Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Kvalir við óþægilega ákvarðanatöku

Einhvern tíma sagði mér vís maður eða kona að það væri í manneskjunnar eðli að forðast ákvarðanatöku um óþægileg málefni. Eitt er víst að heimsbyggðin, sem er samtengd í gegnum viðskipti, fjármál, stjórnmál og ýmis tengsl af öðrum toga bregst nú við merkjum, svipað og indiánarnir forðum daga eru sagðir hafa lesið í reykmerki.

Fréttir berast og dreifast um viðbrögð ákveðinna stjórnvalda ákveðins lands og tugþúsundir, hundruðþúsund ef ekki milljónir fólks (á hinum abstrakt markaði) bregðast við og reyna í gríð og erg að selja hlutabréf sín á enn lægra verði en í gær. Þessi hringavitleysa heldur áfram linnulaust á meðan að öll spjót eru á orðum eða líkamstjáningum stjórnmálaelítunnar sem hvorki virðist hafa tök á að takast á við erfiða ákvarðanatöku né vilja það.

Það er athyglisvert að lesa greiningar samtíma spámanna á fjármálum. Til dæmis skrifaði George Soros um mögulegar lausnir til að koma í veg fyrir heimskreppu tvö fyrir nokkrum dögum. Hann telur að nú verði að taka veigamiklar (lesist: óþægilegar) ákvarðanir:

"Three bold steps are needed. First, the governments of the eurozone must agree in principle on a new treaty creating a common treasury for the eurozone. In the meantime, the major banks must be put under European Central Bank direction in return for a temporary guarantee and permanent recapitalisation. The ECB would direct the banks to maintain their credit lines and outstanding loans, while closely monitoring risks taken for their own accounts. Third, the ECB would enable countries such as Italy and Spain to temporarily refinance their debt at a very low cost. These steps would calm the markets and give Europe time to develop a growth strategy, without which the debt problem cannot be solved." (Soros í FT 29.sept.2011)

Allar þessar aðgerðir taka þó í grunninn á einungis einum hlut, að lægja öldur viðbragða á markaði, semsagt stýra reykmekkinum betur. Þessum líka velafmarkaða og skýra geranda (eða hitt þó heldur).  Markmiðið er vitlaust sett frá upphafi í nálgun Soros, því miður.  Peningahagkerfið, fjármálastofnanir og stjórnvöld eiga að vinna í þágu almennings og umhverfis. Fjármálakerfið á að auka lífsgæði ( sem auðvitað er álitamál í hverju felst og hvað þarf til). Þessi sjálfala markaður er stórhættulegur mannlegu samfélagi af því að hann er uppspuni, vöruvæðing eins og Karl Polanyi skrifaði um árið 1944. Sé markaðurinn óheftur látinn stjórna mannlegu samfélagi er kreppa óumflýjanleg. 

Auðvitað má segja að markaðurinn sé samnefnari fyrir viðbrögð fólks sem pælir í viðskiptum  (í þessu tilfelli verðmæti hlutabréfa, sem eru bæði hvikul og afar óáþreifanleg stærð). Hafi fólk littla trú á einhverju gengur illa að tala upp verðmæti þessara hvikulu og óáþreifanlegu stærða, hafi fólk miklar væntingar til trúverðugleika þeirra sem tala þær upp, er líklegra að verðmætin hvikulu og óáþreifanlegu (bréfin) haldi verði sínu eða hækki.

Það virðist einhvern veginn vera að þær séu svo óbærilega óþægilegar allar ákvarðanir sem líta burt frá markaði sem drottnara að ekki sé almennilega hægt að takast á við þær um þessar mundir. 

Það eitt og sér er athyglisvert.

Það þarf að taka á allt öðrum hlutum að mínu viti. Það er t.d óheilbrigt á hvaða forsendum fyrirtæki í dag starfa sem háð eru hlutabréfaeigendum (sem jafnvel hafa lítið sem ekkert með daglegan gang fyrirtækjanna að gera, eru fyrst og fremst fjármagnseigendur). Þegar hlutabréfaeigendur vita hver er hinn daglegi gangur í starfseminni er meiri tilhneiging til að vanda sig og minni hvati til að búa til bólu/reykmökk. Það er miklu eðlilegra að þeir sem starfa í fyrirtækjunum eigi í þeim og ég vona að þessi hugsun nái fótfestu og breiðist út sem viðbrögð við þeirri huglægu kreppu sem viðskiptalífið stríðir við um þessar mundir.

 

 


mbl.is Hlutabréf lækka mikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langvinn efnahagskreppa óumflýjanleg

Margt bendir nú til þess að alþjóðafjármálakerfið þurfi endurskoðunar við þó bæði stjórnmálamenn og fjármálasérfræðingar hafi þráast við að horfast í augu við þá staðreynd. Það er margt í þessu.

Í fyrsta lagi er fréttamennska af áhrifum skuldasöfnunar og lausafjárkreppu í Evrópu og Bandaríkjunum mörkuð af orðræðu fjármálaspekinganna úr fjármálastofnunum sem óneitanlega eiga verulegra hagsmuna að gæta. Þeir sem sáu mynd Michael Moore, Capitalism - A love story geta kinkað kolli yfir því nú að sjá hvernig að forsvarsmenn bankastofnanna eru skipulega sendir út í miðla með skilaboð um nær heimsendi í fjármálakerfinu til að beita stjórnmálaleg öfl þrýstingi svo þau gangi í ábyrgðir fyrir heimskulega hegðun fjármagnseigenda í bönkunum.  Sem í raun þýðir að ríkið setur út öryggisnet fyrir  fall fjármálstofnana en skattborgararnir taka yfir lengri tíma skellinn. 

Þannig er þjarmað að almennum launþega á meðan að forsvarsmenn fjármálastofnana geta haldið áfram að lifa í afneitun og endurtaka sömu mistök á mistök ofan. Semsagt ekki skynsamleg viðbrögð við kreppu. Ástandið hérí Danmörku er eins og heima - greiningar frá bönkum eru birtar gagnrýnislaust eins og um hlutlaust þekkingargrundvallað mat væri að ræða. Það er mikil afturför hér því áður fyrr voru Danir mun krítískari og analytiskari á samfélagsmálefni sem þessi. Íslendingar hafa hinsvegar ekki verið þekktir fyrir að vera miklir samfélagsrýnar hvað þetta varðar fyrr en uppgjörið í rannsóknarskýrslunni birtist.

Margir Danir eru enn minnugir kartöflukúrsins svokallaða á tíunda áratug síðustu aldar. Það gæti hjálpað þeim að bregðast betur við. Í viðtali danska sjónvarpsins í gær við almenna borgara úti á götu kom fram að mörg hjón/margar fjölskyldur leggja nú fyrir í stað þess að neyta og eyða svo þau hafi þanþol missi annar aðilinn vinnuna. Ég finn einnig hér á mínum tímabundna vinnustað að vinnuöryggi starfsmanna í stjórnsýslu hefur minnkað verulega. Á mánudag eru áætlaðir fundir þar sem þarf að taka blóðugar ákvarðanir um hversu marga þarf að reka á næsta ári og hversu marga árið 2013. Yfirmenn eiga síðan að mæta upp í ráðuneyti 10 september næstkomandi til að gefa skýrslu um þær ákvarðanir. Engar undanþágur frá sparnaðarkröfum verða veittar. Þannig að veruleiki hins vinnandi manns hér hefur snarlega breyst frá því framtíðarspár um vinnumarkað í Danmörku voru gerðar fyrir örfáum árum.  Þá leit allt út fyrir að með færri á vinnufærum aldri miðað við eftirlaunaþega yrði hér meiri eftirspurn eftir vinnuafli en framboð.

 Hinsvegar hefur mannauðurinn eitthvað rýrnað innan vébanda danska ríkisútvarpsins þar eð fréttakona fréttatímans þráskallast við, spyr ógáfulegra spurninga eins og tilhögun hagkerfisins hingað til verði að vera lögmál til eilífðar.

Hún er t.d að spyrja alla mögulega sérfræðinga um hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að hagkerfið hægi á sér, að framleiðslan minnki ekki að vexti, að einkaneyslan minnki ekki. Semsagt ógáfulegar spurningar leiða yfirleitt til heimskulegra svara.

Þetta minnir á manneskju sem er að átta sig á að manían er að fara að brá af henni og í stað þess að leita skynsamlegra leiða til að koma í veg fyrir að detta ofan í mjög viðvarandi þunglyndi, spyr hún hver eigi kókaín svo hún geti viðhaldið ástandinu um sinn.  

Satt best að segja finnst mér Helle Thorning Smith sem talin er verða næsti forsætisráðherra eftir kosningar, ekki hafa neitt verulega markvert að segja. Hún talar um að það þurfi að blása í glæður opinberrar eftirspurnar og skapa þannig eftirspurn og hagvöxt í framleiðslugreinum. Það er auðvitað klassískt svar við kreppu skvt. Keynes en vart raunhæft nema í takmörkuðu mæli, miðað við yfirvofandi efnahagsástand. Danskar bankastofnanir veittu heimskuleg lán til húskaupenda á bóluárunum sem nú súpa seyðið af að húseignir þeirra eru minna virði en lánin sem þeir eru að borga af, ekki ósvipað Íslendingum. Þeir veittu svokölluð flex-lán sem gerði fólki (og kannski sérstaklega þeim sem eru ekki alveg skynsamastir í einkafjármálum) að fresta afborgunum í einhver ár. Þetta þýðir að skuldasöfnun almennings er veruleg.Enda eru tugir þúsundir húseigna hér til sölu. Það þarf því ekki að undra að fólk haldi að sér höndum í neyslu nútildags. Það er miklu skynsamlegra en hitt.

Ég gekk á markað í gær, Roskilde kræmmermarked, sem er haldin árlega og þekur allt svæðið sem Hróarskeldu tónlistarhátíðin er haldin á einnig árlega. Þarna koma saman þúsundir manna að skoða dót sem er til sölu. Áður fyrr gat maður gert góð kaup á gömlum munum sem fengu hlutverk hjá nýjum eigendum, semsagt þarna var mikil flóamarkaðsstemning. Upplifunin nú var nokkuð önnur en fyrir áratug þegar ég gekk um og gerði reifarakaup á gömlum  kaffibollum sem ég ylja mér enn við heima.  Nú gat á að líta allt annars konar samsetningu sölutjalda. Ekki það að það væri nóg af dóti til sölu, flest var fjöldaframleitt dót, drasl sem leit útfyrir að glitra í pakningunum en fer örugglega fljótlega í sundur. Semsagt drasl eða djönk eins og einhver myndi segja. OG NÓG AF ÞVÍ. Margir gesta sem þarna gengu um, ungir sem aldnir sýnilega ofaldir

Þetta fékk mig til að spyrja hvernig hagkerfi vill fólk búa við. Vill fólk geta eytt og neytt eins og enginn væri morgundagurinn ef það bara fær eitthvað drasl sem það getur umlukið sig með  - eða er skynsamlegra að hugsa sér að maður geti lifað við þrengri kost en lifað vel og stuðlað að innihaldsríku lífi? 

Hvaða sýn hafa ákvarðanatökuaðilar í samfélaginu á hið góða líf? Hvernig vilja þeir stuðla að því að skapa borgurunum þannig aðstæður, svo þeir geti lifað hóflega en ágætlega.  

Mér finnst það persónulega áhugaverðara að fá þau svör frá þeim, fremur en klisjukennt babl um hvernig eigi að koma í veg fyrir að efnahagskreppan ríði yfir heima hjá þeim.


mbl.is Fimm ár af sársauka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvönduð blaðamennska Mbl.is

Það er gaman að heyra um sköpunargáfu Íslendinga sem brýst út í framleiðslugleði og alveg óhætt að styðja góð verk hvort sem þau koma úr ranni kvenna eða karla. Guðbjartur Hannesson afhenti styrki til 42. verkefna kvenna sem höfðu af hugviti sínu komið nýjum afurðum og þjónustu á framfæri í Sjóminjasafninu.

Hinsvegar er verra þegar blaðamenn sem um málefni fjalla og flytja almenningi fréttir gleyma að vanda sig og eru þáttakendur í sögufölsun. Að baki liggur annað hvort vinnuþrælkun á lélegum launum þannig að starfsmenn eru hreinlega undir of miklu álagi. Eins gæti metnaðarleysi eða vöntun á aga verið málið.

Það vakti athygli mína að sjá mynd við greinina af ungum stúlkum drekkandi úr pappa- eða plastglösum fyrir framan kynningarborð Sláturfélags Suðurlands, sem greinilega var að koma birkireyktu hangikjöti á framfæri í Smáralindinni. 

Myndatextinn hljóðaði svo:  Bragðað á íslensku nýsköpuðu góðgæti.

Er verið að gera grín að okkur eða finnst blaðafólki Morgunblaðsvefjarins að það geti borið á borð hvaða þvælu sem er fyrir lesendur. Í fyrsta lagi er hangikjöt ekki nein nýsköpun í íslensku samfélagi, hugsanlega í dönsku, bresku eða á öðrum erlendum vettvangi þar sem reyndar Íslendingar hafa ekki enn haft hugvit til að markaðssetja sínar vörur af því taginu enn. Í öðru lagi er myndefnið sótt úr allt öðru samhengi sem hefur afar lítið með fréttina að gera.

Nú þegar Osama Bin Laden er fallinn og Vesturheimur fagnar því að Grýla samtímans hafi verið dregin til dauða. Nú þegar að Miðausturlönd loga í uppreisnum sem vonandi færa samfélög þeirra inn í giftusamari tímabil upplýsingarinnar  - eru Vesturlönd á hraðleið inn í forheimskun, hégóma og ofstæki.

Bon appetit!


mbl.is 30 milljónir í nýsköpun kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vatn á myllu ESB paranoiufólks

Eftirlitsskip EvrópusambandsinsÉg fór í bíltúr í umhleypingum páskadags - og viti menn fyrir utan að sjá að Harpa fer að komast í opnunargír, lá þar í vari, handan við sjávarútvegshúsið - eftirlitsskip ESB. Nú hljóta allir ESB paranoiar að hlaupa upp til handa og fóta. Hvað var þarna á ferðinni? Makríl-stríðsbátur sambandsins? Hmm. Eða kannski bara vinaheimsókn:)
mbl.is Ákveðið að hætta við að álykta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýrri aðferðafræði beitt í rannsóknum á loftslagsbreytingum

Vísbendingarnar sem vísað er til í umtalaðri rannsókn sem ályktar um miklar breytingar á hafstraumum í Norður Atlantshafi undanfarna áratugi er ein fjölmargra sem hver um sig hafa lagt fleiri og fleiri púsl í stærra samhengi. Þannig hefur mörgum stoðum verið rennt undir þá kenningu að hafstraumar og efnafræði hafsins hafi meiri áhrif á veðurfar almennt en áður var talið.

Kórallar

Mér finnst reyndar smá annmarki á fréttaflutningi þessum þar eð ekki er vísað beint í umrædda vísindagrein en umfjöllun um hana á ólíkum vettvangi. Mér finnst alltaf skemmtilegra að tékka á frumheimildum.

Ég fann greinina eftir nokkra leit í proceedings of the National Academy of the Sciences in United states of America. Hún ber heitið

 

 

Nutrient regime shift in the western North Atlantic indicated by compound-specific δ15N of deep-sea gorgonian corals

 Þar Kemur fram að notuð er ný aðferðafræði til að mæla efnainnihald í vaxtarhringjum kóralla. Óvíst er hversu óyggjandi niðurstöðurnar eru þó áhugaverðar séu þar eð þetta er fyrsta slík rannsóknin. En ljóst er að hún styður enn frekar fyrri rannsóknir þó með nýjum aðferðum sé..

Í abstract/útdrætti kemur þetta m.a. fram:

 

In the Northwest Atlantic off Nova Scotia, coral δ15N is correlated with increasing presence of subtropical versus subpolar slope waters over the twentieth century. By using the new δ15N-AA approach to control for variable trophic processing, we are able to interpret coral bulk δ15N values as a proxy for nitrate source and, hence, slope water source partitioning. We conclude that the persistence of the warm, nutrient-rich regime since the early 1970s is largely unique in the context of the last approximately 1,800 yr. This evidence suggests that nutrient variability in this region is coordinated with recent changes in global climate and underscores the broad potential of δ15N-AA for paleoceanographic studies of the marine N cycle.

 

  Megin hafstraumar í Norður Atlantshafi

 


mbl.is Breyttir hafstraumar stýra veðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TERRA MADRE dagurinn í dag

Eftir langt hlé ætla ég ekki að skrifa um Icesave samninginn. Ég er að vona að forsendurnar sem samninganefndin gaf sér muni standast að mestu því það þýðir að börnin okkar og barnabörn sleppa við þá leiðu arfleifð að sitja uppi með skuldir gróðahyggjukynslóðanna.

Ég ætla að vekja athygli á að TERRA MADRE dagurinn er í dag  - Íslandsdeild Slowfood samtakanna vekur athygli á þessu:

Terra Madre dagurinn 10. desember 2010
 
Í fyrra var fyrsti Terra Madre dagurinn haldinn um heim allan, Slow Food samtökin voru 20 ára og ca. 1500 viðburðir voru skipulagðir í öllum 130 löndum þar sem eru Slow Food convivia eða deildir. Það stefnir í það sama í ár, en þessar samkomur munu einnig safna pening fyrir "1000 gardens in Africa" verkefni þar sem stefnt er að því að móta matjurtagarða með heimamönnum eftir Slow Food hugmyndafræði (good, clean and fair), til að rækta staðbundnar matjurtategundir, lífrænar, sem munu brauðfæða þorpin í mörgum löndum. Hér verður Terra Madre dagurinn haldinn undir merki "Meet the producer" - sem sagt "hittu framleiðandann" og verða smáframleiðendur á eftirfarandi stöðum:
Frú Lauga (v/Laugalæk): bakari frá Sólheimum og fleiri bjóða að smakka á sinni framleiðslu, Bændamarkaðurinn sívinsæli hefur á boðstólum matvörur frá íslenskum smáframleiðendum - og gerir undanþágu fyrir ítalskar vörur, pasta og vín, sem gleðja sælkerann
Búrið (Nóatúni 17): Jóhanna frá Háafelli (ís úr geitamjólk og kjötvörur) og Urta Islandica (íslenskar jurtir) - sælkerabúðin þar sem áluð fagmannsins ræ´ður ríkjum og margt úr matarkistu Íslands stendur til boða
Ostabúðin (Skólavörðustig 8): lífræn vín og heimatilbúnar kjötvörur - nýtni í hámarki og gæðavörur á móti freyðivíni frá frönskum lífrænum vínbændum sem sanna að allt þarf ekki að vera iðnaðarframleitt
Dill Restaurant: Jólamatseðill með alíslensku hráefni - Gunnar og Óli sýndu í Torino hvernig frábærir fagmenn vinna sem best úr því sem náttúran býður uppá
Höfn í Hornafirði: Slow Food deild "Í Ríki Vatnajökuls" verður með kvöldverð með hráefni frá héraðinu
Fleiri aðilar munu halda Terra Madre deginum á eigin forsendum, til dæmis með matarboð tileinkuðu staðarmatvæli eins og á Patreksfirði og Flateyri.
Okkar skilaboð: hafðu það "slow" 10. desember, andaðu í jólaösinni, taktu þinn tíma til að velja og borða góðan mat: hreinan og sanngjarn. 

Lifið heil!

 

 


Bókhaldstap, bólgnar væntingar og raunverulegt tap

Nú er maður orðinn svo skyni skroppin eftir að hafa sætt hálfgerðum pyntingum í formi frétta um bókhaldsbrask og afskriftir, bókhaldskúnstir og annað í þeim dúr að frétt um eldgosatengt tap stærsta ferðaþjónustu-fyrirtækis heims er eitthvað sem maður kippir sér lítið upp við.

Þetta er svona svipað eins og keðjuverkun af gunguskap skipstjóra Artemis (sem þorði ekki inn í Ísfirska þoku), auðvitað finna fleiri fyrir því en bara hin alþjóðlega samsteypa þegar áætlanir bregðast.

ég hef aðeins stúderað fyrirtækið TUI en það er afleiðing af endalausum samrunum og yfirtökum sem einkenndu tímabilið frá þúsaldamótum til 2008 í alþjóðlegu viðskiptalífi. Nú vitum við auðvitað sem er að slík hernaðarbrögð í viðskiptum voru oftar en ekki byggð á skuldsetningu. Þegar fyrirtæki eru verulega skuldsett sem hlutfall af eiginfjárstöðu þurfa þau að keyra alveg svakalega stíft til að geta staðið við sínar skuldbindingar. Ef maður snýr þessu yfir á líkingamál, má segja að því stærri útgerð sem maður er með, því meiri velta þarf að vera til að halda utan um til að greiða fyrir umsvifin, því minna má bregðast í starfseminni.

Eitt af því sem stórhuga viðskiptamönnum yfirsást kannski var einmitt þetta, maður þarf að vanda sig (þeir hefðu sumir kannski þurft að vera íhugulli á meðan á öllum yfirtökunum stóð).

Það fer tvennum sögum af TUI - í fyrsta lagi voru óstaðfestar fréttir í helstu viðskiptamiðlum heims í febrúar 2010 að verið væri að reyna að selja stórveldið (kannski ekki besta tímabil viðskiptasögunnar, allavega ef átti að selja það í einu lagi).

Í öðru lagi stærir samsteypan sig af því að vera alltaf á höttunum eftir framtíð ferðaþjónustunnar (sem þeir telja sig geta skilgreint greinilega.

Það er því kannski bara fjölmiðlastönt - að birta lélegar afkomutölur og tengja við gosið í Eyjafjallajökli. Því þegar allt kemur til alls er fyrirtækið með svo bólgnar væntingar að ekkert má útaf bregða þá tapa þeir í bókhaldinu. Hið raunverulega tap er auðvitað a) að starfsmenn eru þrælar staðlahyggju í ferðaþjónustu og fá ekki að blómstra því þeir eru hermaurar í stigröðuðu veldi ferðaþjónustu TUI.B) Aðrir sem eiga hagsmuna að gæta þar sem TUI velur að þröngva sér inn á ferðamarkað eru undirorpnir ráðandi markaðsstöðu fyrirtækisins og þá má fólk dæma fyrir sig sjálft hvort því finnst það hagsælt.

Þannig að jú, auðvitað má segja að það sé frétt þegar að TUI velur að tilkynna opinberlega um að halli undan fæti að minnsta kosti tímabundið, því þeir eru ígildi þjóðhagskerfis þegar kemur að umsvifum. Fyrir mér er TUI hinsvegar dæmi um fyrirtæki í ferðaþjónustu sem að hefur tapað sér í  stærðarhagkvæmni. Þegar á reynir hrynja slík veldi oft.

Þannig það er spurning hvort maður á að fagna frekar en armæðast.

 


mbl.is Askan veldur TUI tjóni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftslagsbreytingar og bráðnun jökuls

260 ferkílómetrar ísjaki brotnaði úr Petermann Gletscher á Norðvestur Grænlandi. Þetta eru stórfréttir því jökullinn er nú orðinn 3/4 af því sem hann var. Í vísindagrein úr Science um jökul-leysingar/skrið/kæltring út í sjó kemur fram að mesta brotið er almennt í Petermann af jökultungum Grænlandsjökuls. Í greininni sem þó er frá 1997 (Rignot, Goginene, Krabill & Ekholm 1997) og sem ber titilinn "North and Northeast Greenland Ice Discharge from Satellite Radar Inteforometry" kemur fra að heildarmeðal brot úr 14 jöklum á norðurhluta Grænlands á ári er um 49 ferkílómketrar (sjá tilvitnun að neðan). Þetta er því rúmlega fimm sinnum stórfelldara en heildar brot á ári af þessu svæði. Þó brot ísjaka sem fellur í sjóinn sé alkunna á Grænlandi leikur enginn vafi á að stórefli þetta er afurð loftslagsbreytinga.

Combined together, the analysis implies that the 14 glaciers discharge 49.2 km3/year of ice into the ocean (10% uncertainty) (Table 1). This ice volume is 3.5 times that discharged at the glacier front (6). The largest difference is recorded on Petermann Gletscher, where the grounding line flux is 22 times the glacier-front flux.

 

Laila vinkona mín sem fædd er í Ilulisat/Jakobshavn fæddist um miðbik maí í fyrir rúmum 40 árum. Hún segir söguna af því þegar að ísbjörgin flugu út á fjörðinn og það brast og brakaði um allt í ísnum. Hljóðið í jökulbjörgunum þegar þau steypast er engu líkt en einnig er magnað að heyra brestina í mörg þúsund ára gömlum ísbjörgum sem eru að springa og bráðna.

 topo_250

Ég fór að skoða þetta á korti og sá þá að þetta er afar norðarlega og mun norðlægar en nokkuð byggt ból Grænlands (Petermann Gletscher er staðsettur á reit 80V2). Hinsvegar eru borgarísjakar á stærð við landfleka afar hættuleg fyrir skipaumferð þegar sunnar dregur.  Nú vitum við ekki í hvaða átt borgarísflekinn flýtur en það ætti að vera rík ástæða til að fylgjast með honum þessum!

 


mbl.is Stærsti borgarísjaki í 50 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurskoðunin á regluverki og eftirliti með frjálsu flæði fjármagns þarf að vera víðtækari

Sumir muna eflaust eftir sérlegum krísu-fundi G20 landanna sem haldinn var í Tékklandi að mig minnir fyrir rúmu ári. Lítil sameining hefur orðið milli þeirra um hvernig beri að leysa þann vanda sem blasir enn við vegna fjármálahnignunar í heiminum.

Evrópa eða Evrópulöndin eru þó neydd til að taka á málum sameiginlega og það á ekki bara við um ríki  sem eru bundin efnahagslegum og pólitískum samruna gegnum Evrópusambandið - það eru fleiri lönd sem eru svo samtengd inn í Evrópu að þau þurfa að vera með í þeirri endurskoðun. Við erum að tala um sameiginlegt vandamál - og ekki einangruð þjóðmála-málefni.

Ég endurtek í 100aðasta skipti, þessi mál þarf að skoða kerfislægt og því er staðhæfing blaðamanns Financial Times kórrétt - Evrópa verður að styrkja sameiginlegt regluverk sitt. Það verður ekki gert með því að setja Ísland í skuldafangelsi.

Hins vegar er manneskjan í eðli sínu hégómleg og í pólitík leika menn sér að því að eyðileggja mannorð hvers annars ef það hentar. Homo politicus er sú týpa sem þarf að fylgjast með og vera viðbúin við að noti sér tækifærið í refskákinni um völd...en þá þarf líka að bregðast hratt við og leyfa homo politicus ekki að nýta sér slíkt tækifæri. Hagsmunirnir eru víðtækari en svo að þeir eigi að vera leiksoppur skammt-hugsandi tækifærissinna.

Vörðum leiðina að því að fjármálarústirnar og eftirstöðvar þeirra verði teknar til endurskoðunar með bætt regluverk að leiðarljósi sem ekki hnekkir meira á einni þjóð en annarri.


mbl.is Ekki setja Ísland í skuldafangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Syndaaflausn í sjónvarpi

Flestir fjölmiðlar segja frá sjónvarpsviðtali við Geir H Haarde fyrrum forsætisráðherra Íslands í sænska sjónvarpinu á þá leið að ekki hafi tekist að fá viðmælandann til að taka á sig ábyrgð í útsendingunni. Það er eitthvað hjákátlegt og ankanalegt við þetta. Það er einhver miðaldabragur á þessu.  Er samtími okkar þannig að opinberir aðilar þurfa/eiga samkvæmt "den offentlige mening"/almenningsálitinu að leita synda-aflausnar í sjónvarpinu.

Eru engin takmörk fyrir fjölmiðlagreddunni?

Það er miklu mikilvægara að Geir og aðrir sem að voru ábyrgðaraðilar í upptaktinum að fjármálahruni hér á landi líti í eigin rann og horfist í augu við afleiðingar aðstæðna og ástæður þeirra en að þeir nuddi augun og barmi sér í beinni útsendingu.

Við getum orðið hnarreist þjóð á því að vera sjálfum okkur samkvæm og lifa eftir gullnu reglu lífsins að koma fram við aðra eins og við myndum vilja að aðrir kæmu fram við okkur.

Ekki á því að leita syndaaflausnar í sjónvarpsútsendingum!


mbl.is Hefðu átt að minnka umsvifin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband