28.11.2007 | 18:57
Máttur SKYPE og alþjóðlegir endurfundir vina úr öllum heimsálfum.
Jedúddamía. Ef ég hefði verið uppi fyrir 10 árum, 15 árum eða fyrr og ekki í dag hefði ég ekki upplifað mátt skype. Gamall vinur minn frá Brasilíu hafði allt í einu samband við mig í dag. Ég hef ekki talað við hann í fimm ár eða síðan að við eyddum viku saman í höll Rockefeller í Bellagio við Como vatnið á Norður Ítalíu. Það var hópur fólks frá 23 löndum sem hittust þá en öll áttum við það sameiginlegt að vera að vinna í verkefni um grænkortagerð. Ég skammast mín verulega er ein af fáum sem ekki hef enn gefið út kortið mitt, en ég hef notað það og aðferðina í kennslu. Aðal markmið verkefnisins er svo sem ekki að gefa út kort, heldur fremur að eiga þátt í að breyta hugsunarhætti fólks um borgarumhverfi sitt.
Leon er frá Sao Paulo og hefur notað verkefnið til að kenna börnum í fátækrahverfum sem sum hver eru ekki læs, að horfa á nærumhverfi sitt með væntumþykju-augum, fá fólk til að rækta jörðina. Allt út frá hugsuninni um að elski maður eitthvað, þá vill maður bæta það og passa uppá. Við vorum einmitt að ákveða að skrifa saman greinar á nýja árinu, það verður gaman.
Nú ætlum við félagarnir að blása til endurfundar í gegnum skype. Þetta er hreinlega frábær tækni. Við munum vera frá Íslandi, Brasilíu, Japan, Bandaríkjunum, Kanada, Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi, Rúmeníu, , Austurríki og fleiri löndum að tala saman.
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Bloggar, Lífstíll, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta grænkort hljómar áhugavert; er það ekki gott tæki fyrir kennara sem eru að vinna verkefnum tengdum sjálfbærri þróun? Og skilningi á þróun samfélaga?
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 29.11.2007 kl. 11:51
Jú, það er það. En það er líka áminning um að kortagerð er ávallt pólitísk og að áherslurnar sem á kortunum eru, geta sýnt ákveðna forgangsröðun í skipulagi. Vinkonur mínar frá Kúbu notuðu aðferðafræðina til að fá börn í Havana til að gera athugasemdir um hvað þau vildu sjá af umbótum í borginni sinni. Það var býsna áhugavert að hverju þau komust.
Anna Karlsdóttir, 30.11.2007 kl. 00:27
Ég á bók sem heitir How to lie with maps og mér finnst margt ansi skondið í henni. Man sérstaklega eftir sögu um borg í Ohio sem hvergi er til nema á kortum - af því e-r hrekkjalómar meðal kortagerðarfólks settu hana inn á kort og svo hafa aðrir tekið hana upp og sett á sín kort án þess kynna sér skárri heimildir. Þrátt fyrir þetta er ég ákaflega hrifinn af landakortum.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 30.11.2007 kl. 06:33
haha, og ég á bók sem heitir Not on any map - Essays on Postcoloniality and Cultural Nationalism - hún er mjög skemmtileg. Við erum greinilega andleg systkini því mér finnst kort vera hálfgerð listaverk, og ég elska að skoða sérstaklega gömul kort. Nýji íslenski atlasinn er algjört listaverk einnig (þó að hann sé líka mikilvæg upplýsingalind).
Anna Karlsdóttir, 1.12.2007 kl. 18:44
Gaman að "eignast" þig fyrir andlega systur . Annars er ég búinn að bera saman svæði í nýja atlasinum við gömlu herforingjaráðskortabókina, stað sem mér er afar kær, og finna þar sömu villurnar í staðsetningu á nöfnum, og þótt skömm sé frá að segja er ég ekki búinn að koma því í verk að koma upplýsingunum til útgefandans. Þetta er afskaplega falleg bók og ég rauk og keypti hana þegar ég heyrði einn af höfundunum tala með mikilli virðingu um gömlu bókina.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 3.12.2007 kl. 23:20
Athyglisvert að heyra þetta, að villurnar endurtaki sig í nýrri kortagerð. Ég kem þessu áfram til minna kollega sem eru að vasast alvarlega í kortum.
Anna Karlsdóttir, 4.12.2007 kl. 08:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.