Færsluflokkur: Bækur

Þar sem vegurinn endar/byrjar!

Ég var svo heppin að fá bókina hans Hrafns Jökulssonar - Þar sem vegurinn endar, í afmælisgjöf um daginn, reyndar frá gömlum félaga okkar Hrafns frá því á Morfís dögum (úff hvað er langt síðan).

Mér finnst þessi bók afbragðsgóð. það kveður við hreinan tón sem mér líkar vel í skrifum höfundarins. Sagan færist fram og aftur í tíma og staðsetningum en ávallt þannig að maður fylgir þræði vel og svo eru líka svo skemmtilegar margar sögurnar, staðarháttalýsingar og mannlýsingar í bókinni. Eini veikleikinn sem ég sé við þessa bók er áhugaverð frásögn um fundi Hrafns við Króatíska konu sem vinur hans er mjög ástfangin af. Svo undarlega vill til að þetta er nær eini kafli bókarinnar þar sem Hrafn missir svolítið ástríðuna í frásögnum af fundum þeirra. Saga þessi er einmitt til þess fallin að bræða hvert hjarta, hún fjallar um örlög, stríðsátök, sundrun ástvina og enga endurfundi.....og nú má ég ekki uppljóstra meir.

Ég óska Hrafni til hamingju og vona að sem flestir njóti þessarar fínu bókar.


Al Idrisi upphafsmaður pasta á Ítalíu

Ég er að lesa skemmtilega bók sem heitir Delizia! - the epic history of the Italians and their food eftir John Dickie sem skrifaði líka Cosa Nostra. Í bókinni er tekið á mörgum goðsögnum ítalskra matarhefða og hvernig þær þróuðust og hvaðan mismunandi menningarstraumar í matargerð í raun bárust frá. Ein af áhugaverðari sögulegum skýringum höfundar er að pasta, verkkunnáttan tengd pastagerð hafi borist um 1100 með múslima að nafni Al Idrisi. Hann var fæddur í Marokkó en menntaður á Máraslóðum Spánar.  Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. Meira síðar.

Hannes Pétursson og Langt Hjem til mennesker

Ég hef verið að blaða í gamalli þýðingu á ljóðum Hannesar Péturssonar sem gefin var út í tveimur bindum árið 1966. Það er auðvitað hálf skrýtið að vera að lesa danska þýðingu á íslenskum ljóðum í þeirri vitund að íslenskan sem tungumál er svo mörgum sinnum ljóðrænna en það danska. En það er samt gaman. Ljóðabálkurinn Tid til Intet, Tid til alt er klassískur eins og margt sem að Hannes orti. Hér er einn bálkanna:

Hvad magter digtets ord?

Stålet har fået vinger

og flyver

Langt hinsides ørnens hjemsted.

Hvad magter ordene?

Digtets net bristet?

Gjort af kattens gang

bjergets rødder.

Å dage

da verden var en fisk

i digtets vod.


The Unnatural History of the Sea

Ég keypti mér bókina The Unnatural History of the Sea eftir líffræðinginn Callum Roberts. Hún er einkar forvitnileg og í flokki um tugs bóka sem hafa verið gefnar út á undanförnum áratug, en íslendingar hafa lítið veitt athygli .(t.d.Goodwin 1990, Blades 1997, Suzuki 1997, Dwyer 2001, Clover 2005).

Gnægð lífvera í hafinu eins og því er lýst í rituðum heimildum frá miðöldum væri algjörlega óhugsandi í dag samkvæmt höfundi (ég get þó ekki varist að hugsa um loðnuna sem ég sá fljóta í hrönnum eins og silfur á yfirborðinu við Ísafjörðinn í Ilullisat í fyrrasumar). Útgangspunktur hans er að greina frá sögu fiskveiða víða um höf frá miðöldum til okkar daga.

Ég er ekki búin að lesa bókina enn, en hún greinir frá sögu ofveiða af ýmsum svæðum heims. Myndirnar í bókinni eru einkar áhugaverðar af því að á flestum þeirra má sjá risastóra fiska sem ekki er lengur á hægt að veiða á þeim svæðum sem að þeir eru myndaðir á (í byrjun eða um miðbik tuttugustu aldar).  (Þá man ég eftir öllum undirmálsfisknum á fiskmarkaðnum á Norður Spáni sem ég heimsótti seint árið 2004).

Hlakka til að lesa þessa bók í 36 stunda ferðalaginu mínu sem ég á fyrir höndum. 


Hugleiðingar um vaxtakerfið og hinn skynsama óvita rifjaðar upp!

Ég er stödd í húsi afa míns og ömmu á norðurhjara Íslands og finn texta eftir danann og ísfirðinginn M.Simson í skrifstofu afa míns, rúmum 20 árum eftir að hann lést. Þessi rykugi bókarvísir hefur árið 1965 (þegar hann var gefin út) verið innlegg í þjóðfélagsumræðu þess tíma þó hann sé skilgreindur sem andleg vísindi á málfari þess tíma. Mér finnst ég hafa fundið gullmola nú þegar Ísland siglir inn í það að ætla sér að verða bankaþjóð og fjármálastofnanir og starfsemi þeirra er fjórða stoðin í gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Orðræðan í bókinni er í anda Helga Sæmundssonar, mikilfenglegar lýsingar sem þykja kannski fornar en bera með sér að skrifandinn hefur verið innblásinn.

M.Simson virðist hafa átt fjölskrúðugt lífshlaup. Fram kemur á baksíðu að hann hafi komið frá Norður Jótlandi af fátæku sveitaheimili og gerst trúður í sirkus frá 17 ára aldri til þrítugs. Þá hafi hann farið til Íslands árið 1915 með fjölleikasýningar en síðan sest að á Ísafirði þar sem hann lærði ljósmyndun og starfaði sem ljósmyndari síðan. Hann virðist hafa verið ákaflega handlaginn og listskapandi - hann hafi smíðað 50 útvarpstæki á byrjunarstigi þess undurs en einnig gerst myndhöggvari og eftir hann sé meðal annars myndastyttan sundkonan og sundmaðurinn fyrir framan sundhöll Ísafjarðar. Eins að hann hafi verið brautryðjandi skógræktar á Vestfjörðum.  

Meginkjarni bókarinnar er að vaxtakerfið sé rót hins illa í samfélaginu og að það sé í rauninni lögleiddur glæpur í dulargervi..eða með orðum höfundarins sjálfs lögvernduð fjárkúgun. Fyrir þessu eru ótal rök færð sem bæði hafa skemmtanagildi en er þó að mörgu leyti óhemju sannleikskorn í. Það er til dæmis rétt hjá höfundi að "Vextir eru ávallt auðsöfnunaraðferð þeirra sem hirða þá".  Það er hreinlega svo mikið af gullkornum í þessum bókarpésa að ég ætla að láta nokkra fljóta með að gamni.

"Vaxtakerfið er í vitund flestra manna eðlilegt og sjálfsagður hlutur. Þeim finnst það bæði réttlátt og nauðsynlegt. Hin dýrslega valdafíkn er ennþá svo mikils ráðandi í mannlegum hugarheimi, að flestum finnst það eðlilegt, að hinn sterkari kúgi og arðræni hinn veikari."

"Vog, mál og peningar eru aðeins hugmyndir - andlegar stærðir - og ekki verða með nokkrum rétti leigðar hugsanir, þ.e.a.s. hugsaðar stærðir, eins og maður getur t.d leigt hús. ..Efnisleg verðmæti hafa ávallt sama notagildi, hver svo sem gildismælirinn er. Þar sem gullið í þessu falli telst gildismælir (þegar að gengi gjaldmiðla miðaðist við gullfótinn; mín athugasemd), fylgir það hækkun og lækkun peninganna, og er því einskisvirði sem hugmyndalegur gildismælir, og gullið hefur ekki einu sinni neitt efnislegt gildi, fyrr en því hefur verið breytt í nytjamuni, og hið eina efnislega gildi peningaseðla, er að nota þá á salerni, og á ekki að taka þetta sem neina fyndni."

Uppáhaldskafli minn er nefndur Hið lögverndaða þrælahald. Hér eru nokkrar tilvitnanir úr honum.

"Þrælar nútímans eru langtum ver settir en fyrri stéttarfélagar þeirra, og fjöldi þeirra er óteljandi og spennir um allan heim...Þrælahaldarar nútímans hafa sína þræla ókeypis með öllu, og er þetta gífurleg framför á sviði þrælahalds. Abraham Lincoln barðist gegn hinu opinbera þrælahaldi, sem hann kallaði hinn mesta allra glæpa. Vaxtakerfið var þá ekki orðið allsráðandi, og sjálfsagt hefur hann ekki rennt grun í, að vegna fávisku manna og hinnar mannlegu illvitundar, yrði myndað falið (dulbúið) þrælahald um allan heim.......Það er nefnilega þrælahald, sem er svo snilldarlega dulbúið, að þrælarnir sjálfir gera sér yfirleitt enga grein fyrir því, að þeir séu þrælar. Þeim virðist jafnvel að kerfið sé réttlátt, og hinir ríku, sem lifa ríkmannlega á þrælum sínum , mega vissulega prísa sig sæla vegna botnlauss skilningsleysis mansmanna sinna."

og þá spyrja ef til vill einhverjir - hvað með hinn skynsama óvita - hver er það? Hér er svarið!

"Hinir skynsömu óvitar segja: Vaxtakerfið er ekki verra en önnur kúgun, og þótt vextir verði bannaðir verður bara notuð önnur kúgunaraðferð. Ójá, ekki er nú sálarfræðin á háu stigi hjá blessuðum óvitunum með alla sína skynsemi. Við erum hér við hina..þýðingarmiklu skoðun Arthurs Millers, um samviskuna og "siðferðisvegginn" sem þessi frumstæði hugsunarháttur alls ekki getur yfirstigið...."

Svo slær hann svipunni til vitsmuna og þroskastigs!

"Fyrstu ávextir vitsmuna eru helvíti þó flestir vaði í þeirri villu að vitsmunir séu í sjálfu sér hátt þroskastig. Á vorum dögum höfum við mikinn fjölda hálærðra stærðfræðinga, vísindamanna og teiknimeistara og ennfremur mikla og gáfaða bófaforingja, samfara hinum miklu vitsmunum sinum hafa þessir menn frábærlega frumstætt og snoðið tilfinningalíf, sem svo veldur því að siðgæði þeirra og sálarlíf er á hreinu frumskógarstigi. Og í þessum lærðu og hálærðu mannverum höfum við einmitt þá manntegund sem er mest ráðandi í mannfélagi nútímans, og sem er í fyllstu merkingu hinn skynsami óviti....Hinir tilfinningasnauðu vitsmunamenn nota auðvitað vitsmuni sína (vegna hins lága siðgæðisstigs) í þágu hinnar dýrslegu sjálfselsku, ef til vill oft án þess að gera sér grein fyrir því sjálfir."

Ég er búin að liggja yfir þessu undanfarin kvöld og hef haft heilmikið gagn og gaman af. Mér finnst auðvitað margt eiga við í samtímanum þó ég sjálf myndi vera sparlegri á stóryrði. Mér finnst einnig ákaflega merkilegt að maður sem á bakgrunn í sirkuslífinu og trúðsskapnum skuli vera svona glöggur á að sjá í gegnum fjármálasirkusinn. Ég vissi bara ekki að svona merkilegur maður (sem örugglega hefur dansað á línunni milli andlegs heilbrigðis og kreppu) hefði búið á Ísafirði. Ég myndi vilja lesa ævisögu hans eða sjá um hann bíómynd.


Lífið í Háskólanum

If you have no point, use power point.

Ég var stödd í kennslu í morgun þegar einn nemandi benti mér á að þær glærur sem ég hafði sett á vefsvæði námskeiðsins væru ekki alveg í takt við bókina. Sú sem um ræðir er áhugasamur nemandi og enginn lasarus. Mér brá talsvert við þetta þar eð ég hef orðið vör við að nemendur og við kennarar erum að verða allt of fókuseruð á glærurnar og sjóvið frekar en innihaldið og kjarnann. Tæknin hjálpar og tæknin flekar. Þetta er kólumbusaregg kennslunar í dag.

Nemendur eru engir asnar og þegar við fórum að ræða um mikilvægi þess að lesa bækurnar að nota ímyndunaraflið og að nema af áhuga en ekki formgerðri skyldu, áttuðu þau sig strax. En engu að síður er þessi tilhneiging ansi sterk. Að ökonomisera með námið og einingarnar (af því að lánasjóðurinn andar köldu í bakið á nemendum), að komast sem auðveldast og heiladauðast í gegnum önnina.

Sem betur fer er fullt af nemendum sem ekki hafa misst heilbrigða skynsemi og sem eru orðin nokkuð góð að greina kjarnann frá hisminu. En það er jú einmitt það sem er kannski mikilvægasta veganestið úr námi. Eða er það ekki?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband