17.4.2009 | 00:02
Hinn umdeildi tími þegar botninum er náð!
Á síðustu dögum hafa þjóðhöfðingjar eins og Obama talað um að nú væri botninum náð í heimskreppunni og að í sjónmáli væri hægur uppgangur sem tæki mjög bráðlega við. Hér á landi hafa þessar raddir endurómað meðal einhverra einnig. En það er fyrst nú sem að forsvarsmenn alþjóða gjaldeyrissjóðsins viðurkenna fyrir alheimi að spár um efnahagsgengi þjóða á komandi misserum mun ekki ganga eftir og að sú kreppa sem nú ríður yfir í heimsefnahagsmálum er ekki skammvinn bóla.
Ég hef síðan 2005 talað um að efnahagslægðin væri óumflýjanleg en hafði ekki reyndar fyrr en fyrir tæpum tveimur árum síðan áttað mig á að umfang efnahagslægðarinnar gæti orðið svo mikið sem raun ber vitni.
Mjög virtur fræðimaður í mínum fagheimi, Carlota Perez en hún er sérfræðingur í tæknihagrænum bylgjum, kenningum sem upprunalega voru þróaðar af fræðimanninum Kondratiev, skrifaði athyglisverða bók sem var gefin út árið 2002 sem spáði fyrir um hið mikla alþjóðlega efnahagshrun sem óumflýjanlega afleiðingu af tæknihagrænu tímabili sem í raun leið undir lok um þúsaldamótin 2000.
Bókin heitir Technological revolution and financial capital: The dynamics of bubbles and golden ages.
Í henni fer Carlota í gegnum þær fimm tækni byltingar sem hafa umbreytt félagsstofnanalegu umhverfi á hverjum tíma og leitt af sér tímabil hagvaxtar og framsóknar síðustu tvær aldir. Sú síðasta sem var um það bil að líða undir lok um og eftir þúsaldamótin var knúin af uppfinningu hálfleiðarans (microprocessor - örgjörvans) sem umbreytti nær öllum forsendum atvinnulífs og hagvaxtar á jarðkringlunni í nokkra áratugi.
Það sem tók við þegar að drifafl síðustu tæknibyltingar var að líða undir lok var mikil spákaupmennska í hagkerfi sem ekki gat framleitt neitt en umhverfðist um að búa til ný og óáþreifanlegri verðmæti byggð á peningum, og ýmsum snúnum verðbréfum og virðismati þeirra.
Carlota ber þessa örvæntingarfullu tilraun til að halda heimshagkerfinu á fullum útblæstri hagvaxtar saman við tímabilið sem tók við eftir mikla framrás tækniframfara undir aldamótin 1900 og eftir sem leiddu jú eins og kunnugt er til síðustu heimskreppu.
Perez lýsir því hvað ferlið undan hruni einkennist af:
Þegar fer að halla undan fæti tímabilsins byrjar fjármagnsauður að verða ráðandi viðmið og auðsöfnunin byrjar að takmarkast við fasteignabólur og erlend ævintýri með fjármagni þar sem allt skynsamlegt verðmætamat er fyrir borð borið. Eignabólgur verða til samtímis með að skuldasöfnun eykst í glæfralegum takti og eyðast upp í spilavíti spákaupmennskunnar. Á þessu stigi verður mikið misræmi milli pappírsauðs og raunverulegs auðs, milli raunverulegrar arðsemi eða afleiða og fjármagnsgróða. En skynvillan getur ekki varað við og togstreitan sem af því skapast að viðhalda henni er dæmd til að enda í hruni. Þetta getur átt sér stað í röðum af mismunandi og skemmri kreppum á einum markaði eftir öðrum, í risahruni eða samblöndu af báðu. Eitt er allavega víst. Bólan brestur.
Ég lærði heilmikið af þessari lesningu.
Ég hvet ykkur til að lesa þetta athyglisverða verk.
Nokkur grunnatriði:
Tæknibreytingar eiga sér stað í klösum djúpstæðra nýsköpunar sem skapa árangursríkar og aðgreinanlegar byltingar. Þegar þær eiga sér stað er allri framleiðsluskipan umbylt í kjölfarið.
Það er "funktional" mismunur milli fjármagn auðs og framleiðsluauðs (capital) þar eð hvor þeirra leitar arðs eftir mismunandi leiðum.
Vanburðir til að takast á við breytingar og andóf gegn breytingum á römmum félagsstofnana (félagsstoðir) í samanburði við tæknihagrænt umhverfi er knúið fram af samkeppnis þrýstingi.
Fjöldaframleiðslubyltingin setti mark sitt á flestar stofnanir/stoðir samfélagsins á tuttugustu öld og var undirliggjandi miðlægum stjórnvöldum og fjöldaneyslu mynstrum í fjórum stórum hagvaxtarstjórnunartilraunum sem settar voru upp til að nýta sér tæknina. Þetta voru Keynesiskt lýðræði, Nazi-fasismi, Soviet socialismi og ríkisþróunarstefnan í hinum svokölluðu þriðja heimslöndum sem hvert um sig hafði sín einkenni í stjórnarháttum.
Svört spá frá IMF | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Stórgóð umfjöllun, og mikil speki þarna á ferð.
P.S. Ég er viss um að þú hefðir gaman af blogginu hans George Ure.
Guðmundur Ásgeirsson, 17.4.2009 kl. 00:24
Fræðandi umfjöllun. Margir voru búnir að segja til um þetta hrun og skýra út hvers vegna það væri óumflýjanlegt. Einn af þeim er Gunnar Tómasson. Þeim mönnum var skipulega ýtt til hliðar.
Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 09:49
Takk fyrir að benda á síðu George Ure, Guðmundur.
Já ég hef heyrt Gunnar Tómasson tala og fannst hann hafa mjög mikla þekkingu - ég veit ekki hvort að stjórnvöld hafa verið að færa sér þekkingu hans í nyt eða hvort þau eru enn föst í skotgrafarhernaði.
Anna Karlsdóttir, 17.4.2009 kl. 14:37
Gunnar Tómasson sagði það best í Silfri Egils, að alþjóðlega fjármálakerfið er ekkert annað en stærsti blekkingarleikur mannkynssögunnar.
Guðmundur Ásgeirsson, 20.4.2009 kl. 00:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.