3.3.2009 | 23:55
Þrúgur reiðinnar
Ekkert hafði gert seðlabankastjóra Bandaríkjanna eins reiðan eins og að átta sig á að stærsta tryggingafyrirtækið hafði hagað sér ótrúlega óábyrgt og hefði í raun verið vogunarsjóður. Það er ýmislegt í endurskoðun stjórnvalda á atferli fyrirtækja á undanförnum árum sem er til þess fallið að gera menn frá sér numda af hneykslun. Í fræðunum er þetta kallað eftir-rationalisering og hefur nú ekki alltaf þótt góð fræði.
Menn við stjórnvölinn hefðu nú kannski átt að vera meira vakandi og minni kóarar þegar allt kom til alls.
Eftir að hafa horft á þáttinn um ENRON í fyrrakvöld stendur uppúr að þrátt fyrir að það stórfyrirtæki hefði svo óglæsilega farið á hausinn hélt viðskiptalíf í Bandaríkjunum uppi viðteknum hætti sem hafði verið áunninn og jafnvel lærður af viðskiptaháttum og bókhaldsviðmiðum svindlfyrirtækisins ENRON.
Það má jafnvel halda því fram að allir þeir viðskiptamenntuðu íslendingar frá Bandaríkjunum sem að síuðust inn í íslenskt viðskiptalíf í lok tíunda áratugar síðustu aldar hafi komið inn prógrammeraðir af hugmyndum sem að það stórfyrirtæki féll svo rækilega á. Bókhaldsviðmiðin voru allavega orðin eitthvað uppskrúfuð og öðruvísi en áður hafði þekkst í viðskiptaheimum.
Var að renna yfir sjö síðna grein úr Vanity Fair sem að hæðist að Íslendingum og íslensku viðskiptasiðferði, durtslegum viðhorfum Íslendinga í viðskiptalífi og finnst í rauninni sárt að mannorð okkar sé orðið svo svart að landinu okkar sé líkt við að hafa verið orðinn vogunarsjóður eins og bandaríski seðlabankastjórinn hneykslast yfir. Veit samt að þetta er að nokkru rétt.
Arðsemisviðmið margra fyrirtækja voru snarklikkuð og uppskrúfuð. Ég kannast samt ekki persónulega við að hafa hagnast á þessum tíma nema ef vera skyldi vitsmunalega. Það er erfitt að lesa um það að allir Íslendingar hafi bara átt peninga eins og sand af því að það er fjarri því að vera rétt en auðvitað voru margir sem leyfðu sér margt meira en þeir annars höfðu gert - ég kannast bara ekki við það úr eigin lífi. Stjórnarheimilið var leiksvið strengjabrúða sem að gátu fengið pening í kosningasjóði sína ef þeir höguðu ákvörðunum sínum í þágu hagsmuna ákveðinna aðila í viðskiptalífi.
Einmitt þess vegna er sárt til þess að hugsa að nú er eins og engin málefni séu mikilvæg í íslenskum stjórnmálum af því að allir eru uppteknir af eigin persónu í forvölum, prófkjörum eða landsfundaundirbúningi flokkanna. Það er þó væntanlega ekki lengur viðskiptalífið sem stjórnar dagskránni fremur sjálfhverfa frambjóðenda.
Persónukjör getur verið ágætt að sumu leyti en ef það er á kostnað þess að málefni hverfa í bakgrunninn, samstaða og samvinna fellur í skuggann og sami þúfnahugsunarhátturinn fær að vaða uppi og áður - er ég orðin fráhverf slíkum vangaveltum.
Hefur einhver frambjóðandi góða hugmynd um hvernig hægt er að breyta viðmiðum í hugsunarhætti fyrirtækja til reksturs þannig að sanngjarnir viðskiptahættir og eðlileg arðsemi fari saman og að fyrirtæki geti lifað af í kreppunni? Ég bara spyr.
AIG í raun vogunarsjóður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.