Í hvaða liði ert þú góurinn!

 Gullkorn dagsins í dag koma úr penna/tölvu Guðmundar Andra Thorsonar. ...Með því að kjósa sjálfstæðisflokkinn hefur fólki fundist sem það sé í einhverjum skilningi að kjósa líf sitt eins og það sé. Það sé að kjósa bílinn sinn og húsið, garðinn í kring, foreldra sína og börn, vini og eftirlætisstaði - það sé að kjósa götuna sína og landið sitt.  gott ef ekki Esjuna og sólskinið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið að sér að mynda umgjörðina um líf fólksins og hugmyndafræðina sem að baki því býr: þessa sérstöku íslensku blöndu af einstaklingshyggju og félagshyggju þar sem hver einstaklingur áskilur sér fullan rétt til að vera alveg eins og allir hinir. Og leggja hart að sér til að svo geti orðið.

Þetta er alveg hrikalega fyndið og ef rétt er skilur maður trega fólks að skilja við flokkinn, snúa við honum baki og velja stjórnmálaafl sem að stendur fyrir einhverju sem knýr mann til að kveðja fyrri hugmyndir um lífið eins og það er. Og þó að sjálfstæðisflokkurinn sé hér dreginn sérstaklega fram gæti þetta átt við um fleiri flokka.

Þrætur um hvernig dagskrá þingsins skuli háttað - eða hversu ómannúðlegt er að segja seðlabankastjóra upp störfum er auðvitað líka eitthvað sem hrærir í hjörtum og skipar fólki í lið, svo ekki sé talað um ringulreiðina í upplýsingum um hverjir ullu hruni og hvernig, hverjir gerðu hvaða mistök í kjölfarið og hvað er til ráða og framundan.

Á meðan að erlendir sérfræðingar í hagstjórn og efnahagsmálum fylgjast með örlögum þjóðarinnar í eftirleik hrunsins takast íslendingar á í liðum. Ertu púlari? Já líkt og á fótboltavelli. Keppst er við í hverjum fréttum að mæla og sjá fyrir fylgisaukningu og fylgistap flokkanna, á meðan að frambjóðendur í forvali og prófkjörum innan sama flokks eru helstu óvildarmenn hvors annars.

Það er ekkert eins árangursríkt í að þyrla ryki í augu fólks og blinda sýn þess á hvaða málefnaskrá er í gangi eins og að tefla fram goðum sem að velja má á milli, notabene innan þess liðs sem fólk er skráðir aðdáendur að. Þá gildir einu um hvað er keppt heldur hverjir keppa. 

Ég vil keppa að því að tekið sé alvarlega á efnahagsmálum landsins miðað við hrikalega stöðu okkar og fyrirliggjandi þjóðargjaldþrot. Ég vil að sameiginlegt markmið íslendinga verði að koma þjóðinni á kjöl svo fjölskyldur í landinu, atvinnustarfsemi, stjórnsýsla, heilbrigðis- og menntakerfi geti við unað.

Segjum upp liðunum! Ef það sem þarf til þess er að skrá sig í alla flokka á maður að gera það. Sýna borgaralega óhlýðni í verki og reyna að hafa áhrif á flokkana innanfrá.

 

 


mbl.is „Auknar líkur á þjóðargjaldþroti"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Þetta er nú ekki svona einfalt. Margir kjósa flokkinn, nú eftir hrunið, vegna þeirrar ábyrgðar sem hann hefur axlað á vandanum og þeim úrbótum sem hefur verið lofað. Það stefnir einnig í að töluvert af nýju fólki vinni sigur í prófkjöri t.d. Loftur Altice Þorsteinsson. Einng vonast ég til að sjá Þórlind Kjartansson bjóða sig fram til formanns en þar fer hæfileikaríkur ungur maður sem hefur staðið fyrir góðu og virku félagslífi og samkomum í SUS.

Hilmar Gunnlaugsson, 9.3.2009 kl. 21:54

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Sæll Hilmar

Hvaða ábyrgð er það? Er það afsökunarbeiðni Ástu Möller eða skýrsla endurreisnarnefndar sjálfstæðisflokksins?

Ég er viss um að í sjálfstæðisflokknum er margt góðs fólks - þekki auk þess marga þeirra.  Tel að satsa eigi á ungar dugmiklar konur í þeim flokki fremur en erfðaprinsa. Ætla að kjósa þær.

Anna Karlsdóttir, 10.3.2009 kl. 12:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband