Hægt að tala kreppu í fólk!

Ég var á fundi áðan þar sem að orðrómur barst inn á að hér á landi væri allt á hverfanda hveli og ég verð að viðurkenna að eftir nokkra hríð að hafa maldað í móinn með hughreystingarorðum og bjartsýnishjali heltók mig tilfinning sem að öskraði inni í mér. Anna: Hvað ef....á ég þá að fara að hlaupa útí banka og sækja þessu örfáu aura sem þar liggja inni og bara fara að hamstra mat svo að við sveltum nú ekki heilu hungri í fjölskyldunni næstu vikurnar meðan að hrina ófaranna geisar yfir.

VAKNAÐU

Einhverra hluta vegna er ansi íslenskt að allir haldi stóískri ró þangað til að eldur er orðinn að báli og þá er hin íslenska stjórnunarleið gjarnan að slökkva elda í stað þess að hafa séð til þess að eldar brytust ekki og breiddust út.

Ég er auðvitað sjálf í vafa hverju maður á að trúa. En........varð glöð þegar ég fékk tilkynningu sem ég set hér að neðan....og minni fólk á að það er hægt að tala kreppu í fólk.

Við erum aldrei í meiri kreppu en við teljum okkur trú um. Minni á að íslenskar landbúnaðarafurðir eru bara ágætar og lambshjörtu kosta einungis 187 kr. kílóið í Bónus. ...og svo er hægt að hjóla.

Aðgát skal höfð

 

Umræða um samdrátt og niðurskurð í atvinnulífinu með beinum afleiðingum fyrir heimili og fyrirtæki er mjög hávær og rökin fyrir henni skýr. Þetta er alvarleg umræða sem snertir unga sem aldna og þar af leiðandi er mikilvægt að vanda orðaval til að valda börnum, ungmennum, veikum og öldruðum ekki óþarfa kvíða. Þá þarf að gæta þess að umræða um þennan vanda á vinnustöðum sé á þann veg að fólk festist ekki í hringiðu umræðunnar heldur sinni vinnu og verðmætasköpun, sjálfum sér og samfélagi til hagsbóta.

 

Mikilvægt er að fjölmiðlar og aðrir vandi þessa umræðu og hafi í huga að flutningur fregna af válegum atburðum er bestur ef jöfnum höndum er fjallað um lausnir vandans þannig að fólk geti brugðist sem best við.

 

Það er brýnt að hafa í huga að óvönduð umræða um mál af þessu tagi er skaðleg heilsunni og því mikilvægt að vanda hana í hvívetna og láta hana ekki fara úr böndum.

 

Kristinn Tómasson, yfirlæknir VinnueftirlitsinsSigurður Guðmundsson landlæknirÞórólfur Þórlindsson, forstjóri Lýðheilsustöðvar

Sjá ennfremur heimasíður stofnananna!  www.vinnueftirlit.is, , www.landlaeknir.is , , www.lydheilstod.is

 


mbl.is Telur botninum náð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Góð ábending frá þér Anna.  Ég fór í Bónus á Granda í gær til að kaupa mér hjörtun góðu á kr.187/kg, en þá var allt uppselt!  Daufur í dálki gekk ég álútur og hugsi út úr búðinni og kom við í NÓATÚNI í JL húsinu við Hringbraut vestast við sjóinn.  Ég ætlaði að kaupa kjötfars, það er ódýrt og gott og hægt að fá "akkúrat" það magn sem maður vill.  Þá var verðið af farsinu komið í um kr.750/kg.   EN!!!!  Við hliðina var bakki með nýjum ferskum hjörtum á kr.169/kg.  Og nýrun á kr.98/kg!!  Ég átti kr.510 í vasanum til að kaupa mat.  Ég fékk lofttæmdan (vakkúm) pakka af ferskum ófrosnum hjörtum, 3 kg, og kostaði kr. 504 alls!!! fyrir 3 kg af kjöti engin bein, engin fita, engir afgangar, engu þarf að fleygja.  (Mörin á hjörtunum er ekki almenn fita, heldur besta mör sem hugsast getur, orkumikil og er öryggisfarðabúr hjartans lendi dýrið í erfiðleikum á ögurstundu og vantar orku).  Svo er kjötið í hjörtunum einna bragðbesta kjöt sem hugsast getur úr lömbunum.  Bara ekki steikja þau of mikið og láta þau ekkj sjóða í soðvatninu lengur en 2-4 mínútur eftir steikingu!  Svo fór ég í dag út í Nóatún með kr. 150 sem ég fann í bauknum og keypti 1,3kg af nýrum í poka á samtals kr. 127.  Í kvöld verður veisla hjá mér, steikt hjörtu og nýru með hrísgrjónum sem ég átti ínni í skáp. 

Það er nefnilega ýmist til annað en pylsur, pizzur og hamaborgarar.  Þetta er góður pistill hjá þér, meira af svona jákvæðni og bjartsýni í stað bölsýninnar og neikvæðninnar.

Munið frjálsu bloggsíðuna;  http://blekpennar.com    Kær kveðja, Björn bóndiïJð        

Sigurbjörn Friðriksson, 3.10.2008 kl. 17:11

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Kærar þakkir Björn bóndi fyrir nytsamlegar ábendingar um meðhöndlun hjartans. Ergilegt að heyra að hjörtun séu að verða uppseld, ég leita leiða til að finna þau samt. Ég fór í nytjagarð foreldra minna og týndi upp nokkrar gulrætur, næpur, grænkál og fleira gott undan frostinu. Síðasti séns að bjarga þessu undan snjónum. Er auk þess búin að byrgja mig upp af berjum, sveppum og öðru fínerí svo ekki sé minnst á allar kryddjurtirnar sem liggja nú í frysti og munu tróna á eðalréttum vetrarins.  Ætli flamberuð hjörtu séu góð?

Anna Karlsdóttir, 6.10.2008 kl. 00:08

3 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Hjá veitingahúsinu "Potturinn og pannan" fékk ég fyrir nokkrum árum þverskorin hjörtu sem voru steikt í brennheitri grænmetisolíu í stuttan tíma, því kjötið var rautt og mjúkt í miðjunni en mátulega "brennt" að utan.  Það kom glannalega vel út.  Ég get því ekki ímyndað mér annað en að þau myndu flamberast vel, en ég hef ekki reynt það sjálfur.

Þú talar um sveppi;  Ef þú ættir ferska lerkisveppi (þeirra tími er nú löngu liðinn), þá hefur mér reynst best að skera þá í strimla og þurrka þá.  Þannig geymast þeir vel í lokaðri krukku (inni í skáp í myrkri) og eru muldir bara rétt fyrir notkun, settir í sósur eða súpur.  Við þetta magnast sveppabragðið margfalt og er hið ágætasta krydd, þar sem bragðdaufir Flúðasveppir eru notaðir svo dæmi sé tekið.  Þegar ég bjó í Skagafirði í nokkur ár, þá átti ég blástursþurrkofn, enskan, sérstaklega gerðan til að þurrka kryddjurtir hratt og vel svo kryddbragðið héldist sem mest og best.  Í honum þurrkað ég kyndstrin öll af lerkisveppum og átti birgðir langt fram á næsta sumar og gaf vinum og kunningjum (ekki Skagfirðingum, þeir borða ekki sveppi nema úr dósum).  Annars ef ég hef ekki hafð blástursþurrkofninn góða, þá hefur bökunarofn með viftublæstri reynst vel (hitastig vel undir 80°C eða jafnvel kyndiklefi (vegna myrkursins).  Það er ekki gott að þurrka kryddjurtir í sólargeislum eða í björtu, því á tapast svo mikið af bragðinu og liturinn fölnar.  T.d., blóðberg skemmist nánast alveg, sólþurrkað.  Blóðberg þurrkað, eins og önnur krydd, geymast best heil, og ekki mulin fyrr en rétt fyrir notkun (eins og piparkorn) því þá kemur mesta og besta bragðið. 

"Flamberuð hjörtu"  þetta væri góður titill á ljóðabók eftir Stein Steinarr eða Dag Sigurðarson - en þeir eru víst báðir látnir.

Munið frjálsu bloggsíðuna;  http://blekpennar.com   

Kær kveðja, Björn bóndiïJð        

Sigurbjörn Friðriksson, 6.10.2008 kl. 15:34

4 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Ja hérna Björn bóndi. Þú lumar aldeilis á reynslu í matargerð og varðveislu íslenskra jurta og sveppa. Ég þurrka reyndar ekki sveppi, finnst þeir verri þannig. Ég frysti þá bara - kóngssveppi og gulbrodda og lerkisveppi. Kantarellurnar ét ég um leið og færi gefst og því komast þeir sjaldnast í frystinn. Ég hef einhvern veginn aldrei komist upp á lagið með að þurrka þá. Já - satt segirðu blóðberg er best heilt - að mylja það hef ég reyndar ekki prófað. Takk fyrir tipsið.

Ætli ég reyni ekki bara að flambera við tækifæri..þetta hljómar skemmtilega glannalega eins og þú lýsir réttinum á veitingastaðnum. Hvað varðar uppástungu að ljóðabókartitili held ég að bæði Steinn og Dagur hefðu getað gert sér áhugaverðan efnivið úr hugtakinu einu.

Anna Karlsdóttir, 6.10.2008 kl. 23:26

5 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Hvar á landinu finnur þú kantarellur?  Ég hef einu sinni fundið myrkil svepp (fr: morilla, en: morel, þýs: Morchel)) á Íslandi.  Það var hvorki meira né minna en í hlíðum Glóðafeykis (í Blönduhlíðinni) fríríkinu Akrahreppi í Skagafirði.  Ég leitaði vel og lengi, en fann bara þennan eina.  Ég var svo hissa, að ég geymdi þennan eina svepp í nokkur ár, og týndi honum síðan fyrir klaufaskap.  Ég hef ekki heyrt um myrkil á Íslandi fyrr. 

Ástæðurnar fyrir því að ég þurrka lerkisveppinn eru tvær: 1. mér fynnst hann svo slepjulegur steiktur nýr, 2. þó ég steiki hann fyrir frystingu; sama, 3. hann verður svo miklu bragsterkari og bragðbetri en þá sem krydd.  En svona er nú mismunandi smekkurinn....

Hefur þú prófað myntusultu eða myntuhlaup (bara litla teskeið) í bland við smjörsvepp (helst þurrkaðan og mulinn) í sósunni gerðri úr soðinu af lambakjöti?  Nammm...!!!!! 

Munið frjálsu bloggsíðuna;  http://blekpennar.com    Kær kveðja, Björn bóndi og sælkeriïJð        

Sigurbjörn Friðriksson, 8.10.2008 kl. 18:20

6 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

En svo við snúum okkur að efninu; "Hægt að tala kreppu í fólk".

Ég tók eftir því í "Kastljósinu" þegar Jóhanna Vilhjálmsdóttir og Sigmar, helstu neikvæðisspyrlar Kastljóssins voru að tala við tvo viðmælendur, ritstjóra Markaðarins, Björn Inga og hinn sem ég man ekki hvað heitir, frá Viðskiptablaðinu.  Þeir tveir voru sammála þegar þeir töluðu höstuglega ofaní spyrlana Sigmar og Jóhönnu og sögðu þeim; ekki að vera með svona neikvæðni fyrir alþjóð: "Þegar slökkva þarf í brennandi báli, þá spyr slökkviliðið ekki hver kveikti í, heldur einbeitir sér í að slökkva eldinn".  Einnig tók Þorgerður Katrín ráðherra fíflið hann Helga Seljan helsta dóna, framígripanda og neikvæðissérfræðing Kastljóssins, gjörsamlega á beinið og lét hann ekki komast upp með neitt múður.  Bravó Þ. K. Gunnarsdóttir.

Nú þarf jákvæðni og bjartsýni ásamt æðruleysi (ruglist ekki saman við kæruleysi) og hver og einn að brýna fyrir náunganum, að þetta muni allt lagast, en bara hægt og rólega.

Munið frjálsu bloggsíðuna;  http://blekpennar.com    Kær kveðja, Björn bóndiïJð        

Sigurbjörn Friðriksson, 8.10.2008 kl. 18:32

7 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Ég lenti einu sinni í rifrildi við starfsmann skógræktar ríkisins sem sagði mér í óspurðum fréttum að kantarellu væri ekki að finna á Íslandi. Ég besser wisserinn fór upp í Skorradal og sótti fyrir hann nokkrar bara til að sanna fyrir honum að hann hefði á röngu að standa. Skógar á Íslandi sem eru meira en hálfrar aldar gamlir eru með kantarellur.

Ég er sammála við þurfum jákvæðni og einhverra hluta vegna hefur fólk tilhneigingu til að styðja sig upp að barlómnum nú um stundir, en ég held að þetta sé bara tímabundið sjokk ástand sem mun batna því að Íslendingar eru upp til hópa þrælduglegt fólk og það er ekki meira en hálf öld síðan að fólk virkilega þraukaði þorrann og byggði upp okkar annars ágæta samfélag. Stöndum saman, verum skynsöm og sýnum hvað í okkur býr (því þar verður ekki komið að tómum kofanum)

baráttukveðjur frá Umeaa í Svíþjóð

Anna Karlsdóttir, 8.10.2008 kl. 21:16

8 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Ég upp í Skorradal næsta haust! 

Jákvæðnis- og bjartsýniskveðjur til Umeaa!

Munið frjálsu bloggsíðuna;  http://blekpennar.com    Kær kveðja, Björn bóndiïJð        

Sigurbjörn Friðriksson, 9.10.2008 kl. 18:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband