Danskir menn tilfinningalega opnari en íslenskir bræður!

Ég er búin að vera að endurnýja kynni við gamla skólafélaga og vini. Hitti Kenneth gamlan skólabróður minn í lestinni í dag sem nú er lektor við Hróarskelduháskóla í karlmennsku og kynjafræðum. Við skiptumst á upplýsingum á gömlum sameiginlegum vinum. Síðan spjölluðum við um lífið og tilveruna og hann sagði mér frá börnunum sínum, síðasta skilnaði og tilfinningum sem bærðust með honum í kjölfarið, og hvernig hann væri að takast á við það um þessar mundir. Ég er búin að vera að vinna með Sören sem var að missa mömmu sína um daginn. Hann er búin að vera að segja mér frá undanförnum ástarævintýrum, tilfinningum í tengslum við móðurmissi og almennt lífsins málum. Jóakim gamall skólafélagi sem nú er á krossgötum vegna þess að nýja kærastan hans er ófrísk og hann mun allt í einu breytast úr föður eins barns í fjögurra barna föður og er ekki alveg með doktorsstyrk í höfn enn hefur leitað mikið til min með andlegan styrk, held ég, og bara svona samveru almennt. Við Sören fórum í bæinn í gær að hitta Samal, þjóðskjalavörð færeyinga og okkar gamla vin frá því í náminu. Hann er nýskilinn eftir tuttugu ára samband og hafði þörf fyrir að ræða það þó það væri allt á rólegri nótum.

Ég er eiginlega alveg paff yfir öllum þessum umræðum um mikilvægari málefni lífsins við þessa gömlu félaga mína, því ég held hreinlega að íslenskur karlmaður myndi aldrei setjast með gamalli vinkonu/félaga og eiga svona auðvelt með að velta upp tilfinningalegum málefnum.

Ég verð að viðurkenna að ég kann ágætlega við einlægni í samskiptum og ég túlka þetta á þann veg að danskir karlmenn séu almennt meira í tengslum við eigin tilfinningar, allavega eiga þeir auðveldara með að tjá þær en íslenskir bræður þeirra. Við erum jú einu sinni bara mannfólk öll saman, lifum við sorgir og gleði, háflæði og fjöru eins og lífsins gangur er. Mér finnst allavega undursamlegt að vita að karlmenn lifa og hrærast, gleðjast og syrgja, eins og ég. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Ójú Þrymur vinir eru gulls ígildi, en það er verulegur stigsmunur á þeim sem ég þekki á Fróni og hér í baunalandi. Reyndar á ég einn vin, hann Hrannar sem sagði mér svo sætur þegar hann var búinn að giftast konunni sinni, að hann svifi á rósrauðu skýi (sem er ótrúlega kjút). En það er undantekning að íslenskir menn þori að tjá sig ófullir á þann hátt.

Anna Karlsdóttir, 13.4.2008 kl. 21:57

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

En kannski hef ég kannski mest kynnst tréhestum!

Anna Karlsdóttir, 13.4.2008 kl. 22:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband