naumhyggja orðanna

Ég hef verið þögul hér á blogginu undanfarið. Ég er í gír þar sem ég þarf að hlusta og skoða og mun vonandi geta tjáð mig eitthvað betur og meira á næstunni. Ég er leið vegna þess að góður félagi og samstarfsmaður dó í gær í baráttunni við krabbamein. Hann var á mínum aldri. Ég er reið vegna þess að ég sé ýmsar blikur á lofti í aðgerðum stjórnvalda sem ekki munu ýta undir aukið jafnræði borgarana og þá ekki síst í heilbrigðismálunum. Ég er að skoða ýmislegt sem tengist vanefndum ráðamanna. Ég er á fullu að reyna að leggja mitt af mörkum til þess að aukinn fjöldi nemenda fái farsælt misseri við HÍ þó útsýnið sé svart. 

Ég á góða vini í Finna hópi og þeir sögðu mér að margar finnskar fjölskyldur hefðu ekki borið sitt barr síðan að kreppan reið þar yfir. Við viljum ekki að slíkt hendi okkur og ég fordæmi að fyrstu niðurskurðaraðgerðir heilbrigðisyfirvalda séu einmitt á geðheilbrigðissviðinu þar sem að mun virkilega reyna á okkur sem þjóð á næstunni. Ég veit af sálfræðingi sem var sagt upp vegna þess að hún var að starfa við tónlistarþerapíu meðal sjúklinga sem ekki þykir vera fyrst á forgangslistanum. En vita ráðamenn yfirhöfuð hvað virkar þegar áföll ríða yfir? Ég held ekki.

Ég hef sjálf lent í alvarlegu andlegu áfalli í kjölfar skilnaðar. Man að eftir að ég gat ekki borðað í á annan mánuð (kastaði bara öllu upp) og aðstandendur voru farnir að setja spurningamerki aftan við hvort ég gæti yfirhöfuð passað börnin mín svo að ég mætti upp á göngudeild geðdeildar til að fá aðstoð við að ráða úr mínum málum, mest fá að tala, helst í einhverri þerapíu. Indælis kona sem var geðlæknir sagði við mig: Það er leiðinlegt að þú sért ekki meira veik. Ég geri mér grein fyrir að þú ert búin að missa þrjátíu kíló og varla með sjálfri þér, en við höfum engin úrræði fyrir svona skynsamt fólk eins og þig. Það eina sem ég get boðið þér eru væg geðlyf til að koma þér aftur í jafnvægi.  Svo ég fór á geðlyf í eitt ár, sem virkaði fyrir mig - en hefði auðvitað verið betra og mun heilbrigðara að fá útrás  og velta hlutum upp. Þetta var í upphafi uppgangstíma á Íslandi. Ég krossa mig bara hvernig geðheilbrigðiskerfið tekur þá á móti fólki nú.

Ég er leið og þreytt á því að embættismenn sem lítið sem ekkert innsæi virðast hafa á líðan fólks í landinu fái að taka ákvarðanir sem hafa afdrifarík áhrif fyrir samfélag okkar. Þeir eiga að víkja og þó fyrr væri.


mbl.is Segir sparnaðinn dýrkeyptan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband