Af hverju er líkar Helle Thorning Smith ekki stjórnmálamenn hér á landi?

Í Danmörku ríkir ekki sama sjálfskapaða kreppan og hér en þar hefur hagkerfið auðvitað ekki farið varhluta af áhrifum heimskreppunnar yfirvofandi. Um þúsund manns bætast við í viku hverri á atvinnuleysisskrá þar í landi sem er auðvitað hlutfallslega lægra en hér á landi miðað við íbúafjölda. Danir eru þó mun vanari að búa við krónískt atvinnuleysi en við hér (veit það af eigin raun þar eð ég bjó þar á hinum svokölluðu kartöflukúr árum og borgaði samviskusamlega 12% af laununum mínum í atvinnuleysissjóð til u.þ.b. sjö ára).  Þar í landi hefur ríkt hálfgerð óstjórn um árabil sem hefur farið eins og stormsveipur um menntakerfið og lamað margt gott sem áður var þó á sama hátt sé hægt að segja að ekki hafi verið vanþörf á að taka svolítið til í bákninu sem þar ríkti þar til minn gamli nágranni á Amager, Anders Fogh Rasmussen tók við stjórninni sem forsætisráðherra landsins. Hann hefur þó sýnt ódug sinn í kanasleikjuhætti, óvild gagnvart íbúum landsins af erlendum bakgrunni, niðurskurði í heilbrigðiskerfi, félagskerfi og ýmsu öðru sem ekki er til að vera stoltur af nú þegar á ríður að hafa sterkar stoðir gegn heimsfári.

Ég datt ofan í deadline sem er danskur fréttaumfjöllunar og spjallþáttur sem er mun vandaðri en íslenskir fjölmiðlar geta státað af. Þar var verið að ræða við leiðtoga danska sósílademókrataflokksins Helle Thorning Smith og samkvæmt spjallinu er greinilega verið að reyna að semja um lendingu við danska banka um aukna aðkomu ríkisins að þeim með fyrirliggjandi áföll í huga. Krafa Helle var að hluti af þeim samningspakka ætti að fela í sér kröfur um hámarkslaun til bankastjóra þar eð nú væri verið að hlutdeilast um fé almennings ólíkt áður. Henni fannst eðlilegt að hámarks árslaun bankastjóra yrðu 2,5 milljónir danskra króna (á núverandi gengi er það um..56 milljónir íslenskra króna). Núverandi bankastjóri danske bank er með 12,6 milljónir danskra króna í árslaun og finnst það ekki of mikið! Það eru 286 milljónir íslenskra króna á núvirði. ....Ekki er ég hissa þó að Poul Nyrup hafi orðið til að skrifa bókina " I graadighedens tid!" Þessi ofurlaun bankastjóra hafa greinilega orðið viðmiðið í ofurvæntingahagkerfi síðustu ára um öll vesturlönd...og löngu kominn tími að því linni.

Hneykslun andstæðinganna í pólitík yfir þessari aðför að bankastjórunum var greinileg. Þetta væri hið versta mál. Þetta dugandi og mjög svo hæfa fólk sem bæri svona ríkulega ábyrgð myndi bara flýja land og gerast bankastjórar í Þýskalandi ef að laun þeirra yrðu lækkuð svona mikið. Jersild (spyrjandinn) gekk á hana og andstæðingar hennar í pólítik töldu hana vera populista af verstu gerð. Hún varði sig og sýn sjónarmið vel að mínu mati. 

Ég stóð eftir hugsi, hugsi vegna þess að þarna var pólitíkus á ferðinni með bein í nefinu til að segja að henni og hennar flokki finndist helsta hlutverk þeirra vera að verja hagsmuni almennings...og sjáið til...hjá þeim hefur ekki enn komið til bankahruns. Því miður virðist þó hin breiða fylking almennings þar í landi sigla sofandi að feigðarósi, allavega ef marka má upplifun mína þar á haustdögum. Fólk var ótrúlega dofið fyrir hvað væri að gerast í heimshagkerfinu.

Ég vildi óska þess að við hefðum átt svona grandvara pólitíkusa til að verja hagsmuni almennings áður en til hruns kom. Ég vil hennar líka hingað í pólitík.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband