Færsluflokkur: Menning og listir

Holdafar, matarmenning og ofát

Ég er búin að skemmta mér yfir greininni "Reading American Fat in France: Obesity and Food Culture" en hún birtist í nýjasta tölublaði samtakanna European Association for American Studies.

Skilgreining höfunda bókarinnar "Food Wars" á matarmenningu er sú að hún sé byggingarverk félagslega framleiddra gilda, viðhorfa, tengsla, bragðs og matarhefða sem birtast í matnum. Matarmenningu er líkt við regluverk sem stýri eðli og tengslum neytandans við mat.

Í franskri matarmenningu hefur því gjarnan verið haldið fram að áhersla sé á að viðhalda aga njótandans og vernda neytandann frá neikvæðum áhrifum ofáts. Þannig þykir agalega niðurlægjandi að detta í það í Frakklandi og verða of matargræðgislegur. Ameríkanar hafa á hinn bóginn dottið í það svo um munar. Þeir þurfa að leggja á sig að rifja upp tímann fyrir 1970 til að minnast tíma þar sem þeir og samborgarar þeirra voru ekki sífellt og endalaust að rífa í sig einhvern bita (snack).

Annað sem aðgreinir þá verulega er þekking og þjálfun í eldhúsinu; kunnátta í matargerð. Á meðan að Frakkinn gæti nefnt nokkra vel þekkta þjóðarrétti eins og cassoulet eða bæuf bourguignon myndi Ameríkaninn vísast detta fyrst í hug pizza, hamborgari eða tacos.

Þessi fötlun ameríkanana er víst ekki einungis félagsleg (fimm kíló af frönskum kosta minna en eplapoki), heldur einnig vegna fyrrnefndra tengsla við matinn. Eldamennska hefur þróast út í að vera frístundaiðkun sem fer fram um helgar eða á frídögum, fremur en endurtekin rútína eða lífstíll eins og að þvo af sér.

Mönnum hefur í gegnum tíðina verið holdafar hugleikið, bæði í Ameríku og Frakklandi. Þannig hafa síðustu tvær aldir verið matarspekingar sem að skrifuðu um ýmiskonar hvata og aðferðir til að halda í við kílóin.

Í bók sinni "Physiologie du Gout" frá byrjun nítjándu aldar talaði einn af gömlu eldhúsfeðrum Frakka, Brillat-Savarin um að þorri kvenna helgaði líf sitt baráttunni við að halda sér í réttum skömmtum (lesist holdum) - hvorki of mikið né of lítið. Um 1804 gaf franski læknirinn P.J Marie de Saint-Ursin út bókina "L'Ami des Femmes" tileinkaða Madame Bonaparte. Þar varaði læknirinn konur við að spikast, því það gæti bæði leitt til afmyndunar og leiða. Undir lok aldarinnar kom síðan út bókin "Lecons de Coquetterie et d'Hygiene Pratique" þar sem höfundurinn Mme de Gery, hélt staðfastlega fram að ofát væri ein af verstu fötlunum sem konur gætu orðið fyrir vegna þess að það rændi þeim sjarmanum.

Læsi maður þetta með kynjagleraugum er augljóst að ekki giltu sömu lífsreglur fyrir konur og menn. Hinsvegar var talsvert predikað  fyrir karlmönnum og varað við ofáti en með nokkuð öðrum formerkjum. Tengsl heilsu, t.d getuleysis og ofáts, ófrjósemi og ofáts voru varnaðarræðan til þeirra. Árið 1904 gaf Dr.Monin út rit sem hét Secrets de Santé et de Beauté þar sem hann færði fyrir því rök að heldri stétt Frakklands væri í hættu að útrýma sjálfri sér vegna ofáts og það sem verra var, að varða leiðina fyrir verkamannastéttina til valda. Ekki gott það! Læknirinn hafði áhyggjur af áunninni sýkursýki og öðrum áunnum meinsemdum sem Frakkar væru að koma sér upp.

Eins og sjá má hefur því verið skipulögð áróðurstarfsemi í Frakklandi um að innræta hófsemi í mat. Bæði sprottin af fagurfræðilegum vangaveltum (á við um konur) og heilsufarstengdum áhyggjuefnum (á við um menn).

Í Ameríku hafa megrunarkúrar verið vinsælir eftir að landinn hóf að rífa í sig mat í tíma og ótíma og helst á sem stystum tíma.

Allt frá því á nítjándu öld hafa amerískir stjórnmálamenn þó verið undir stækkunarglerinu vegna holdafars, t.d Roosevelt, William Taft og William Clinton. Ameríkanar hafa gjarnan talað óskaplega mikið um holdafar, vegið og metið sitt frægðarfólk á því.

Leikkonan Kirstie Alley er ein af þeim sem hefur fengið að finna til tevatnsins í meðförum ljósmyndara og fjölmiðla á holdafari sínu og svo virðist sem ameríkanar séu um þessar mundir nánast með áráttuhugsun í tengslum við ofát.

Sjónvarpsefni, leikrit og endurminningar um fitu, ofát, spik og græðgi njóta mikilla vinsælda. T.d leikritið Fat Pig, endurminning Judith More undir nafninu Fat Girl og sjónvarpsþáttur fyrrnefndrar Alley Fat Actress.

Eins og segir í greininni. "Being fat in America, with all the shame, rage and misery it engenders, is emerging as the central focus of a new body of fictional an non-fictional works.

Mótsagnakenndar leiðbeiningar og sífelldir megrunarkúrar hafa auk þess augljóslega ruglað ameríkana í rýminu og truflað tengsl þeirra við mat sem eðlilega uppsprettu næringar og nautnar.

Matarstríð

Að lokum ætla ég að láta fylgja hér skemmtilegar tilvitnanir úr þessari grein.

"The act of consuming food has become charged with an unbearable tension because the consumer is trapped by mixed messages. 

The American paradox is notably unhealthy people obsessed with the idea of eating healthily.

If marketers can create guilt in a population saturate with fat, they can use obesity to sell both health and unhealth (Richard Klein 1994)

Og svo að lokum

Hverjum öðrum en ameríkönum dettur í hug að flækja umræðu um hnattræna hlýnun inn í umræðu um ofát?... þó samanburðurinn hér sé athyglisverður

Is it any wonder, as the New York Times pointed out in a recent article on the link between obesity and global warming, that the bad news about obesity makes overweight people want to eat more? 

Paradoxically, guilt and fear about eating lead consumers to make even unhealthier choices, an to eat alone for fear of being judged.

Semsagt að því ofstækisfullari sem að umræðan um ofát verður þess meiri hætta er á að fólk sem er í vandræðum með holdafarið eða telur sig eiga í vandræðum með holdafar sitt fari að fela gjörninginn að matast. Uppsprettu bulimiu (átröskunar). Humm!

Niðurstaða greinarinnar er að Frakkland hafi nú þegar öll hjálpartæki tiltæk til að berjast gegn ofáti, en það séu sterk matarmenning sem hvetur til jákvæðrar upplifunar af mat og ánægjunnar að matast, betri opinbert heilbrigðiskerfi en ameríkanar, færri sjónvarpsstöðvar með auglýsingar og færri sjónvarpsauglýsingar, minni heilsu-átaks markaðssetningu og engar markaðsaðgerðir í skólum.

Mér fannst þetta athyglisvert. Því ef eitthvað er, erum við nær ameríkönum en frökkum hvað suma þessa þátta varðar.


Rífum morgunblaðshöllina!

Einhvern veginn svona munu hvatningarorð hljóma meðal íslenskra borgara eftir um tvo áratugi þegar að húsið við Ingólfstorg verður álitinn orðinn kumbaldi einn, þar sem hýst hefur verið svo fjölbreytilegri starfsemi í gegnum tíðina að lítið sé orðið eftir af upprunalegu sixties/seventies looki hennar.

Morgunblaðshöllin skyggir á eina helstu perlu miðborgarinnar sem gerir húsasögu Reykjavíkur skil - Grjótaþorpið, sem einmitt tókst að bjarga á sínum tíma með virkum mótmælum borgara þegar stórvirkar vinnuvélar fóru að byggja hina sömu morgunblaðshöll og ryðja gömul hús á reitnum. Þetta munu væntanlega verða rökin!

Menningarlandslag. Borgarlandslag er og mun alltaf verða "palimpsest". Uppskafningur öðrum orðum.

Hugtakið er upprunnið í skrifum miðalda. Vísar til þess er sama skriftaflan var notuð oft án þess að vera þrifin almennilega á milli skrifta. Þannig mynduðust með tíð og tíma  lög eftir lög af skrifum. Hugtakið er því notað sem myndlíking og stendur fyrir ferli breytinga á landslagi, þar sem notendur/ábúendur þess ,,skrifa í það”/ laga það að sér án þess þó að eyða ummerkjum fyrri notkunar.

Það krefur okkur samt um að forgangsraða og eitt er víst að nýbreytni í borgarlandslaginu er nauðsynleg í bland við verndun gamalla mannvirkja.

Mér finnst rökin sem hníga að því að húsin á laugaveginum sem á að rífa eða flytja vegna þess að þar hafi hvort eð er í gegnum tíðina verið svo voðalega fjölbreytileg atvinnustarfsemi sem breytt hafi ásýnd húsanna, afar léleg rök. 

Ef við hugsum um húsaröðina í heildstæðu samhengi þá eru það afar léleg rök, líka þegar við hugsum til annarra borga sem risið hafa uppúr öskustónni að miklu leyti vegna þess að gamlar hnignandi byggingar hafa gengið í gegnum endurnýjun líftíma með því að þau voru gerð upp og urðu þannig lifandi minjar í notkun.

Fréttamennska af málinu um byggingarnar er reyndar afar sérkennileg, faðir minn sem býr við Klapparstíg, benti mér á þetta. Hann sagði: Af hverju er verið að fela hverjir eru þessir lóðaeigendur sem ætla að byggja þarna hótel. Afhverju eru þeir ekki nafngreindir. Eru stjórnmálamennirnir í ráðhúsinu að ganga erinda þeirra?  

Afhverju eru LÓÐAEIGENDURNIR aldrei spurðir hvaða hagsmuni þeir hafi og hverjar fyrirætlanir þeirra séu. Eru þetta einhverjir huldumenn?

Mér fannst þetta nú eiginlega svolítið góð spurning.


Hverjir leiða húsafriðunarnefnd?

Leiðari Ólafs Þ. Stephensen í blaðinu 24 stundir (lesist sólarhringur) er allrar athygli verður. Þar kemur fram að Húsafriðunarnefnd og borgarminjavörður hafi verið allt of lin í málinu um laugaveg 4-6.

Formaður húsafriðunarnefndar er Þorsteinn Gunnarsson arkitekt og gamall leikari, varaformaður er líka arkitekt en hann heitir Pétur H. Ármannson. Síðan eru fulltrúi úr félagsmálaráðuneyti og lögfræðingur kirkjuráðs en þeir heita Einar Njálsson og Guðmundur Þór Guðmundsson. Auk þeirra fjöldi varamanna sem ég ætla  ekki að telja upp hér nema kannski Ingunni Guðmundsdóttur sem er skipuð af Sambandi Íslenskra sveitarfélaga, og því nærtæk í þessu samhengi.

Margrét Hallgrímsdóttir frá Þjóðminjasafni hefur auk þess seturétt. Ég geri ráð fyrir að það sé þetta fólk sem sé hrætt við að taka afstöðu og gefa út yfirlýsingar um menningararf og leiðbeinandi stefnu um vernd/niðurrif laugavegs.  Ólafur Þ. Stephensen nefnir einnig  borgarminjavörð. Það er Guðný Gerður Gunnarsdóttir.

Það skal ekki vera vafi á að hin endanlega ákvörðun liggur meðal stjórnmálafólksins í ráðhúsinu en ráðgefandi ákvörðunarvald hlýtur að hvíla á herðum a) skipulagsnefndar RVK b) Húsafriðunarnefnd og C) Borgarminjaverði.

Ég ætla bara svo sannarlega að vona að með alla þá hersveit innanborðs sem hefur verið ráðin eða skipuð til að taka afstöðu í málinu, séu einhverjir með bein í nefinu til að verja menningararf Reykjavíkur!!!


mbl.is Margrét og Svandís ósáttar við flutning húsanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vei Ívanov og Páll Baldvin á hressingarhæli!

Ég fór á jólasýningu Þjóðleikhússins á verkinu Ívanov í leikgerð og leikstjórn Baltasar Kormáks.

Mér fannst snilld hvernig hægt var að snúa svona þunglyndislegu verki upp á skemmtilegt plan sem ekki var rýrt inntaki.

Dramb, tregi yfir persónulegum fórnum, eigingirni, illkvitni, sjálfsafneitun, taktleysi í mannlegum samskiptum og sjálfsvorkun eru blandaðar satíru sem féll mér vel í geð. Hið aumkunarverða í geði mannsins er gert skil á athyglisverðan hátt, sveipað háðung svo hægt sé að hlægja í stað þess að gráta.

Ég get ekki annað séð en að þetta sé hressileg nýbreytni á annars þunglamalegu verki.

Ég er ekki nógu vel menntuð til að leggja á það hreinræktaða listræna dóma eða hef ekki tök á að meta hversu vel eða illa var farið með upprunalegt handrit vs. mismunandi þýðingar verksins úr rússnesku.

Mér fannst tónlistin virka vel í verkinu og undirbyggja stemningu, mér fannst leikmyndin afbragðs-sniðug og mér fannst boðskapurinn og flétturnar í verkinu komast til skila (aur og auraleysi, status og stöðuhækkun, missir stöðu og vonleysi, eigingirni og afneitun og hvernig flóttahyggja siglir fólki að feigðarósi osfrv).

Að mínu viti var sýningin góð skemmtun og eftirþankaverð!

Er ekki bara kominn tími til að Páll Baldvin fari á gott hressingarhæli?


Uppáhalds jólakveðjan!!!

Heiðursfólkið Philip Vogler og Helga Svanhvít sem reka ferðaþjónustufyrirtækið Islingua senda mér á hverju ári uppáhaldsjólakveðjuna. Þetta eru alltaf mjög frumlegar hreyfimyndir sem þau hafa virkjað ýmsa listamenn til að gera. Í ár hafa Guðjón Bragi Stefánsson gert hreyfimynd en hljómsveitin bloodgroup sá um tónlistina. Þetta er hressandi jólakveðja, ekki hægt að segja annað. Ég stenst hreinlega ekki mátið og set hér krækjuna.

Jólakveðja Islingua


Nær ár frá Kúbuferð

Ég fór allt í einu að hugsa að það er nær ár frá því að ég dvaldi í Havana á Kúbu mér til heilsubótar og ánægju. Rifjaði upp að þar var sólin miklu sterkari en hér á þessum árstíma. Bragðið sterkara, litirnir sterkari og Fídel upp um alla veggi, þó ósýnilegur væri á opinberum fundum og skjám. Ég bjó við höfnina hjá ungum manni sem ég átti langar samræður við á minni hálfhöltu spænsku um þjóðfélag, líf og störf. Hann var háskólanemi og blaðamaður og leigði út herbergi til að halda sér uppi.

Íslendingarnir í ferðinni voru alveg mát yfir að ég skyldi þora að búa svona hjá heimamanniWoundering.

Ég hef sjaldan verið eins örugg og þarna niður við höfnina þó skuggsælt væri víða á kvöldin og stundum einn eða tveir menn sem gengu og fylgdust vel með mér einni með sjálfri mér, smá vegspotta.

Pepe kynnti mig að sjálfsögðu fyrir allri götunni og um leið átti ég tugi vina sem fylgdust með mér og pössuðu upp á mig.  Hann vildi helst láta alla halda að ég væri framandleg ástkona hans (það var bara upphefð fyrir mig og hálf-fyndið, hann var einstaklega myndarlegur) - og svolítið sætt, en auðvitað var ég vestræn og rík í hans augumFootinMouth (ruppinn ég). Við vorum þó góðir félagar.

Eitt kvöld man ég eftir að maður gekk þannig á eftir mér að ég var viss um að ég væri féþúfa í höfði hans, en þegar ég beygði inn götuna mína áttaði hann sig á að ég var á kunnum slóðum, og sneri við.

19000001

Ég með listamanninum. 

Í útjaðri Havana býr stórkostlegur mósaík-listamaður að nafni Fuster. Ég vil endilega fá þennan mann í heimsókn til Íslands með verk sín. Hann er merkis-listamaður fyrir þær sakir að hann hefur gert fátæktarhverfi að yndisreit með mósaík-verkum sínum. Þegar ég fór að heimsækja hann tók hann mér afar hlýlega og leiddi mig upp um allt hús á vinnustofur sínar og um hverfið. Hann kynnti mig fyrir fólki sem að sat í stofunni hans (ég veit ekki hvað þau voru að gera, sjálfsagt bara í Siesta). Ég var mjög hrifin að kúbisma hans og fígúratívum verkum, í skúlptúrum, mósaík, flísum og málverkum þó nokkuð hafi borið á endurtekningum. Enda fjármagnar hann hverfisfegrunina algjörlega sjálfur, svo hann þarf að selja verk til þess. Ég varð vör við að hann var mjög dáður og flestir Havana-búar líta mjög upp til hans enda náttúrulega enginn venjulegur maður á ferð. Allstaðar voru kunningjar hans að dytta að verkum hans í hverfinu. Þetta var eins og að vera mættur í miðja hippanýlendu - frábært. Við spjölluðum saman um verkin hans og hverfið og hugmyndir hans um hvernig hægt er að glæða vonir fólks og auka hamingju þess með myndum og listaverkum í nánasta umhverfi.

Garður Fuster

Ég ætla að blogga um þessa skemmtilegu viðburði og margt annað sem ég varð fyrir í Havana á Kúbu fyrir um ári síðan til að hlýja mér í kuldanum hérna á ylhýra ástkæra.


Sinfóníutónleikar í kvöld

Jæja, þá er upprunnin dagurinn 29.nóvember, en í kvöld verða spennandi sinfóníutónleikar bæði fyrir tónlistarunnendur en líka fyrir foreldra unglinga og hálffullorðinna í Hamrahlíðarkórnum. Ég er ein þeirra sem er á nálum að allt gangi vel þegar kórinn á að syngja undir stjórn Thomas Adén í Háskólabíó. Held í putta eins og í gamla daga.

Þorgerður Ingólfsdóttir er afburða kórstjórnandi sem hefur haft ótrúlega seiglu og metnað í gegnum tíðina með þennan kór. Það er hrein unun að sjá hvað henni ferst vel að hafa aga á kórmeðlimum. Hún getur snúið einum fingri og þau fylgja eins og þráður fylgir nál. Mér finnst þetta vera meistarataktar. En aginn er auðvitað eitthvað sem hún hefur náð gegnum það að vera samkvæm sjálfri sér í stjórnun og utanumhaldi - og með því að vera ströng, gera kröfur.

Ég hlakka til í kvöld!


Frábær sýning frelsarans í þjóðleikhúsinu!

Heiðurskonan Guðrún Þórsdóttir og systir hennar og mín besta vinkona Vala Þórsdóttir buðu mér á sýninguna Frelsarinn eftir handriti meistara látbragðsleiks á Íslandi Kristjáns Ingimarssonar. Margir hafa lagt hönd á plóg til að þessi sýning gæti orðið - það er augljóst af sýningarskránni.

Þessi sýning var í einu orði sagt. FRÁBÆR!

Ég elska táknmál, búkmál, hreyfingar, líkamlega tjáningu svo kannski svona frumstæð samskiptakerfi. Þau setja einhvern veginn margt í svo skemmtilegt samhengi.

Leikararnir voru þrír, öll hvor öðru betri þó ljóst væri að íslendingurinn í leikarahópnum hefði talsverða yfirburði bæði í að hafa völd yfir eigin vöðvum og útgeislun. Hinir tveir dönsku leikararnir voru líka frábærir, ekki misskilja mig. Mér fannst frábært hvernig hægt er að hafa pinnabretti sem vettvang í leikhúsi.

Kristján er absolut betri en Buster Keaton (blessuð sé minning hans). HÚRRA fyrir teyminu að baki þessari sýningu. Ég var með son minn átt ára með mér, sem gat svo vel sett sig inn i aðstæður, stundum var eins og við værum stödd í miðju tölvuspili, stundum eins og í ljóði, stundum eins og í valdatafli í forsetaframboði.

Meeee!


Hvernig skapaðist tungumálið?

Sonur minn Elías er ansi hugsandi drengur. Hann kom askvaðandi inn og spurði mig eftirfarandi: Mamma, ég er að velta fyrir mér hvernig tungumálið skapaðist, veistu það? Mér varð auðvitað orða vant eins og venjulega þegar ofvitinn sonur minn á í hlut. ..Svo fórum við að pæla í þessu saman. Ég stakk upp á að þróun tungumála hefði hafist með grátnum, því það er jú fyrsta hljóðið sem að nýfætt barn gefur frá sér ef það er heilbrigt. Þá sagði hann: Já, en hvað með hláturinn? Jú, vissulega hláturinn kitlar manninn og með hljóðinu hlýtur tungumálið að hafa byrjað að þróast. Við urðum sammála, við Elías, um að tungumálið skapaðist af grátnum og hlátrinum.

Touriseum

Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. Guði sé lof. Ég var að garfast í undirbúningi kennslu um ferðalandfræði Alpasvæðanna í Evrópu þegar ég fann nýmæli í safnavæðingu vestrænnar siðmenningar. Safn um ferðamennsku, svokallað Touriseum. Það er staðsett á landamærum Austurríkis og Ítalíu, nánar tiltekið í suður Týrol og gerir sögu ferðamennsku á svæðinu skil frá 1800, ásamt því að vera minjasafn og fræðslumiðstöð fyrir afþreyingu og leiki í gegnum tíðina. Humm. Kannski maður ætti einhvern tíma að grípa tækifærið og skoða fyrirbærið.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband