Færsluflokkur: Samgöngur
10.12.2010 | 17:45
Maður sem veit sínu viti
Ég fagna því að Logi Geirsson sé áræðinn og skapandi karakter, því það er hann greinilega. Hann er því engan veginn búinn að missa neitt. Hann er einfaldlega skarpskyggn á hvar mannlífið þrífst og hefur áttað sig á möguleikunum á þessum nýja pr.vettvangi höfuðborgarbúa. Það er verra að ná til fólks sem situr lokað inn í einkabílhylkjunum sínum eða snarar sér inn í firrtar verslunarmiðstöðvar.
Flott hjá honum!
Logi Geirs búinn að missa það - selur bókina í strætó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.8.2009 | 14:14
Gott framtak hjá íbúum - koma svo, gera eitthvað skemmtilegt!
Það er gott að móbilisera sig á uppbyggilegan hátt á menningarnótt. Ég var einmitt að leggja lokahönd á að mála bakið á syni mínum sem vildi slagorðin " Ég brenni fitu - ekki olíu" - en við erum að fara að hjóla berbakt mæðginin núna klukkan þrjú.
Það er kannski spurningin um að koma við á Haðarstígnum?
Nánar hér:
Kl. 15:00 á Menningarnótt í Reykjavík munu glaðir hjólakappar hittast á miðju Miklatúni og rúlla þaðan saman á reiðhjólum sínum um bæinn.
Allir eru velkomnir, látið orðið berast til vina og vandamanna!
Það verður gríðarleg stemning í hópnum. Tónaflóð mun fylgja okkur á leiðinni (eldhress hjólalög) og við hvetjum fólk til að hjóla með bökin ber og skrifa á þau skemmtileg hjólaslagorð eða skrifa slagorð á boli. Svo er um að gera að mæta í búningum eða skrautlegum fötum.
Mætum endilega á fjölskrúðugum farartækjum (þeir sem eiga), t.d. liggihjóli, tvímenningshjóli, körfuhjóli, hjóli með aftanívagn, með tengihjól o.s.frv.
Leiðin sem við hjólum verður nokkurnvegin svona:
Miklatún - Flókagata - Langahlíð - Miklabraut - Snorrabraut - Bergþórugata - Barónsstígur - Eiríksgata - Njarðargata - Sóleyjargata - Skothúsvegur - Tjarnargata - Vonarstræti - Fríkirkjuvegur - Skothúsvegur - Suðurgata - Sturlugata - Sæmundargata - Hringbraut - Sóleyjargata - Hljómskálagarðurinn.
Við hjólum á götunum, förum að öllu með gát og erum á eigin ábyrgð.
Íbúarnir tyrfa Haðarstíg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.4.2009 | 13:57
Aðgerðir um samgöngustefnu í dag!
Ég var stödd í hádeginu hjá samgönguráðherra ásamt félögum mínum úr samtökum um bíllausan lífsstíl. Við vorum greinilega ekki með nógu æsilega efnisskrá fyrir fréttafólk (sem mætti ekki - fattar ekki hvað við erum skemmtilegt fólk;)!) en markmiðið var að vekja athygli á tilmælum sem sendar voru frá samtökunum til stærstu fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu um að taka upp samgöngustefnu. Markmið okkar var að grípa til aðgerða til að stuðla að fjölbreytilegri samgönguformum í borginni.
Ráðherra sagði okkur að ráðuneytið hans hefði þegar tekið upp stefnu og nú hjóluðu allavega þrír starfsmenn reglulega - einn meira að segja úr Grafarvogi og niður í bæ. Ráðuneytið greiðir þá strætókort fyrir starfsmenn í stað stæðisgjalds í miðbæ fyrir bifreið hans/hennar. Hann upplýsti okkur ennfremur um nokkur áform sem hrint verður af stað nú á næstu dögum....vonandi fer eitthvað að mjakast í þessum málum.
Hér er fréttatilkynningin frá samtökunum!
Samtök um bíllausan lífsstíl hafa það meginmarkmið að stuðla að bættum ferðavenjum á höfuðborgarsvæðinu og telja það afar þýðingarmikið málefni í nútímasamfélagi.
Flestir Íslendingar fara til vinnu einir á einkabíl, með tilheyrandi umferðarþunga, slæmum loftgæðum og kostnaði, sem lendir á þeim sjálfum, vinnuveitendum þeirra og samfélaginu öllu. Þær ferðavenjur verða ekki skýrðar með landfræðilegri legu, veðráttu, þéttleika byggðar eða öðrum utanaðkomandi þáttum eins og dæmi frá nágrannalöndum okkar sanna, vandamálið liggur í hefðum og hugarfari. Fjölmargir aðrir faramátar eru í boði, svo sem að taka strætó, hjóla, ganga, skokka, fara á línuskautum eða í samfloti með öðrum, sem allir eru hagkvæmari, stuðla að bættri lýðheilsu og bæta umhverfi okkar.
Í byrjun apríl munum við senda bréf til allra stærstu fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og skora á þau að taka upp samgöngustyrki fyrir þá starfsmenn sem kjósa að nota ekki einkabíla til ferða til og frá vinnu. Slíkur styrkur er ætlaður til þess að verðlauna þá starfsmenn sem ekki kæmu til vinnu á einkabíl og spara fyrirtækinu um leið talsverðan kostnað vegna bílastæða.
Fjölmargir Íslendingar fara á þessum tímum í gegnum gagngera endurskoðun á sínum útgjöldum og lífsstíl. Hóflegri notkun einkabíla gæti skilað flestum heimilum fleiri hundruðum þúsunda á ári hverju. Nú óskum við eftir liðsinni fyrirtækja í landinu við að hvetja og styðja starfsfólk sitt í heilbrigðari lífsvenjum, fyrir jafnt sál, líkama og buddu. Um leið gerum við almenningssamgöngur að samkeppnishæfari valmöguleika og höfuðborgarsvæðið okkar að betri stað til að búa á.
Fyrsta bréfið verður afhent samgönguráðherra fyrir utan samgönguráðuneytið að Tryggvagötu fimmtudaginn 2. apríl kl. 12.00. Við hvetjum ykkur til að mæta á staðinn og sýna málefninu samstöðu. Afrit af bréfinu má finna hér:
http://billaus.is/images/skjol/Billaus_Fyrirtaekjabref.pdf
Við hvetjum þá til að mæta sem vilja sýna málefninu samstöðu.
Einnig viljum við vekja athygli á því að umferðarráð er í dag nær eingöngu skipað fulltrúum þeirra sem eru akandi í umferðinni. Slíkt teljum við tímaskekkju og óskum við eftir því að okkar fulltrúi skipi einnig ráðið.
17.9.2008 | 11:41
Stofnfundur Samtaka um bíllausan lífsstíl
Mig langar að benda þeim á sem ekki ætla að læra vistakstur (sem er allra góðra gjalda vert) og þeim sem að hafa áhuga á fjölþættum samgöngukerfum í borg og eru ekki öfgafólk á móti eða með bílum heldur bara skynsamt jákvætt fólk sem sér fleiri kosti í stöðunni - að haldinn verður stofnfundur samtaka um bíllausan lífsstíl í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur kl 20 í kvöld í tilefni af Samgönguviku Evrópuborga. Markmið fundarins er að skapa vettvang fyrir hitting hressilegs fólks sem að hefur áhuga á ýmsu er varðar samgöngumál borgarinnar - strætó og almenningssamgöngur, aðstöðu hjólreiða-, göngu og hlaupafólks og borgarskipulag og mannlíf. Sjá af síðunni
Samtök um bíllausan lífsstíl er hópur fólks sem hefur að sameiginlegu áhugamáli að vinna að því að gera bíllausan lífsstíl á höfuðborgarsvæðinu að vænlegri kosti en nú er
Tilgangurinn er margþættur, allt frá því að hafa jákvæð áhrif á nærumhverfið og draga úr útblástursmengun og yfir það að skapa líflegra og mannvænna borgarumhverfi.
Í hópnum er fólk sem bæði lifir bíllausum lífsstíl og þeir sem gjarnan vildu gera það, ef aðstæður til þess væru betri.
Hópurinn er þverpólitískur, og leggur því meiri áherslu á að berjast fyrir réttindum þeirra er kjósa sér bíllausan lífsstíl fremur en sértækum og hugsanlega umdeilanlegum lausnum.
Hópurinn mun því berjast fyrir eftirfarandi atriðum:
Hópurinn mun einnig kynna kosti þess að lifa bíllausum lífsstíl fyrir þá sem ekki gera það í dag, hvaða áhrif það hefur á líf þess og nærumhverfi og hvetja fólk til að breyta um lífsstíl eftir fremsta megni.
Ég er í strætóhópnum af því að mér finnst áríðandi að standa vörð um almenningssamgöngukerfið í borginni fyrir sífellt fjölbreytilegra mannlíf sem rúmast hér.
Svo er líka svo gaman að hitta fólk í strætó, og geta setið og látið sig dreyma út um gluggann - fylgst með honum sem situr alltaf og flettir portúgölsku/Brasílísku orðabókinni dag eftir dag (ætli hann sé að fara til Brasilíu), ræða um japanska krimma við konuna sem var að byrja á bókinni, brosa fallega til vagnstjórans sem virtist eitthvað hnýpinn, og bjóða góðan daginn osfrv.
Átak í vistakstri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.9.2008 | 14:31
Ísafjörðurinn og kollsteypur borgarísjaka
Myndin er af brettinu í Ilullisat, einum helsta sölustað veiðibráðar þar í bæ. Brettin eins og þau kallast og eru sölubúðir hvalkjöts, selkjöts, fisks og annars ljúfmetis er að finna í flestum bæjum Grænlands og þar er heilbrigðiseftirlitið sjaldan langt undan og því er maður alveg öruggur. Næsta mynd að neðan af siglingu í lok apríl 2006 um Ísafjörðinn þar sem við lokuðumst inni í Ísjakadal (það var svolítið angistarvekjandi - sérstaklega þegar að sumir borgarísjakanna voru að kollvarpast eða steypa niður jökum í sjóinn).
Það er góð frétt að tengingum til Grænlands sé að fjölga því að víst er að Grænland með allar sínar dýrðir er frábært heim að sækja. Hinsvegar hefur mér stundum fundist vanta á hugsun í hina átttina, að fylla vélarnar tilbaka. Alveg eins og að fjölmargar ferðaskrifstofur og flugfélög hafa gegnum tíðina flogið til Spánar, eins vinsælasta áfangastaðar Íslendinga í útlöndum, en mjög lítið hefur verið um ferðaflæði tilbaka, þ.e að Spánverjar nýti sér flugtengingarnar til að sækja Ísland heim. Ég lenti svosem í því líka fyrir tveimur árum síðan að þurfa að fljúga milli flugmannanna í cockpittinu á dash8 vélinni sem var tóm af farþegum...sjá færslu. Ég sat einnig í hálfri vél frá Nuuk til Reykjavíkur þá.
Ég veit að mörgum Grænlendingum þætti gott að geta flogið í gegnum Ísland og nýta tengingar þaðan til margra átta sérstaklega í Norður Ameríku tengingunum. Sérstaklega ef að farið er á samkeppnishæfu verði við AirGreenland og SAS.
Ég var svo ægilega ánægð með beina flugið í sumar til Nuuk og ætlaði aldeilis að nýta mér það til að fara á ráðstefnu ICASS (International Circumpolar Association in Social Science), alþjóða heimskautaráðstefnu í félagsvísindum....en farið var 100 þúsund, hótelið hefði verið annað eins (ef ég hefði verið heppin) og uppihald það líka (fyrir utan svo auðvitað ráðstefnugjaldið). Það er meira en ruppinn og háskólakennarinn ég hafði bolmagn til, þó ergilegt væri.
Þannig að það er ekki hægt að segja að Grænland sé eða verði í bráð eitt af ódýru áfangastöðunum, en vissulega er það eitt af áhugaverðustu áfangastöðunum í nágrenni okkar og því gott að tengingarnar eru margar. Ég fer kannski bara að íhuga að skella mér almennilega á Austurströndina sem ég á alveg eftir að stúdera til botns. Ég veit um skála sem að kunningjar mínir eiga hlut í, sem ég fæ kannski gistingu í.
Gleymdi að segja: Gott framtak og "vision" hjá flugfélaginu. Vei þeim sem að því standa.
Grænland vinsæll áfangastaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2008 | 15:07
Ætla að hjóla á náttúra tónleikana
Ég er svo heppin að ég skipti úr vetrardekkjum yfir á sumardekk á vetrarhjólinu mínu svo að ég er vel búin til samgangna. Skrýtið orð - samgöngur. Að ganga saman. Karlarnir á upphækkuðu jeppunum hafa greinilega misskilið þetta orð eitthvað
Fer í laugardalinn og hjálpa Gunnu og Einari Bergmundi á natturan.is, þar sem við ætlum að gefa góð og uppbyggileg ráð um vistvæna lífshætti, sultugerð og annað. Úff voðalega hljómar þetta eitthvað hippalegt. Ætli ég sé ekki bara eilífðarhippi eftir allt.
Hlakka til að heyra góða músík. Allir í laugardalinn!
23.6.2008 | 16:41
Áhrif bíómynda á ferðalög fólks
Bíómyndin brúðguminn var skemmtileg og reglulega góð mynd. Flatey er reglulegur töfrastaður með eða án bíómyndar.
Ég dvaldi í nokkra daga með fjölþjóðlegum hópi doktorsnema og kennara þar sumarið 2003 í sumarskóla sem ég hélt utan um. Þá var Vogur opinn og við bjuggum bæði þar í húsinu og uppi í Krákuvör. Eyjan er griðastaður þar sem ekki er hægt að ná í mann með góðu móti og þar er hægt að sitja einn með hugsunum sínum og horfa á lunda í túnfæti.
Það er umhugsunarvert hvernig að eyjurnar í Breiðafirði urðu meira og meira afskekktar þegar að samgöngur hættu að miklu leyti að fara sjóleiðina. Í dag hefur vegna þrjósku og myndarskap einnar bændafjölskyldu og afkomenda annara íbúa í Flatey varðveist perla sem að hægt er að flykkjast til. Hið afskekkta hefur snúist upp í aðdráttarafl.
Vonandi eru fleiri aðstandendur í ferðaþjónustu á landsbyggðinni sem átta sig á þessu...en engin spurning, bíómynd hjálpar.
Ég vona bara að bíómyndin geri ástandið ekki óbærilegt á háannatímanum. Flatey hefur mjög ákveðin félagsleg þolmörk - þau eru svona nokkurn veginn þau að það má ekki vera svo margt um manninn þar í einu að manni finnist að maður hefði allt eins getað verið heima hjá sér.
Perlur eins og Flatey verða einstakar fyrir nokkurra hluta sakir. Flatey skartar bæjarmynd sem hefur verið varðveitt og viðhaldið og eiga sér enga líka á landinu, eru minnisvarði um arfleifð samfélagshátta sem að forfeður okkar sættu sig við, en fáir gera í dag. Eins er þar náttúru- og fuglalíf sem þéttbýlis-manneskjan vill leita í sér til hugarhægðar og afþreyingar, ásamt því að finna frelsið í að vera stökk, fjarrri glaum og gys og asa borgarinnar. Farsímatengingar eru fjarri og ef eitthvað vantar, þá vantar það bara.
Back to basics, var þetta einu sinni kallað. Það er í tísku í dag.
Hér má sjá liðið í leikjum. Við kölluðum það Arctic games competition og vorum nokkuð aðhlátursefni farþega af skemmtiferðaskipum sem komu í land með gúmmíbátum.
Metdagur í siglingum um Breiðafjörð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |