Kínverjar hrista upp í heiminum

Upprisa hungraðrar þjóðar (China shakes the world - The rise of a hungry nation) er bók eftir James Kynge sem skrifar alveg hreint frábæra bók um það kínverska fólk og staði sem móta umbreytingar fjölmennustu þjóðar heims síðustu árin. Við erum að rýna í hana í námskeiði í hagrænni landafræði og ég get sagt svo mikið sem, að hún er alveg kyngimögnuð - ef fólk er á annað borð áhugasamt um samfélagskrufningu í samtímabókmenntum. Efnið er ekki tekið fræðilegum tökum, en atburðir og efnahagsævintýri eru tengd vel saman með frásögnum af lífssögum (oft ótrúlegum). Kína hristir upp í heiminum er skrifuð af manni sem að hefur mikla þekkingu á kínverskri menningu. Hann er Breti sem menntaður er að hluta í Kína og hefur gegnt starfi aðalfréttaritara Financial Times um árabil fyrir svæðið.

Hér er smá tilvitnun

"It has all happened so suddenly. Only a few years ago China loomed for most of us, as a large but far-off presence. Now it affects almost everything. The competition for our jobs, the prospects for our economies, the things we buy, the  vanishing Amazon rainforest, the price of oil, the balance of global power and many of the other trends that are remaking our world are, in some ways made in China."

Ég mæli með henni, engin spurning.


Lífið í Háskólanum

If you have no point, use power point.

Ég var stödd í kennslu í morgun þegar einn nemandi benti mér á að þær glærur sem ég hafði sett á vefsvæði námskeiðsins væru ekki alveg í takt við bókina. Sú sem um ræðir er áhugasamur nemandi og enginn lasarus. Mér brá talsvert við þetta þar eð ég hef orðið vör við að nemendur og við kennarar erum að verða allt of fókuseruð á glærurnar og sjóvið frekar en innihaldið og kjarnann. Tæknin hjálpar og tæknin flekar. Þetta er kólumbusaregg kennslunar í dag.

Nemendur eru engir asnar og þegar við fórum að ræða um mikilvægi þess að lesa bækurnar að nota ímyndunaraflið og að nema af áhuga en ekki formgerðri skyldu, áttuðu þau sig strax. En engu að síður er þessi tilhneiging ansi sterk. Að ökonomisera með námið og einingarnar (af því að lánasjóðurinn andar köldu í bakið á nemendum), að komast sem auðveldast og heiladauðast í gegnum önnina.

Sem betur fer er fullt af nemendum sem ekki hafa misst heilbrigða skynsemi og sem eru orðin nokkuð góð að greina kjarnann frá hisminu. En það er jú einmitt það sem er kannski mikilvægasta veganestið úr námi. Eða er það ekki?


Alveg fyrirtaks sumardrykkir

Þegar ég var stödd í vinnustofu Magga kunningja míns í gærkvöldi  mallaði hann fyrir mig einfaldan sumardrykk, sem ég mæli með.  Hann kreisti safa úr stórri engiferrót og blandaði við sódavatn. Þessi drykkur er hressandi sumardrykkur, og svo hlýtur hann að vera meinhollur. Engifer er bæði bakteríudrepandi, og gott fyrir fólk með magaverk, hvort sem það er af völdum streitu eða samgönguveiki (bílveiki eða sjóveiki).  Ég mæli líka með að pressa safa úr melónu og myntu - það er alveg óhemju hressandi sumarsafi.

 


Lífið á Austurlandi

Beitningakonur á Stöðvarfirði
Ég var í síðustu viku í felti á Austurlandi. Ég byrjaði á Djúpavogi og færði mig norður eftir fjörðum til Seyðisfjarðar. Ég var að taka viðtöl við konur í sjávarútvegi. Það er áhugavert að átta sig á þeim breytingum sem að miklar framkvæmdir á einu sviði hafa fyrir önnur. Nú hafa Austfirðingar ekki farið varhluta af breytingum í sjávarútvegi. Fyrirtæki sem hafa starfstöðvar á fleiri stöðum, en eiga engra fjölskyldutengdra hagsmuna að gæta, bera sjaldnast staðbundna hagsmuni íbúa fyrir brjósti þegar viðskiptalegar ákvarðanir eru teknar. ÚA lokaði á Seyðisfirði, svo þurfti áfallahjálp fyrir bæjarbúa, engar útskýringar nema loðnar gefnar íbúum og stærsti vinnustaður bæjarins lagður í rúst. Samherji lokaði í janúar í ár á Stöðvarfirði og þar er nú ein lítil vinnsla eftir með sex starfsmönnum. Þessar tvær flottu beitningakonur á Stöðvarfirði eru úr fyrrum starfsliði samherja - þær eiga ekki möguleika á að fá önnur láglaunastörf, tengd nýju framkvæmdunum vegna þess að þær eru háðar að geta hlaupið frá ef eitthvað kemur upp á heima við. Börnin!..En þær bjarga sér. Þær beita. Vaktavinna í álveri gefur ekki tilefni til sveigjanleika af þessu tagi. En því miður er að litlu að hverfa á Stöðvarfirði eins og er.

Það er erfitt að djóka með Jóga!

f_my_pictures_joga.jpg

Jóga er allra meina bót. Ég reyni að fara í hádegisjóga þrisvar í viku. Það er alveg yndislegt að ná tengslum við líkamann, ásamt því að teygja alla vöðva rækilega. Ég er ein af þessum sem að fæ reglulega sinadrátt, vakna á nóttunni meira að segja. Svo eru það öndunaræfingarnar sem að hjálpa manni verulega til að komast í tengsl við eigin líðan, og fá mann til að slaka. Það er frábært að fara í leikfimi til að hlaða batteríin. Sú sem kennir okkur í augnablikinu heitir Sólveig og er alveg yndisleg. Hún sendi okkur heim um daginn með upplýsingablað um om, en það er eitthvað sem við gerum í upphafi og enda hvers tíma, þetta er svona búkhljóðaraul, mæli líka með því.

Mér sýnist vera fjölgun á karlmönnum í tímunum, en yfirleitt er hlutfall kynjanna nokkuð svipað. Ég get mér til um að mikið af þessu fólki sé skrifstofulið að drepast úr vöðvabólgu og í andnauðum af streitu og andlegu álagi. Það er einmitt það sem er hið æðislega við jógaiðkun, að komist maður upp á lagið með hana, getur maður tappað streituna af sér, og losnað við vöðvabólguna. Það gerði ég að minnsta kosti. Lifi Jógaiðkun!


Skemmtiskipa vertíðin

Forsíða á kynningarbæklingi

 Ég viðurkenni það, ég er algjörlega forfallin fag-idiot þegar kemur að skemmtiskipum. Í dag lögðu tvö skip að höfn hér í Reykjavík. Annað þeirra heitir Astor og hefur margsinnis áður komið til Íslands en hitt sem heitir Arielle var að koma í fyrsta sinn. Bæði skipin sigla áfram til Akureyrar í kvöld og verða komin þangað í bítið. Bæði skipin eru stútfull af þjóðverjum. Í hádeginu skellti ég mér í göngutúr að miðbakkanum til að skoða Astor og ætla með kvöldinu að kíkja á Skarfabakka (nýja bryggju sem faxaflóahafnir voru að vígja í sundahöfn) til að athuga hversu margir farþegar eru með Arielle.  Með Astor voru um 531 farþegi (en svefnpláss er fyrir um 590). Þetta er svona venjuleg nýtingarprósenta, sýnist mér.

Það er svolítið um að þjóðverjarnir séu farnir að taka með sér reiðhjól á skipin, þeir geta því tekið fákinn með í land og virt land og þjóð fyrir sér. Mér finnst þetta alveg fyrirmyndar hugmynd, og vona bara að Íslendingarnir taki eftir þessari nýju flóru ferðamanna.

Það má segja að skemmtiskipin kryddi bæjarmyndina að sumrinu. Það er auðvitað óvenju mikið af gangandi vegfarendum á sumrin um miðborgina og þorrinn eru ferðamenn af einhverju tagi. Þó að langstærsti hluti farþeganna hópi sér á skipulagðar útsýnisferðir um nágrenni Reykjavíkur, þá er alltaf slæðingur sem velur að rölta um bæinn og taka það rólega á meðan skipið liggur að.

Mér sýndust þjóðverjarnir veru afar vingjarnlegir, og ég hef sjaldan hitt úttaugaða ferðamenn á svona skipum. Ætli þetta ferðaform sé ekki bara meira afslappandi en flugferðir (það er að segja ef ekki verður of vont í sjóinn). .....Akrafjall og skarðsheiði, eins og fjólubláir draumar, ekkert er fegurra en vorkvöld í Reykjavík.

 


Fleiri myndir

Vangaveltur um að skrá líf sitt í beinni

Lundinn í flatey

Ég hef lengi velt því fyrir mér að prófa að blogga. Ég hef reyndar oft haft fordóma fyrir þessu miðlunarformi, hefur fundist það full linsoðið og lítið um stóra þanka sem leita á bloggsíðurnar. Oft á tíðum fær maður þó einhvers konar innsýn í daglegt líf fólks hversu óspennandi eða spennandi sem það er eða önnur andans eða efnisins málefni.

Ég á reyndar erfitt með að þola þá sem alltaf eru að fara að baka eða setja í þvottavél..en ætli það sé ekki bara hluti af þessu gráa. Það er kannski einmitt það sem er spennandi við bloggið að allskyns fólk festir hugsanir og daglega hluti niður á blað (þó rafrænt sé), sem annars ekki hefðu gert það. Styrkur bloggsins felst einnig í skilvirkum skoðanaskiptum..

 Ég ætla að gera félagslega tilraun á sjálfri mér og byrja að blogga um allt og ekkert, heimspekileg málefni, pólitísk málefni og alla þá frábæru eiginleika sem ég er búin .-)

Rise and Shine !


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband