Færsluflokkur: Bloggar

Óþarfi að mála skrattann á vegginn!

Hlutirnir gerast hratt á Íslandi. Nú þarf íslenskt viðskiptalíf bara að harka af sér og gera eins og sjómenn hafa gert í aldanna rás, stíga ölduna og komast yfir verstu bárufaldana. Fréttin er skrifuð af dönskum netmiðli, ekki börsen, ekki neinu Mandag Morgen eða öðru blaði sem vert er að hlusta mikið á. Aðstæður í bandarísku efnahagslífi hafa áhrif á okkar, það var fyrirséð strax í lok sumars. Mér finnst alveg óþarft að hlusta á væl, sem gæti allt eins orðið skammvinnt. Nú skulum við bara bíða og sjá. Que será será, what will be, will be.
mbl.is Hafa misst trúna á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukin hætta á sjóslysum á heimskautasvæðunum vegna aukinnar umferðar þessar slóðir

Sjóslysið við Suðurskautslandið minnir okkur á að hættan á sjóslysum á heimskautasvæðunum (norðurheimskautssvæðinu meðtalið) hefur verið og mun halda áfram að aukast vegna aukinnar  umferðar með vöru og ennfremur aukna forvitni ferðamanna sem þar fara um.  Það hefur gripið um sig æði  að komast á heimskautaslóðir í kjölfar aukinnar almenningsumræðu um loftslagsbreytingar. Auðlindanýting og umferð með olíu og aðrar auðlindir af norðurslóðum auka hættuna ennfrekar á sjóslysum, auk vöruflutninga með skipum, ekki síst ef að siglingaleiðirnar norðvestur fyrir og norðaustur fyrir fara að opnast hluta úr ári.

Samstarf siglingastofnunar, ratsjárstofnunar, landhelgisgæslunnar og veðurstofunnar við sérfræðinga háskólans hér er því verulega mikilvægt, bæði í þróun aðgerðaráætlana - sem mér reyndar skilst að sé vel á veg komin, en líka til ýmiskonar eftirlits og spálíkanagerðar.

Ég var á skemmtilegum fyrirlestri Ingibjargar Jónsdóttur samstarfskonu minnar úr landfræði  um hafís við landið til forna og nú, við háskólann áðan. Vert er að kynna sér hennar verk betur.


mbl.is Farþegar M/S Explorer fluttir til meginlandsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig getur þekking rýrnað með flutningi málaflokka milli ráðuneyta í ör-ríki?

Ég er ósammála yfirlýsingu ferðamálasamtaka Íslands og skil eiginlega ekki afhverju aðalfundiurinn er svona ragur við breytingar í stjórnskipan ferðamála hér á landi. Það eru fyrirséðar breytingar í honum hvort eð er þar eð Magnús Oddsson ferðamálastjóri ætlar að hætta um áramótin. Helga Haraldsdóttir hefur sinnt ferðamálum í samgönguráðuneyti. Um það er samið að hún flytjist yfir eftir því sem ég best veit.

Eins og kemur fram í fréttinni eru menn hræddir við að sú þekking sem hafi byggst upp í geiranum hverfi eða rýrni með tilflutningi málaflokksins úr samgönguráðuneyti yfir í iðnaðarráðuneyti. Ég gæti ekki verið meira ósammála, ég held að þetta snúist frekar um valdahlutföll en þekkingu. Það er nær óhugsandi að þekkingin glatist við að færa manneskju neðan úr hafnarstræti og upp í ráðuneytaþyrpingu við Arnarhólinn. Nema að henni verði byrlað eitthvað á leiðinni sem fær hana til að gleyma. En mér þykir það heldur ólíklegt að það komi fyrir.

Nú er það svo að mjög stór fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa ráðið ríkjum hér á landi, þó flóran í ferðaþjónustunni (fyrirtækin) séu mun margbreytilegri. Kannski eru menn hræddir við það, að ríkjandi fyrirtæki missi völdin?

Samgönguráðuneyti og fyrirmenn stjórnskipunar ferðamála hafa allavega engan veginn verið að standa sig gagnvart öllum ferðaþjónustufyrirtækjum í valdaráni kynnisferða á BSÍ.


mbl.is Vilja fresta flutningi málefna ferðamála til iðnaðarráðuneytis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsendur framfara á Grænlandi undir grænlendingum sjálfum komnar.

Ég hef ferðast til ýmissra byggða Grænlands reglulega síðan 1996. Þetta heillandi fallega land á stóran sess í hjarta mínu. Meðal bestu vina minna eru grænlendingar bæði í Grænlandi og utan þess.  En það er ýmislegt annað en velviljaðir og stórhuga íslendingar með landnámsdrauma á sviði ferðaþjónustu sem standa samfélagsþróun þar fyrir þrifum. Grænlendingar eru hundleiðir á afskiptum erlendrar yfirstéttar sem vill bjarga þjóðinni frá afglöpum.

Þó það ríki mun meiri velvilji í garð íslendinga þar en í garð nýlenduherranna Dana, þá hafa grænlendingar hingað til ekki sýnt tilburði til þess að hafa mikinn áhuga á að efla ferðamál þar í landi. Greenland travel gefur út litaglaða bæklinga um dásemdir náttúru og menningar en lítið meir, annað en að senda starfsfólk sitt út um allar trissur á fundi, þing og ráðstefnur með ærnum tilkostnaði fyrir grænlensku þjóðina. Hagtölur um ferðamenn eru falsaðar og eru sterkar vísbendingar um að 2/3 ferðalaga alþjóðlega til og frá Grænlandi séu farin af embættis- og starfsmönnum heimastjórnar og annara opinberra stofnana eða fyrirtækja. Þetta er ekki beinlínis til þess fallið að efla traust í garð grænlenskrar ferðaþjónustu.

Innviðum ferðaþjónustu er víða verulega ábótavant en á flestum byggðum bólum eru annað hvort hótel eða skálar sem hægt er að gista í. Ég held svo sem að það sé ekki lúxusaðstaða sem ferðamenn sækjast eftir en sums staðar má gera betur ef duga skal. Meðal grænlendinga þarf að efla frumkvöðulshátt, djörfung og fífldirfsku í viðskiptum (aðalsmerki Islendinga)  en það þarf líka að byggja upp stoðkerfi til að grænlendingum megi takast að framkvæma framtak í ferðaþjónustu.

Fjölmargir frumkvöðlar eru starfandi í grænlenskri ferðaþjónustu og reka fyrirtæki. Það sem þessir aðilar eiga sameiginlegt er að þeir eru ekki grænlendingar. Í Ittoqortormit/Skoresbysund hefur ferðaþjónustua í áraraðir verið í höndum tékkneskrar konu sem rekur ferðaskrifstofuna Nonni travel á Akureyri, Íslandi. Jóhann Brandsson mannfræðingur og kona hans voru í mörg ár aðal ferðaþjónustufólkið í Tasilaq á austurströndinni, þau búa líka á Íslandi. Í Illulisat sem er aðal ferðamannabær Grænlands fyrir utan Nuuk (enn sem komið er), rekur ítalskur maður eina af aðalferðaskrifstofum bæjarins. Þar var þýsk kona einnig með ferðaþjónustu til margra ára en hún gafst upp og seldi dönum ferðaskrifstofuna. Þar var fyrir danskur maður sem fór á hausinn og danska ferðasamsteypan keypti upp. Ég held að Suður Grænland geti þróast meira í ferðaþjónustu. Ég dvaldi fyrir margt löngu í Narsaq en þar er hótel og veitingaskóli Grænlands og vona ég að  hólafólkið ætli frekar að spyrða sig við þá menntastofnun en lýðháskólann/unglingaskólann í Qaqortoq. Það væri mun nærtækara. Í Narsarsaq hafa löngum verið mikil tengsl í flugi og það ætti að vera hægt að gera þá byggð að hliðinu að Grænlandi, að því gefnu að Icelandair taki aftur upp reglulegt flug þangað - mig minnir þó að lendingarskilyrði þar hafi ekki verið upplögð. Ég snjóaði allavega inni þar í byrjun október 1996...og þó voru þetta einungis fá snjókorn sem féllu.

Skilningur margra máttarstólpa Grænlands og sumra annara grænlendinga á að efling samkeppni í ferðaþjónustu geti opnað landið meira og eflt ferðamál þar í landi er ekki fyrir hendi.

Ég lenti í rosalega skrýtinni aðstöðu þegar að ég fór sem fyrsti OG EINI farþegi nýstofnaðs flugfélags sumarið 2006 í beini flugi milli Reykjavíkur og Nuuk (höfuðborgarinnar). Fjölmiðlafólk frá grænlenska sjónvarpinu KNR og Sermitsiak (aðal dagblaðið sem heitir í höfuðið á fjallinu sem er kennileiti við Nuuk fjörðinn) var mætt út á völl til að taka mynd af lendingu og taka viðtal við mig geirfuglinn sem hafði flogið ein alla þessa leið. Þau vissu ekki sem var að ég hafði verið að fara úr taugaáfalli í vélinni, þegar ég komst að því að a) ég var eini farþeginn um borð b) íslensku flugmennirnir voru að læra að fljúga leiðina c) íslenska flugfreyjan um borð hafði aldrei komið til Grænlands og ég var að kenna henni bæjarnöfnin á tungumáli grænlendinga d) flugvirkinn sem sat í aftasta sætinu var með til öryggis þar eð nýja flugfélagið hafði leigt dashinn frá Nunaair (ég hefði viljað vera fluga á vegg, þetta hefur örugglega verið svolítið spaugilegt, svona eftir á að hyggja).

Forsvarsmenn flugfélagsins sem var á vegum Arctic Ummiaq (aðalflutningafyrirtæki grænlendinga) höfðu sagt mér að ég kæmist varla með þar eð allt væri uppbókað, þess vegna var auðvitað frekar skrýtið að lenda síðan í því að vera eini farþeginn.

Eftir að vera tekið með virktum á flugvellinum í Nuuk keyrði Guðmundur (íslendingur sem er búin að búa með hléum á Grænlandi í 40 ár) mig á hótelið inn í bænum. Ég borðaði síðan með flug-crewinu um kvöldið alveg háskalega góða máltíð á veitingastað Hans Egede hótelsins. Við kvöddumst með orðunum sjáumst á morgun, því ég átti að fljúga áfram með þeim morguninn eftir fyrst til Kangerlussuaq og síðan Ilullisat.

Þegar ég mætti út á flugvöll morguninn um 40 mínútum fyrir áætlaða brottför tóku flugvallarstarfsmenn mér fálega við innritunarborðið og sögðu mér að bíða því þeir væru ekki starfsmenn Arctic Ummiaq heldur einungis starfsmenn Air Greenland. Blaut á bak við eyrun sætti ég mig við þessar útskýringar. Ég fór ekki að verða verulega óróleg fyrr en 25 mínútur voru í áætlaða brottför og ég sá að hreyflar vélarinnar sem var staðsett 50 skrefum fyrir utan gluggann fóru að hreyfast. Þá réðist ég fram að afgreiðsluborðinu og spurði hverju sætti. Þá kvað flugvallarstarfsmaður mig hafa verið of seina að tékka mig inn í flugið og því ætti ég ekki rétt á flugsæti með þessari vél. Ég horfði agndofa á manneskjuna og reyndi að halda uppi rökræðum  í nokkra stund. Það gekk ekki verulega vel og því fór ég að hrópa upp í þessari líka mini-flugstöð og spyrja hvort að fólk sætti sig almennt við svona framkomu. Margir grænlendingar litu undan á þessa brjáluðu íslensku konu sem var með uppsteyt.  Þrælslundin var öllu öðru yfirsterkari. Ég hélt áfram að hrópa og krafðist þess nú að fara út um dyrnar og ganga í átt að flugvélinni þannig að flugmennirnir kunningjar mínir frá deginum áður sæu mig og stoppuðu hreyflana. Tveir flugvallarstarfsmenn tóku sér þá valdmannslega stöðu við dyrnar og meinuðu mér aðgang. Ég hélt þá áfram að hrópa og krafðist þess að fá að tala við fólkið flugturninum, það gekk eftir um kortér en þá voru um fimm mínútur í áætlaða brottför. Ég rogaðist upp þröngar tröppurnar með töskurnar mínar og hitti fyrir tvo aðra flugvallarstarfsmenn. Þeir sögðust skyldu hringja út í vélina og athuga hvort hægt væri að bíða eftir mér. Ég sá hvernig annar starfsmaðurinn tók upp tólið en virtist ekki tala í það, það vakti auðvitað ákveðna undrun. Hún kom síðan fram og tjáði mér að ekki væri hægt að bíða eftir mér þar eð ég væri svona sein. Ég settist á gólfið og horfði á eftir flugvélinni þjóta eftir flugbrautinni. Kyrjaði svolítið og reyndi að einbeita mér að því að slaka og taka smá jóga. Starfsmennirnir horfðu á mig í forundran og sannfærðust endanlega um að ég væri brjáluð. Ég spurði þá síðan í kjölfarið hvort mér væru allar bjargir bannaðar með að komast yfir til Kangerlussuaq þann daginn. Nei, ég gat keypt nýjan miða hjá samkepnisaðilanum AirGreenland ef ég flýtti mér niður, sú vél færi eftir tíu mínútur. Ég þakkaði þeim kærlega góð ráð og dreif mig til að hreppa miðann. Rúmum klukkutíma síðar var ég lent í Kangarlussuaq, svo einfalt var það.

Þegar ég kom inn í flugstöðina gekk ég að starfsmanni Arctic Ummiaq sem var mjög glöð að sjá mig. Ég hafði átt að vera eini farþeginn frá Nuuk til Kangarlussuaq, en ekki dúkkað upp! Ég sagði henni frá óförum mínum og hún gat svo sem ekki mikið sagt. Við fórum þá saman að innritunarborðinu til að bóka mig áfram til Ilullisat. Flugvallarstarfsmaðurinn, ungur dani, sagði að flugvélin færi ekki vegna veðurs. Það þótti okkur sérkennilegt. Hann sagði ennfremur að við kæmumst ekki um borð því það væri enginn til að keyra okkur út að flugvél þar eð henni hefði verið parkerað langt í burtu á hervellinum. Aumingja starfsmaður Arctic Ummiaq var skelfingu lostinn og leyst illa á stöðu mála. Fyrir aftan mig stóð 30 manna hópur Bandarískur á vegum danskrar ferðaskrifstofu sem hafði gert samning við nýja flugfélagið um flug síðar um daginn til Nuuk. Þau voru að fara í Moskus-safari og leiðsögumanninum leist illa á að útlit væri fyrir að þau kæmust ekki áfram sama dag vegna einhverrar skrýtinnar kergju á flugstöðinni.

Ég greip þá til þess ráðs að fara að tala ofurhátt um að íslenskum fjölmiðlum þætti þetta nú örugglega saga til næsta bæjar hvernig ferðaþjónusta og samkeppni í ferðaþjónustu virkaði á Grænlandi. Áður en ég náði að tala mikið meira var kominn lögregluþjónn á svæðið sem kurteislega bauð okkur þjónustu sína svo greiða mætti leið okkar til vélarinnar úti á velli. Ég var innrituð í hasti og fékk að sitja í lögreglubílnum út að vél.

Flugmönnunum og flugfreyjunni þótti með ólíkindum hvernig reynt hafði verið að setja stein í götu mína. Enginn hafði hringt út í vél í Nuuk, og þau undruðust verulega að þurfa að skipan flugturns að ræsa hreyflana svona hálftíma fyrir flugtak.

Hálftíma síðar fór vélin á loft og við svifum hratt og örugglega til Ilullisat. Enn var ég eini borgandi farþeginn.

Ég samdi við yfirmann Arctic Ummiaq um að láta mig vita ef eitthvað kæmi upp á með heimflug. Ég óttaðist að ég yrði innlyksa vegna þess að fulltrúum yfirvalda og AirGreenland hefði tekist að eyðileggja farir félagsins. Hún lofaði því.

Degi áður en ég átti að fara tilbaka var hringt á hótelið mitt, hotel Arctic (frábærasta hótel Grænlands, mæli með því). Flugvallarstarfsmaður á flugvellinum í Ilullisat tjáði mér að sér hefði verið gert að koma til mín skilaboðum frá starfsmönnum flugfélagsins um að ferðin á morgun myndi falla niður og því þyrfti ég að flýta mér, pakka niður á fimm mínútum og biðja hótelstjórann að skutla mér út á völl, svo ég næði flugvél dagsins. Mér brá auðvitað nokkuð í brún, fannst þetta þó skemmtilega sveitó og er sennilega svolítill spennufíkill - ég tók því bara vel í þetta. Rauk aftur inn á fundinn sem ég hafði verið á og tjáði fundarmönnum að ég þyrfti skyndilega frá að hverfa. Pakkaði föggum mínum og þaut út á völl. Þar beið ég í tvo klukkutíma eftir vélinni. Þegar flugmennirnir úr vélinni komu inn í stöð heilsuðu þeir mér með virktum, þetta var annað crew en ég hafði flogið með. Þeir sögðu mér að þar eð ég væri ekki opinberlega skráð á vélina þennan dag, myndi ég þurfa að sitja milli þeirra inn í cockpittinu.

Ég varð sannarlega svolítið hissa, því ég var nýbúin að tékka mig inn á miðunum mínum þar sem mér hafði reyndar verið sagt að nú yrði bara að bíða og sjá hvort að þetta gengi upp (að ég kæmist með vélinni). Það væri undir flugmönnum vélarinnar komið.

Ég átti ekki annarra kosta völ en að taka þessum skilyrðum en var mjög bangin, reyndi bara að bæla með mér hræðsluna. Ég hef nefnilega verið svolítið flughrædd síðan að ég bjó í Kanada 1998 og þurfti einu sinni að sitja í vél sem fór þrisvar í flugtak einungis til að lenda skömmu síðar á sömu flugbraut vegna ísinga á vængjum.

Jæja, hvað með það. Flugferðin gekk í alla staði vel - flugstjórinn tjáði mér valdsmannslega í upphafi ferðar að ólöglegt væri að tala því það gæti haft truflandi áhrif á störf flugmannanna. Ég steinþagði alla leið. Og þó að ég hafi engan veginn kvalist á leiðinni, fannst mér verulega skrýtið að ég þyrfti að sitja aðþrengd milli þeirra og steinhalda kjafti en aftur í vél var enginn nema ein flugfreyja og tóm sæti.

 Ég varð ekkert lítið fegin þegar að við komumst til Nuuk og ég fékk að fara inn á flugvöll í stoppi. Þar hitti ég heiðurshjónin Benedikte og Guðmund (sem hafði keyrt mig 10 dögum áður). Þau voru full tilhlökkunar hafði dreymt í 25 ár um að komast beint og ódýrt á milli Íslands og Nuuk. Ferðin heim til Íslands gekk vel og ég fékk að sitja í farþegasæti ásamt 45 öðrum farþegum sem voru á leið til Íslands í innkaupaferð.

Þessi ævintýraferð hefur greipst mér í huga og ég hef alltaf ætlað að skrifa um hana. Það er nú gert. Það er frá því að segja að flugfélagið nýja fór á hausinn Arctic Ummiaq til mikils tjóns. AirGreenland er ráðandi einokunarfyrirtæki heimastjórnarinnar, fyrir utan flugferðir Flugfélags Íslands til austurstrandarinnar og einstaka ferðir til Nuuk og suðurbyggða.

Ég vona svo innilega að einokuninni ljúki og að ferðaþjónusta á Grænlandi geti eflst og blómstrað. En til þess að svo verði verður margt að breytast. Ekki síst hugarfar landsmanna til atvinnustarfsemi og viðskipta í þjónustu. Það er örugglega vont að vera svona í viðjum eins og grænlendingar eru. Megi þeir sleppa úr viðjum afturhalds hugarfars og losna undan nýlenduháttum.

 

Map of Greenland


mbl.is Mikil tækifæri í ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í minningu Gíslínu Erlendsdóttur

Í gær fór ég í jarðarför Gíslínu Erlendsdóttur sem að lést fyrir aldur fram. Hún var nemandi okkar í ferðamálafræði og byrjaði að skrifa hjá mér bs.verkefni veturinn 2004/2005.  Það geislaði af henni áhuginn en líka æðruleysi. Ég vissi að hún átti við meltingarerfiðleika að stríða en síðar kom í ljós að um krabbamein var að ræða. Gíslína hafði að mestu alist upp á Dal á Snæfellsnesi og það var augljóst að það landsvæði átti hug hennar þó hún væri flutt á mölina. Hún hafði mikinn áhuga á heilsutengdri ferðamennsku og valdi að helga lokaverkefni sínu upplifun ferðamanna af ölkelduvatni í Lýsuhólslaug í staðarsveit. Það væri upplagt að ferðamálasamtök Snæfellsness og sveitarfélögin á Snæfellsnesi eða aðrir legðu út í nauðsynlegar endurbætur á aðstöðunni í minningu hennar. Hún útskrifaðist haustið 2005 en fékk því miður ekki mikinn tíma til að nýta góða krafta sína á sviði ferðamála. Athöfnin í gær var falleg í alla staði en það var erfitt að sjá á eftir góðri manneskju. Engin veit sína ævina fyrr en öll er.

Dagur að kveldi kominn

Þá eru 10 dagar í afmælið mitt. Hef nákvæmlega mjög lítið að segja annað en að ég var á ráðstefnunni krossgötur í kynjafræðum um helgina sem var ósköp skemmtilegt og gaman að hitta margt skemmtilegt fólk þar. Ég var lemstruð eftir að hafa lent í ákeyrslu á föstudagsmorgunin og er að blána á ýmsum stöðum, aum í hnjánum og hægri arm. Skellti mér því í sund í dag í seltjarnarneslaugina. Sund er frábært. Bæði til að hugsa og til að slaka á. Ég þarf hreinlega að vera duglegri að fara í sund.

Matur er manns megin

Dagurinn í gær var helgaður vangaveltum um matvæli. Ég skellti mér á fundinn um hækkandi matvælaverð í gær. Þar deildi Martin Haworth með hlustendum ákveðinni heimsýn á þróun matvælaverðs og áhrif á matvælaframleiðslu í landbúnaði vegna hnattrænnar hlýnunar, hækkandi eldsneytisverðs, þverrandi vatnsauðlinda og breyttra gilda neytenda.  Í kjölfarið var áhugaverð umræða. Salvör Jónsdóttir landfræðingur (hún kallar sig skipulagsfræðing en er í grunninn landfræðingur) vakti athygli á einhæfum fókus fólks á eldsneyti og taldi að stundum léti fólk sig meira varða hvað það mataði bílinn sinn með en hvað færi ofan í börnin. Daði Már kom inn á tilgátu Martins um að hækkandi gróffóður-verð myndi og hefði þegar áhrif á kjötverð. Það var rætt svolítið um ófarir í landnotkun (eftirspurn eftir kaupum á landi óháð landnotkun). Salvör hefur mjög ákveðnar skoðanir hvað það varðar þróun á frístundabújörðum. Ég er sammála henni, þetta er óæskileg þróun í miklum mæli. Þetta er hreinlega ekkert annað en úthverfavæðing í sveit. Ég hef þó skipt um skoðun. Þegar ég var að byggja upp umhverfisskipulagið á Hvanneyri í den fannst mér þetta hreint ekki galin hugmynd. En síðan hefur jarðaverð margfalt hækkað og orðið til að gera landbúnaðinum erfitt fyrir. Stjórnvöld hefðu þurft að taka þann pól í hæðina að eignaskipti í landbúnaði skilyrtu ákveðna landbúnaðarframleiðslu. Því fæðuöryggi verður ekki ofmetið (þó við munum alltaf vera háð innflutningi ákveðinna landbúnaðarafurða). 

Það sem ekki var talað um og ég saknaði aðeins í umræðunni (en var þó ekki nógu fljót að snara í spurningu) var þróun í verðmyndun. Mér fannst hreinlega sorglegt að þeim spurningum sem beint var til fulltrúa verslunarinnar úr sal fengust lítil eða mjög loðin svör við. Ég er ansi hrædd um að þar kreppi skóinn og hafi gert lengi. Allar rannsóknir sem ég þekki til (Bandaríkin, Bretland, Frakkland) sýna að milliliðir eins og afurðastöðvar, innkaupa-aðilar, vinnslur og stórmarkaðir hirða stóran hluta arðsins, á meðan að sjálfur framleiðandinn situr eftir með rýrari hlut en áður. Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að það verði vakning meðal bænda og matvæla-frumframleiðanda á að fara óhefðbundari markaðsleiðir - þó svo að það verði aldrei nein heildarlausn. Ég skrifaði víst grein um þetta árið 2001.

Ég fór síðan á fund með kokki mötuneytisins í grunnskólanum og við fórum yfir matseðil og matargerðaraðferðir, efni og innihald. Það var fróðlegur fundur sem gekk vel. Ég er í mötuneytisnefnd skólans ásamt fleiri foreldrum og við höfum verið að gera úttekt á mötuneytismálum nokkurra grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er mismunandi. Það er gæði matarins sem börnin okkar fá í skólunum. En við megum heldur ekki gleyma því að máltíðin kostar einungis 250.


mbl.is Maturinn dýrari á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Voru þjóðverjar fyrsta þjóðin? Og hvað eru þeir að verja? Ýmislegt í kýrhausnum!

Sonur minn spurði mig þessarar skrýtnu spurningar í morgun. Við höfum haft svo mikinn tíma til að spjalla og spá undanfarið. Mér fannst þetta nokkuð vel spurt (tek það  þó fram að ég er "biased").

Það hljómar óneitanlega á íslensku eins og þjóðverjar hafi varið sína þjóð alveg sérstaklega. Af hverju heita ekki bretar, bretverjar? Eða belgar, belgverjar? Eða Bandaríkjamenn, Ameríkuverjar? Íslendingar er dregið af Íslandi. Þjóðverjar er dregið af Þýskalandi. Afhverju heita þeir þá ekki þýskingar!?

Það er margt skrýtið í kýrhausnum! Ég fann miða á eldhúsborðinu sem ég hafði dregið með mér heim af veitingastaðnum Simon & Seaforts alla leið frá Alaska (góður fiskistaður, mæli með honum). Í þessum miða er einhvers konar spakmæli, sem ég reyndar myndi varla kalla spakmæli. Það er eftirfarandi:

"I come from a family where gravy is considered a beverage!" Erma Bombeck.

Jahá, þá vitum við það!


Vændi á börum Reykjavíkur, er það ekki ólöglegt?

Ég var stödd í bænum í nótt, aldrei þessu vant, ég verð vístFrown seint ein af aðal barljónum bæjarins, mér finnst nebbnilega ekkert of gaman að vera innan um ölvað fólk og bar stemning í bænum er oft svolítið firrt. Fólk er að leita að einhverju sem það veit ekki hvað er eða þorir ekki að tala saman fyrr en á fimmta glasi og þá er maður yfirleitt orðinn frekar leiðinlegur. Ég tók ekki eftir neinum barsmíðum, en ölvun - sammála því.

Öðru tók ég eftir sem ég hef ekki séð áður svo áberandi í skemmtanalífinu. Inni á REX voru fjórar vændiskonur sem sátu við barinn og voru augljóslega að selja sig - það fór ekki fram hjá neinum sem horfði á. Ég hef bara aldrei áður séð þetta svona augljóst. Þetta er greinilega eitthvað nýmæli og virkaði fremur Rússneskt eða Austur-Evrópskt í mínum augum. Melludólgurinn stóð í horninu fyrir aftan og gerði út um viðskiptin. Af hverju er lögreglan ekki að skipta sér af þessu? Ég skil þetta ekki, ég er alveg viss um þetta er ólögleg starfsemi.


mbl.is Mikil ölvun og slagsmál á höfuðborgarsvæðinu í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við Elías í Barcelona

Við mæðgin fórum til Barcelona saman, ég að kenna við Universitát Autonoma de Barcelona, og hann sem minn aðstoðarmaður. Við lentum heldur betur illa í því við vorum rænd fyrsta kvöldiðBandit

Hér eru nokkur brot úr dagbókum sonar míns sem að hann skrifaði fyrir bekkinn sinn í utanlandsdvölinni.Grin

Fyrsta kvöldið okkar í Barcelona urðum við fyrir óhappi. Eftir að hafa skoðað Dali safnið, stoppuðum við á Tapas bar við Dómkirkjutorgið sem´hét Bilbao eins og borgin í Baskalandi. Á meðan ég var að ná í tapas var töskunni hennar mömmu stolið. Mamma sat allann tímann á sama bekknum með töskuna við hliðina á sér. Við leituðum um allt og fólkið á staðnum hafði mikla samúð með okkur. Við vorum ráðþrota. Tvær þýskar konur gáfu okkur tvær og hálfa evru svo við kæmumst með lestinni á hótelið okkar. Við fórum á lögreglustöðinaPolice og vorum þar til miðnættis (fjórar klukkustundir), á meðan að mamma var að skrifa skýrslur og loka kortum. Ég sofnaði næstum í gluggakistunni á meðan.

Ég var með mömmu í háskólanum. Nemendurnir voru ekki bara að hlusta á mömmu. Það voru stelpur að biðja mig um að teikna fyrir sig. Við fórum í matarboð heim til Fransesc. Konan hans sem heitir Helena gaf mér Fouet, sem er rosalega góð katalónsk pylsa. Hún kenndi mér katalónsku, að segja: Bono tarde, amdic Elias.

Við fórum að hitta Bíbí á Placa Catalunya. Við gengum með henni á aðal ferðamannagötunni sem heitir Rambla. Þar er mikið af fólki klætt í skrýtna búninga og stendur eins og styttur. Þar eru líka listamenn að teikna myndir af fólki. Ég heimsótti skólann hans Hjálmars. Hann heitir Colegi Sagrada FamiliaInLove einu sinni var skólinn hans allur nunnuskóliWoundering. En það var í gamla dagaGasp.

Hjálmar er í öðrum bekk. Það er bara einn bekkur í hverjum árgang. Hjálmar er að læra lestur, stærðfræði, listasmiðju, spænsku, ensku, tölvur, ritun, kristinfræði og lífsleikni ásamt tónmennt. Matartíminn í skólanum er langur. Hann er milli 13 og 15 á hverjum degi. Skólastjórinn sem hét Carma fór með okkur í skoðunarferð um skólann. Hann er á mörgum hæðum og næstum eins og völundarhúsFrownUndecided

Skólinn er frá 9-17 á daginn. Hjálmar lærir munnlega tjáningu á föstudögum. Honum finnst öll fög jafn skemmtileg í skólanum. Mér finnst listasmiðja skemmtilegustW00tWinkGrin

Eftir heimsóknina lékur við okkur fram á kvöld. Svo fórum við á Pizza staðSmile

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband