Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
20.2.2012 | 13:17
Hugleiðingar um fangelsisiðnaðinn (The prison industry complex)
sjá hugleiðingar mínar um ökklabönd og fangelsi hér
3.10.2011 | 12:47
Kvalir við óþægilega ákvarðanatöku
Einhvern tíma sagði mér vís maður eða kona að það væri í manneskjunnar eðli að forðast ákvarðanatöku um óþægileg málefni. Eitt er víst að heimsbyggðin, sem er samtengd í gegnum viðskipti, fjármál, stjórnmál og ýmis tengsl af öðrum toga bregst nú við merkjum, svipað og indiánarnir forðum daga eru sagðir hafa lesið í reykmerki.
Fréttir berast og dreifast um viðbrögð ákveðinna stjórnvalda ákveðins lands og tugþúsundir, hundruðþúsund ef ekki milljónir fólks (á hinum abstrakt markaði) bregðast við og reyna í gríð og erg að selja hlutabréf sín á enn lægra verði en í gær. Þessi hringavitleysa heldur áfram linnulaust á meðan að öll spjót eru á orðum eða líkamstjáningum stjórnmálaelítunnar sem hvorki virðist hafa tök á að takast á við erfiða ákvarðanatöku né vilja það.
Það er athyglisvert að lesa greiningar samtíma spámanna á fjármálum. Til dæmis skrifaði George Soros um mögulegar lausnir til að koma í veg fyrir heimskreppu tvö fyrir nokkrum dögum. Hann telur að nú verði að taka veigamiklar (lesist: óþægilegar) ákvarðanir:
"Three bold steps are needed. First, the governments of the eurozone must agree in principle on a new treaty creating a common treasury for the eurozone. In the meantime, the major banks must be put under European Central Bank direction in return for a temporary guarantee and permanent recapitalisation. The ECB would direct the banks to maintain their credit lines and outstanding loans, while closely monitoring risks taken for their own accounts. Third, the ECB would enable countries such as Italy and Spain to temporarily refinance their debt at a very low cost. These steps would calm the markets and give Europe time to develop a growth strategy, without which the debt problem cannot be solved." (Soros í FT 29.sept.2011)
Allar þessar aðgerðir taka þó í grunninn á einungis einum hlut, að lægja öldur viðbragða á markaði, semsagt stýra reykmekkinum betur. Þessum líka velafmarkaða og skýra geranda (eða hitt þó heldur). Markmiðið er vitlaust sett frá upphafi í nálgun Soros, því miður. Peningahagkerfið, fjármálastofnanir og stjórnvöld eiga að vinna í þágu almennings og umhverfis. Fjármálakerfið á að auka lífsgæði ( sem auðvitað er álitamál í hverju felst og hvað þarf til). Þessi sjálfala markaður er stórhættulegur mannlegu samfélagi af því að hann er uppspuni, vöruvæðing eins og Karl Polanyi skrifaði um árið 1944. Sé markaðurinn óheftur látinn stjórna mannlegu samfélagi er kreppa óumflýjanleg.
Auðvitað má segja að markaðurinn sé samnefnari fyrir viðbrögð fólks sem pælir í viðskiptum (í þessu tilfelli verðmæti hlutabréfa, sem eru bæði hvikul og afar óáþreifanleg stærð). Hafi fólk littla trú á einhverju gengur illa að tala upp verðmæti þessara hvikulu og óáþreifanlegu stærða, hafi fólk miklar væntingar til trúverðugleika þeirra sem tala þær upp, er líklegra að verðmætin hvikulu og óáþreifanlegu (bréfin) haldi verði sínu eða hækki.
Það virðist einhvern veginn vera að þær séu svo óbærilega óþægilegar allar ákvarðanir sem líta burt frá markaði sem drottnara að ekki sé almennilega hægt að takast á við þær um þessar mundir.
Það eitt og sér er athyglisvert.
Það þarf að taka á allt öðrum hlutum að mínu viti. Það er t.d óheilbrigt á hvaða forsendum fyrirtæki í dag starfa sem háð eru hlutabréfaeigendum (sem jafnvel hafa lítið sem ekkert með daglegan gang fyrirtækjanna að gera, eru fyrst og fremst fjármagnseigendur). Þegar hlutabréfaeigendur vita hver er hinn daglegi gangur í starfseminni er meiri tilhneiging til að vanda sig og minni hvati til að búa til bólu/reykmökk. Það er miklu eðlilegra að þeir sem starfa í fyrirtækjunum eigi í þeim og ég vona að þessi hugsun nái fótfestu og breiðist út sem viðbrögð við þeirri huglægu kreppu sem viðskiptalífið stríðir við um þessar mundir.
Hlutabréf lækka mikið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2011 | 08:56
Prumpið úr Michael Jackson
Það er komin út bók um minni sem ber það sérkennilega nafn: Moonwalking with Einstein. Bókin fjallar hreinlega um hvernig mannskepnunni tekst að muna og hún fjallar á opinskáan hátt um að hægt er að þjálfa minnið ótrúlega með því að þjálfa sjónminni og nýta sýnir sem brenna sig í heilabörkinn (úps, ætli sérfræðingar myndu ekki mótmæla þessu, ég er ekki nógu vel að mér til að vita hvar minnisttöðvarnar eru í heilanum).
Ég hef ekki enn lesið þessa bók en hún stendur efst á óskalistanum yfir ólesin verk. Höfundurinn heitir Joshua Foer.
Ég hef oft velt því fyrir mér í kennslu, að með öllum þeim aukahlutum/tækni sem mannskepnan hefur tekið til notkunar sér til hjálpar í námi er mikið af þessum tækjum haldið þeim eiginleikum að mannfólkið hefur meiri tilhneigingu til að útvista minnið, gleyma meira, muna minna sjálf. Um þetta ritaði Nicolas Negroponte áhugaverða bók sem bar heitið Being Digital og ég las einhvern tíma fyrir fimmtán árum síðan.
Hans hugmynd var sú að fólk útvistar minninu með aukinni notkun stafrænnar tækni og það getur verið kostur. Við getum melt meira en munum það ekki.
Ég hef af þessu smá áhyggjur því að þetta þjálfunaratriði. Minnið er mjög vanmetið í skólum samtímans. Það er mikilsvert að muna hlutina. Mér hefur oft verið núið um nasir að vera með límheila, muna allt. Sjálf held ég því fram að heilinn í mér hafi alveg sérstaka gáfu til að safna saman ónærtækum og lítið mikilvægum upplýsingum til að stríða mér. Þannig man ég ólíklegustu og alveg ónýtilegustu hluti, og ég ræð illa við að stjórna þessari náðargáfu eða galla, allt eftir því hvernig á það er litið.
Samkvæmt umfjöllun bókarinnar tunglganga með Einstein var minnið áður fyrr í mun meiri hávegum haft. Sókrates taldi til dæmis ekki sitt eigið verk að skrifa niður eigin vangaveltur og hugmyndir. Hann hélt því fram að hið ritaða orð væri minna um vert en minnið. Á þessum tíma æfðu menn sig í að muna og notuðu til þess ýmis konar tækni og æfingar. Á þeim tíma var slík þjálfun jafn mikilvæg faggrein og stafsetning, lógík (stærðfræði) og retorik (málfarslist).
Athyglisvert er að í þessari bók er því haldið fram að minni hafi lítið með greind að gera, en sálfræðingar samtímans hafa reynt að koma þeirri tálsýn haganlega fyrir í vitund almennings. Hvorki háskólapróf né gáfuleg framkoma eru tengd góðu minni.
Kúnstin felst í að skapa "kreativar" ímyndanir/hugmyndir í höfðinu og staðstetja þessar eftirminnilegu myndir á leiðir í svokölluðum hugmyndahöllum. Á góðri íslensku heitir þetta hugskotssjónir og hugrenningar. Maður býr til myndir í hugrenningum sínum og tengir þær við það sem maður er að læra eða melta til að muna það og svo staðsetur maður það á góðan stað, sem er erfitt að gleyma. Ég veit þetta hljómar pseudo, en aðeins of spennandi til að maður vilji ekki reyna sig við það. Samkvæmt bókinni er tenging við æskuheimili afar árángursrík leið, vilji maður örugglega muna hlutina.
Eitt af minnisverðari dæmum í bókinni er þegar höfundurinn í Bandaríkjameistarakeppninni í minni sér fyrir sér Michael Jackson kúka á hamborgara og prumpa inn í blöðru.
Aðalmálið er að því skrýtnari, skældari og óvenjulegri hugskotssjónirnar og hugrenningatengslin eru við það sem á að læra þess betur munum við. Þetta vissu munkar á miðöldum sem rjóðir í kinnum viðurkenndu að fagurleggjaðar ungmeyjar héldu þeim við efnið:)
Mér finnst þetta áhugavert eins skrýtilega og það hljómar.
Gera má ráð fyrir að siðmenning okkar vanmeti mátt minnisins vegna tæknivæðingar sem hefur útvistað flest allt minnisvert á tölvutækt og rafrænt form. En mun okkar siðmenning ná einhverjum hæðum án innra minnis fólksins? Er líklegt að nýsköpun, brandarar, skilningur og listaverk verði sköpuð af útvistuðu minni í framtíðinni?
Hm. Það er nú það.
26.9.2011 | 13:31
Væringar í evrópskum bönkum - menningin er meinið
Það eru greinilega margir bankastjórar stórra fjármálastofnana að hverfa frá um þessar mundir af einni eða fleiri ástæðu.
Á dögunum vakti athygli mína greining á óförum eins af mikilfenglegustu bankastofnunum Svisslendinga UBS.
Viðskiptablaðið hefur einmitt sent frá sér grein um að þar séu að verða forstjóraskipti.
Ástæða þess er ekki bara að bankinn stendur höllum fótum heldur eru meira en sterkar vísbendingar um að hann hafi verið rændur innanfrá eins og okkur Íslendingum er því miður allt of kunnugt um í tengslum við okkar bankahrun árið 2008.
Bankar sem lenda í slíku og fjölmiðlar virðast hafa á því yndi að draga slíkt gjörninga fram eins og þeir væru verk EINS MANNS. Bankaheimur hefur meira að segja hugtak yfir slíkt fólk og eru það kallað "Rogue Traders".
Í þessu tilfelli heitir maðurinn Kweku Adoboli en hann þótti djarfur og hugvitssamur starfsmaður bankans en olli tveggja milljarða evra tapi vegna gjaldeyrisviðskipta. Áður hafði bankinn þó sett sjálfan sig nær á hliðina vegna glæfrarlegs framgangs í undirmálslánakapphlaupinu sem heltók bankamenninguna um árabil.
Það sem hristir Evrópskt og Svissneskt fjármálalíf er að á þriðja ári eftir upphaf fjármálakreppu sem sendi vestræna heimsbyggð á barm gjaldþrots er að skandalar sem upp eru að koma NÚ sýna að stórbankar eins og UBS eða fjárfestingarbankarnir í Evrópu hafa ekkert lært. Innan þeirra er stofnanamenning sem vinnur gegn stöðugleika fjármálakerfisins.
Uppákomurnar sem flett er ofan af sýna svo ekki verður um villst að fjárhættuspilamenning er (enn) viðloðandi fjárfestingabanka um alla Evrópu. Þó að UBS muni sennilega lifa tapið af sem Adoboli olli er næsta víst að þó bankarnir vilji láta svona óheppileg viðskipti líta útfryrir að þau séu framin af ákveðnu fólki innan þeirra vébanda sem missti sig - þá er hæpið að horfa fram hjá stjórn bankanna og menningunni sem bankarnir innræta sínu starfsfólki.
Þannig skrifar Per Hansen professor við viðskiptaháskólans í Kaupmannahöfn að stofnanamenning fjárfestingarbanka sé ALMENNT vandamál. það er ekki bara áskorun fyrir stjórn bankanna en einnig fyrir fjármálaeftirlit landa um heim allan.
Eitt af þeim málum bankaheims sem hafa hneykslað undanfarin ár var hneykslið í stórbankanum Sociéte Génerale en þar var bankamaðurinn Jerome Kerviel uppvís að hafa kostað bankann yfir 36 milljarða evra tap í fjárglæfraviðskiptum (speculation trade). Sökudólgurinn hefur reyndar bent á að hann hafi einungis spilað með í þeirri stofnanamenningu sem hampað var í bankanum.
Þetta er umhugsunarvert, athyglisvert svo ekki sé meira sagt.
Ein af niðurstöðum rannsóknarskýrslu sem UBS lét gera, var að á tímum fjármálabóla freistast margir til að horfa fram hjá hefðbundnum reglum um góð bankaviðskipti. Gildismatið og viðmiðin sem liggja til grundvallar góðri bankastarfsemi geta þannig runnið til og breyst. Vinningsmiðaða og einstaklingsmiðaða menning fjárfestingarbankanna hampaði sérstaklega áhættusömu atferli. Bankinn reiddi sig nær alfarið á stærðfræðilega líkanagerð í mati og niðurstöður einkunnagjafarfyrirtækjanna (!!! voðalega hljómar þetta allt saman kunnuglega!). Menningarvandamálið er semsagt víðtækara en að það nái einangrað til þessara glæfralegu einstaklinga sem brennimerktir eru "Rogue Traders".
Hansen tekur dæmi af atburði sem átti sér stað árið 2004 í Londondeild Citibankans en þar höfðu starfsmenn leikið sér að því að græða 24 milljónir dollara á hálftíma með því að selja evrópsk ríkisskuldabréf (á meðan að enn var eftirspurn eftir þeim) og kaupa síðan aftur á þrefalt lægra verði. Þetta var útmálað sem afrek þó auðveldlega hefði verið hægt að sjá að verið var markvisst að "dömpa" skuldabréfunum. Slíkt þykir allajafna ekki góð latína hjá heiðvirðari bankastofnunum en þarna höfðu aðrar leikreglur öðlast viðurkenningu og þóttu jafnvel kúl meðal strákanna.
Stærsti hluti fjárfestingarbanka inniheldur svona menningu, hrægammamenningu. Til að hægt sé að stemma stigu við fleiri kreppum af þeim toga sem sopið er seyðið af nú og í náinni framtíð þarf að verða uppgjör í fjármálastofnanamenningu vesturlanda. Þjóðarleiðtogarnir virðast ekki alltaf vera að átta sig á því.
Árið 1987 var framleidd geysivinsæl kvikmynd um Wall Street þar sem aðalpersóna leikverksins hét Gordon Gekko. Gekki þessi átti slagorðið "Greed is Good". Nokkrum árum síðar voru drengir bankaheims um víða veröld búnir að gera þau að sínum. Gildismatið var einnig orðið ámóta. Þeir upplifðu sig sem herra alheimsins.
Hansen rekur upphaf gildismats skriðsins/breytinga til Bretlands á níunda áratugnum þegar að aukið frelsi bankastofnanna leiddi til aukinnar samkeppni, samruna og yfirtaka. Þannig voru heiðvirðar bankastofnanir með fleiri hundrað ára sögu og hefð undir í nýrri menningu sjálfmiðaðra, aggressívra og gróðamiðaðra manna sem voru drifnir af mótivinu að ná inn bónusum. Þeir hröktu þannig aðra strákamenningu frá sem byggðist á "old boys" tengslaneti sem tengdist gegnum menntastofnanir, nám og stéttvísi. Barings bank átti sér 233 ára sögu þegar að menningarumskipti leiddu á endanum til þess að einn hinna nýju menningarbera bankans, Nick Leeson varð uppvís að og ásakaður fyrir ólöglega gjörninga tengdum bókhald bankans og eiginfjárstöðu.
Þegar öllu er á botninn hvolft fjalla umskipti og breytingar í fjármálakerfinu um meira en einstaklinga og fráfarandi og komandi bankastjóra. Það var uppsafnað atferli heils menningarkerfis sem leiddi til þráhyggju á endalaust hækkandi hlutabréfamarkaðsvísitölur og ofurflóknar nýskapanir í fjármálaafurðum (t.d afleiður og undirmálslán). Þessi uppsöfnuðu atferli bankamannamenningarinnar leiddu til djúpstæðustu fjármálakreppu heimsins síðan 1930.
(tilvitnanir og teksti þýddur að hluta úr grein Per H. Hansen - Kasinokultur sem birtist í Weekendavisen, 23.September 2011).
Seðlabankastjóri ESB kærður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.8.2011 | 14:57
Markaður er samnefnari fyrir fólk
Hugtakið markaður er abstraktion en þýðir í raun uppsöfnuð og samanlögð viðbrögð fólks (sem innan markaðar geta verið á ólíka vegu vissulega) en summan af ólíkum aðgerðum hefur einhverja tilhneigingu í för með sér sem er sterkari en samanlögð viðbrögð annars fólks á markaði sem bregst öðruvísi við.
Mikið er þetta annars eitthvað aumkunarvert að horfa á og lesa um. Það hlýtur að vera hægt að gera góða sinfóníu úr hávaðanum, lægðunum og hæðunum sem fylgja svona viðburðum. Þetta er í raun ópera.
Fall á mörkuðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ég hef því miður tilhneigingu til að vera sammála Brown hvað þetta varðar. Það hefur ekki verið tekist á við rót vandans að neinu marki enn sem komið er. Mikið hefði verið gaman ef stjórnmálamenn samtímans í Evrópu hefðu verið skarpari. Ég ætla þó ekki að vanmeta hvaða þrýstingi þeir hafa verið undir frá mismunandi hagsmunaöflum og þá kannski sérstaklega sífellt ríkari og spilltari fjármálastétt. Vandi samtímans í efnahagsmálum hvar á landi sem borið er niður ef frá er talið Þýskaland er sífellt aukinn aðstöðu- og afkomumunur fólks. Gjáin milli ríkra og fátækra hefur stækkað. Það þarf að herða að bönkunum og svipta fjármálastofnunum því óheilbrigða frelsi sem þeim var veitt þegar að þeir gátu farið að sinna pappírsbrellum eins og afleiðuviðskiptum að vild í stað þess að ávaxta fjármagn á heilbrigðan hátt með inneignum og alvöru þjónustu við fólk. Tilhögun og óheft frelsi bankanna og fjármálakerfisins til spákaupmennsku er ein rót vandans einnig. Enginn hefur enn sett á skatta á fjármagnsflutninga (Tobin tax), enginn hefur enn sem komið er stuðlað að uppbyggingu "true cost economy" þar sem externalities eru tekin inn í dæmið. Yfirborðslausnir ná skammt þegar kemur að því að taka til í efnahagskerfinu.
Hinsvegar ætla ég að leyfa mér að vera bjartsýn á að þeir þjóðarleiðtogar og "visionaries" sem í framtíðinni munu taka til muni skapa ný tækifæri fyrir þjóðir sínar. Þó að núverandi leiðtogar séu ófærir um að takast á við vandann hefur mannkynið ekki enn hætt að eiga börn sem jú vaxa úr grasi.
Orð hafa áhrif og þegar að sagt er að einhver hafi misst af tækifæri er verið að gera að því skóna að sá hinn sami hafi tapað, misst af lestinni, hafi orðið undir og ekki verði aftur snúið. En er það í raun þannig - kannski þarf Gordon Brown að endurnýja trú sína á ungt fólk sem hefur heilbrigða sýn á málin.
Evru-ríkin misstu af tækifæri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.8.2011 | 13:30
Langvinn efnahagskreppa óumflýjanleg
Margt bendir nú til þess að alþjóðafjármálakerfið þurfi endurskoðunar við þó bæði stjórnmálamenn og fjármálasérfræðingar hafi þráast við að horfast í augu við þá staðreynd. Það er margt í þessu.
Í fyrsta lagi er fréttamennska af áhrifum skuldasöfnunar og lausafjárkreppu í Evrópu og Bandaríkjunum mörkuð af orðræðu fjármálaspekinganna úr fjármálastofnunum sem óneitanlega eiga verulegra hagsmuna að gæta. Þeir sem sáu mynd Michael Moore, Capitalism - A love story geta kinkað kolli yfir því nú að sjá hvernig að forsvarsmenn bankastofnanna eru skipulega sendir út í miðla með skilaboð um nær heimsendi í fjármálakerfinu til að beita stjórnmálaleg öfl þrýstingi svo þau gangi í ábyrgðir fyrir heimskulega hegðun fjármagnseigenda í bönkunum. Sem í raun þýðir að ríkið setur út öryggisnet fyrir fall fjármálstofnana en skattborgararnir taka yfir lengri tíma skellinn.
Þannig er þjarmað að almennum launþega á meðan að forsvarsmenn fjármálastofnana geta haldið áfram að lifa í afneitun og endurtaka sömu mistök á mistök ofan. Semsagt ekki skynsamleg viðbrögð við kreppu. Ástandið hérí Danmörku er eins og heima - greiningar frá bönkum eru birtar gagnrýnislaust eins og um hlutlaust þekkingargrundvallað mat væri að ræða. Það er mikil afturför hér því áður fyrr voru Danir mun krítískari og analytiskari á samfélagsmálefni sem þessi. Íslendingar hafa hinsvegar ekki verið þekktir fyrir að vera miklir samfélagsrýnar hvað þetta varðar fyrr en uppgjörið í rannsóknarskýrslunni birtist.
Margir Danir eru enn minnugir kartöflukúrsins svokallaða á tíunda áratug síðustu aldar. Það gæti hjálpað þeim að bregðast betur við. Í viðtali danska sjónvarpsins í gær við almenna borgara úti á götu kom fram að mörg hjón/margar fjölskyldur leggja nú fyrir í stað þess að neyta og eyða svo þau hafi þanþol missi annar aðilinn vinnuna. Ég finn einnig hér á mínum tímabundna vinnustað að vinnuöryggi starfsmanna í stjórnsýslu hefur minnkað verulega. Á mánudag eru áætlaðir fundir þar sem þarf að taka blóðugar ákvarðanir um hversu marga þarf að reka á næsta ári og hversu marga árið 2013. Yfirmenn eiga síðan að mæta upp í ráðuneyti 10 september næstkomandi til að gefa skýrslu um þær ákvarðanir. Engar undanþágur frá sparnaðarkröfum verða veittar. Þannig að veruleiki hins vinnandi manns hér hefur snarlega breyst frá því framtíðarspár um vinnumarkað í Danmörku voru gerðar fyrir örfáum árum. Þá leit allt út fyrir að með færri á vinnufærum aldri miðað við eftirlaunaþega yrði hér meiri eftirspurn eftir vinnuafli en framboð.
Hinsvegar hefur mannauðurinn eitthvað rýrnað innan vébanda danska ríkisútvarpsins þar eð fréttakona fréttatímans þráskallast við, spyr ógáfulegra spurninga eins og tilhögun hagkerfisins hingað til verði að vera lögmál til eilífðar.
Hún er t.d að spyrja alla mögulega sérfræðinga um hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að hagkerfið hægi á sér, að framleiðslan minnki ekki að vexti, að einkaneyslan minnki ekki. Semsagt ógáfulegar spurningar leiða yfirleitt til heimskulegra svara.
Þetta minnir á manneskju sem er að átta sig á að manían er að fara að brá af henni og í stað þess að leita skynsamlegra leiða til að koma í veg fyrir að detta ofan í mjög viðvarandi þunglyndi, spyr hún hver eigi kókaín svo hún geti viðhaldið ástandinu um sinn.
Satt best að segja finnst mér Helle Thorning Smith sem talin er verða næsti forsætisráðherra eftir kosningar, ekki hafa neitt verulega markvert að segja. Hún talar um að það þurfi að blása í glæður opinberrar eftirspurnar og skapa þannig eftirspurn og hagvöxt í framleiðslugreinum. Það er auðvitað klassískt svar við kreppu skvt. Keynes en vart raunhæft nema í takmörkuðu mæli, miðað við yfirvofandi efnahagsástand. Danskar bankastofnanir veittu heimskuleg lán til húskaupenda á bóluárunum sem nú súpa seyðið af að húseignir þeirra eru minna virði en lánin sem þeir eru að borga af, ekki ósvipað Íslendingum. Þeir veittu svokölluð flex-lán sem gerði fólki (og kannski sérstaklega þeim sem eru ekki alveg skynsamastir í einkafjármálum) að fresta afborgunum í einhver ár. Þetta þýðir að skuldasöfnun almennings er veruleg.Enda eru tugir þúsundir húseigna hér til sölu. Það þarf því ekki að undra að fólk haldi að sér höndum í neyslu nútildags. Það er miklu skynsamlegra en hitt.
Ég gekk á markað í gær, Roskilde kræmmermarked, sem er haldin árlega og þekur allt svæðið sem Hróarskeldu tónlistarhátíðin er haldin á einnig árlega. Þarna koma saman þúsundir manna að skoða dót sem er til sölu. Áður fyrr gat maður gert góð kaup á gömlum munum sem fengu hlutverk hjá nýjum eigendum, semsagt þarna var mikil flóamarkaðsstemning. Upplifunin nú var nokkuð önnur en fyrir áratug þegar ég gekk um og gerði reifarakaup á gömlum kaffibollum sem ég ylja mér enn við heima. Nú gat á að líta allt annars konar samsetningu sölutjalda. Ekki það að það væri nóg af dóti til sölu, flest var fjöldaframleitt dót, drasl sem leit útfyrir að glitra í pakningunum en fer örugglega fljótlega í sundur. Semsagt drasl eða djönk eins og einhver myndi segja. OG NÓG AF ÞVÍ. Margir gesta sem þarna gengu um, ungir sem aldnir sýnilega ofaldir
Þetta fékk mig til að spyrja hvernig hagkerfi vill fólk búa við. Vill fólk geta eytt og neytt eins og enginn væri morgundagurinn ef það bara fær eitthvað drasl sem það getur umlukið sig með - eða er skynsamlegra að hugsa sér að maður geti lifað við þrengri kost en lifað vel og stuðlað að innihaldsríku lífi?
Hvaða sýn hafa ákvarðanatökuaðilar í samfélaginu á hið góða líf? Hvernig vilja þeir stuðla að því að skapa borgurunum þannig aðstæður, svo þeir geti lifað hóflega en ágætlega.
Mér finnst það persónulega áhugaverðara að fá þau svör frá þeim, fremur en klisjukennt babl um hvernig eigi að koma í veg fyrir að efnahagskreppan ríði yfir heima hjá þeim.
Fimm ár af sársauka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.5.2011 | 08:18
Óvönduð blaðamennska Mbl.is
Það er gaman að heyra um sköpunargáfu Íslendinga sem brýst út í framleiðslugleði og alveg óhætt að styðja góð verk hvort sem þau koma úr ranni kvenna eða karla. Guðbjartur Hannesson afhenti styrki til 42. verkefna kvenna sem höfðu af hugviti sínu komið nýjum afurðum og þjónustu á framfæri í Sjóminjasafninu.
Hinsvegar er verra þegar blaðamenn sem um málefni fjalla og flytja almenningi fréttir gleyma að vanda sig og eru þáttakendur í sögufölsun. Að baki liggur annað hvort vinnuþrælkun á lélegum launum þannig að starfsmenn eru hreinlega undir of miklu álagi. Eins gæti metnaðarleysi eða vöntun á aga verið málið.
Það vakti athygli mína að sjá mynd við greinina af ungum stúlkum drekkandi úr pappa- eða plastglösum fyrir framan kynningarborð Sláturfélags Suðurlands, sem greinilega var að koma birkireyktu hangikjöti á framfæri í Smáralindinni.
Myndatextinn hljóðaði svo: Bragðað á íslensku nýsköpuðu góðgæti.
Er verið að gera grín að okkur eða finnst blaðafólki Morgunblaðsvefjarins að það geti borið á borð hvaða þvælu sem er fyrir lesendur. Í fyrsta lagi er hangikjöt ekki nein nýsköpun í íslensku samfélagi, hugsanlega í dönsku, bresku eða á öðrum erlendum vettvangi þar sem reyndar Íslendingar hafa ekki enn haft hugvit til að markaðssetja sínar vörur af því taginu enn. Í öðru lagi er myndefnið sótt úr allt öðru samhengi sem hefur afar lítið með fréttina að gera.
Nú þegar Osama Bin Laden er fallinn og Vesturheimur fagnar því að Grýla samtímans hafi verið dregin til dauða. Nú þegar að Miðausturlönd loga í uppreisnum sem vonandi færa samfélög þeirra inn í giftusamari tímabil upplýsingarinnar - eru Vesturlönd á hraðleið inn í forheimskun, hégóma og ofstæki.
Bon appetit!
30 milljónir í nýsköpun kvenna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2011 | 21:30
Vatn á myllu ESB paranoiufólks
Ákveðið að hætta við að álykta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.2.2011 | 16:41
Ályktun um strætó
Haldinn var opin fundur Samtaka um billausan lífstíl um niðurskurð á þjónustu Strætó í Útgerðinni þann 26. janúar 2011 kl. 20:00.
Ályktun strætóhóps Samtaka um bíllausan lífsstíl vegna fyrirhugaðs niðurskurðar á þjónustu Strætó.
Mótmælt er fyrirhugaðri skerðingu á þjónustu Strætó með styttingu aksturstíma á kvöldin og um helgar. Á tímum samdráttar þegar einkabílum fækkar er mikilvægt að bjóða upp á nothæfan valkost í samgöngum með Strætó. Þótt að skerðing þjónustunnar valdi væntanlega minnstum skaða þegar minnst eftirspurn er eftir henni minnkar hún möguleika Strætó til að vera þessi valkostur.
Lýst er yfir skilningi á hækkun á verði þjónustu Strætó. Strætó er mjög ódýr valkostur fyrir fasta notendur í samanburði við kostnað við bílaeign og í samanburði við verð á þjónustu almenningssamgangna á Norðurlöndum.
Leggja þarf áherslu á að viðhalda þjónustu á öllum tímum dags, þ.m.t. á kvöldin og um helgar til að tryggja hlutverk strætó sem grunnþjónustu fyrir alla. Þjónustutími strætó þarf að vera frá um 6:30 á morgnanna til um 24:00 á kvöldin virka daga en frá um 8:00 til 24:00 um helgar.
Kanna þarf raunsparnað niðurskurðaraðgerðanna fyrir sveitarfélögin, ríkið, fyrirtækin og almenning.
Framtíðarsýn um strætó í almannaþjónustu
Mælt er með því að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, ríkið og Vegagerðin setji sér sameiginlega stefnu um þjónustu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og við nágrannabyggðir. Í þeirri stefnu ætti að felast eftirfarandi:
l Strætó verði besti kosturinn til samgangna á svæðinu hvað varðar ferðatíma og kostnað.
l Markmið verði sett um meðalhraða og aksturstíma vagna. Til þess þarf m.a. að fjölga forgangsakreinum fyrir strætó. Einnig að færa vegi að þörfum strætó og fækka eða breyta hraðahindrunum.
l Markmið verði sett um fjarlægð heimilis frá biðstöðvum.
l Markmið verði sett um fjarlægð biðstöðva frá helstu vinnustöðum. Sú fjarlægð verði skemmri en fjarlægð frá bílastæði vinnustaðar.
l Stefnt verði að upptöku samgöngusamninga á helstu vinnustöðum og verði skattlagning jafngild á greiðslum skv. samgöngusamningum og á bílastæðum.
l Markmið verði sett um þjónustu á skiptistöðvum og biðstöðvum.
l Stefnt verði að bættri þjónustu og aukinni tíðni vagna sérstaklega á annatíma.
l Stefnt verði að bættri þjónustu á norður suður ás um Reykjanesbraut.
l Stefnt verði að stækkun þjónustusvæðis strætó að Borgarnesi á Vesturlandi og til sveitarfélaga á Suðurnesjum og flugstöðvarinnar í Keflavík. Í því sambandi kemur til greina að hafa endastöðvar almenningsvagna sem ríkið styrkir til samgangna á landsbyggðinni í Borgarnesi og á Selfossi.
l Í skipulagsmálum verði umferð almenningsvagna sett í forgang og tryggður aðgangur vagna að helstu þjónustukjörnum og miðstöðvum. Ótækt er að láta fólk ganga 500 m um bilastæðaflæmi þar sem ekki er gert ráð fyrir gangandi fólki eins og víða er regla í skipulagi við stærstu vinnu- og verslunarstaði.
l Bætt verði sölukerfi miða og korta. Til dæmis settir upp sjálfsalar þar sem margir koma í íþróttamiðstöðvum, skólum og verslunarkjörnum.
l Sveitarfélög á þjónustusvæði strætó aðlagi skólahald í fyrsta tíma á morgnanna og í leikfimi, sundi og öðru skólahaldi að þjónustu strætó. Á móti kemur Strætó til móts við þarfir skóla eins og hægt er. Á móti má minnka notkun á sérstökum skólaakstri og spara með því að reka aðeins eitt almenningssamgöngukerfi.
l Skoða þarf misræmi í skattlagningu hins opinbera á almenningssamgöngum í þéttbýli og dreifbýli og haga skattlagningu þannig að rekstur á umhverfisvænum vögnum eins og metan vögnum verði hagstæður.
Strætóhópur Samtaka um bíllausan lífsstíl
Anna Karlsdóttir
Claudia Overesch
Árni Davíðsson
Magnús Jensson
Um 85% ánægðir með þjónustu Strætó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |