Í kjölfar mannfagnaðar.

Eftir allar annirnar tengdar IFEA þingi og auðvitað fyrst og fremst Journeys of Expression VII - Edges of the world..er spennufall.

Ohohoho - ég var búin að gleyma hvað er gaman að dansa. Ég segi þetta reyndar alltaf í hvert skipti eftir að ég tek sveiflu.

Það sem einkenndi ráðstefnuna okkar í háskólanum um helgina var yndislegt og skemmtilegt fólk. Þáttakendur voru frá um 16 þjóðum og allir töluðu um hvað það væri góð og glöð stemning. Þarna voru mörg fróðleg erindi sem bæði var hægt að læra af en líka nýta í tengslum við eigin verkefni.

Ég held að þegar upp er staðið skipti svona jákvæð stemning, yfirlætislaus samskipti og gagnkvæm virðing mestu máli um hvort maður a) nenni að byggja upp langtíma samstarfstengsl hvort heldur er í rannsóknum eða þróunarverkefnum b) hvort maður nenni að byggja upp langtíma vinatengsl.

Ég hef áður upplifað að skipuleggja svona alþjóðlegan viðburð þar sem fólkið sem var innanborðs var absolut ekki eins skemmtilegt. Það var reyndar sumarskóli doktorsnema í norðurslóðafræðum sem haldinn var sumarið 2003. Þar var finnsk eiturnaðra (reyndar virt fræðikona) sem eitraði stemninguna svo að við urðum fegnust þegar hún var komin upp í flugvél Icelandair. Jóhanna samstarfskona lét meira að segja færa henni bjór um borð, svo fegnar vorum við að sleppa undan þessum leiðindaskarfi. 

Ég er eiginlega komin á þá skoðun að maður eigi ekki að leggja lag sitt við fólk sem að étur af manni hælana (hef kynnst þeim nokkrum) - heldur fyrst og fremst einbeita sér að hinum, og sem betur fer er fullt af slíku fólki eins og dæmin sanna. 

Ég ræddi þetta við Guðbjörgu Lindu vinkonu og samstarfskonu fyrr í vetur og við vorum sammála um að lífið væri of stutt til að vera að vinna með leiðindapúkum. Við vorum líka sammála um að maður verður að passa upp á að vinna þvert á deildir, stofnanir og skorir til að fá sem mestan, bestan og breiðastan snertiflötinn. 

Ég elska að hitta fólk sem hefur ástríðu fyrir því sem það er að gera - er fullt af áhuga og elju án þess að valta yfir aðra. Þannig fannst mér margir þarna sem ég náði að kynnast. Auðvitað eru margir kræklóttir kvistir í þessum háskólaheimi, þar sem persónuleg samkeppni manna í milli, oftast um fjármagn, viðurkenningu og heiður, er samofið vinnunni hvar sem er hvenær sem er.

Því miður hefur maður kynnst mörgum sem eiga við andlega bresti að stríða meðal háskólafólks, því fer ekki fjarri. Held kannski að það tengist einsemdinni yfir fræðunum, yfirálagi sem leiðir til kulnunar í starfi og svo mætti lengi telja.

Ég dansaði til klukkan fjögur í nótt. Eftir móttöku í Öskju í lok ráðstefnunnar - frumsýndi Vala vinkona leiklistaratriði um menningarfrumkvöðulinn í ferðaþjónustu. Það braust út mikill fögnuður yfir þessu atriði og mæli ég eindregið með því ef einhverjum vantar gott atriði til að gleðja samkomur. Við fórum síðan nokkur hópur saman á Thorvaldsenbar þar sem við snæddum, drukkum og dönsuðum. 

Peter, Eddie, Daniel, Lars, Vala, Darrell, John, Maura og fleiri dönsuðu inn í nóttina á meðan að Suður- og Austur Evrópu fólkið og Taiwanarnir reyndu að spotta norðurljós. Takmarkinu er því náð. Að tryggja góðar minningar af ráðstefnunni og Íslandsferðinni. 

En í dag geri ég lítið annað en að brosa, og liggja í leti. Ætla samt alveg örugglega bráðum aftur út að dansa.

Þá verður kannski komið vor á Íslandi -- því nú er að einbeita sér að styrkjaumsóknum, fjármálum, ferðaplönum, greinaskrifum og öðru áður en Ísland er kvatt að þessu sinni. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Als

Sælar Anna,

ég rakst á færslu frá þér á blogginu hans Eyþórs Arnalds og datt í hug að kasta á þig kveðju.

Vonandi gengur allt í haginn hjá þér og þínum ... hef ekki haft fréttir af Jónasi lengi en vona að það sé við hæfi að biðja fyrir kveðju til hans hér.

Hilsen,

Ólafur Als

Ólafur Als, 2.3.2008 kl. 18:53

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Sæll Ólafur

 Gaman að sjá þig hér. Krútt litla barnið þér við hlið á myndinni. Er þetta afkomandi þinn? Kem kveðjunni á framfæri þegar ég heyri í honum.

hilsen

Anna 

Anna Karlsdóttir, 2.3.2008 kl. 23:03

3 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Sæll Ólafur

Þú hefur greinilega áhyggjur af mér. Nú er ég endurtekið búin að fá pósta um netsögu á þeim forsendum að ég muni njóta lífsins betur. Ég nýt lífsins ágætlega þakka þér fyrir. Fór inn á síðuna þína www.netsaga.is og sá vangaveltur um hvað varð um kvótapeningana og ætlaði aldrei að hætta að hlægja. Þetta er fínt framtak - svona skemmtisíða. 

Anna Karlsdóttir, 4.3.2008 kl. 09:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband