Öll él birtir upp um síðir

Góðar fréttir bárust í dag úr kerfinu. Drengurinn loks að komast af biðlista yfir á skólaskjólið langþráða og sjónvarpsmarkaðurinn, spældu eggin, líbanon á gólfinu þegar ég kem heim mun heyra sögunni til.  Eldri drengurinn var skólaus svo það varð að bjarga því. Það fékk mig til að hugsa hvurslags óra tíma maður hafði áður fyrr í að velta fyrir sér því sem ég í dag myndi kalla einföld skókaup. Ég held að ég hafi setið í um tíu verslunum og beðið eftir drengnum, velta skóm í hendi sér, máta, hafna, velja, hafna og svona liðu bara næstum tvær klukkustundir. Ég hata að fara í búðir til að dvelja þar langdvölum. Í dag hleyp ég helst inn eftir því sem þarf. Búið, út! En...ég verð raunar að viðurkenna að ég gerði samt kaup sem ég hefði ekki látið mig dreyma um annars.

Flott vísindakona frá Bandaríkjunum, Sharman er búin að dvelja hjá mér síðustu viku. Dagarnir hafa því verið annasamir. Samhliða kennslu og skipulagi næstu annar höfum við setið saman og lagt drögin að þessum "circumpolar" gagnagrunni sem við erum að vinna að. Sharman er óhemju skipulögð og hefur því svolítið dregið vagninn. Ég hef upplýst hana um það sem ég vissi og gat frætt hana um, og svörtu holurnar höfum við dekkað með fundum með sérfræðingum á þeim sviðum sem hún þurfti meiri upplýsingar um. Í morgun vorum við á fundi með ágætum mönnum á hagstofunni. Í kjölfarið ákváðum við að rölta gegnum miðbæinn í átt að háskólanum svo hún fengi eitthvert veður af miðbæjarstemningunni. Og viti menn, ég fann leðurbuxur á rauða krossinum. Ég hef aldrei tímt þessu en alltaf langað í leðurbuxur. Frábært að lenda í svona tilviljanakenndu neysluæði.

Við Sharman höfum átt góða daga saman. Hún er einstætt foreldri eins og ég, ættleiddi tvær stelpur frá Brasilíu sem hún hefur alið upp. Þegar ég tala við svona reynsluríka konu átta ég mig á hvað maður er í raun einangraður frá norminu, þegar maður er einn um hlutina. Við höfum talað heilmikið um tortryggni gifts fólks/fólks í sambúð gagnvart manni sem einstæðingi. Og þegar hún fór að telja upp ýmiskonar upplifanir góðar og slæmar í tengslum við viðhorf og framkomu fólks gagnvart henni, rifjaðist ýmislegt upp fyrir mér sem ég held hreinlega að ég hafi bælt með sjálfri mér. Það bara lauk upp fyrir mér einhverju sem ég hafði ekki áttað mig á.

Þegar maður lifir í svona smæðarsamfélagi eins og okkar er, er ýmislegt sem maður bara tekur sem gefnu. En í Bandaríkjunum þar sem lifa tæp 300 miljónir manns er mun meiri grunnur fyrir því að finna afbrigði ýmiskonar lífshátta. Sharman fannst skrýtið að ég væri ekki í tengslum við aðra einstæða foreldra. Ég hafði einhvern veginn aldrei hugsað út í það, var bara föst í paranorminu þar sem maður er per se tortryggður eða útilokaður. Ég gæti skrifað margt meira um þetta sem kannski er of persónulegt fyrir þessar síður, en hefur fengið mig til að hugsa. Hugsa um gildi samfélagsins, nærumhverfisins osfrv.

Þetta hafði svo mikil áhrif á mig, að ég fór á netið og fór að leita að ferðaskrifstofum sem sérhæfðu sig í fjölskylduferðum fyrir einstæða foreldra. Fann skemmtiferðaskipatúr frá Baltimore til Bahamas á næsta ári. Draumar kosta ekki krónu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Anna.... fáum okkur einstæðramæðrakaffi út í Norræna. Bara vinka yfir kranana og ég kem.

Kveðja

Ása Björk 

Ása Björk (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 09:43

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Hæ Ása

Líst vel á það. Ég vinka yfir kranana þegar ég kem heim aftur í lok september. Það verður gaman! Jibbí

Anna Karlsdóttir, 15.9.2007 kl. 11:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband