Hugmyndir, hugarflug og samvinna

Hvert einasta dagblað nágrannaþjóðanna sem ég hef lesið undanfarið hefur haft greinar um þjóðfélagsástandið og í nær hverri einustu er niðurlag greinarinnar að nú sé orðið ódýrara að borga fyrir vörur á Íslandi en áður. Sænskur blaðamaður taldi sig t.d  heppinn að geta keypt kampavín ódýrara hér á landi en í sínu heimalandi og svo mætti lengi telja fleiri skondnar sögur. Þetta eru því uppgangstímar hvað varðar ímynd verðlagsins þó það sé okkur dýrkeypt.

Mig langaði að segja frá tveimur fundum sem ég tók þátt í um helgina. Annað var fundurinn Hugspretta - landnám nýrra hugmynda sem haldið var í Háskólabíó á laugardaginn. Hitt var sjálfbær nýsköpunarfundur Háskólans í Reykjavík og átaks Bjarkar Guðmundsdóttur sem haldinn var í HR í gær.

Báðir fundirnir voru afar skemmtilegir og innblástur og juku trú mína á að við getum allavega verið stolt yfir hugmyndaríkidómi fólks sem hér býr. 

Á fyrri fundinum voru fjölmargir fyrirlesarar sem stöppuðu stáli í fólk, m.a. Forsetinn, Björk, Guðjón kenndur við OZ, Íþróttaálfurinn Magnús Scheving, Hrund Andradóttir umhverfisverkfræðingur og Auður Eir. Auður óskaði þess að gildi samfélagsins á því sem hún kallaði umhyggjustörf myndi breytast til hins betra og að í þau störf sem áður hefði verið mannekla í vegna þenslunnar streymdi nú hæfileikaríkt fólk með hugmyndir í meira mæli en áður. Vonandi rætist þessi ósk Auðar. 

Síðan tóku við hugmyndahópar sem ræddu um mögulega nýsköpun á sviðum sem áheyrendur í sal höfðu stungið upp á að við ættum möguleika á að þróa. Þetta var alveg sérstaklega ánægjulegt. Bæði var gaman að hitta fjölbreytilegt fólk sem sannfærði mig um að okkur er öllum hollt að líta út fyrir eigin kunningjahringi og spjalla við aðra en þá sem við erum vön og gleðilegt að heyra sjónarmið fólks úr mörgum öðrum áttum en því umhverfi sem maður sjálfur velkist í alla daga.

Ég var í hópi sem átti að ræða fjölskyldu og gróðurhúsaræktun. Margar góðar hugmyndir voru reifaðar og við fórum út glaðari. Vonandi verður þessu átaki fylgt eftir og vonandi geta einhverjar af hugmyndunum sem að 15 hópar mótuðu þennan dag orðið blómstrandi atvinnurekstur.

Á fundinum í gær í HR voru líka frummælendur sem allir höfðu eitthvað áhugavert fram að færa, síðan var skipt í umræðuhópa og ég sat ásamt mörgu góðu fólki í samræðuhóp um ferðamál. Eins og daginn áður var ekki komið að tómum kofanum í skoðanaskiptum og frásögum fólks við borðið. Það var einstaklega ánægjulegt að heyra bæði reynslu af sjóstangveiði á sunnanverðum Vestfjörðum (flutt af Ólafi Sveini Jóhannessyni) og um áform norðanmanna á stofnun Heims Norðurhafa á Akureyri (flutt af Hreiðari). Margir reynsluboltar úr greininni sátu við borðið t.d Anna G. Sverrisdóttir og Ásbjörn Björgvinsson ofl. Sigrún Birgisdóttir arkitekt og meðlimur vatnavina og gamall leiðsögumaður hafði skemmtilega sýn á hvernig við gætum unnið betur saman þvert á hreppa, fagleg landamæri og áhugamál.

Umræðurnar voru skemmtilegar og við komum út ríkari af hugmyndum og sögum. Vonandi blómstrar eitthvað gott út frá því.

Að lokum langar mig að segja að ég skil að margir séu reiðir en ég reyni allavega sjálf að hefja mig upp yfir reiðina með því að anda gegnum nefið, og spyrja sjálfa mig hvað Búdda eða Dalai Lama hefði gert í sömu stöðu.  Ég er reyndar ekki yfirlýst búddatrúar en mér finnst reyndar sú trú oft hafa skynsamari nálgun á vandamálum en hin kristna trú sem er öllu herskáari og ýtir alltaf undir einhvers konar skömm. 

Ísland er spennandi land að búa á og heimsækja þrátt fyrir allt.


mbl.is Ísland á hagstæðu verði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Hér í Hollandi er Ísland auðvitað stimplað sem land svikara og þjófa, en það er bara pólitík. Fjármálaráðherrann sá sér leik á borði og notaði Icesave málið til að veiða prósentur í könnunum. Hann um það. Sannar bara að hann er atvinnupólitíkus.

Ég er sammála þér að ísland er spennandi land að búa í. Það er sennilega bara meira spennandi núna en áður, því það hlýtur mikil bylting að vera framundan. Ég held að nú sé tækifærið að byggja upp land sem við getum verið virkilega stolt af.

Þó ég búi í Hollandi, vil ég gera allt sem hægt er svo að Ísland komist ekki bara út úr hremmingunum, heldur verði betra fyrir vikið. Ég setti upp spjallsíðuna www.nyjaisland.is á föstudaginn í von um að sem flestir myndu skrá sig og skiptast á hugmyndum um það hvernig við getum byggt upp betra þjóðfélag. Það væri gaman ef þú kíktir á síðuna og kannski reyndir að fá fólk til að skrá sig. Ég veit að einhver vefsíða breytir ekki heiminum, en ef hún getur hjálpað, er um að gera að reyna. Þetta var allavega mitt lóð á vogarskálarnar... í bili.

Villi Asgeirsson, 20.10.2008 kl. 20:45

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Takk fyrir það Villi - kíki á þetta.

Anna Karlsdóttir, 20.10.2008 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband