Nú er ástarfaraldur á Keflavíkurflugvelli!

Við Elías vorum að velta fyrir okkur hvernig ástarfaraldur myndi haga sér ef hann smitaðist frá Eymundssyni yfir á Keflavíkurflugvöll.

Fyrir viku síðan lá ég í næstum tólf tíma og beið eftir að flugvél sem ég átti bókað far með drifi sig á loft í átt til Kaupmannahafnar. Eitthvað lét vélin eða áhöfn eftir sér bíða því það var reynt verulega á langlundargeð farþeganna. Svosem ekki skrýtið, þar eð mikil veður höfðu geisað daginn áður og riðlað mörgum komum og brottförum. Ég hitti dani sem höfðu setið innlyksa í flughöfninni á annan sólarhring á leið til Ameríku. Þau voru nú ekki í miklum ástarhug, hvorki til veðurfars, lands, flugfélags eða matarins sem hafði verið boðið upp á á meðan þau biðu. Þau langaði mest í heitt bað og gott rúm. Sömuleiðis var þýska konan sem ég spjallaði við og var á leið til Boston en hafði verið innlyksa í fimm tíma í flugvél fyrir utan stöðina daginn áður og með æluspýju á öxlinni frá næsta farþega ekki í ástarhug til Icelandair. Hún horfði á mig áhyggjufullum augum, svona með germanskri hörku eins og þeim einum er lagið. Fannst þessi óordnung í íslensku veðurfari eitthvað ruglingsleg. 

Ekki varð ég mikið vör við ástarfaraldur á vellinum þó að tekið væri að draga nær innfluttum Valentínusardegi verslunarmanna. Fólk hegðaði sér ósköp eðlilega, svolítið heft og innilokað eins og íslendingum einum er lagið.  En mikið hefði nú verið gaman að sjá fólk hegða sér öðruvísi, svolítið ástúðlega eins og það hefði fengið einhvern snert af veirunni úr ástarfaraldrinum sem Eymundsson auglýsti svo fjálglega.

Reyndar voru nokkrar fjölskyldur samankomnar og létu biðina lítið á sig fá, þetta var eina fólkið sem hagaði sér svolítið ástúðlega. Einn karlmaðurinn í hópnum átti greinilega afmæli og ferðafélagarnir höfðu safnast saman í kringum borðið hans í biðsalnum og hófu nú upp raust sína og sungu afmælissönginn en afhentu honum pakka að honum loknum, kysstu og föðmuðu afmælisbarnið.  

Ekki var mikið um ástarfaraldur þegar einhverjir aumingjans Keilubúar á miðnesheiði voru skyldir eftir við vegaslóðann að háskólaþorpinu vegna veðurs!

Ekki var mikið um ástarfaraldur í Vinningsskipulagi Vatnsmýrarinnar, búið að jafna Öskju náttúrufræðihús við jörðu (það er allavega ekki á teikningunni!).

Það var svolítið um ástarfaraldur í Hróarskelduhöfn þar sem fjölskyldur og pör gengu um í sólskininu og horfðu út á fjörðinn síðastliðinn sunnudag.

Reyndar var ekki mikið um ástarfaraldur á Keflavíkurflugvellinum um síðustu helgi. Einn fárra sem ég hitti sem ég þekkti var einmitt að búa sig undir að flýja land úr ástarfsambandi sem hafði beðið skipbrot. Ekki að hann segði það berum orðum, en það var augljóst.

Næst þegar við Elías eigum leið um Keflavíkurflugvöll ætlum við að ímynda okkur að það séu allir laumuástfangnir og hagi sér bjánalega. Það er miklu skemmtilegri tilhugsun og svo vekur hún kátínu og gerir lífið skemmtilegra en hitt. InLove

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband