9.2.2011 | 16:41
Ályktun um strætó
Haldinn var opin fundur Samtaka um billausan lífstíl um niðurskurð á þjónustu Strætó í Útgerðinni þann 26. janúar 2011 kl. 20:00.
Ályktun strætóhóps Samtaka um bíllausan lífsstíl vegna fyrirhugaðs niðurskurðar á þjónustu Strætó.
Mótmælt er fyrirhugaðri skerðingu á þjónustu Strætó með styttingu aksturstíma á kvöldin og um helgar. Á tímum samdráttar þegar einkabílum fækkar er mikilvægt að bjóða upp á nothæfan valkost í samgöngum með Strætó. Þótt að skerðing þjónustunnar valdi væntanlega minnstum skaða þegar minnst eftirspurn er eftir henni minnkar hún möguleika Strætó til að vera þessi valkostur.
Lýst er yfir skilningi á hækkun á verði þjónustu Strætó. Strætó er mjög ódýr valkostur fyrir fasta notendur í samanburði við kostnað við bílaeign og í samanburði við verð á þjónustu almenningssamgangna á Norðurlöndum.
Leggja þarf áherslu á að viðhalda þjónustu á öllum tímum dags, þ.m.t. á kvöldin og um helgar til að tryggja hlutverk strætó sem grunnþjónustu fyrir alla. Þjónustutími strætó þarf að vera frá um 6:30 á morgnanna til um 24:00 á kvöldin virka daga en frá um 8:00 til 24:00 um helgar.
Kanna þarf raunsparnað niðurskurðaraðgerðanna fyrir sveitarfélögin, ríkið, fyrirtækin og almenning.
Framtíðarsýn um strætó í almannaþjónustu
Mælt er með því að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, ríkið og Vegagerðin setji sér sameiginlega stefnu um þjónustu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og við nágrannabyggðir. Í þeirri stefnu ætti að felast eftirfarandi:
l Strætó verði besti kosturinn til samgangna á svæðinu hvað varðar ferðatíma og kostnað.
l Markmið verði sett um meðalhraða og aksturstíma vagna. Til þess þarf m.a. að fjölga forgangsakreinum fyrir strætó. Einnig að færa vegi að þörfum strætó og fækka eða breyta hraðahindrunum.
l Markmið verði sett um fjarlægð heimilis frá biðstöðvum.
l Markmið verði sett um fjarlægð biðstöðva frá helstu vinnustöðum. Sú fjarlægð verði skemmri en fjarlægð frá bílastæði vinnustaðar.
l Stefnt verði að upptöku samgöngusamninga á helstu vinnustöðum og verði skattlagning jafngild á greiðslum skv. samgöngusamningum og á bílastæðum.
l Markmið verði sett um þjónustu á skiptistöðvum og biðstöðvum.
l Stefnt verði að bættri þjónustu og aukinni tíðni vagna sérstaklega á annatíma.
l Stefnt verði að bættri þjónustu á norður suður ás um Reykjanesbraut.
l Stefnt verði að stækkun þjónustusvæðis strætó að Borgarnesi á Vesturlandi og til sveitarfélaga á Suðurnesjum og flugstöðvarinnar í Keflavík. Í því sambandi kemur til greina að hafa endastöðvar almenningsvagna sem ríkið styrkir til samgangna á landsbyggðinni í Borgarnesi og á Selfossi.
l Í skipulagsmálum verði umferð almenningsvagna sett í forgang og tryggður aðgangur vagna að helstu þjónustukjörnum og miðstöðvum. Ótækt er að láta fólk ganga 500 m um bilastæðaflæmi þar sem ekki er gert ráð fyrir gangandi fólki eins og víða er regla í skipulagi við stærstu vinnu- og verslunarstaði.
l Bætt verði sölukerfi miða og korta. Til dæmis settir upp sjálfsalar þar sem margir koma í íþróttamiðstöðvum, skólum og verslunarkjörnum.
l Sveitarfélög á þjónustusvæði strætó aðlagi skólahald í fyrsta tíma á morgnanna og í leikfimi, sundi og öðru skólahaldi að þjónustu strætó. Á móti kemur Strætó til móts við þarfir skóla eins og hægt er. Á móti má minnka notkun á sérstökum skólaakstri og spara með því að reka aðeins eitt almenningssamgöngukerfi.
l Skoða þarf misræmi í skattlagningu hins opinbera á almenningssamgöngum í þéttbýli og dreifbýli og haga skattlagningu þannig að rekstur á umhverfisvænum vögnum eins og metan vögnum verði hagstæður.
Strætóhópur Samtaka um bíllausan lífsstíl
Anna Karlsdóttir
Claudia Overesch
Árni Davíðsson
Magnús Jensson
Um 85% ánægðir með þjónustu Strætó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.1.2011 | 14:25
Nýrri aðferðafræði beitt í rannsóknum á loftslagsbreytingum
Vísbendingarnar sem vísað er til í umtalaðri rannsókn sem ályktar um miklar breytingar á hafstraumum í Norður Atlantshafi undanfarna áratugi er ein fjölmargra sem hver um sig hafa lagt fleiri og fleiri púsl í stærra samhengi. Þannig hefur mörgum stoðum verið rennt undir þá kenningu að hafstraumar og efnafræði hafsins hafi meiri áhrif á veðurfar almennt en áður var talið.
Mér finnst reyndar smá annmarki á fréttaflutningi þessum þar eð ekki er vísað beint í umrædda vísindagrein en umfjöllun um hana á ólíkum vettvangi. Mér finnst alltaf skemmtilegra að tékka á frumheimildum.
Ég fann greinina eftir nokkra leit í proceedings of the National Academy of the Sciences in United states of America. Hún ber heitið
Nutrient regime shift in the western North Atlantic indicated by compound-specific δ15N of deep-sea gorgonian corals
Þar Kemur fram að notuð er ný aðferðafræði til að mæla efnainnihald í vaxtarhringjum kóralla. Óvíst er hversu óyggjandi niðurstöðurnar eru þó áhugaverðar séu þar eð þetta er fyrsta slík rannsóknin. En ljóst er að hún styður enn frekar fyrri rannsóknir þó með nýjum aðferðum sé..
Í abstract/útdrætti kemur þetta m.a. fram:
In the Northwest Atlantic off Nova Scotia, coral δ15N is correlated with increasing presence of subtropical versus subpolar slope waters over the twentieth century. By using the new δ15N-AA approach to control for variable trophic processing, we are able to interpret coral bulk δ15N values as a proxy for nitrate source and, hence, slope water source partitioning. We conclude that the persistence of the warm, nutrient-rich regime since the early 1970s is largely unique in the context of the last approximately 1,800 yr. This evidence suggests that nutrient variability in this region is coordinated with recent changes in global climate and underscores the broad potential of δ15N-AA for paleoceanographic studies of the marine N cycle.
Breyttir hafstraumar stýra veðri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.12.2010 | 17:45
Maður sem veit sínu viti
Ég fagna því að Logi Geirsson sé áræðinn og skapandi karakter, því það er hann greinilega. Hann er því engan veginn búinn að missa neitt. Hann er einfaldlega skarpskyggn á hvar mannlífið þrífst og hefur áttað sig á möguleikunum á þessum nýja pr.vettvangi höfuðborgarbúa. Það er verra að ná til fólks sem situr lokað inn í einkabílhylkjunum sínum eða snarar sér inn í firrtar verslunarmiðstöðvar.
Flott hjá honum!
Logi Geirs búinn að missa það - selur bókina í strætó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.12.2010 | 09:26
TERRA MADRE dagurinn í dag
Eftir langt hlé ætla ég ekki að skrifa um Icesave samninginn. Ég er að vona að forsendurnar sem samninganefndin gaf sér muni standast að mestu því það þýðir að börnin okkar og barnabörn sleppa við þá leiðu arfleifð að sitja uppi með skuldir gróðahyggjukynslóðanna.
Ég ætla að vekja athygli á að TERRA MADRE dagurinn er í dag - Íslandsdeild Slowfood samtakanna vekur athygli á þessu:
Terra Madre dagurinn 10. desember 2010
Í fyrra var fyrsti Terra Madre dagurinn haldinn um heim allan, Slow Food samtökin voru 20 ára og ca. 1500 viðburðir voru skipulagðir í öllum 130 löndum þar sem eru Slow Food convivia eða deildir. Það stefnir í það sama í ár, en þessar samkomur munu einnig safna pening fyrir "1000 gardens in Africa" verkefni þar sem stefnt er að því að móta matjurtagarða með heimamönnum eftir Slow Food hugmyndafræði (good, clean and fair), til að rækta staðbundnar matjurtategundir, lífrænar, sem munu brauðfæða þorpin í mörgum löndum. Hér verður Terra Madre dagurinn haldinn undir merki "Meet the producer" - sem sagt "hittu framleiðandann" og verða smáframleiðendur á eftirfarandi stöðum:
Frú Lauga (v/Laugalæk): bakari frá Sólheimum og fleiri bjóða að smakka á sinni framleiðslu, Bændamarkaðurinn sívinsæli hefur á boðstólum matvörur frá íslenskum smáframleiðendum - og gerir undanþágu fyrir ítalskar vörur, pasta og vín, sem gleðja sælkerann
Búrið (Nóatúni 17): Jóhanna frá Háafelli (ís úr geitamjólk og kjötvörur) og Urta Islandica (íslenskar jurtir) - sælkerabúðin þar sem áluð fagmannsins ræ´ður ríkjum og margt úr matarkistu Íslands stendur til boða
Ostabúðin (Skólavörðustig 8): lífræn vín og heimatilbúnar kjötvörur - nýtni í hámarki og gæðavörur á móti freyðivíni frá frönskum lífrænum vínbændum sem sanna að allt þarf ekki að vera iðnaðarframleitt
Dill Restaurant: Jólamatseðill með alíslensku hráefni - Gunnar og Óli sýndu í Torino hvernig frábærir fagmenn vinna sem best úr því sem náttúran býður uppá
Höfn í Hornafirði: Slow Food deild "Í Ríki Vatnajökuls" verður með kvöldverð með hráefni frá héraðinu
Fleiri aðilar munu halda Terra Madre deginum á eigin forsendum, til dæmis með matarboð tileinkuðu staðarmatvæli eins og á Patreksfirði og Flateyri.
Okkar skilaboð: hafðu það "slow" 10. desember, andaðu í jólaösinni, taktu þinn tíma til að velja og borða góðan mat: hreinan og sanngjarn.
Lifið heil!
17.9.2010 | 14:30
Vítaverð embættisafglöp
Einbeittur brotavilji opinberra starfsmanna/embættismanna hefur mismunandi birtingarmyndir.
Í tilfelli þessu er skattyfirvalds-starfsmaður sem á innangengt í afgreiðslu mála að tryggja endurgreiðslu virðisaukaskatts af upplognum framkvæmdum. Þar er greinilega um það fyrirbæri að ræða sem erlendis myndi vera kallað - skipulögð glæpastarfsemi. Þetta eru aðferðir sem hafa sama bragð og mafían á Ítalíu hefur beitt og reyndar mafíur annara landa. Vonandi verður svindlurunum refsað í samræmi við aðra dóma um slíka glæpi. Heilalausir glæpamenn sem smygla t.d eiturlyfjum fá nú reyndar oft harðari dóma en svona hvítflibbaglæpamenn. Það er meiri refsing við að fremja heilalausan glæp en hafa notað heilann til að fremja glæpinn. Að mínu viti eru þó slíkir glæpamenn oftast mun hættulegri en þeir sem stíga kannski ekki beinlínis í vitið.
Nú virðist einnig sem íslenskir fiskframleiðendur eigi einmitt óvart svona embættismenn á sínum snærum í matvælastofnun ríkisins. Þó er þar ekki um skipulagða glæpastarfsemi að ræða fremur er hægt að saka þartilbæra starfsmenn um vítaverð embættisafglöp eða að þeir hafi brugðist skyldum sínum. Í gær komu fréttir um að Karl Sveinsson fiskverkandi á Borgarfirði Eystri hefði sagt upp starfsfólki vegna ónægra verkefna verkunarinnar. Það vakti athygli að ástæða verkefnaskortsins var döpur sala á saltfiski sem eitthvað var gulari á holdið en óeðlilegt gæti talist.
Ástæðan var sú að markaðurinn hefði verið vaninn á að saltfiskur væri hvítur á hörundið, þó öll eðlisfræðileg lögmál séu sett úr skorðum við þá sérkennilegu hugmynd.
Ástæða þessa brenglaða hugarfars neytendanna var nefnilega að framleiðendur notuðu málningu á fiskinn, hvíttuðu hann þó ólöglegt væri og ekki í samræmi við gildandi reglugerðir.
Og hvert var svar hins opinbera starfsmanns matvælastofnunar þegar hann var ynntur eftir sofandalegum viðbrögðum við ólöglegri starfsemi í greininni (hér á landi).
Svarið var að þeir létu þetta viðgangast vegna þess að Færeysk og Norsk fyrirtæki (ef ég man rétt) beittu þessum ólöglegu aðferðum til að efla samkeppnisstöðu sína.
Auðvitað er rót vandans hér fáviska neytendanna sem setja upp í sig ókennilegt fæði og hafa misst allt næmi fyrir hvað er raunverulegur matur og hvað er feikuð matvara. Hins vegar eru þartilbærar eftirlitsstofnanir (t.d matvælastofnun) settar á laggirnar til að tryggja að bíræfnir svindlarar geti EKKI vaðið uppi með framleiðslu og söluvöru svo að neytendum verði meint af.
Umræddur embættismaður hefur greinilega eitthvað misskilið stöðu sína. Hann hefur ruglað saman því að stunda lögmæt vinnubrögð (sjálfsagt útlistuð í ráðningarsamningum) og því að standa vörð um samkeppnisstöðu islenskra sjávarafurða á erlendri grund.
Svo má aftur spyrja sig ef að starfsmanninum var svona umhugað um að passa upp á það, afhverju hafði hann þá ekki samband við fjölmiðlafólk í löndum þar sem varan er markaðssett til að láta vita af stórfelldu svindli Færeyinga og annara í vinnslu saltfisksins.
Afhverju beitti hann sér ekki eins og lög gera ráð fyrir, í gegnum þartilbærar stofnanir innan Evrópulandanna sem að tryggja eiga almannahag á þessu sviði.
Starfsmaðurinn íslenski valdi að vera meðvirkur í svindlinu svo við gætum öll verið með Færeyingum og öðrum í svindlinu með fiskinn gagnvart heiðvirðum borgurum sem ekki höfðu hugmynd um óheiðarleika íslenskra fiskframleiðenda og annarra.
Orðspor okkar á erlendum mörkuðum mun til lengri tíma verða betra ef við störfum heiðarlega.
Gangi þér vel í baráttunni gegn óheiðarlegum öflum Karl Sveinsson og megi fiskvinnslan þín aftur starfa!
Eigendur vissu ekkert | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samkvæmt umfjöllun viðskiptablaðsins danska Börsen er enn langt í land með að Bandarískt efnahagslíf rétti úr kútnum. Það á einkum við um atvinnuhorfu í landinu en samkvæmt bandaríska Nóbelshagfræðingnum Paul Krugmann eru bandarísk stjórnvöld haldin meinloku. Já, það er leiðinlegt að vera svartsýnn en mér sýnist á analysu hans að ástæða sé til að vera raunsærri en fyrrnefnd stjórnvöld eru.
Útlitið er dökkt hjá Obama | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.9.2010 | 23:58
Að slá eign sinni á náttúruna - hvernig má geirfugl líta út?
Gaman að ljósanótt hafi farið svona vel fram. Þessi hátíð er mikil bragarbót í starfi bæjarfélagsins og hefur ávallt verið vel heppnuð. Ingólfur Magnússon nemandi minn í ferðamálafræði gerði afar vandaða könnun í bs.verkefni sínu á upplifun og þáttöku íbúa í undirbúningi og hátíðahaldi ljósahátíðar. Það var nær óblendin ánægja með hana. Hátíðir af þessu tagi gegna ekki einungis því hlutverki að efla samstöðu íbúa og eiga sameiginlega ástæðu til að fagna því þær hafa einnig aðdráttarafl fyrir brottflutta og þá sem ættir eiga að rekja á svæðið. Það er því ekki að ástæðulausu að hátíðir af þessu tagi hafa oft orðið uppspretta svokallaðrar ættjarðarferðamennsku.
Ég vil þó gera deilu um Geirfuglskúlptúrinn að umræðuefni mínu hér.
Settur hefur verið upp skúlptúr af geirfugli eftir erlendan listamann sem hefur gert það að sínu þema að móta dýr í útrýmingarhættu út í minnisvarða sem settir eru upp á stöðum þar sem þeir eru upprunnir. Íslenskur listamaður hefur fyrir nokkrum árum fengið að setja upp minnisvarða um geirfugl á allt öðrum stað (nánar tiltekið í Skerjafirði) í allt öðru samhengi.
Nú snýst einhver annarleg umræða um það að hve miklu marki hinn nýuppsetti skúlptúr erlenda listamannsins er eftirlíking eða ekki, og hversu ósvífið það er að endurtaka leikinn (sem nb. var í öðru samhengi settur upp).
Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum halda listamenn að þeir geti slegið (einka) eign sinni á náttúruna eins og hún er sköpuð, með sköpun sinni. Þýðir þetta að ef að Van Gogh málaði einu sinni sólblóm þá má enginn annar mála sólblóm, og auðvitað sérstaklega ekki ef hann er í nærliggjandi firði. Má þá enginn annar listamaður móta svan í höggmynd ef einhver annar hefur gert það. Það má kannski grínast með það að það séu óteljandi möguleikar í að móta ólíka kynbætta og úrkynjaða kjúklinga úr landbúnaðariðnaðarframleiðslu. Þar væru menn vissulega ekki að líkja eftir sérkennum veru úr villtu dýraríki, náttúrunni.
Í alvöru talað. Það er meira að segja látið að því liggja að minnisvarðinn um geirfuglinn sé of líkur þeim sem Ólöf Nordal (með allri virðingu fyrir þeirri mætu listakonu) kópíeraði í málm á sínum tíma.
ég spyr: hvaða rétt hafa listamenn á að eiga einkarétt á mótun náttúrunnar sem speglun við náttúruna eins og við sjáum hana. Eigum við ekki bara að banna sköpunarkraftinn eða fella hann undir einkaleyfi? Nei takk - njótum beggja geirfugla í ólíkum tilgangi. Lifið vel.
Tugþúsundir á Ljósanótt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.8.2010 | 12:41
Heimur ísjakanna
Ég tek undir með Heimi Harðarssyni að á Grænlandi, í austri sem og vestri er afar fagurt og ekki ofmælt að slík lýsingarorð sé hægt að auka í eftir sem norðar dregur.
Hinsvegar er orðalag fréttarinnar sérstakt að því leyti að látið er eins og engin ferðaþjónusta sé í Scoresbysundi. Það er væntanlega lítið um að skútur bregði sér svo norðarlega en geta má þess að Nonni travel hefur gert út ferðir í allavega á annan áratug til svæðisins. Þess má auk þess geta að á síðasta ári börðu líklega tæplega tíu þúsund manns svæðið augum. Annað hvort með skemmtiferðaskipum/leiðangursskipum eða sem dagsferðamenn frá Íslandi.
En ég óska samt forsvarsmönnum Norðursiglingar til hamingju með að átta sig á perspektivunum við að auka samvinnu við Grænlendinga í ferðaþjónustu og vona að það gerist á jafningagrundvelli og ekki sem nýlenduverslun. Þetta er vandmeðfarin slóð!
Siglt um ævintýraheim Grænlands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.8.2010 | 13:57
Til heiðurs kvenprestum
Nær allir prestar sem hafa tjáð sig á opinberum vettvangi og þorað að mæla opinskátt gegn voðaverkum fyrrum biskups Ólafs Skúlasonar eru konur (með allri virðingunni fyrir hinum tveimur karl prestunum, Flóka og Þórhalli sem mælt hafa á svipaða leið).
Það er eins gott að kirkjan á öfluga presta enn innan sinna raða, ekki veitir af. Ég varð afar glöð í hjarta að heyra að Guðbjörg hefði notað tækifæri í messu sinni í morgun til að velta þessum hlutum fyrir sér. Það er hinn rétti vettvangur til að ræða um brot einstakra kirkjunnar manna, þó ég sé þeirrar skoðunar að það hefði þurft að gera miklu, miklu fyrr.
Ég ætla að vona að átaksbæklingadreifing þjóðkirkjunnar verði ekki eitthvað yfirklór. Þó mér finnist einhver plástursþefur af því átaki. Ég vona þá að ég hafi ekki á réttu að standa hvað það varðar.
Ég var fermingarbarn kven-níðingsins Ólafs. Við vorum fjórar vinkonurnar sem að byrjuðum að ganga til hans í fermingarfræðslu. Allar hinar þrjár hættu við að fermast eða allavega fermast hjá honum. Eftir stóð ég hrædd og óstyrk - algjör gelgja. Ólafur notaði þá tækifærið og króaði mig af út í horn í Réttarholtsskóla og byrjaði á því að biðla til mín um að ég mætti ekki svíkja sig þegar hinar væru farnar. Hann hótaði mér í kjölfarið að ég hefði verra af ef ég sviki drottinn og hætti fermingu. Allan veturinn hampaði hann mér eins og ég væri uppáhalds og ég var sú sem fékk oftast að kveikja á kertum meðal fermingarbarna ársins í upphafi messu þennan vetur.
Ólafur sýndi aldrei neina kynferðislega tilburði gagnvart mér barninu, en háttalag hans var vissulega undarlegt. Það var markað af einhverri afar fornri uppeldisfræði sem einkennist af heiðri og skömm. Ég hef oft hugsað um þessa senu í horninu síðan. Ólafur hefur greinilega verið afar drottnunarhneigður.
Það er afar mikilvægt að kirkjunnar menn og konur setji þessa hræðilegu glæpi fyrrum biskups og etv. annara í orð. Annars getur engin heilun farið fram, svo maður slái um sig orðum Sigrúnar Pálínu.
Segir allt stjórnkerfið hafa stutt Ólaf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Breytt s.d. kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2010 | 11:42
Predikun um málnotkun
Það eru sláandi tíðindi að fyrir utan göngumenn í Paradísardal, séu alls fjórtán kajakræðarar týndir við Grænland. Vonandi finnst fólkið sem leitað er heilu á höldnu.
Ég hef athugasemd við framsetningu fréttarinnar, sem líklega er þýdd úr dönskum miðli (afhverju farið þið ekki í sermitsiak og þýðið þaðan).
Eins og alþjóð veit er Grænland því marki brennt að hafa verið nýlenda Dana um langt skeið. Árið 1979 fékk Grænland loks eigin heimastjórn með mjög takmörkuðum heimildum og árið 1989 var hún enn styrkt í sessi. Fyrir um tveimur árum síðan var gengið enn lengra og samþykkt yfirlýsing og stefna þess efnis að gera Grænland loks sjálfstætt þó enn sé töluvert í að það rætist í reynd.
Frá 1979 (fyrir um 31 ári síðan) var það yfirlýst stefna að ríkismál Grænlendinga væri grænlenskan því hún var í bráðri útrýmingarhættu vegna nýlenduyfirráða Dana í öllu skólakerfi, ákvarðanatöku og opinberum stofnunum. Grænlendingar margir á mínum aldri og eldri misstu móðurmálið sitt og eru vart talandi og síst lesandi á grænlensku. Þeir eru enn að berjast við öfl sem af leti og gömlum vana vilja ekki læra svo "basic" atriði eins og staðarnöfn á ríkismálinu.Grænlenskan er móðurmál heimamanna, hún er nú sem betur fer kennd í skólum og embættismenn þurfa að geta talað hana til að fá starf í opinberri stjórnsýslu (þó enn séu víst einhverjar brotalamir á því).
Það er eðlileg krafa heimamanna að þeir fái að tjá sig á eigin tungumáli að mínu viti. Og því hefur þessi barátta Grænlendinga verið grundvallar réttindamál.
Ef við setjum okkur í spor þeirra myndi frétt í erlendum miðli hljóma á þann veg að eitthvað hefði gerst í Smokie Bay eða Field Banks en á frummálinu kölluðu frumbyggjarnir það Reykjavík og Akureyri....Og svo er farið rangt með blessað nafnið að auki í fréttinni - hið rétta er að bærinn heitir Ittoqqortoormiit en ekki Illoqqortoormiit.
Ég hef setið í flugvél á vegum flugfélags Íslands sem var á leið til Grænlands og verið að kenna flugstarfsfólkinu (flugfreyju og flugstjóra) að bera fram og læra utanað grænlensk bæjarnöfn þar sem átti að lenda. Það hefði verið mjög pínlegt fyrir flugfreyju og flugstjóra að tilkynna fyrir farþegum lendingar á stöðum með ókennilegum nöfnum sem farþegarnir nota ekki yfir staðina.
Ég fylgi Vigdísi Finnbogadóttur í sannfæringu um að mjög mikilvægt er fyrir þjóðir og menningahópa að viðhalda tungumáli sínu. Eg er spennt yfir nýjum rannsóknarniðurstöðum sem sýna fram á að tungumál og skilningur eru forsenda hugmynda og heimsmynda. Ég fylgi fjölbreytileikanum.
Ekki detta ofan í þá leti að bera sig ekki eftir að læra staðarnöfn á máli heimamanna.
Enn ekkert spurst til kajakræðara á Grænlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)