6.10.2008 | 00:42
Barnagrafir í Eyjum
Hugur minn og líkami var allt annar staðar en í frétta- og fjármálakreppu fárviðrinu um helgina. Það var ákveðin hvíld.
Ég skrapp til Vestmannaeyja um helgina í jarðarför að kveðja konu föðurbróður míns, hana Beggu (Indíönu Björg). Blessuð sé minning hennar.
Athöfnin var hin fallegasta og Heimaey skartaði sínu fegursta þegar að við gengum í líkfylgdinni inn Landakirkjugarðinn. Einmana Lóa sem væntanlega hefur misst af félögum sínum á leið til suðurs fylgdi okkur nokkurn spöl. Á meðan að við gengum í hægðum okkar á eftir kistunni og ættingjum mínum las ég á leiðin sem voru orðin um hálfrar aldar gömul eða eldri og fór smá saman að bregða í brún að nær öll leiðin voru barnaleiði. Mér var brugðið yfir að ganga fram hjá svona mörgum gröfum í röð sem geymdu jarðneskar leifar ungbarna og ungra barna, enda ekki algengt á okkar tímum að börn nái ekki að lifa af fyrstu árin, eins og þá var. Ég veit svo sem ekki hvort að Vestmannaeyjar voru sérlega slæmur staður hvað það varðaði.
Eftir jarðsetninguna, gekk ég með foreldrum mínum að gröfum ömmu og afa til að kasta á þau kveðju. Lóan fylgdi í humáttina á eftir okkur. Aumingja Lóan, hún á eftir að frjósa þarna í hel í vetur.
Pabbi vatt sér þá að baki leiði foreldra sinna og gerði krossmark yfir leiði sem að ég vissi ekki hvers var. Í ljós kom að þar lá bróðir hans sem hafði látist tæplega árs gamall.
Í góðum hópi ættingja síðar um daginn varð honum tíðrætt um mynd sem að hefði eilíflega verið á náttborði við rúm foreldra hans af barnalíkinu í kistunni. Hann var að velta fyrir sér hvað hefði orðið af myndinni af honum Jóhannesi litla.
Stella, kona Einars föðurbróður gerði sér þá lítið fyrir og fann hana í kommóðu. Við horfðum öll á litla mynd af fallegu barnslíki dúðað blómum ofan í opinni kistu. Skrýtið að taka svona mynd af barnslíki (jafnvel þó það væri barnið manns) og hafa við rúmið sitt það sem maður ætti eftir ólifað. Það gerðu nú afi minn og amma engu að síður og var föður mínum mjög minnisstætt. Þarna var greinilega ekki verið að reyna að gleyma því sem orðið hafði og minningu barnsins var haldið á lofti á þennan hátt. Að signa sig fyrir svefninn horfandi á myndina.
Við ræddum um að allir hefðu verið harmi slegnir yfir dauðsfalli drengsins (sem mér skylst hafi dáið úr sýkingu við nafla..). Þau útskýrðu fyrir mér að ástæða fyrir að ljósmyndari var fenginn til að taka mynd af líkinu og það síðan rammað inn, var vegna þess að enginn önnur ljósmynd var til af barninu. Það var hreinlega ekki siður að taka myndir af börnum fyrr en þau væru orðin eldri. Jóhannes litli varð bara ekki eldri, og því var sem var.
Barnagrafirnar í Kirkjugarðinum og þessi einhvern veginn áhrifamikla mynd fékk mig til að hugsa hvað við erum heppin en líka firrt. Þetta er einhvern veginn menning sem að íslendingum í dag þykir í hæsta máta framandleg. Það var mjög fallegt hvernig að litla barnið var baðað í blómum í sjálfri kistunni og mér skylst að það hafi ekki verið óalgengt, sérstaklega þegar um börn var að ræða.
Þrátt fyrir að við lifum sem betur fer ekki lengur á tímum þar sem ungbarnadauði er algengur eða smábörn farast úr flensum eða sóttum er þarna engu að síður vangavelta um hvernig við umgöngumst hina látnu í dag miðað við þá.
Meginflokkur: Vinir og fjölskylda | Aukaflokkar: Ferðalög, Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Mikið er þetta dásamleg færsla, full af myndrænum smáatriðum sem verður svo fallegt í huganum þegar maður les.
Lóan blessuð , sendi henni Ljó inn í kuldann og vona að hún verði pössuð frá hinum innri plönum.
Takk aftur og
Kærleikur til alls lífs og þín Anna
steinaSteinunn Helga Sigurðardóttir, 6.10.2008 kl. 12:42
Æj.... svo sorglegt. En samt svo fallegt - eða allavega tilfinningaþrungið. Sé fyrir mér myndina á náttborðinu. Og sorgina sem hlýtur að hafa verið tengd þessu. Skrítið að eiga ekki mynd af honum lifandi. Og pabbi þinn týpískur karlmaður að tala aldrei um það að hann hefði átt bróður sem dó svona ungur...!
Man ekki hvernig ég rambaði á bloggið þitt, en það var óvænt ánægja :-),
bestu kveðjur,
Halldóra Skarphéðinsdóttir (sem dvaldist með þér sumarlangt í Lærdal, Noregi (já hérumbil í fyrra lífi!), en er nú búsett í Stokkhólmi.)
Halldóra (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 20:19
Elsku Steina og Halldóra
ég hugsa líka mikið til lóunnar og vona að hún þrauki veturinn sem vonandi verður ekki of harður. Halldóra! Gaman að sjá þig hér. Sendi þér kærleikskveðjur frá Umeaa, er þar á ráðstefnu - var einmitt að lesa dagens nyheter og greiningu þeirra á islandsk ökonomi (puff). Hugsa oft til okkar kæru vinkonu Hörpu - við verðum að styðja hana svolítið - þú veist hvað ég meina.
Anna Karlsdóttir, 8.10.2008 kl. 21:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.