Fjarlægð og nálægð milli fólks/ hlýja og samkennd eða kuldi og sjálfhverfa!

Ég hlustaði á unga upprennandi konu íbúa Seyðisfjarðar, held hún heiti Þórunn og er dóttir Ingimundar í Vallanesi. Hún var að segja frá hvernig hún upplifði fjarlægð milli fólks í Reykjavík og hraðann/asann á öllu. Í síðustu viku opnaði ungur íslenskur maður sem býr í New York og starfar sem arkitekt myndlistarsýningu á frumlegum verkum. Hann sagði umferð og menningu í borgum þurfa að miðast við gangstéttar en ekki vegamenningu og mislægar slaufur. Hann líkti Reykjavík við menningarsnauðar borgir í miðríkjum Bandaríkjanna, t.d Kansas og fleiri, þar sem fólk er lokað inni í hylkjum (bílum) og það skapast lítill hittingur, nánd eða samkennd meðal fólks. Sem ætti auðvitað að vera límið í þéttbýli. 

Ég kannast svo vel við þessa tilfinningu, elska búsvæði mitt en finnst það furðulegt óaðlaðandi og einhvern veginn lítið mannlegt, þó bý ég í fjölbýlishúsi, þar sem ætti að vera jarðvegur til samskipta...og ég á góða nágranna sem eru ekki með neitt vesen, þeir eru bara alltaf á hlaupum eins og ég. Eini maðurinn í götunni sem talar við flest alla er Gunni kafari en hann er alltaf að garfast í bílnum sínum. Svo það má segja að ég búi vel, hvað það varðar. Hann einn er samviska götunnar og sér flest sem þar gerist.

Af hverju liggur Reykvíkingum svona reiðinnar býsnar á? Maður nær rétt að veifa fólki úr næsta bíl, ef það þá sér mann. Ég get vel viðurkennt, að ég hef aldrei verið eins félagslega einangruð eins og eftir að ég flutti til minnar uppeldisborgar, Reykjavíkur - hafði í um fimmtán ár búið annars staðar, í borgum Evrópu, Norður Ameríku og svo úti á landsbyggð Íslands.

Annað sem Þórunn nefndi og ég nikkaði við, var að það er svo einkennilegt í Reykjavík þá heilsar fólk sem maður hefur hitt eða þekkir bara stundum. Þetta hefur gert mig svo ruglaða í ríminu að nú brosi ég bara óræðu brosi til fólks, þori hreinlega ekki að heilsa því með virktum, því maður veit aldrei hvaða viðmóti maður getur orðið fyrir. Ég hef lent í því að fólk horfi beinlínis gegnum mig sem ég þekki...þetta er eins og að vera staddur mitt í mannlegri hrollvekju og ruglar mig upp...ég er bara aðeins of einföld sál fyrir svona samkvæmisleiki. Svo ég sogast inní þessa furðulegu manniðu, og tek þátt....En mikið er gott að Ísland býr líka að fólki sem verður ekki samdauna, eins og Þórunn virðist vera gott dæmi um. Hún vakti mig upp frá blundi, og héðan í frá ætla ég bara að ´heilsa öllum sem ég kannast við með virktum, og reyna að skvetta af mér fyrirlitninguna sem væntanlega einhverjir eiga eftir að sýna þessum yfirgangi.

Í augnablikinu bý ég í Amsterdam-borg. Ég var ekki fyrr komin á flugvöllinn en konan sem hafði setið við hliðina á mér i flugvélinni síðustu 15 mínúturnar áður en við lentum var búin að bjóða mér heim til sín til Belgíu. Ég mætti allstaðar hjálpsemi fólks, tillitsemi í mannlífinu sem er óþekkt stærð í Reykjavíkurborg, á leiðinni til minna nýju heimkynna í borginni. Þegar ég mætti á staðinn kom nágranninn Geraldine hlaupandi og lét mig hafa símanúmerið sitt ef ég þyrfti aðstoð, eða bara kompaní. Ég fór í ítölsku búðina á horninu og þar heilsuðu nýju nágrannarnir mér með virktum.....Og ég er að fara á grænmetismarkaðinn þar sem ég á væntanlega eftir að hitta fleiri og tala við fleiri.

Það er ekki annað hægt að segja en miklar menningarandstæður eru milli þessara tveggja borga. Ég veit ekki hvar á að byrja til að breyta þessum óaðlaðandi lífstíl Reykvíkinga til hins betra...það er auðvitað hægt að byrja á sjálfum sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Áhugaverðar pælingar hjá þér. Ætli þetta sé sami kafarinn og ég þekki? :)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 11.7.2007 kl. 11:50

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Sæll Kjartan

Já, ætli það ekki! Ísland er jú ekki mannmargt land.

Anna Karlsdóttir, 11.7.2007 kl. 12:24

3 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Góður pistill - en eitt: Þú talar um mislægar slaufur ... Ég er löngu hættur að tala um annað en mislögð gatnamót þegar svoleiðis er sett niður, a.m.k. um flest þau reykvísku.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 13.7.2007 kl. 16:44

4 Smámynd: Anna Karlsdóttir

haha, ja ef þau eru ekki mislögð, þá eru þau örugglega stundum misráðin!

Anna Karlsdóttir, 14.7.2007 kl. 14:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband