21.1.2009 | 12:14
Kreppa á kostnað kvenna
Sagan á í ranni sínum ótal dæmi þess að þegar að samdráttur og kreppa herja á efnahagslíf og atvinnumarkað lenda konur oftar ver í því, einkum einstæðar konur með börn á framfæri - en karlar.
Samkvæmt þessari frétt vekja uppsagnir á konum líka oftar minni athygli í fjölmiðlum en uppsagnir á körlum sem oftar vinna á stærri vinnustöðum t.d í byggingariðnaði þar sem er að vænta mikilla uppsagna.
Víða um Bretland hefur atvinnulíf á undanförnum árum reitt sig verulega á innflutt vinnuafl/erlenda borgara sem komið hafa til að sinna störfum í lengri eða skemri tíma. Þannig hafa t.d pólverjar verið mjög áberandi í byggingariðnaði t.d á Londonsvæðinu og konur af Karabíska svæðinu, Eystrasaltslöndunum og frá Suður Asíu svæðinu hafa verið áberandi í þjónustugreinum t.d tengdum ferðaþjónustu. Ég vil leyfa mér að fullyrða að þetta er fólkið sem að niðurskurður í vinnu kemur fyrst niður á. En sé litið til alþjóðlegrar verkaskiptingar eins og hún hefur þróast í hnattvæðingu efnahagslífs á undanförnum áratug er næsta víst að einstæðar mæður í þróunarríkjum er enn og verður áfram sá hópur heimsþegna sem koma verst útúr kreppunni.
Já - afleiðingar kreppunnar eru bæði landfræðilega skiptar og kynbundnar.
![]() |
Atvinnuleysi eykst meira meðal kvenna en karla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2009 | 23:46
Sögulegur dagur
Í dag mætti ég á mótmæli við þingsetningu á alþingi á Austurvöll klukkan eitt í dag. Ég stóð þar ásamt fjölda fólks, m.a þingmönnum úr stjórnarandstöðu og öðrum. Ef ekki hefði verið fyrir gálgafrest á verkefnum í vinnunni hefði ég staldrað við lengur því að ég er ein þeirra fjölmörgu sem ekki er lengur hlynnt sitjandi stjórnvöldum þó ég hafi verið það þar til hrina uppsafnaðra afleiðinga af mistökum í hagstjórn landsins hlóðst upp og misbauð flestum. Ég yfirgaf semsagt svæðið um tvöleytið en þá var allt með kyrrum kjörum, einhver hópur fólks hafði safnast í alþingisgarðinum en flest virtist friðsamlegt í þeirra framgöngu.
Í síðdegið fylgdist ég með innsetning Baracks Obama til 44. forseta Bandaríkjanna og naut sérstaklega ræðu hans. Þar fer maður sem getur sætt sjónarmið og getur blásið vonarneista í brjóst ólíkt því sem forsvarsmenn okkar stjórnvalda geta státað af. Ég var sérstaklega hrifin af því að Aretha Franklin ein af mínum uppáhaldssöngkonum söng í tilefni athafnarinnar. Skrýtið og ég sem var einmitt að hugsa um hana fyrir svefninn í gær, um hvað ég þyrfti nú að fara að grafa upp gömlu spólurnar með henni til að upplifa swing.
Obama talaði fyrir jafnræði og því að enginn þjóð væri sterk þjóð sem einungis legði áherslur á og hyglti þeim sem meira mættu sín í samfélaginu. Mikið óskaplega er ég sammála manninum.
Við íslendingar þurfum einnig að huga að því að með þeim sársaukafullu aðgerðum sem eru óumflýjanlegar nú á vordögum er mikilvægt að muna að ef að aðgerðirnar hafa þau áhrif að veikja þjóðina sem heild erum við enn verr stödd. Við eigum að vera jöfn, ekki bara fyrir guði þeirra sem slíkan hafa heldur líka sem jafnréttháir borgarar. Ef að stjórnvöld hefðu haft þetta að leiðarljósi hefði sýslumaður Suðurlands skammast sín fyrir að tilkynna að hann ætlaði að handtaka 370 manns sem ættu óuppgerðar skuldir. Sem betur fer hafði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra þó það mikla dómgreind að stöðva hann í blindni sinni.
En snúum aftur að mótmælunum við Austurvöll. Mér er nær að spyrja hvort að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar eru nú eins og aparnir þrír, vilja ekki heyra, vilja ekki sjá og geta ekki mælt.
Svo virtist manni ef marka má viðtal við forseta alþingis Sturlu Böðvarsson sem taldi að ótækt hefði verið að fresta fundi og lét þar að auki loka þingpöllum því hann hefur augsýnilega engan áhuga á lýðræði í þessu landi. Geir Haarde sem að hneykslaðist yfir því að fá ekki vinnufrið til að ....gera hvað.
Þjóðin er ekki með ríkisstjórninni en hún velur að heyra ekki, sjá ekki og tala sem minnst nema við þá sem hlusta hvort eð er lítið á aðra.
Hin íslenska orðræðuhefð að tala á hvern annan í stað þess að tala við hvern annan heyrir vonandi sögunni til von bráðar.
Ég varð ekki vitni að uppistandi, handtökum eða kylfuslætti lög-þjálfaðrar lögreglu en veit þó eitt að sonur minn 17 ára stumraði yfir miðaldra konu með piparúða í augum í um klukkutíma sem enginn af þeim umhyggjusömu lögþjálfuðu lögreglumönnum virtust sinna annað en að beita yfirgangi og ofbeldi.
Ég er sannarlega búin að fá nóg og vil kjósa. Fyrir mér birtust í dag andstæður - Andstæður þeirra sem hanga á valdinu hugsjónalausir eins og hundar á signu roði og velja ekki að hlusta á þjóð sína og ný dögun nýs manns á valdastóli sem vill slá nýjan tón með þjóð sinni og ekki án hennar.
![]() |
Beittu kylfum á mótmælendur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.1.2009 | 17:52
Snertir allt samfélagið
Það er ljótt að heyra að ástand félagslegrar fátæktar sé að versna á Grænlandi því að ekki mátti samfélagið við því. Víða leiðir almenn fátækt og úrræðaleysi til félagslegrar fátæktar í formi ofdrykkju hinna fullorðnu og vanrækslu á börnunum. Mér er ekki umhugað að sverta mannorð grænlendinga en hef auðvitað oftsinnis orðið vitni að miður skemmtilegum uppákomum þar sem börn hafa gengið sjálfala þó þau væru allt of lítil til þess vegna þess að foreldrarnir virtust ekki í ástandi til að sinna þeim. Ég hef einnig upplifað að vera vitni að heimilisofbeldi úr næstu húsum um helgar í mörgum bæjarfélögum, og svo veit ég frá starfskonu félagsmálastofnunar í Norðvestur Grænlandi að hún hefur þurft að díla við mörg fórnarlömb sifjaspella. Vandinn við félagslega fátækt er arfurinn sem af því skapast. Hann getur fylgt kynslóðunum og grafið undan heilbrigði samfélagsins í áratugi og kynslóðir ef ekkert er að gert. Oft er reyndar erfitt að átta sig á hvað á að gera.
Áfengið hefur aldrei verið vinur grænlendinga. Hungur og fátækt barna stafar oft af því þó ekki ætli ég að fella dóm um að nú sé hið sama uppi á teningnum. Ég vona virkilega að forsvarsmenn grænlenskra stjórnvalda geri eitthvað í málum. Það er mikilvægt þessu samfélagi. Ég tek það fram að ég þekki marga grænlendinga sem að ekki eiga við þessi vandamál að stríða. Svo hér er kannski í raun lítill hluti fólks, en samt...
![]() |
Fátækt og hungur á Grænlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.1.2009 | 23:39
Af hverju er líkar Helle Thorning Smith ekki stjórnmálamenn hér á landi?
Í Danmörku ríkir ekki sama sjálfskapaða kreppan og hér en þar hefur hagkerfið auðvitað ekki farið varhluta af áhrifum heimskreppunnar yfirvofandi. Um þúsund manns bætast við í viku hverri á atvinnuleysisskrá þar í landi sem er auðvitað hlutfallslega lægra en hér á landi miðað við íbúafjölda. Danir eru þó mun vanari að búa við krónískt atvinnuleysi en við hér (veit það af eigin raun þar eð ég bjó þar á hinum svokölluðu kartöflukúr árum og borgaði samviskusamlega 12% af laununum mínum í atvinnuleysissjóð til u.þ.b. sjö ára). Þar í landi hefur ríkt hálfgerð óstjórn um árabil sem hefur farið eins og stormsveipur um menntakerfið og lamað margt gott sem áður var þó á sama hátt sé hægt að segja að ekki hafi verið vanþörf á að taka svolítið til í bákninu sem þar ríkti þar til minn gamli nágranni á Amager, Anders Fogh Rasmussen tók við stjórninni sem forsætisráðherra landsins. Hann hefur þó sýnt ódug sinn í kanasleikjuhætti, óvild gagnvart íbúum landsins af erlendum bakgrunni, niðurskurði í heilbrigðiskerfi, félagskerfi og ýmsu öðru sem ekki er til að vera stoltur af nú þegar á ríður að hafa sterkar stoðir gegn heimsfári.
Ég datt ofan í deadline sem er danskur fréttaumfjöllunar og spjallþáttur sem er mun vandaðri en íslenskir fjölmiðlar geta státað af. Þar var verið að ræða við leiðtoga danska sósílademókrataflokksins Helle Thorning Smith og samkvæmt spjallinu er greinilega verið að reyna að semja um lendingu við danska banka um aukna aðkomu ríkisins að þeim með fyrirliggjandi áföll í huga. Krafa Helle var að hluti af þeim samningspakka ætti að fela í sér kröfur um hámarkslaun til bankastjóra þar eð nú væri verið að hlutdeilast um fé almennings ólíkt áður. Henni fannst eðlilegt að hámarks árslaun bankastjóra yrðu 2,5 milljónir danskra króna (á núverandi gengi er það um..56 milljónir íslenskra króna). Núverandi bankastjóri danske bank er með 12,6 milljónir danskra króna í árslaun og finnst það ekki of mikið! Það eru 286 milljónir íslenskra króna á núvirði. ....Ekki er ég hissa þó að Poul Nyrup hafi orðið til að skrifa bókina " I graadighedens tid!" Þessi ofurlaun bankastjóra hafa greinilega orðið viðmiðið í ofurvæntingahagkerfi síðustu ára um öll vesturlönd...og löngu kominn tími að því linni.
Hneykslun andstæðinganna í pólitík yfir þessari aðför að bankastjórunum var greinileg. Þetta væri hið versta mál. Þetta dugandi og mjög svo hæfa fólk sem bæri svona ríkulega ábyrgð myndi bara flýja land og gerast bankastjórar í Þýskalandi ef að laun þeirra yrðu lækkuð svona mikið. Jersild (spyrjandinn) gekk á hana og andstæðingar hennar í pólítik töldu hana vera populista af verstu gerð. Hún varði sig og sýn sjónarmið vel að mínu mati.
Ég stóð eftir hugsi, hugsi vegna þess að þarna var pólitíkus á ferðinni með bein í nefinu til að segja að henni og hennar flokki finndist helsta hlutverk þeirra vera að verja hagsmuni almennings...og sjáið til...hjá þeim hefur ekki enn komið til bankahruns. Því miður virðist þó hin breiða fylking almennings þar í landi sigla sofandi að feigðarósi, allavega ef marka má upplifun mína þar á haustdögum. Fólk var ótrúlega dofið fyrir hvað væri að gerast í heimshagkerfinu.
Ég vildi óska þess að við hefðum átt svona grandvara pólitíkusa til að verja hagsmuni almennings áður en til hruns kom. Ég vil hennar líka hingað í pólitík.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2009 | 23:32
naumhyggja orðanna
Ég hef verið þögul hér á blogginu undanfarið. Ég er í gír þar sem ég þarf að hlusta og skoða og mun vonandi geta tjáð mig eitthvað betur og meira á næstunni. Ég er leið vegna þess að góður félagi og samstarfsmaður dó í gær í baráttunni við krabbamein. Hann var á mínum aldri. Ég er reið vegna þess að ég sé ýmsar blikur á lofti í aðgerðum stjórnvalda sem ekki munu ýta undir aukið jafnræði borgarana og þá ekki síst í heilbrigðismálunum. Ég er að skoða ýmislegt sem tengist vanefndum ráðamanna. Ég er á fullu að reyna að leggja mitt af mörkum til þess að aukinn fjöldi nemenda fái farsælt misseri við HÍ þó útsýnið sé svart.
Ég á góða vini í Finna hópi og þeir sögðu mér að margar finnskar fjölskyldur hefðu ekki borið sitt barr síðan að kreppan reið þar yfir. Við viljum ekki að slíkt hendi okkur og ég fordæmi að fyrstu niðurskurðaraðgerðir heilbrigðisyfirvalda séu einmitt á geðheilbrigðissviðinu þar sem að mun virkilega reyna á okkur sem þjóð á næstunni. Ég veit af sálfræðingi sem var sagt upp vegna þess að hún var að starfa við tónlistarþerapíu meðal sjúklinga sem ekki þykir vera fyrst á forgangslistanum. En vita ráðamenn yfirhöfuð hvað virkar þegar áföll ríða yfir? Ég held ekki.
Ég hef sjálf lent í alvarlegu andlegu áfalli í kjölfar skilnaðar. Man að eftir að ég gat ekki borðað í á annan mánuð (kastaði bara öllu upp) og aðstandendur voru farnir að setja spurningamerki aftan við hvort ég gæti yfirhöfuð passað börnin mín svo að ég mætti upp á göngudeild geðdeildar til að fá aðstoð við að ráða úr mínum málum, mest fá að tala, helst í einhverri þerapíu. Indælis kona sem var geðlæknir sagði við mig: Það er leiðinlegt að þú sért ekki meira veik. Ég geri mér grein fyrir að þú ert búin að missa þrjátíu kíló og varla með sjálfri þér, en við höfum engin úrræði fyrir svona skynsamt fólk eins og þig. Það eina sem ég get boðið þér eru væg geðlyf til að koma þér aftur í jafnvægi. Svo ég fór á geðlyf í eitt ár, sem virkaði fyrir mig - en hefði auðvitað verið betra og mun heilbrigðara að fá útrás og velta hlutum upp. Þetta var í upphafi uppgangstíma á Íslandi. Ég krossa mig bara hvernig geðheilbrigðiskerfið tekur þá á móti fólki nú.
Ég er leið og þreytt á því að embættismenn sem lítið sem ekkert innsæi virðast hafa á líðan fólks í landinu fái að taka ákvarðanir sem hafa afdrifarík áhrif fyrir samfélag okkar. Þeir eiga að víkja og þó fyrr væri.
![]() |
Segir sparnaðinn dýrkeyptan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2009 | 21:19
Víðtækari umfjöllun um strætó þörf
Frá og með áramótum var tekin upp ný gjaldskrá hjá strætó sem ber það með sér að kostnaður þeirra sem keyra lengst með strætó, til dæmis úr nágrannabyggðarlögum (Selfossi, Akranesi, Hveragerði, Borgarnesi) er hæstur. Þetta er módel sem þekkist allst staðar í almenningssamgöngukerfum um allar borgarbyggðir heims. Það er auðvitað súrt í broti fyrir Sigríði Indriðadóttur og Hjört Hróðmarsson sem virðast reiða sig á strætó til samgangna, miðað við umfjöllun mbl.is, að gjaldið hækkar um nær helming á níu mánuðum. Þeim má þó benda á að það slagar engan veginn upp í tryggingaárgjald einnar bifreiðar, bara svo við höldum einhverjum eðlilegum kostnaðarsamanburði. Og þá á auðvitað eftir að leggja út fyrir bifreiðinni, borga bensínið, viðhald og etv. bílastæði. Í strætógjaldinu er innifalið sæti ef pláss er, bensínútgjöld, tryggingagjöld og farþegar eru ekki krafðir um bílastæðagjöld.
Þversögnin í auknu gjaldi felst fyrst og fremst í þjónustuskerðingunni - færri ferðum utan annatíma og strjálum tengingum sem gera biðina óbærilega. Það er vissulega öll ástæða fyrir notendur og njótendur strætó að láta sig þau mál varða - því hér ríkja ekki skilvirkar almenningssamgöngur heldur einungis mjór vísir að þeim.
Ég stóð ásamt mínum ágætu samtökum samtökum um bíllausan lífsstíl - fyrir umræðufundi um málefni strætó 10. desember. 2008.
Enginn fjölmiðill hafði áhuga á að koma á fundinn - það er hreinlega ekki búið að síast inn í vitund almennings hversu mikilvægt það er borgarsamfélögum til að þau fúnkeri og borgarskipulag hugsanlega breytist til hins betra og mannlíf með - að þar séu góðar og gegnar almenningsamgöngur.
Á fundinum var dreift lista með þremur spurningum sem hljóðuðu eftirfarandi.
Nefndu eina ástæðu fyrir því afhverju strætó er mikilvægur ákúrat núna?
Nefndu eina ástæðu fyrir því afhverju þú velur að nota strætó?
Nefndu einn kost við að taka strætó?
Svörin voru mörg og margbreytileg en rauði þráðurinn var samt óskin um að fjölga ferðum eða gera þær það tíðar að þær væru til yndisauka en ekki ama.
Í umræðunni í kjölfarið kom í ljós að strætóþjónustan hafa í raun versnað á síðustu 15 árum í Reykjavík sem er mjög bagalegt og síst til þess fallið að gleðja borgarana.
Á sama tíma hefur byggðin þanist út eins og sykursjúkur offitusjúklingur og ekki nóg með það - að bæjarfélögin á landsbyggðinni hafa tekið við hlutverki úthverfa borgarinnar.
Það þarf að skoða strætómálin útfrá mun víðtækara sjónarhorni en hefur verið gert. Budgettið skiptir auðvitað máli sem hluti af grunni ákvarðanatöku - en þar inní spila umhverfismál, byggðaskipulagsmál, lýðheilsa og atvinnumarkaðsmálefni og svo mætti lengi telja.
![]() |
Segjast þurfa að hætta að nota Strætóferðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.1.2009 | 10:16
Nýtt upphaf og góð áheit
Innilega til hamingju með litla nýársbarnið. Gleðilegt nýtt ár!
Nýtt ár markar nýtt upphaf. Ein besta ákvörðun mín á þessum áramótum var að ákveða að fara snemma að sofa - ég ætla að breyta sjálfri mér úr næturhrafni í morgunhana. Það er góð byrjun á nýju ári. Ég ætla að dansa í mig orkuna úr Snæfellsjökli í kvöld. Hvað er dásamlegra en að vakna snemma á nýársdagsmorgun (þetta hef ég ekki prufað síðan ég var krakki) - horfa út í kyrrðina og fara á vit náttúrunnar.
Ég ætla að skreppa með vinkonu minni á Arnarstapa og halda nýársfagnað með vinum og félögum - ganga og anda að mér kraftinum úr sjónum, hvísla útí víðáttuna og rúlla mér í snænum (sem varla verður nokkur).
Hringdi í son minn í nótt til að óska honum gleðilegs nýs árs en hann gekk inn í 2009 klukkutíma á undan okkur hér á Fróni. Hann bað mig um að óska sér til handa nýársheits og ég óskaði honum heilbrigðra lífshátta. Hann varð nokkuð hissa á þessu vali (enda í menntaskóla þar sem slíkt er ekki endilega talið til dyggða) og spurði mig hvað slíkt þýddi eiginlega. Ég sagði við hann, fara snemma að sofa svo maður vakni á réttum tíma á morgnana, borða hollan mat, ekki sukka og standa sig í skólanum.
Gleðilegt 2009 !
![]() |
Fæddist 4 mínútur af nýju ári |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.12.2008 | 22:13
Hvernig getur maður látið sig litlu skipta líf fólks?!
Nú standa yfir tíu fréttir ríkissjónvarpsins og ein af þeim fyrstu fréttum sem þar var borin á borð fyrir landsmenn, var að embættismaður SÞ og blaðafulltrúi sagði svo mikinn skort vera á Gaza svæðinu að fólki væri orðið næstum sama hvort það væri lífs eða liðið. Það er hræðilegt - og ég á mjög erfitt með að skilja slíkar yfirlýsingar, því mannlegu eðli er eiginlegra að sýna lífsseigju í erfiðum aðstæðum en ekki. Ég mætti á mótmælin í dag gegn drápunum á Gaza svæðinu. Gat ekki annað og hefði viljað sjá fleiri.
Hitti Steingrím fornvin minn sem sagði að þetta hefði verið einhvers sá mannvonskumesti jólaboðskapur sem hann hefði upplifað. Þetta var því miður enginn jólaboðskapur þó hann ætti sér stað á einum helgasta trúboðsstað heimsþorpsins. Þetta var dauð kaldur veruleiki sem var eins mikið á skjön við blessaðan þann jólaboðskap sem flestir trúandi borgarar heimsbyggðarinnar bera í hjörtum sínum og hugsast getur. Ég bið fyrir friði og fordæmi morð!
Megi heimsborgarar og aðrir staðborgarar eiga friðsöm áramót!
![]() |
Jákvæður um vopnahlé |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.12.2008 | 16:50
Hver treystir fjármálaeftirlitinu til að hafa skarpa greiningarhæfni?
Eftir það sem hefur gengið á í Íslensku þjóðfélagi spyr ég mig þeirra spurningar hvort að það séu einhverjir aðrir en efnahagsbrotadeild lögreglunnar og örfáir stjórnarliðar sem að treysta fjármálaeftirlitinu til að ganga eðlilega í málin og hreinlega hafa færni eða getu til að greina rétt frá röngu í bókhaldi Kaupþings.
Mér finnst þetta ekki óeðlileg spurning miðað við það sem á undan er gengið!
Ef grunurinn reynist á rökum reistur ætla ég rétt að vona að dómskerfið hafi til þess greiningarhæfnina að dæma þá sem sekir teljast á réttmætan hátt (t.d. með þegnskylduvinnu við samfélagsstörf fyrir þá sem eiga um sárt að binda vegna atvinnumissis, tekjumissis og löggilds þjófnaðar í bankakerfinu).
![]() |
Gátu ekki tapað á samningunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.12.2008 | 16:37
Framlag Íslendinga mikilvægt
Það er verulega spennandi að Íslendingar ætli að leggja áherslu á rannsóknir og nýsköpun ásamt eflingu samstarfs um verndun Norður-Atlantshafsins og um málefni Norðurskautsins á meðan á þeirra formennsku stendur í Norrænu Ráðherranefndinni. Það er orðið þarft að safna og samræma upplýsingar um náttúrufar og vá í kortagagnagrunn fyrir svæðið. Bæði vegna aukinnar umferðar um svæðið en einnig vegna mengunnar og svo afleiðingar af notkun t.d botnvarpa á vistkerfi, en einnig breytingar í hafís hreyfingum vegna loftslagsbreytinga svo fátt eitt sé nefnt. Mér sýnist að Norðurlandaþjóðirnar ætli ekki að hnika frá því takmarki að vera í forgrunni þekkingaröflunnar tengdum loftslagsbreytingum og mismunandi orsakasamhengjum og birtingarmyndum þeim tengdum á Norðurskautinu.
Það er allavega góð frétt á víðsjárverðum tímum!
![]() |
Íslendingar taka við formennsku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |