Færsluflokkur: Bloggar
23.9.2008 | 23:36
Reynt við klukk!
Guðrún Vala klukkaði mig og ég skildi ekki alveg hvað það þýddi, en Steina vísaði mér leiðina svo nú prófa ég.
Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina.
Ég vann á elliheimilinu Grund á menntaskólaárunum og í Námsflokkum Reykjavíkur. Þetta voru talsvert ólikir vinnustaðir, ekki hægt að segja annað. En ég lærði bæði mannleg samskipti og sitthvað um mannlegan breyskleika. Ég bý að því enn.
Vangede huse, þar sem ég vann á sambýli einhverfra barna og unglinga. Það var líka lærdómsríkt. Ég lærði um mannlegt eðli og þögul samskiptaform, að bera virðingu fyrir öðrum hugsunarhætti og sjá fegurðina í smáum framförum.
Nordatlantiske regionalstudier. Ég lærði heilmikið um Norður Atlantshafsþjóðirnar og sérstaklega Grænland en einnig Norður Kanada. Kynntist læriföður sem að því miður dó fyrir aldur fram, honum Peter Friis ásamt mörgu öðru frábæru og skemmtilegu fólki.
Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri. Kynntist aftur gömlum góðum íslenskum sveitagildum sem að höfðu einhvern veginn gleymst á 12 ára veru minni erlendis. Þetta var notalegur tími, ógnvænlegur, sár en líka lærdómsríkur.
Fjórar bíómyndir sem ég held upp á:
Ég gleymi aldrei delicatessen og einnig annari franskri dansmynd sem var saga tímans á bar einum í París (man ekki hvað hún hét). Ég held upp á Cold Fever. Fannst der anderes leben mjög góð. Man einna skýrast eftir sænsku myndinni du levande á þessu ári sem einmitt er tilnefnd til norrænu kvikmyndaverðlaunanna. ....og fjölmargar aðrar sem erfitt er að gera upp á milli.
Fjórir staðir sem ég hef búið á
Reykjavík: Skólavörðustígur, Hvassaleiti, Búland og Álfaland í Fossvogi (Hér ólst ég upp bómullarbarnið umvafin umhyggjusemi foreldra minna sem tryggðu mér öruggari skilyrði en ég hef getað búið börnum mínum.
Lærdal, Sognfjörður, Vestur Noregur. (Mikilvægur tími en ljúfsár í minningunni)
Kaupmannahöfn: Amerikavej, Valdemarsgade (Vesturbrú), Peter Fabersgade (Nörrebro), Aalökkevej (Vanlöse), Sofiegade (Christianshavn), Holmbladsgade, Frankrigsgade (Amager), Birkevej (Dragör).(Dýfur, veltur, dýrmætar hamingjustundir - allt litrófið eiginlega)
Guelph, Kanada (Ljúfur tími en skrýtinn eftir á að hyggja)
Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar
Klovn (bara asnalega fyndinn - ég kannast allt of vel við taktana)
Bókmenntaþáttur Egils Helgasonar (bryð hann í mig eins og mesta spennuþátt)
Út og Suður (Skemmtileg flóra af fólki, Gísla tekst alltaf vel upp)
Anna Pihl (mannleg kona og atburðarrás sem er spennandi)
Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum.
Hornsherred, Danmörku
Eyjar við Króatíu
Hinar ýmsu borgir og sveitir Þýskalands, allt frá Lubeck í norðri til Konstanz í suðri.
Raufarhöfn og Melrakkasléttan (allra meina bót).
Fjórar síður sem ég skoða daglega utan bloggs
www.hi.is (minn vinnustaðasíða og mjög gagnleg að auki)
Facebook (Böhh, ekki frumlegt!)
natturan.is (skyldumæting)
billaus.is (af áhuga)
Fernt sem ég held upp á matarkyns
Gulrætur, spínat, epli og bláber (ég er ekki heilsufrík en mér finnst hollur matur bestur af því að þá líður mér best).
Fjórir bloggarar að klukka
Siggi hrellir
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson (langar að sjá hvort hann mótmælir því)
Þrymur Sveinsson
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
Fjórir staðir sem ég vildi helst vera á núna:
Brasilía er botnlaust forvitnilegt land.
Indónesía er rosalega spennandi ég er að vona að ég komist á ráðstefnu þangað á næsta ári til Norður Sulavesi (læt mig dreyma)
Í hálsakoti einhvers sem mér þykir vænt um
Gangandi við strönd að anda að mér öldu-drununum. Það er ekkert eins hressandi og lífs-endurnærandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.9.2008 | 00:19
Ballið vestanhafs rétt að byrja
Greip orð Hildar Helgu Sigurðardóttur á lofti þar eð ég var að koma að vestan, nánar tiltekið af fundi með samstarfsfólki í verkefninu Arctic Observation Network - social indicator project. Þar voru gamlir kunningjar frá Ameríkunni BNA, Kanada, Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Rússlandi. Við vorum á yndislegum stað nærri Amherst, Leverett heitir hann. Hæðóttir skógar, gamalt landbúnaðarsvæði sem áður var þekkt fyrir tóbaksrækt og nú hefur breyst í búsetulandslag velmegandi sem vilja svæði, læki og fuglasöng í kringum sig. OH, það var borðaður nýr maís alveg út í eitt, enda uppskerutímabil - leiðinlegt að ég skildi hafa misst af því að stinga tönnunum í gott og safaríkt epli. Ég er mikil eplaæta og sakna þess ávallt hvað íslenskir kaupmenn hafa lítinn sans fyrir gæða eplum. Massachussetts fylki er í eplabelti Bandaríkjanna og ekki vantaði hlaðbúðirnar við vegina sem seldu maís, tómata og aðra dýrindis uppskeru.
Nú og tilbaka til ballsins.
Með mér voru talsvert af Alaska búum sem ég þurfti að sjálfsögðu að spyrja útúr hvað varðaði varaforseta-framboð fylkisstjóra þeirra, nefnilega hana Söru Palin. Marie vinkona mín og samstarfskona var ekki allt of uppveðruð. Hún hefur reyndar verið dugleg í Alaska en á greinilega erfitt með að aðgreina persónulega hagsmuni frá starfslegum þar eð hún er viðriðin dómsmál í augnablikinu vegna þess að hún gerði yfirmann í fylkisstjórninni brottrækan vegna þess að hann vildi ekki reka fyrrverandi mág hennar sem hafði skilið við systur hennar nokkru áður. Mér finnst það auðvitað ekki meðmæli. Sharman hafði á hornum sér að hún væri svo trúuð að hún gæti ekki séð út fyrir þau gleraugu, t.d hefði hún mikið á móti fóstureyðingum og finndist að guð ræki stríðið í Írak. Ég er sammála því að það eru ekki beysin baráttumál en er viss um að mörgum Ameríkönum finnst það alveg ágæt stefna. Svo segir hún sig vera baráttukonu gegn andsnúnum fjölmiðlum, sem mér skylst að sé sama stefna og Nixon rak á sínum tíma og gekk vel í almenning. Matt Berman samstarfsmaður minn sagði hana vera "social conservative" og að hún væri absolut ekki sín Ella. Við ræddum um að það væru örugglega margir miðstéttar-ameríkanar sem þó finndist hún einmitt svöl vegna þess að hún hefur skorið upp herör gegn fjölmiðlum og finnst blaðamenn of einstrengingslegir i umfjöllun sinni. Aðstandendur fatlaðra barna sjá líka fyrir sér góðan fulltrúa í lobbýi fyrir þroskaheftum innan ríkisins.
Athyglisverðust fannst mér þó innsend lesendagrein í dagblaðinu USA Today einn daginn, þar sem að kona kvartaði yfir umfjöllun dagblaða um að gerð hefði verið athugasemd um að Sarah Palin hefði einungis fyrir mjög skömmu síðan eignast vegabréf. Sem er auðvitað nokkur vísbending um að hún er ekki mjög mikill kosmopolitan eða mjög fjölreist manneskja. Sendandinn vildi benda á að margir Bandarikjamenn ættu ekki vegabréf vegna þess að í eigin landi væri svo gífurlega mikill fjölbreytileiki að lítill þrýstingur væri á að sjá aðra heimshluta. Við innsendu greinina var ljósmynd af nýlegri ferð Sörunnar til Afganistan þar sem hún heimsótti bandaríska hermenn. Það má til sanns vegar færa að einungis 15-20% bandarísku þjóðarinnar á vegabréf og eru rök innsendandans því allskostar rétt þó að athugasemdir megi gera við að hugsanlegur fulltrúi eins mesta heimsveldis heims sé svo lítið sigldur. Það ætti allavega ekki að styrkja víðsýni í utanríkisstefnu, svo mikið er víst.
Kollegar mínir töldu að lítil ferðareynsla dömunnar væri ávísun á heimsku, sbr. íslenska orðatiltækið heimskt er heimaalið barn. Þannig að það má segja að ég hafi ekki komið heim með mjög jákvæða umsögn um dömuna. Tel þó að Obama hafi farið fram úr sér með því að líkja henni við svín. Það finnst mér pínulítið ósmekklegt...og er reyndar alveg viss um að margar bandarískar konur snéru sér í rúminu ergilegar yfir að Hillary komst ekki áfram og urðu honum andsnúnar í kjölfarið. Kallinn skaut sig í fótinn, svo mikið er víst. Því að þó að Sarah sé örugglega ekki besti varaforsetakostur þessarar 300 milljóna borgara þjóðar er hún kona sem hefur ýmsa fjöruna sopið. Það falla margir fyrir því, jafnvel þó hún sé með varalit og að ýmissra mati í of stuttu pilsi (afhverju rannsakar enginn buxnasídd karlframbjóðendanna).
Bandaríkjamenn eru gífurlega ginnkeyptir fyrir hégóma. Sarah er orðin uppáhalds grín tól spjallþátta stjórnenda sem hafa tveimur vikum eftir látið gera dúkkur sem að sýna konu með gleraugu og hnút í stuttu pilsi að skjóta úr byssu. Humm. Voðalega er ég fegin að vera ekki alvöru hluti slíks samfélags. Einhvern veginn. Úff.
Finnst samt gaman að borða á diner..þegar ég er í AMERICA.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2008 | 09:53
Stórbrotin byggingaráform og draumar um búsetu á hafi úti
Veröldin er full af draumórafólki, kannski sem betur fer. Ef maður á ekki drauma rætast þeir engir.
Sumir draumar eru þó spilaborgir sem dæmdar eru til að hrynja. Í maí rakst ég á skondna grein í blaði um hóp fólks sem væri með stórbrotin áform um "landnám" á hafi úti í formi risastórra búsetupalla eða bauja sem væru svo stórar að hægt væri að framleiða matvæli og lifa nokkuð sjálfbært. Það er ekki hægt að segja en af nógu svæði sé að taka til að velja sér reit til búsetu, miðað við landgrunn jarðar, en höfin þekja 70% af yfirborði jarðkúlunnar.
Af greininni kom fram að í ár hefði þegar verið settar um 30 milljónir í þróun og rannsókna á hvernig mannfólkið gæti lifað lífi sínu án útlitsins fyrir að sjá jafnvel nokkru sinni til lands.
Hafandi gaman af allskyns furðuhugmyndum fór ég inn á heimasíðu hópsins sem kallar sig hinu formlega nafni The Seasteading Institute komst ég að því að hópurinn er uppleystur allavega tímabundið.
Kannski eru þessar hugmyndir um líf og búsetu á hafi úti á undan samtímanum og dúkka upp aftur eftir 20- 30 ár aftur. Eins má ímynda sér að í kjölfar hins ríkjandi olíuhagkerfis fyrir hnattræna skipan verði til gluggar möguleika fyrir tækisfærissinna sem sjá möguleika í hústökum á tómum olíuborpöllum.
Að það muni rísa upp nýjar nýlendur....humm - stundum er gaman að nota ímyndunaraflið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.6.2008 | 22:50
Ætli sé hægt að vera jarðskjálftaónæmur?
Ég er virkilega fúl yfir að hafa ekki fundið fyrir skjálftanum nú í kvöld. Sumir eru bara mjög næmir á þetta, eins og t.d Salvör.
Það verður þó að fylgja sögunni að ég var að elda og tjúttaði við undirleik basshunter, svo það getur vel verið að það hafi haft einhver áhrif á að ég skynjaði nákvæmlega núll.
Ég er nær alltaf erlendis þegar að jarðskjálftar ríða yfir og ef ekki finna allir aðrir en ég fyrir kipp. Svo ég hlýt að vera ónæm á jarðskjálfta. Einu sinni sat ég sem unglingur í stofu með foreldrum mínum sem kipptust upp af stólunum en ég skynjaði nákvæmlega ekki neitt. Þau héldu staðfastlega fram að jarðskjálfti hefði orsakað þetta, sem reyndist rétt samkvæmt fréttum. Ég hins vegar skynjaði nada.
Ég veit að það er víst ekkert grín þegar svona kippir ríða yfir og hlutir færast til, en ég verð að viðurkenna samt að ég væri alveg til í að prófa að finna kipp
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2008 | 21:56
Valdasjúkur kúgari
Manni hefur bara orðið orða vant við röð frétta af meintum og langvinnum glæp ódáðamannsins Josef F síðustu viku. Hann er svo mikill tyran að leita þarf lengi að einhverri hliðstæðu.
Ég er annars búin að vera að horfa á þættina "kongemordet" byggða á skáldsögu Hanne Vibeke Holst um ofbeldisfullan forsætisráðherra kandidat í danska sjónvarpinu. Eins og höfundurinn hefur útskýrt er ein helsta aðferð manna (í einkalífi, í opinberu lífi, milli þjóða osfrv.) að leita á náðir hins frumstæða valds sem liggur í ofbeldi ef ekki vill betur. Oftast verða konur (og börn) fyrir barðinu á slíkum kúgunaraðferðum. Það er þó sjaldan að faðir veldur afkvæmi sínu svo langvinnan og ógeðfelldum glæp og um getur. Mamman, í þessu tilfelli móður dótturinnar og kona Josef hlýtur hreinlega að hafa verið svo kúguð að hún hefur ekki haft sjálfstæðan vilja. Eða hann hefur kannski verið barin úr henni fyrir löngu. Mér finnst samt skrýtið, með það innsæi sem konur hafa oft, að hún hafi ekki hugsað sitt.
Það er með ólíkindum að nágranna eftirlitið hafi ekki verið meira í smábænum austuríska og óskandi að það hefði verið meira.
Megi hann vera fundinn í fjöru!
Fritzl vill ekki fara úr fangaklefanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.4.2008 | 21:56
Framsaga ekki málið!
Ástæðan fyrir vinsældum danskra þáttaraða er ekki framsaga leikarana dönsku heldur sú stemning sem dönsku þáttagerðarfólki tekst að ná fram í söguþræði þáttanna. Jótar tala talsvert öðruvísi en Kaupmannahafnarbúar og því er mögulegt að þeim finnist framburður leikaranna erfiður þar eð flestir danskra leikara eru af höfuðborgarsvæðinu. Danir eru í heild ekki nógu spenntir fyrir leik með orð eins og íslendingar og auðvitað ætti að vera hægt að nota framburð sem aukakrydd í þáttagerð, t.d mállýskur eins og tíðkast á Als á Suður Jótlandi en þá er reyndar nánast öruggt að fæstir myndu skilja hvað færi fram nema með undirtextum.
Ég hef ekki enn séð sommer, en er aðeins búin að fylgjast með Album sem Helle Joof leikstýrir og það eru hreint alveg frábærir þættir. Ætli það væri ekki eitthvað annarlegt ef að einhver gullaldar danska frá fjórða áratug síðustu aldar væri notuð í þeim þætti. Veit það ekki, finnst þó bara að öllum sé hollt að leggja eyrun við og njóta stemningarinnar frekar en að kverúlantast yfir málfari.
Danskan torskilin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.4.2008 | 12:54
Kvedjur fra Danmörku
Eg er timabundid flutt til Hroarskeldu i Danmörku. Verd thar naestu tvo mánudi i skriftarútlegd. En thegar eg er farin ad komast a eigin tolvu gegnum intranetid her vid haskolann mun eg örugglega halda áfram ad blogga i leidindapásum milli málsgreina. I millitidinni - KEEP BLOG POWER ALIVE!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.3.2008 | 14:03
Hvað með töskurnar?
Það er gott fyrir þá sem þurfa að hafa hraðann á að geta bókað sig rafrænt sjálfir, þetta sparar auk þess starfsfólk við innritun ef að farþegar bóka sig á þennan hátt (getur verið jákvætt - getur verið neikvætt). Ég hef aldrei nýtt mér þennan kost hjá öðrum flugfélögum en hyggst gera það héðan. Nenni ekki að eyða upp undir 20. mínútum í röð með stírurnar í augunum.
Ef ég get vaknað kortéri seinna er ég glöð.
En þá er spurningin þarf ekki að vera band fyrir farangurinn sem hlaðið er á og farangurinn "barkóðaður" - hvernig er gengið frá því?
Flugfélög bjóða upp á netinnritun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.3.2008 | 09:32
Brjóst á uppboði!
Fiðrildavika Unifem hefur vakið athygli í fjölmiðlum og á nú að fara að bjóða upp heimaprjónuð brjóst (hversu fáránlega sem það hljómar). Ég fór að velta fyrir mér notagildi þessara brjósta og tel þau ekki mikil á þessum síðari tímum nema ef vera skyldi fyrir konur með börn á brjósti sem ekki mega við gegnumtrekk. En það hlýtur að vera bölvað vesen að festa þessar dúllur á þannig að þær haldist.
Ég mæli frekar með hönnun Bíbíar vinkonu minnar í Barcelona á konubrjóstum, en þær eru notaðar sem brjóstsykurskálar. En svo eru líka brjóst búin til úr brjóstsykri og hægt að gæða sér á þeim.
En ég fagna vissulega þessu átaki Unifem sem ég tel löngu tímabært! Til hamingju með það stelpur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.2.2008 | 14:15
Nú er ástarfaraldur á Keflavíkurflugvelli!
Við Elías vorum að velta fyrir okkur hvernig ástarfaraldur myndi haga sér ef hann smitaðist frá Eymundssyni yfir á Keflavíkurflugvöll.
Fyrir viku síðan lá ég í næstum tólf tíma og beið eftir að flugvél sem ég átti bókað far með drifi sig á loft í átt til Kaupmannahafnar. Eitthvað lét vélin eða áhöfn eftir sér bíða því það var reynt verulega á langlundargeð farþeganna. Svosem ekki skrýtið, þar eð mikil veður höfðu geisað daginn áður og riðlað mörgum komum og brottförum. Ég hitti dani sem höfðu setið innlyksa í flughöfninni á annan sólarhring á leið til Ameríku. Þau voru nú ekki í miklum ástarhug, hvorki til veðurfars, lands, flugfélags eða matarins sem hafði verið boðið upp á á meðan þau biðu. Þau langaði mest í heitt bað og gott rúm. Sömuleiðis var þýska konan sem ég spjallaði við og var á leið til Boston en hafði verið innlyksa í fimm tíma í flugvél fyrir utan stöðina daginn áður og með æluspýju á öxlinni frá næsta farþega ekki í ástarhug til Icelandair. Hún horfði á mig áhyggjufullum augum, svona með germanskri hörku eins og þeim einum er lagið. Fannst þessi óordnung í íslensku veðurfari eitthvað ruglingsleg.
Ekki varð ég mikið vör við ástarfaraldur á vellinum þó að tekið væri að draga nær innfluttum Valentínusardegi verslunarmanna. Fólk hegðaði sér ósköp eðlilega, svolítið heft og innilokað eins og íslendingum einum er lagið. En mikið hefði nú verið gaman að sjá fólk hegða sér öðruvísi, svolítið ástúðlega eins og það hefði fengið einhvern snert af veirunni úr ástarfaraldrinum sem Eymundsson auglýsti svo fjálglega.
Reyndar voru nokkrar fjölskyldur samankomnar og létu biðina lítið á sig fá, þetta var eina fólkið sem hagaði sér svolítið ástúðlega. Einn karlmaðurinn í hópnum átti greinilega afmæli og ferðafélagarnir höfðu safnast saman í kringum borðið hans í biðsalnum og hófu nú upp raust sína og sungu afmælissönginn en afhentu honum pakka að honum loknum, kysstu og föðmuðu afmælisbarnið.
Ekki var mikið um ástarfaraldur þegar einhverjir aumingjans Keilubúar á miðnesheiði voru skyldir eftir við vegaslóðann að háskólaþorpinu vegna veðurs!
Ekki var mikið um ástarfaraldur í Vinningsskipulagi Vatnsmýrarinnar, búið að jafna Öskju náttúrufræðihús við jörðu (það er allavega ekki á teikningunni!).
Það var svolítið um ástarfaraldur í Hróarskelduhöfn þar sem fjölskyldur og pör gengu um í sólskininu og horfðu út á fjörðinn síðastliðinn sunnudag.
Reyndar var ekki mikið um ástarfaraldur á Keflavíkurflugvellinum um síðustu helgi. Einn fárra sem ég hitti sem ég þekkti var einmitt að búa sig undir að flýja land úr ástarfsambandi sem hafði beðið skipbrot. Ekki að hann segði það berum orðum, en það var augljóst.
Næst þegar við Elías eigum leið um Keflavíkurflugvöll ætlum við að ímynda okkur að það séu allir laumuástfangnir og hagi sér bjánalega. Það er miklu skemmtilegri tilhugsun og svo vekur hún kátínu og gerir lífið skemmtilegra en hitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)