Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kostnaður við heilbrigðis- og menntakerfi

Það er margt sem ber að athuga í útgjaldamálum ríkiskassans þegar betur er að gáð.

Einir þyngstu liðir útgjalda ríkisins eru heilbrigðismálin en þar á eftir koma menntamálin það er að segja þegar að ríkisrekin stóriðjupólitík er  undanþegin og svo nú auðvitað öll fyrirtækin sem í raun eru rekin af ríkinu vegna þess að hið opinbera hefur fengið þau í fangið í kjölfar hruns.

Mig langar að benda á að ríkiskassinn (rikiskassinn.is) sem er aðgengilegur vefur á vegum fjármálaráðuneytis er með nokkuð skondna útreikninga á útgjaldaliðum og hvað hlutirnir kosta.

Samkvæmt þessum útreikningum kostar lungnabólga 727 þúsund ef hún er meðhöndluð í íslensku heilbrigðiskerfi, hjartaþræðing ekki nema 200 þúsund sem er lágt allavega ef miðað er við mjaðmakúluaðgerð sem samkvæmt þessu er dýrari og kostar 700 þúsund.

Ef hinsvegar er litið til menntakerfis er þar margt sérkennilegra upplýsinga.

Þar kemur fram að það kostar ríkið 2,4 milljónir að framleiða framhaldsskólanema á meðan það kostar einungis 600 þúsund að framleiða háskólanema. Nú veit ég ekki hvenær þessi síða var uppfærð en samkvæmt frétt frá Degi sáluga árið 2005 var ódýrast að mennta háskólanema við Háskólann á Akureyri og þá nam sá kostnaður 560 þúsund á nema á meðan að hann var 863 þúsund á nema við Háskóla Íslands. Það eru semsé fimm ár síðan það var greinilega nokkuð dýrara en nú er haldið fram.

Nú er ég nýbúin að þurfa að sitja og skila af mér svokallaðri sjálfsmatsskýrslu fyrir ferðamálafræði Háskóla Íslands og sé að kostnaður við hvern nema þar er 238 þúsund krónur þegar allur kostnaður er tekinn með (bæði beinn kostnaður, kennsluhluti launa fastra kennar, kostnaður vegna annara kennara, rekstrarkostnaður námskeiða og kostnaður  vegna kennslutækja) - og auk þess kostnaður vegna sameiginlegrar stjórnssýslu, kostnaður vegna sjóða Háskólans og sambærilegra liða, vegna reksturs og viðhalds húsnæðis og hlutdeild í stofnkostnaði þessum tengdum.

Og þá spyr ég, miðað við að ekki er talið hægt að borga mannsæmandi laun kennurum sem aflað hafa sér sérmenntunar til að geta stundað kennslu á háskólastigi, og fyrirhugaðar eru 25% niðurskurður hið minnsta á háskólastiginu, hvað halda þá andans menn og ákvarðanatökufólk að við getum girt mikið niður um okkur og samt sagt að við ætlum að vera meðal 100 bestu háskólanna?

 

 


mbl.is Vill fund um niðurskurð í heilbrigðiskerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandinn felst í þunglamaleikanum

Kostir sameiginlegs gjaldmiðils felast í útvíkkun sameiginlegs markaðar, fyrir litlar þjóðir hefur það verið  kostur í Evrópu samrunans. Stöðugleiki gengisins er eins kostur og var hvati fyrir margar þjóðir sem völdu að taka upp evrugengið, t.d Suður Evrópuþjóðirnar en margir muna kannski eftir öllum milljónum lírunum eins og verðlag var í Ítalíu fyrir upptöku evrunnar. Auðvitað má á móti segja að verðlag í ESB hækkaði um 20% að minnsta kosti í fátækustu löndunum sem gengu inn í myntbandalagið. Almenningur var blekktur, laun þorra almennings hækkaði ekki í takt við verðhækkanir, aukið frelsi t.d í frjálsu flæði fjármagns og vinnuafls þýddi að illa innrætt fólk sem fullt er af í viðskiptalífi og annars staðar misnotaði í meira mæli en áður vinnuaflið. Viðskiptalífið græddi á evrunni en ekki endilega almenningur eða venjulegir launþegar.

  Í hvítbók Evrópusambandsins frá 1992 var það tekið sérstaklega fram að stíf skilyrði væri grundvöllur þess að nýja samevrópska myntin væri í samanburðinum sterk og stöðugur viðmiðunargjaldmiðill í alþjóða viðskiptum. Á þeim tíma hentaði það vel Deutsche bank og drottnara Evrunnar en svo er með mörg manngerð kerfi að þau eiga sér sinn blómatíma en einnig hnignunarskeið. Stöðugleiki evrunnar og hátt gengi er þröskuldur þegar efnahagssamdráttur og skuldir plaga þjóðirnar.  Sama gamla sagan endurtekur sig, almenningur borga.

Vandi Evrópusambandsins felst í flóknu stigröðuðu kerfi þar sem þunglamaleiki ræður ríkjum og skjót viðbrögð við breytilegum aðstæðum er ekki til staðar.


mbl.is Mikill og djúpstæður vandi í evrulandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurskoðunin á regluverki og eftirliti með frjálsu flæði fjármagns þarf að vera víðtækari

Sumir muna eflaust eftir sérlegum krísu-fundi G20 landanna sem haldinn var í Tékklandi að mig minnir fyrir rúmu ári. Lítil sameining hefur orðið milli þeirra um hvernig beri að leysa þann vanda sem blasir enn við vegna fjármálahnignunar í heiminum.

Evrópa eða Evrópulöndin eru þó neydd til að taka á málum sameiginlega og það á ekki bara við um ríki  sem eru bundin efnahagslegum og pólitískum samruna gegnum Evrópusambandið - það eru fleiri lönd sem eru svo samtengd inn í Evrópu að þau þurfa að vera með í þeirri endurskoðun. Við erum að tala um sameiginlegt vandamál - og ekki einangruð þjóðmála-málefni.

Ég endurtek í 100aðasta skipti, þessi mál þarf að skoða kerfislægt og því er staðhæfing blaðamanns Financial Times kórrétt - Evrópa verður að styrkja sameiginlegt regluverk sitt. Það verður ekki gert með því að setja Ísland í skuldafangelsi.

Hins vegar er manneskjan í eðli sínu hégómleg og í pólitík leika menn sér að því að eyðileggja mannorð hvers annars ef það hentar. Homo politicus er sú týpa sem þarf að fylgjast með og vera viðbúin við að noti sér tækifærið í refskákinni um völd...en þá þarf líka að bregðast hratt við og leyfa homo politicus ekki að nýta sér slíkt tækifæri. Hagsmunirnir eru víðtækari en svo að þeir eigi að vera leiksoppur skammt-hugsandi tækifærissinna.

Vörðum leiðina að því að fjármálarústirnar og eftirstöðvar þeirra verði teknar til endurskoðunar með bætt regluverk að leiðarljósi sem ekki hnekkir meira á einni þjóð en annarri.


mbl.is Ekki setja Ísland í skuldafangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ígildi stríðsyfirlýsingar eða kosningabobbi Bretaforingja

Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar eins og rekja má sig í gegnum blogg mitt gegnum tíðina að það þurfi að taka kerfislægt og alþjóðlega á skuldahalanum sem ofvirkir fjármálaspekúlantar söfnuðu í bráðræðisgræðgi undir nafni gróða og fallið er , eða er að falla á skattborgara víða um heim.

Icesave er eitt af þessum málum en þau eru fleiri um Evrópu og víðar. Innan Evrópusambandsins eru nú nokkrir ráðherrar (allavega sá hollenski) farnir að skilja að innistæðutryggingakerfið var meingallað og hefði aldrei getað stemmt stigu við afleiðingunum af þeim hömlulausu fjármálagjörningum sem megin freigátuforingjar sumra bankanna stóðu fyrir.

Það er von mín að þjóðaratkvæðagreiðslan hér verði til þess að knýja á um endurskoðun þessara mála kerfislægt.

Hins vegar er ég ekki sannfærð um það..ég bara vona það.

Haft er eftir Alistair Darling að málið verði reifað á vettvangi Evrópusambandsins og er það alls ekki óeðlileg yfirlýsing og þarf ekki að vera ígildi stríðsyfirlýsingar.

Sumir hafa haft í flimtingum að vegna þess að fyrirmenn breskra stjórnvalda séu í bobba óvinsælda sinna vegna og kosningar í nánd - muni þeir reyna að gera sig breiða á jafnvel óheppilegum málefnum, t.d eins og ígildi Falklandseyja-innrásarinnar forðum. 

Ég veit nú ekki hversu alvarlega maður á að taka því - en maður er nokkuð uggandi verður að segjast.

 


mbl.is Bretar leita til ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er við eðlislæg ofurmenni að etja!

Það ætti ekki að koma Íslendingum á óvart, hvorki leikmönnum né þingmönnum að slíkt minnisblað hefði verið ritað. Ritarinn skiptir heldur ekki meginmáli. Hér er bara enn ein staðfesting á í hvaða neti Íslendingar eru fastir. Við erum eins og fluga í kóngulóarvef, ef við göngum ekki að því að semja um ICESAVE mun alþjóðasamfélagið sem tengir Norðurlönd og Evrópusambandslöndin herða takið ennfrekar. Þetta líkingamál er auðvitað viðbjóðslegt. Hægt  væri að nota annað, til dæmis það að þegar að við höfum gengið frá samningum um ICESAVE við Hollendinga og Breta, muni velvilji til þjóðarinnar aukast frá aðilum alþjóðasamfélagsins sem tengja Norðurlönd og Evrópusambandslöndin.

Einhverra hluta vegna eru Íslendingar ákaflega duglegir að telja sér trú um alveg fjarstæðukenndustu hugmyndir um sjálfa sig. Þannig minnir Eiríkur Bergmann í pistli í fréttablaðinu í dag, okkur á, að þegar sem best gekk samkvæmt fyrrum viðskiptamógúlum/núverandi skúrkum reyndu fyrirmenni Íslands að leita skýringa á velgengninni í eðlislægum sérkennum landans sem sem vegna einstaks náttúruvals á sögueyjunni myndu nánast óhjákvæmilega sigra heiminn.

Það minnir auðvitað óþægilega á "ubermensch" hugmyndir Hitlers og nasista frá því fyrr á 20. öld.

Í sama blaði er pistill um innlenda vendipunkta árið 2009 eftir Eirík Guðmundsson en hann botnar grein sína á þann veg að Ísland sé ekki enn sokkið. Það séu aðrir kraftar að verki sem haldi þjóðinni enn á floti og segist hann vita hvað veldur. Hann vitnar í titil á nýju bók Kristínar Ómarsdóttur sem heitir því upplífgandi nafni: Sjáðu fegurð þína.

Fylgismenn kenningar um heimsveldisstefnu stórþjóða í alþjóðaviðskiptum hafa haldið því fram að hér sé um enn eina tilraun"hitman" útsendara stórkapitalsins til að arðræna saklausar og minnimáttar þjóðir. Við vitum jú öll að í því hagskipulagi sem við búum við eru völdin í höndum þeirra sem eiga og þeirra sem safna auði.

Sjálfstæðis og einangrunarsinnar (ég er ekki að vísa í íslenskan pólitískan flokk sem heitir keimlíku nafni - hér er ég að vísa í hugmyndina sjálfa) hafa lönd eins og Libýu og Kúbu að fyrirmynd. Það er eitthvað hetjulegt við að vera þrár, þvermóðskufullur og lúta ekki afarkröfum erlendra aðila, móta reglurnar sjálfur og hundsa önnur sjónarmið en þau heimaræktuðu. 

Einn af forsvarsmönnum skaupsins sagðist ætla að taka Íslendinginn á almenningsdóm um hið vinsæla sjónvarpsefni. Að hans sögn fólust taktar Íslendingsins í því að taka heiðurinn ef verkið yrði vel rómað en firra sig allri ábyrgð verði það fordæmt.

En allt þetta gjálfur hefur hingað til ekki leitt til neinnar niðurstöðu og því er ákaflega ver.

Ég er afar hjátrúarfull manneskja og hef kynnt mér hvað næsta ár ber í garð samkvæmt kínverskri stjörnuspeki. Það hljómar þess vegna ekki mjög vel í mínum eyrum ef að ýmsar leyndar minnisnótur fara að dúkka upp síðustu fimm mínúturnar í meðförum íslenska þingsins til að koma í uppnám umræðu og atkvæðagreiðslu um ICESAVE samningana.

Það gæti einfaldlega þýtt að við rennum inn í allt aðrar og miklu umhleypingasamari aðstæður í alþjóðasamfélaginu áður en tekst að loka þessum myrka kafla Íslandssögunnar. Íslenskt hagkerfi gæti fests óþægilega meira í netinu en nú þegar er þegar fer að þjarma frekar að öðrum þjóðum sem héldu að þær væru að komast yfir kreppuna..

En látum tímann bara ráða þetta fyrir okkur, leiða heppni eða ófarir í ljós - mér sýnist að það sé stefnan!

Það er þoka


mbl.is Wikileaks birtir minnisblað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

WHO í höndum lyfjarisanna !? Stærsta lyfjahneyksli sögunnar?

Á meðan að íslenskir fjölmiðlar velja að fjalla um flugelda, umferðarslys, bankaráðstilnefningar og þingþref er erlendis verið að gera upp fyrsta áratug 21 aldarinnar í ýmiskonar áhugaverðri fréttatengdri umfjöllun.

Samkvæmt umfjöllun síðustu daga í danska dagblaðinu Information eru undarlegir hlutir að gerast innan veggja alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar í kjölfar þess að ljóst er að það fár sem greip um sig vegna svínaflensu fyrr á árinu er meira uppblásið en efni stóðu til.

Það undarlega í málinu er að af óútskýranlegum ástæðum var skilgreining á heimsfaraldri breytt og heimsfaraldur flensu tekur nú til nær alls - allt frá saklausum flensum til stórfelldra faraldra.

Ástæðan er talin vera sú að lyfjarisarnir hafa náð að sölsa undir sig völd og áhrif innan samtakanna því eins og gefur að skilja er lyfjaframleiðendum í mun að fá framleiðsluleyfi og viðurkenningu fyrir ýmis konar lyfjum sem stefnt gætu stigu við hugsanlegum pestum. Og ekki er verra að þau hafi á sér WHO stimplun!

Það hefur og verið gagnrýnt að einkaleyfislög nái yfir lyf sem þróuð eru og framleidd með svo víðtæk almanna-heilbrigðissjónarmið að leiðarljósi, - það sé algjörlega óverjandi að leyfa voldugustu fyrirtækjunum í greininni að sölsa undir sig svo mikilvægum einkaleyfum. Það sé einungis ávísun á að þeim verði enn meira í mun að beita fyrir sig fjölmiðlum og jafnvel heilbrigðisyfirvöldum þarmeð talið WHO til að magna upp væntingar og orðróm um stórfellda smitsjúkdómafaraldra til að skara eld að eigin köku í viðskiptum.

Eitt er ljóst að líklega er H1N1 veiran á bakvið svínaflensu ekki sá heimsfaraldur sem læknar höfðu búist við í um fjóra áratugi þar eð faraldurinn hefur einungis fellt rúmlega sex þúsund manns á heimsvísu.

Hvað varðar hina dularfullu skilgreiningarbreytingu WHO á hvað felst í heimsfaraldri hafa ýmsir aðilar, m.a talsmaður heilbrigðissamtaka Evrópuráðsins valið að nota eins sterkar yfirlýsingar til að tjá hneykslun sína á meðförum stofnunarinnar á heimsfaraldursfárinu - sem stærsta lyfjaskandal sögunnar.

Hvað sem öðru líður er ljóst af þessu að það þarf líka að hafa virkt eftirlit með alþjóða stofnunum!

Hér að neðan getur að líta tímalínu heimsfársins svínaflensu - sótt úr umfjöllun 

Tímalína Heimsfaraldursins H1N1

18. mars 2009
Fyrstu tilfelli svínaflensu verður vart í Mexíkó.

25. apríl 2009
Aðalritari alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar WHO, Margaret Chan, kallar flensuvandamálið opinbert neyðarástand á alþjóðlegan mælikvarða.

28. apríl 2009
Sjö lönd tilkynna um H1N1. Viðbragðsstig vegna heimsfaraldur er hækkað í 4 og talið að flensan smitist í milli manna.

29. apríl 2009
Viðbragðsstigið er hækkað í 5. Sterkar vísbendingar eru taldar um að ógn heimsfaraldurs hangi yfir heimsbyggðinni.

11. júni 2009
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin WHO lýsir yfir viðbúnaðarstigi 6. Heimsbyggðin er nú í fyrsta skipti í 41 ár undir áhrifum flensufaraldurs á heimsvísu.

14. júni 2009
Fyrstu dauðsföll af völdum svínaflensunnar eru skráð í Evrópu.

29. júni 2009
Fyrsta tilfelli ónæmis við Tamiflu er skráð í Danmörku.

8. júli 2009
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin WHO gefur frá sér yfirlýsingu um að fyrstu þrjú tilfelli ónæmis við Tamiflu séu tilviljanakennd tilfelli.

3. september 2009
Novartis sendir frá sér yfirlýsingu þess efnis að eftir þrjár klínískar prufur á 100 manns sýni sig að H1N1 bólusetningarblandan verndi 80% eftir fyrstu sprautu og 90% eftir aðra sprautu.

25. september 2009
Evrópska lyfjastofnunin (EMEA) mælir með opinberri viðurkenningu/ vottun á tveimur bólusetningarblöndum frá Novartis og GlaxoSmithKline.

25. október 2009
Bólusetningarvökvinn er á leið á evrópska markaði.

30. október 2009:
Stefnumótunar-ráðgjafahópur Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar WHO sem samsett er af sérfræðingum um lyfja ónæmi (SAGE) veita WHO ráðgjöf um tilhögun bólusetninga. Niðurstaðan er einföld bólusetning á fullorðna og hluti á ófrískar konur.

1. nóvember 2009
Samkvæmt WHO staðfesta meira en 199 lönd tilfelli svínaflensu. Yfir 6 þúsund skráð dauðsföll eru af völdum H1N1 á heimsvísu þegar hér er komið sögu.

Heimild: www.nature.com

 

 


Að lepja ekki dauðann úr skel

Árið 2004 ferðaðist ég um landið að taka viðtöl við starfsfólk í fiskeldi. Það var lærdómsríkt.

Á þeim tíma hafði einungis ræst eitthvað úr einu bláskels-ræktarverkefni  við landið að svo komnu máli - þrátt fyrir áralangar tilraunir, óþreytandi vinnu m.a Sigfúsar Jónssonar landfræðings, við að draga lærdóm af reynslu þeirra Prince Edward Island manna sem þetta höfðu reynt, framlag byggðastofnunar og fleiri sem hér eru ekki upptaldir.

Réttilega var árið 2004 einungis einn aðili með gilt rekstrarleyfi en fimm fyrirtæki voru með tilraunaeldi sem þá var talaðu um að myndu sýna sig og sanna með framleiðsluaukningu á komandi árum.

Heildarframleiðsla bláskeljar í tölfræði eldiframleiðslu var ekki sýnileg og útflutningsverðmæti var núll.

 Þá stóð yfir fyrsta uppskera Norðurskeljar í Hrísey og þeim virðist ef eitthvað er hafa farnast ágætlega - ég veit til dæmis fyrir víst að hægt er að kaupa lifandi bláskeljar í frú Laugu, hef gert það sjálf og mæli óhikað með því að íslendingar nýti sér heima-aldar krásir sem bragð er að.

Mér finnst spá um 1.500 tonna framleiðslu á næstu árum full bjartsýn þó að maður voni að slíkt gangi eftir, ekki veitir nú af.

Fyrri reynsla af tilraunum úr eldi þessu líku sýna að ófyrirsjáanleg áföll geta riðið yfir eins og dæmi eru um m.a úr Arnarfirðinum þar sem fyrirtækið Hlein eftir áralangar tilraunir í bláskels-eldi varð fyrir Cadmin mengun, eða réttara sagt kræklingurinn, sem menn eru ekki á eitth sáttir hvaðan kom. Það urðu því miklar búsifjar af slíkri tilraunamennsku sem þó hafði lofað góðu um árabil.

Ég vitna hér beint í skýrslu sem ég skrifaði á þessum tíma og aðra eftir Valdimar Inga Gunnarsson um framtíðaráform í fiskeldi.

"Framleiðsla kræklings (bláskeljar) hefur ekki enn uppfyllt þær vonir sem bundnar voru við slíka framleiðslu í lok tíunda áratugarins. Segja má að ýmis skakkaföll í framleiðslu hafi átt þátt í því. einnig hafa neikvæðar mælingar á m.a. Cadmin efnainnihaldi kræklings dregið úr áætlaðri framleiðslu. Ber þar helst að nefna áfall Hleinar sumarið 2004. Árið 2003 var áætlar að hægt yrði að framleiða 500, en raunin varð einungis 4 tonn.

Ekki ætla ég að draga úr væntingum fólks til nýrrar/fornrar atvinnustarfsemi á landsbyggðinni - það er bara alltaf gott að hafa varann á og byggja væntingar sínar á raunhæfum viðmiðum

Lifið heil og eigið góða jólahátíð og áramót! (Bláskelsveisla í lok árs er t.d alveg ágætis hugmynd!)


mbl.is Bláskel ræktuð fyrir milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftir langa þögn -

Ég fór á fína málstofu í gær á vegum alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands en Beinta í Jákupstofu var að halda fyrirlestur um Færeyjar og alþjóðasamfélagið. Í fyrirlestri hennar kom margt forvitnilegt fram, m.a að þó að Færeyjar séu hluti af Konungsríkinu Danmörku eru þeir í sívaxandi mæli að sjá um utanríkispólitísk mál en ekki ráðuneytið á Strandgade í Kaupmannahöfn. Færeyjingar finndu töluvert fyrir því að vera ekki alvöru leikmenn, þeir flytu með í ýmsu en væru ekki alvöru þáttakendur. Beinta sem er kíminn og skemmtileg kona hnykkti á þessu með því að segja að Færeyingar færu kannski í sömu veislurnar en ekki á sömu fundina og stórþjóðirnar. Þeir væru litlir í alþjóðasamhengi  og hefðu sloppið við ýmsar alþjóðlegar skuldbindingar vegna þessa en nú væri mögulega ekki lengur hægt fyrir smáeyjaþjóðir að gera það. Færeyjingar eru með í NORA sem reyndar hefur lítið pólitískt vægi en er engu að síður vettvangur Norðvestur Norðurlandanna. Færeyingar eru með í Norrænu ráðherranefndinni, en sá vettvangur er ráðgefandi og taldi Beinta að Norðurlöndin sem leggðu mesta áherslu á styrk ráðherranefndarinnar væru að ofmeta hlutverk þess pólitískt.

Færeyjingar eru að leggja drög að því að sækja um EFTA aðild og aðild að evrópska efnahagssvæðinu.

Þannig að ljóst er að það eru athyglisverðir tímar í alþjóðamálum í Færeyjum um þessar mundir.

Alyson Bailes stýrði fundinum af myndugleik og vakti það nokkra athygli mína að sendiherrar landa eins og Kanada og Rússlands voru mættir til leiks. Norðuratlantshafsmálin voru nú ekki það sem mest bar á í umræðunni en það var alveg ljóst að rússneski fulltrúinn sperrti athyglina þegar kom að þeim málum.

Undir lok fundarins fóru umræður að verða heimspekilegri og upp kom mjög athyglisverð spurning sem mér finnst verulega vert að huga að í allri þessari umræðu um Evrópu framtíðarinnar og ríkjabandalög af ólíku tagi. 

Hvað er í raun sjálfstæði þjóða? 

Er sjálfsforræði meira eða minna í samstarfi milli þjóða? Er sjálfsforræði það sama og sjálfstæði?

Er maður ef til vill sjálfstæðari að taka ýmsar ákvarðanir í bandalagi við aðrar þjóðir en utan þeirra?

Beinta vildi allavega meina að þetta væri ekki alveg ljóst.

Það er því ljóst að við á Íslandi munum þurfa að grufla í þessum spurningum komandi mánuði.

Er það ef til vill svo að ef við höldum okkur utan fullrar aðildar að ESB að við erum ófrjálsari af ýmiskonari ákvarðanatöku en við ella hefðum verið?

Margir myndu ef til vill hrista höfuðið við svona spurningu og telja að þetta væri nú aldeilis að stilla hlutum upp á hvolf.

Kannski er þó sannleiksþráður í því.

Það er allavega áhugavert að velta því fyrir sér. 


Syndaaflausn í sjónvarpi

Flestir fjölmiðlar segja frá sjónvarpsviðtali við Geir H Haarde fyrrum forsætisráðherra Íslands í sænska sjónvarpinu á þá leið að ekki hafi tekist að fá viðmælandann til að taka á sig ábyrgð í útsendingunni. Það er eitthvað hjákátlegt og ankanalegt við þetta. Það er einhver miðaldabragur á þessu.  Er samtími okkar þannig að opinberir aðilar þurfa/eiga samkvæmt "den offentlige mening"/almenningsálitinu að leita synda-aflausnar í sjónvarpinu.

Eru engin takmörk fyrir fjölmiðlagreddunni?

Það er miklu mikilvægara að Geir og aðrir sem að voru ábyrgðaraðilar í upptaktinum að fjármálahruni hér á landi líti í eigin rann og horfist í augu við afleiðingar aðstæðna og ástæður þeirra en að þeir nuddi augun og barmi sér í beinni útsendingu.

Við getum orðið hnarreist þjóð á því að vera sjálfum okkur samkvæm og lifa eftir gullnu reglu lífsins að koma fram við aðra eins og við myndum vilja að aðrir kæmu fram við okkur.

Ekki á því að leita syndaaflausnar í sjónvarpsútsendingum!


mbl.is Hefðu átt að minnka umsvifin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kasínó kapitalismi og trúarhreyfingar viðskiptanna

Susan Strange uppnefndi alþjóðlega fjármálakerfið þessu myndræna nafni - Casino capitalism árið 1986.

Ron Martin sem skrifaði bókina "The economic geography of money" skrifaði:

"The geographical circuits of money and finance are the "wiring" of the socio-economy....along which the "currents" of wealth creation, consumption and economic power are transmitted...money allows for the deferment of payment over time-space that is the essence of credit. Equally, money allows propinquity without the need for proximity in conducting transactions over space. These complex time-space webs of monetary flows and obligations underpin our daily social existence."

Nassim Taleb hittir naglann á höfuðið þegar hann setur tíma-rýmis samdráttinn í samhengi og segir að nú sé hægt að rústa hagkerfi á nóinu með tölvu- og samskiptatækninni einni saman.

Rafrænu tengingar fjármálakerfisins á alþjóðavísu og yfirfærslur í cyberspace eru vírarnir og félagshagfræðin er fólkið sem kemur sér upp ákveðinni skilvirkri hegðun í kerfi þar sem eru ákveðnir hvatar til að græða peninga.

Fjármál eru samkvæmt Peter Dicken (sem skrifaði Global Shift) eitt af mest umdeilanlegu hagrænu atferlunum vegna sögulegra tengsla þeirra við sjálfstæði þjóða. Allt frá því að elstu þjóðríki heims byrjuðu að myndast hefur sköpun fjármagns og drottnun yfir því verið álitið miðlægt fyrir viðurkenningu og afkomu.

 David Harvey hefur sagt að hver kreppa og missir fjármagns beri með sér tilfærslur efnislegs auðs (verðmæta). Þannig séu krepputímar tímar tilfærslna á fjármagni og auði. 

Segja má að Nassib Taleb hafi á réttu að standa þegar hann bendir á að tölvu og samskiptatækni og fjármálaverkfræði saman hafi orðið til þess að enginn hafi skilið kerfið og því hafi getað farið sem fór, en hann ræðst ekki á rætur illgresisins nema að takmörkuðu leyti af því að sá tilbúni væntingaauður sem festi sig í bókhaldi fyrirtækja var bara bóla. Það er því ekki sá bólgni auður sem allur færist um heimsbyggðina landa í milli, svæða í milli, ríkis og fyrirtækja í milli, fólks í milli -heldur töluvert rýrari summa sem allir reyna að kraka aðeins úr.

Auður er skilgreindur mismunandi á mismunandi tímum og gott dæmi um það er dæmisaga Kanadíska blaðamannsins Mark Kurlansky sem skrifaði hina margfrægu bók "Cod". 

Vegna þorsksins hafa stríð verið háð og bylting brotist út. Heilu hagkerfin hafa risið og riðað til falls - allt frá Boston til baska - þorskaðli til þræla, kaþólikkum til konunga, sjómönnum og sælkera.

Svo var þorskinum fyrir að þakka að á átjándu öld hafði Nýja England öðlast sess sem alþjóðlegt viðskiptaveldi í stað þess að vera aðeins fjarlæg nýlenda sem hungrið vofði yfir.

Í Massachussets var þorskurinn ekki lengur bara matur, heldur var hann nánast tilbeðinn. Þorsk-aðallinn var hópur fólks sem átti auð sinn að þakka þorskveiðum allt aftur til 17.aldar og sem dýrkaði fisktegundina mjög opinskátt (á peningum komu þorskar fyrir, húsakynni voru prýdd myndum af honum osfrv.)

Við erum komin svo langt í tækninni og svo mörkuð af kasínó kapitalismanum í samtímanum að við áttum okkur ekki alltaf á að verðmætin sem verið er að sýsla með eru óhaldbær symbólsk kerfi sem þó geta ráðið örlögum fólks, lífi og dauða.

Mér finnst reyndar Nassim Taleb nokkuð glöggur þegar hann líkir fjármálakerfinu og örlögum þess við trúarkerfi þar sem menn misstu sig í ofsatrú.

Skrýtið að eitthvað svo ofur-óhaldbært sé svo haldbært þegar kemur að afdrifum fólks! 

 

 

 

 


mbl.is „Þið settuð Ísland á hausinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband