Eftir langa þögn -

Ég fór á fína málstofu í gær á vegum alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands en Beinta í Jákupstofu var að halda fyrirlestur um Færeyjar og alþjóðasamfélagið. Í fyrirlestri hennar kom margt forvitnilegt fram, m.a að þó að Færeyjar séu hluti af Konungsríkinu Danmörku eru þeir í sívaxandi mæli að sjá um utanríkispólitísk mál en ekki ráðuneytið á Strandgade í Kaupmannahöfn. Færeyjingar finndu töluvert fyrir því að vera ekki alvöru leikmenn, þeir flytu með í ýmsu en væru ekki alvöru þáttakendur. Beinta sem er kíminn og skemmtileg kona hnykkti á þessu með því að segja að Færeyingar færu kannski í sömu veislurnar en ekki á sömu fundina og stórþjóðirnar. Þeir væru litlir í alþjóðasamhengi  og hefðu sloppið við ýmsar alþjóðlegar skuldbindingar vegna þessa en nú væri mögulega ekki lengur hægt fyrir smáeyjaþjóðir að gera það. Færeyjingar eru með í NORA sem reyndar hefur lítið pólitískt vægi en er engu að síður vettvangur Norðvestur Norðurlandanna. Færeyingar eru með í Norrænu ráðherranefndinni, en sá vettvangur er ráðgefandi og taldi Beinta að Norðurlöndin sem leggðu mesta áherslu á styrk ráðherranefndarinnar væru að ofmeta hlutverk þess pólitískt.

Færeyjingar eru að leggja drög að því að sækja um EFTA aðild og aðild að evrópska efnahagssvæðinu.

Þannig að ljóst er að það eru athyglisverðir tímar í alþjóðamálum í Færeyjum um þessar mundir.

Alyson Bailes stýrði fundinum af myndugleik og vakti það nokkra athygli mína að sendiherrar landa eins og Kanada og Rússlands voru mættir til leiks. Norðuratlantshafsmálin voru nú ekki það sem mest bar á í umræðunni en það var alveg ljóst að rússneski fulltrúinn sperrti athyglina þegar kom að þeim málum.

Undir lok fundarins fóru umræður að verða heimspekilegri og upp kom mjög athyglisverð spurning sem mér finnst verulega vert að huga að í allri þessari umræðu um Evrópu framtíðarinnar og ríkjabandalög af ólíku tagi. 

Hvað er í raun sjálfstæði þjóða? 

Er sjálfsforræði meira eða minna í samstarfi milli þjóða? Er sjálfsforræði það sama og sjálfstæði?

Er maður ef til vill sjálfstæðari að taka ýmsar ákvarðanir í bandalagi við aðrar þjóðir en utan þeirra?

Beinta vildi allavega meina að þetta væri ekki alveg ljóst.

Það er því ljóst að við á Íslandi munum þurfa að grufla í þessum spurningum komandi mánuði.

Er það ef til vill svo að ef við höldum okkur utan fullrar aðildar að ESB að við erum ófrjálsari af ýmiskonari ákvarðanatöku en við ella hefðum verið?

Margir myndu ef til vill hrista höfuðið við svona spurningu og telja að þetta væri nú aldeilis að stilla hlutum upp á hvolf.

Kannski er þó sannleiksþráður í því.

Það er allavega áhugavert að velta því fyrir sér. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband