Færsluflokkur: Lífstíll

Johnny Cash, hjólreiðakúltur og listaverk

Í húsinu sem ég bý í, í augnablikinu eru engir diskar að ráði nema Portishead og um tugur diska með Nick Cave & the bad seeds. Ég fann þó einhverja suðurafríska tónlist og svo Mr.Cash sem er léttari að vinna undir, en er búin að hlusta á búatakta nokkur hundruð sinnum, þannig að nú er ég komin í mið-suðurríkja blúsinn.  

Ég er farin að stauta mig á hollensku fyrirsögnunum í blöðunum. Yeah, þær gráu virka eitthvað ennþá. Ég las að í París hefðu almenningshjól verið tekin upp og kynnt með pomp og prakt í gær. Amsterdam er alræmd hjólaborg og einmitt  það gerir hana svo sjarmerandi og manneskjulega fyrir vikið en þar hafa almenningshjól verið í boði fyrir gesti og gangandi á þriðja áratug. Og mér sýnist þetta alveg vera að virka, meiri eftirspurn en framboð þó.

Kaupmannahöfn tók þetta upp fjármagnað af auglýsingum fyrir ca. 12 árum síðan, og síðan bætist París í hópinn frá í gær. ..Ég veit að Reykjavík er í laginu eins og óreglulegt spælt egg og er ekki draumur hjólreiðamannsins, en hvernig væri að íhuga þennan kost fyrst að forsvarsmenn strætó standa sig ekki betur í ákvarðanatöku.????

Fólkið sem lánaði mér íbúðina mína er í meira lagi listrænt, hér eru allskyns munir af ýmsu tagi - sem meðal strefaranum myndi væntanlega þykja í undarlegra lagi. Ég nýt þess að vera umvafin skemmtilegum hugmyndum og svo er meira að segja margföldunartafla á eldhúsveggnum, þannig að mér getur hreinlega ekki leiðst!!!

Jack hafði samband við mig, vill fá mig í vinnu til Alaska í haust sem ég ætla að gera. Hann og Marge eru svo ótrúlega dugleg og skipulögð. Í morgun þegar ég vaknaði var póstur, þar sem hann var búin að skipuleggja ferðina mína, vinnudaga hér, og vinnudaga þar. Svo ég þarf lítið annað að gera en skrifa undir og mæta á svæðið. Ég hef bara aldrei áður kynnst þessu, yfirleitt þarf maður að gera allt svona sjálfur. National Science foundation veitir greinilega peninga til að manneskja sé í svona umsýslu fyrir mann. Þvílíkur lúksus, þetta er ekki íslenskur standard.

Hér er krækja á verkefnið sem við vinnum að saman næstu tvö ár.

www.search-hd.net


Best að koma sér að verki!


Fjarlægð og nálægð milli fólks/ hlýja og samkennd eða kuldi og sjálfhverfa!

Ég hlustaði á unga upprennandi konu íbúa Seyðisfjarðar, held hún heiti Þórunn og er dóttir Ingimundar í Vallanesi. Hún var að segja frá hvernig hún upplifði fjarlægð milli fólks í Reykjavík og hraðann/asann á öllu. Í síðustu viku opnaði ungur íslenskur maður sem býr í New York og starfar sem arkitekt myndlistarsýningu á frumlegum verkum. Hann sagði umferð og menningu í borgum þurfa að miðast við gangstéttar en ekki vegamenningu og mislægar slaufur. Hann líkti Reykjavík við menningarsnauðar borgir í miðríkjum Bandaríkjanna, t.d Kansas og fleiri, þar sem fólk er lokað inni í hylkjum (bílum) og það skapast lítill hittingur, nánd eða samkennd meðal fólks. Sem ætti auðvitað að vera límið í þéttbýli. 

Ég kannast svo vel við þessa tilfinningu, elska búsvæði mitt en finnst það furðulegt óaðlaðandi og einhvern veginn lítið mannlegt, þó bý ég í fjölbýlishúsi, þar sem ætti að vera jarðvegur til samskipta...og ég á góða nágranna sem eru ekki með neitt vesen, þeir eru bara alltaf á hlaupum eins og ég. Eini maðurinn í götunni sem talar við flest alla er Gunni kafari en hann er alltaf að garfast í bílnum sínum. Svo það má segja að ég búi vel, hvað það varðar. Hann einn er samviska götunnar og sér flest sem þar gerist.

Af hverju liggur Reykvíkingum svona reiðinnar býsnar á? Maður nær rétt að veifa fólki úr næsta bíl, ef það þá sér mann. Ég get vel viðurkennt, að ég hef aldrei verið eins félagslega einangruð eins og eftir að ég flutti til minnar uppeldisborgar, Reykjavíkur - hafði í um fimmtán ár búið annars staðar, í borgum Evrópu, Norður Ameríku og svo úti á landsbyggð Íslands.

Annað sem Þórunn nefndi og ég nikkaði við, var að það er svo einkennilegt í Reykjavík þá heilsar fólk sem maður hefur hitt eða þekkir bara stundum. Þetta hefur gert mig svo ruglaða í ríminu að nú brosi ég bara óræðu brosi til fólks, þori hreinlega ekki að heilsa því með virktum, því maður veit aldrei hvaða viðmóti maður getur orðið fyrir. Ég hef lent í því að fólk horfi beinlínis gegnum mig sem ég þekki...þetta er eins og að vera staddur mitt í mannlegri hrollvekju og ruglar mig upp...ég er bara aðeins of einföld sál fyrir svona samkvæmisleiki. Svo ég sogast inní þessa furðulegu manniðu, og tek þátt....En mikið er gott að Ísland býr líka að fólki sem verður ekki samdauna, eins og Þórunn virðist vera gott dæmi um. Hún vakti mig upp frá blundi, og héðan í frá ætla ég bara að ´heilsa öllum sem ég kannast við með virktum, og reyna að skvetta af mér fyrirlitninguna sem væntanlega einhverjir eiga eftir að sýna þessum yfirgangi.

Í augnablikinu bý ég í Amsterdam-borg. Ég var ekki fyrr komin á flugvöllinn en konan sem hafði setið við hliðina á mér i flugvélinni síðustu 15 mínúturnar áður en við lentum var búin að bjóða mér heim til sín til Belgíu. Ég mætti allstaðar hjálpsemi fólks, tillitsemi í mannlífinu sem er óþekkt stærð í Reykjavíkurborg, á leiðinni til minna nýju heimkynna í borginni. Þegar ég mætti á staðinn kom nágranninn Geraldine hlaupandi og lét mig hafa símanúmerið sitt ef ég þyrfti aðstoð, eða bara kompaní. Ég fór í ítölsku búðina á horninu og þar heilsuðu nýju nágrannarnir mér með virktum.....Og ég er að fara á grænmetismarkaðinn þar sem ég á væntanlega eftir að hitta fleiri og tala við fleiri.

Það er ekki annað hægt að segja en miklar menningarandstæður eru milli þessara tveggja borga. Ég veit ekki hvar á að byrja til að breyta þessum óaðlaðandi lífstíl Reykvíkinga til hins betra...það er auðvitað hægt að byrja á sjálfum sér.


Alveg fyrirtaks sumardrykkir

Þegar ég var stödd í vinnustofu Magga kunningja míns í gærkvöldi  mallaði hann fyrir mig einfaldan sumardrykk, sem ég mæli með.  Hann kreisti safa úr stórri engiferrót og blandaði við sódavatn. Þessi drykkur er hressandi sumardrykkur, og svo hlýtur hann að vera meinhollur. Engifer er bæði bakteríudrepandi, og gott fyrir fólk með magaverk, hvort sem það er af völdum streitu eða samgönguveiki (bílveiki eða sjóveiki).  Ég mæli líka með að pressa safa úr melónu og myntu - það er alveg óhemju hressandi sumarsafi.

 


Það er erfitt að djóka með Jóga!

f_my_pictures_joga.jpg

Jóga er allra meina bót. Ég reyni að fara í hádegisjóga þrisvar í viku. Það er alveg yndislegt að ná tengslum við líkamann, ásamt því að teygja alla vöðva rækilega. Ég er ein af þessum sem að fæ reglulega sinadrátt, vakna á nóttunni meira að segja. Svo eru það öndunaræfingarnar sem að hjálpa manni verulega til að komast í tengsl við eigin líðan, og fá mann til að slaka. Það er frábært að fara í leikfimi til að hlaða batteríin. Sú sem kennir okkur í augnablikinu heitir Sólveig og er alveg yndisleg. Hún sendi okkur heim um daginn með upplýsingablað um om, en það er eitthvað sem við gerum í upphafi og enda hvers tíma, þetta er svona búkhljóðaraul, mæli líka með því.

Mér sýnist vera fjölgun á karlmönnum í tímunum, en yfirleitt er hlutfall kynjanna nokkuð svipað. Ég get mér til um að mikið af þessu fólki sé skrifstofulið að drepast úr vöðvabólgu og í andnauðum af streitu og andlegu álagi. Það er einmitt það sem er hið æðislega við jógaiðkun, að komist maður upp á lagið með hana, getur maður tappað streituna af sér, og losnað við vöðvabólguna. Það gerði ég að minnsta kosti. Lifi Jógaiðkun!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband