdam er þó annars borg sem mætti ætla að þyrfti lítið að sníða sig að þörfum þess fjölda heimsækjenda af öllum þjóðernum sem borgina sækir á ári hverju - hún er að mörgu leyti sannkölluð heimsborg - en hún hefur sannarlega ekki farið ósnortin útúr samskiptunum við breska ferðamenn eftir að breskar ferðaskrifstofur og flugfélög fóru að markaðssetja helgarferðir þangað.
Flestir Bretar sem okkur sækja heim eru hin mestu prúðmenni, meira menntað fólk en gengur og gerist þar í landi og af skemmtiferðaskipunum er ferðafólkið eldra en hinn dæmigerði rusltúristi þeirra. Svo við höfum verið að fleyta rjómann má segja.
Ísland er "fandenivoldsk" (glannalegt og bíræfið), eitthvað sem ferðafrömuðir þessa lands hafa verið afar tregir að viðurkenna eða bera á borð. Það gerir landið spennandi fyrir forvitnar sálir. Það er því ekki amalegt fyrir okkur að vera komin í flokk fornra stórvelda. Við höfum þó eitt fram yfir sem allavega ætti að höfða til Breta, og það er að við erum meðal öruggustu staða heim að sækja í alla staði. Hins vegar komumst við ekki með tærnar þar sem samanburðarríkin Grikkland, Tyrkland, Rússland og Rúmenía hafa hælana sem fornmenningarvöggur jafnvel þó við reyndum að flagga vímuþokuðum Íslendingasögunum.
Eitt sinn rak á fjörur mínar áhugaverð bók sem ber nafnið "All poins North" eftir Simon Armitage. Bókin er samansafn fjölmargra smásagna sem eru "hálf-dokumentarískar". Þar er kafli sem ber heitið "Mum's Gone to Iceland".
Þetta er svona óbærilegur léttleiki tilverunnar frásögn af hvernig að móðir höfundar dregur hann með sér i sólarhrings-geðveikisferð til Íslands á vegum Thomas Cook. Fyrir utan að peningarnir (hinar íslensku krónur) líta út fyrir að vera einhvers konar leikfangapeningar er margt framandlegt í svona turboferð ekki síst meðal farþega. Fyrir utan að vera af eldri gerðinni voru þeir merktir til að enginn týndist og höfðu tekið hvatningunni um að vera klæddur til ferðarinnar bókstaflega. Klæðnaðurinn sagði jafnvel meira um hugmyndir farþeganna um hvaða áfangastað þeir væru að heimsækja en þörfina.
"Suitable ranges from Gortex cagoules, North Face rucksacks and strap-on compasses to M&S car coats and driving gloves, to pac-a-macs and five penny transparent rain-hoods available from all godd newsagents and tobacconists. For Mr Green, a seventy- or eighty-year-old complete with name-badge presumably sewn on by an anxious relative, "suitable" means a thick woolen suit, a thin wollen tie, a handknitted waistcoat and a pair of stout leather brogues. He stands next to you, rummaging in his pockets. somebody calls his nams over the tannoy, but he can't hear it because of the mound of black, wiry hair growing out of each ear, and the Sony Walkman playing tinnitus at full volume. You picture him at the end of the day, an Icelandic flag pinned to his tie, queuing up in the duty-free with a bag of toffees and a half-bottle of Navy rum in his basket." (bls.205)
Ferðalýsingin er hin skoplegasta, ekki síst frásögnin af ferðamönnunum . Þetta er greinilega engin nautnaferð fyrir utan fyrir þá fáu sem enda ofan í Bláa lóninu í ferðalok. Flestum finnst matartilboð pakkaferðarinnar of dýr og nær allir hafa því smurt sér nesti til ferðarinnar sem þau eru að smygla upp í sig á kaffihúsum. Þau eru dregin í gegnum land og menningu sem að því er virðist er algjörlega tekið úr samhengi. Yorkshire post hefur sett saman ferð um vatn og fyrsta stoppið er glápstaða við útisundlaug í Reykjavík en síðan er brunað á ýmsa staði. Eftirfarandi lýsing gefur ef til vill til kynna hvað vakti mesta athygli í rútuferðinni.
"The woman behind you has become obsessed with the opening and closing of the back door of the coach. Stopping at the sulphur pools, she leans over to Mum, saying "The back door is open". Mum nods in agreement. "They haven't opened it this time" she announces at the fish processing plant, then "Open again" at the president's house. The president, as it happens is not at home, which is just as well for him because half the party go lumbering across the lawns and gawp through the windows. No doubt he saw the fleet of blue buses, trundling up towards him out of town, and slipped out the back, scooting along the spit of land in his Nissan Micra, making for the interior." (bls.209).
Sem betur fer lögðust svona turboferðir af í nafni mismunandi þema eftir því sem ég best veit, en lifa þó góðu lífi meðal farþega skemmtiferðaskipa sem hingað koma. ..um það er hægt að ræða frekar.
Bretar eru fínir en ekki endilega áhugaverðasti ferðamannahópurinn að fá heim - margir aðrir ferðamannamarkaðir gefa okkur færi á að þróa meira spennandi ferðatilboð en akkúrat þeir.
Breskir fagurkerar og menntafólk mun halda áfram að heimsækja okkur eins og það hefur ávallt gert enda oft komið í öðrum tilgangi en til að eyða tímanum í að hrjóta inni í rútu eða smygla ofan í sig samlokur á kaffihúsum.
Vilja ekki ferðast til Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.7.2009 | 15:51
Streitulosandi meðferð
Fyrir utan að njóta ásta (hehe) er mikilvægt að gera eitthvað í frístundum sem að fyllir mann gleði. Þannig getur maður orðið betra foreldri og fólkið í kringum mann hamingjusamara. Mitt framlag í dag til að bæta líf fólks í kringum mig - ef það kýs svo - er að leggja hér fram pottþétta uppskrift að Mjaðar-saft. Alveg skotheldur sumardrykkur sem feilar ekki og kostar ekki mikið að laga.
Týnið minnst 40-50 knúppa af Mjaðurtablómum (sem eru í blóma nú) einhvers staðar út í móa.
Sjóðið 2 lítra af vatni með 1.kíló af sykri (gæti t.d verið helmingur hvítur og helmingur brúnn eða minna unninn sykur).
3 -4 sítrónur (helst lífrænar, annars vel skrúbbaðar) í sneiðum
Leggið blóm og sítrónur í skál eða pott í lög eins og lasagna - hellið síðan sykurvatninu yfir.
Látið kólna niður í stofuhita á meðan að hrært er varlega í mjöðnum.
Setjið skál á kaldan stað í fjóra sólarhringa og passið að hræra vel að minnsta kosti tvisvar sinnum á dag.
Síið vökvann í gegnum sigti og grisju og setjið á flöskur
Ef að þið notið glerflöskur þurfið þið að halda þeim í kælingu - annars plastflöskur.
Njótið - útþynnts drykkjarins með kolsýrðu vatni og klaka eða kranavatni - Astminn hverfur og sumarið verður ykkar.
Njótið vel!
Streita hefur áhrif á astma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.7.2009 | 15:07
Herbalisti prófar sig áfram
Nú er svo komið að ég þarf að fara að færa út kvíarnar og fá meira rými til að þurrka allar jurtirnar sem við höfum verið að safna að undanförnu. Stofuborðið bognar undan jurtum af ýmsu tagi sem eiga að veita yndisauka og lina þjáningar á næsta vetri.
Mjaðurtabunkinn er farinn að þorna og hann mun veita gleði í formi drykkjar.
Gulmaðran mun einnig veita ánægju í formi tes
Blágresið er búið að hvíla í olíu um stund og mun verða að nuddolíu þegar hún er tilbúin
Kerfilsfræin munu fara í brauðgerð
Ég bjó til yndislegan sumardrykk úr kerfilsblómum - þetta er sannkallaður sumarsmellur - ekkert betra en blómasaft þegar sólin skín og gróðurinn horfir á mann montinn.
Birkið er notað í ýmsar veigar
rauðsmárinn verður að lyfi
klóelftingin verður að linandi og græðandi áburð
blóðbergið fer í drykk og krydd og hvönnin sömuleiðis
Ég er búin að þurrka papayafræ sem munu notast ef einhver fær magakveisu
Ég fann umfeðming - sem ég ætla að rannsaka betur hvaða eiginleika hefur upp á að bjóða..
og svo er ég auðvitað að rækta kryddjurtir og salöt af ýmsu tagi villt og galið í bakgarðinum.
Allt þetta yndislega og meira til hefur íslensk náttúra upp á að bjóða yfir sumartímann - njótið tímabilsins því vel.
Þetta útskýrir kannski að einhverju leyti afhverju ég er orðin svona löt að láta heyra frá mér hér.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.3.2009 | 23:39
Mig langar líka í matjurtagarð eins og Obama
Ég þarf að ganga kurteisislega og banka á dyr nágranna minna til að fá leyfi fyrir því að pæla í garðinum, en nú, já nú ætla ég að gera það. Ég er búin að vera á leiðinni í mörg ár en hef ekki haft í mér uppburði til þess, eða tíma. Ekki gefið mér tíma. Ég er búin að kaupa fræ og á bæði útsæði að gulrótum, dilli og öðru sem síðar getur orðið góðgæti.
Tíminn er svo skrýtinn, ef maður gefur sér hann ekki hleypur hann frá manni.
Obama fær matjurtagarð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.2.2009 | 13:35
Naglasúpa getur verið hollmeti
Með bakgrunn frá Norður Afríku þar sem atvinnuleysi ungs fólks er nær 50% er kannski ekki skrýtið að menn grípi til örþrifaráða til að vekja á sér athygli með því að borða nagla og annað sem venjulega er ekki tengt manneldi.
Alveg á hinum enda rófsins eru Norðurlönd hin (allavega áður) velmegandi velferðarlönd sem að nú ætla að flauta til átaks um hollar matvörur og markaðssetja sérstöðu sína á þessu sviði með fulltingi norrænu ráðherranefndarinnar.
...og ég gæti vel hugsað mér að Íslendingar tækju þátt í þessu þó ég viti svo sem ekki nema MATÍS eða aðrir hafi þegar tekið þátt. Leiðin er merking á matvörum sem uppfylla ákveðin skilyrði hollustu.
Merkið, sem til stendur að setja í notkun á þessu ári á að auðvelda neytendum að velja hollar matvörur.
Skráargatið hefur verið notað í Svíþjóð í 20 ár og nýtur mikils trausts meðal sænskra neytenda. Með því að ákveða viðmið fyrir ákveðnar fæðutegundir hefur skráargatið orðið merki um matvæli sem innihalda minni fitu, salt, sykur og meira af heilu korni og trefjum.
Þörfin fyrir sameiginlegt hollustumerki er til komin vegna þess að matar- og kaupvenjur í Skandínavíu eru afar líkar. Þrátt fyrir að margt sé líkt í löndunum hefur komið í ljós að nokkur munur er á þeim. Norræna ráðherranefndin hefur fjármagnað rannsókn á Skráargatinu, en greiningarstofnunin Zapera gerði hana. Tekin voru 1216 vitöl í Danmörku, 1223 í Noregi og 1210 í Svíþjóð og kom í ljós að Danir hafa áhyggjur af fitu í mat, Svíar af sætuefni en Norðmenn einbeita sér að saltinnihaldi.
Rannsóknin sýnir einnig að aðeins 37-48 prósent íbúa í Skandínavíu lesa að jafnaði innihaldslýsingar á umbúðum þeirra matvæla sem þeir kaupa. Þegar notkun á Skráargatinu hefst munu neytendur á einfaldan hátt geta séð hvaða vörur eru heilsusamlegar. Merkið krefst engrar undirstöðuþekkingar á næringarfræði og auðveldar aðgang íbúa að hollum matvælum. Þetta styður við markmið um heilbrigðara líferni, sem norrænu ríkin urðu sammála um í aðgerðaáætlun um matvæli og hreyfingu á árinu 2006.
Stjórnvöl í löndunum þremur hafa samþykkt nýjar reglur sem byggja á þeim sem gilda um notkun Skráargats-markisins í Svíþjóð. Í því starfi hafa stjórnvöld byggt á niðurstöðum samstarfs við Norrænu ráðherranefndina, m.a. með því að taka tillit til norrænu næringarráðanna. Tekið er tillit til þess mismunar sem er á löndunum og hefur samstarfið haft í för með sér umbætur bæði hvað varðar vöruhópa og viðmið. Verið er að fjalla um nýju viðmiðin í framkvæmdastjórn ESB og getur Skráargatið í fyrsta lagi tekið gildi sem norrænt næringarmerki í maí 2009.
Með því að sameinast um eitt næringarmerki munu löndin einnig koma í veg fyrir stjórnsýsluhindranir í viðskiptum milli landanna. Þegar vara er merkt Skráargatinu munu sameiginleg viðmið tryggja að samkomulag er í löndunum um sölu á vörunni. Þetta er til hægðarauka bæði fyrir framleiðslufyrirtæki og smásölum.
Enn sem komið er, eru það einungis Svíþjóð, Noregur og Danmörk sem taka þátt í verkefninu, en öll norrænu ríkin hafa samþykkt notkun þess. Finnsk stjórnvöld nota enn ekki merkið, en velta því fyrir sér hvort nota megi viðmið þess ásamt þeim sem þegar eru notuð í tengslum við Hjartamerkið sem er finnskt næringarmerki. Til lengra tíma litið er einnig mögulegt fyrir Ísland að taka þátt í samstarfinu þannig að það verði almennt notað á norrænum grundvelli.
Könnun um Skráargatið 2009: http://www.helsedirektoratet.no/vp/multimedia/archive/00096/Rapport_N_kkelhullme_96339a.pdf
Norrænu næringarráðin: http://www.norden.org/pub/sk/showpub.asp?pubnr=2004:013
Maður sem borðar allt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.12.2008 | 13:16
Mannlíf skrýtið og hálft hjarta
Það er að færast yfir mig ró og ég hlakka til friðargöngunnar í dag. Hef einsett mér að láta verkefni dagsins vera a) klára að fara yfir verkefni og próf og gefa einkunnir svo blessuð börnin fái nú námslán. b) gera harissa, niðursoðnar sítrónur og heimagerðan ís, c) skrifa almennilegt jólabréf (eitthvað sem rekið hefur á reiðanum þetta árið, skítt með það, það verður þá bara áramótakveðja í staðinn).
Jólakveðju Lingua - Norðan Jökuls ( fékk ég um daginn og má til með að láta hana fljóta með til ykkar því þau vanda sig alltaf svo á hverju ári, mér finnst það aðdáunarvert.Í ár er hreyfimyndin eftir Guðjón Braga Stefánsson en tónlist og flutningur er í höndum kvennabandsins Dúkkulísur. Ljóðið sem er gullfallegt er eftir Börk Stefánsson. Sjá hér!
Þar er minnt á mikilvægi fjölskyldunnar og heimilis sem griðastaðar fyrir ást og væntumþykju - þar sem hægt er að öðlast innri frið. Því miður er ekki svo fyrir suma. Sum börn eiga ekki heimili og lítið hjartarúm meðal hina fullorðnu. Reyndar er það svo að sumir t.d skilnaðarbörn eru klofin, eiga tvö heimili, tvö hálf heimili á stundum og þegar að þau eru á einum staðnum sakna þau hins og öfugt.
Umfjöllun um þetta í fjölmiðlum undanfarna daga hefur verið þörf og bráðholl, og þeir sem hafa lagt orð í belg hafa sem betur fer haft skynsama og eðlilega nálgun á þessa hluti að mínu mati. Gott væri að heyra frá fleirum sem hafa svipaða reynslu.
Ég skil þetta svolítið með að vera alltaf svolítið hálfhjarta - en maður verður að lifa með því og viðurkenna söknuðinn innra með sér. Öll þessi átta ár sem ég hef búið hér á Íslandi hef ég verið klofin því stundum hef ég verið með börnunum mínum og stundum ekki, ég hef verið mismunandi sátt við það en hef þurft að læra að lifa með því glöð. Þannig kemst maður helst í gegnum hremmingar í lífi sínu að enduruppgötva gleðina í því smáa.
Ég er að auki klofin vegna þess að ég sakna alltaf míns gamla heimalands Danmerkur og þá sérstaklega á jólunum. Ég sakna alls notalega og rólega umstangsins í kringum mismunandi huggustundir og þá serstaklega áherslu fólks á ánægjulega samveru (sem ég held að íslendingar gætu lært eitthvað meira um). En þá hef ég bara lært að vera með mínu fólki í Danmörku í huganum (skála í snafs og borða síld í draumum mínum og hugsa hlýlega til vina minna og gömlu fjölskyldu).
Laila ein besta vinkona mín í Danaveldi (sem raunar er grænlensk/dönsk) er orðin ferðamálastjóri Frederikssund sveitarfélagsins og tók upp á því í haust að gera samning við nær alla framleiðendur héraðsins á ólíkum sviðum. Það er því hægt að markaðssetja algerlega staðbundna matarkörfu frá firðinum beggja vegna Ísafjarðarins (við Hornsherred).
Ég sakna samverustunda við hana og hennar fjölskyldu um jólin. Við höfum átt mörg góð jól saman í gegnum tíðina, en þá er gott að hugsa að vonandi eigum við eftir að eiga aftur góð jól saman einhvern tíma seinna. Ég keypti fasana í tilefni af því að þá get ég farið í huganum að Selsö marken og Selsö slot (horfið í tíma og rúmi en samt verið á staðnum).
Jæja best að koma sér að verki - svo ég missi ekki af skötunni í kvöld
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2008 | 11:41
Stofnfundur Samtaka um bíllausan lífsstíl
Mig langar að benda þeim á sem ekki ætla að læra vistakstur (sem er allra góðra gjalda vert) og þeim sem að hafa áhuga á fjölþættum samgöngukerfum í borg og eru ekki öfgafólk á móti eða með bílum heldur bara skynsamt jákvætt fólk sem sér fleiri kosti í stöðunni - að haldinn verður stofnfundur samtaka um bíllausan lífsstíl í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur kl 20 í kvöld í tilefni af Samgönguviku Evrópuborga. Markmið fundarins er að skapa vettvang fyrir hitting hressilegs fólks sem að hefur áhuga á ýmsu er varðar samgöngumál borgarinnar - strætó og almenningssamgöngur, aðstöðu hjólreiða-, göngu og hlaupafólks og borgarskipulag og mannlíf. Sjá af síðunni
Samtök um bíllausan lífsstíl er hópur fólks sem hefur að sameiginlegu áhugamáli að vinna að því að gera bíllausan lífsstíl á höfuðborgarsvæðinu að vænlegri kosti en nú er
Tilgangurinn er margþættur, allt frá því að hafa jákvæð áhrif á nærumhverfið og draga úr útblástursmengun og yfir það að skapa líflegra og mannvænna borgarumhverfi.
Í hópnum er fólk sem bæði lifir bíllausum lífsstíl og þeir sem gjarnan vildu gera það, ef aðstæður til þess væru betri.
Hópurinn er þverpólitískur, og leggur því meiri áherslu á að berjast fyrir réttindum þeirra er kjósa sér bíllausan lífsstíl fremur en sértækum og hugsanlega umdeilanlegum lausnum.
Hópurinn mun því berjast fyrir eftirfarandi atriðum:
Hópurinn mun einnig kynna kosti þess að lifa bíllausum lífsstíl fyrir þá sem ekki gera það í dag, hvaða áhrif það hefur á líf þess og nærumhverfi og hvetja fólk til að breyta um lífsstíl eftir fremsta megni.
Ég er í strætóhópnum af því að mér finnst áríðandi að standa vörð um almenningssamgöngukerfið í borginni fyrir sífellt fjölbreytilegra mannlíf sem rúmast hér.
Svo er líka svo gaman að hitta fólk í strætó, og geta setið og látið sig dreyma út um gluggann - fylgst með honum sem situr alltaf og flettir portúgölsku/Brasílísku orðabókinni dag eftir dag (ætli hann sé að fara til Brasilíu), ræða um japanska krimma við konuna sem var að byrja á bókinni, brosa fallega til vagnstjórans sem virtist eitthvað hnýpinn, og bjóða góðan daginn osfrv.
Átak í vistakstri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2008 | 00:48
Gaman að ganga
Eftir hrakfarir mínar á norðausturlandi þar sem ég lagðist í flensu og almennt volæði er ég nú að verða stálslegin og ætla að ganga að fjallabaki með syni mínum og kempunum Ósk Vilhjálmsdóttur og Margréti H. Blöndal. Það verða góðir dagar trúi ég.
Ég mæti tímanlega til að geta meldað mig í göngu Guðlaugar um kúmenslóðir eyjunnar. Hún hefur staðið sig frábærlega sem verkefnastjóri Viðeyjar í sumar með allar uppákomur, þó ég hafi farið þær færri en ég óskaði.
Mikilvægast er að lifa lífinu lifandi og eitt af því er að ganga og uppgötva. Mæli með því.
Kúmenganga í Viðey 19. ágúst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 00:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.7.2008 | 09:53
Stórbrotin byggingaráform og draumar um búsetu á hafi úti
Veröldin er full af draumórafólki, kannski sem betur fer. Ef maður á ekki drauma rætast þeir engir.
Sumir draumar eru þó spilaborgir sem dæmdar eru til að hrynja. Í maí rakst ég á skondna grein í blaði um hóp fólks sem væri með stórbrotin áform um "landnám" á hafi úti í formi risastórra búsetupalla eða bauja sem væru svo stórar að hægt væri að framleiða matvæli og lifa nokkuð sjálfbært. Það er ekki hægt að segja en af nógu svæði sé að taka til að velja sér reit til búsetu, miðað við landgrunn jarðar, en höfin þekja 70% af yfirborði jarðkúlunnar.
Af greininni kom fram að í ár hefði þegar verið settar um 30 milljónir í þróun og rannsókna á hvernig mannfólkið gæti lifað lífi sínu án útlitsins fyrir að sjá jafnvel nokkru sinni til lands.
Hafandi gaman af allskyns furðuhugmyndum fór ég inn á heimasíðu hópsins sem kallar sig hinu formlega nafni The Seasteading Institute komst ég að því að hópurinn er uppleystur allavega tímabundið.
Kannski eru þessar hugmyndir um líf og búsetu á hafi úti á undan samtímanum og dúkka upp aftur eftir 20- 30 ár aftur. Eins má ímynda sér að í kjölfar hins ríkjandi olíuhagkerfis fyrir hnattræna skipan verði til gluggar möguleika fyrir tækisfærissinna sem sjá möguleika í hústökum á tómum olíuborpöllum.
Að það muni rísa upp nýjar nýlendur....humm - stundum er gaman að nota ímyndunaraflið.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.7.2008 | 10:47
Öfund og gott fólk
Góð vinkona vinkonu minnar, alveg yndisleg kona hér í bæ var að segja mér frá góðri ferð til Hawaii í vor og ýmsu öðru. Við vorum að spjalla lífið og tilveruna eins og gengur. Hún fór þá að tala um öfund og taldi sig heppna að vera laus við öfund. Ég hafði einhvern veginn aldrei hugleitt þetta sjálf, en komst að því eftir nokkra umhugsun að ég væri mögulega líka laus við þennan kvilla sem spillir fyrir svo mörgu, bæði í samskiptum fólks og kemur að ýmsum ranghugmyndum um lífið og sjálfið.
Það er nefnilega ekki neitt gefið í henni versu!
Í samtali við aðrar vinkonur fórum við að fílósófera um að í okkar samfélagi væri mikil hallelújun á vondu fólki og þess vegna væru margir sem að væru uppfullir af hugmyndum um hættur í hornum og launráð illgjarnra og að yfirhöfuð væri voðalega hættulegt að vera þar sem maður væri eða færi.
Við komumst að þeirri niðurstöðu að heimurinn er fullur af góðu fólki en því er sjaldan gert skil t.d í fjölmiðlum sem seljast betur á fréttum af óförum, illvirkjum og öðru slíku.
....og svo er gott að fá sér sítrónuvatn!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)