Missir tækifæra - viðreisnarhlutverk nýs sjávarútvegsráðherra

Að flytja með nær skipulögðum hætti um 1000 störf í fiskiðnaði og afleiddum þjónustugreinum er nær glæpsamlegur verknaður ráðamanna nú. Skemmst er að minnast þess að fiskútflytjendur báru fyrir sig háu gengi þegar að röð mismunandi fiskvinnsla í landinu var lokað í ýmsum sjávarbyggðum landsins og vinnustaðirnir fluttir út til annara landa. Samkvæmt rökfræði þeirra ættu því nú að vera uppi aðstæður sem gæfu möguleika á endurheimt vinnustaða í fiskvinnslu.

Sjávarútvegsráðherra fráfarandi hefur aldrei haft nóg bein í nefinu til að taka á þessum málum, þ.e. að vernda vinnustaði í sjávarútvegi.  Ein megin ástæða þess að fleiri og fleiri sjávarbyggðir hafa lapið dauðan úr skel á undanförnum áratug eru að stærri hluti útflutnings hefur verið fluttur óunninn fiskur úr landi. Það er hugsanleg ástæða þess að verðmætahlutfall sjávarútvegs í heildarútflutningstekjum þjóðarinnar hefur farið dvínandi.

Sett á oddinn. - Það er hreinlega eins og við Íslendingar ætlum aldrei að losna úr hlutverki síðnýlendunnar. Við ætlum aldrei að sleppa því hugarfari að okkar staða í heimshagkerfinu sé að vera hráefnaöflunarþjóð fyrir vinnslu annara þjóða. Mér finnst það afar sorglegt og takmarkað hugarfar.

Það er í raun missir tækifæra til að standa að stöðugri uppsafnaðri þekkingarþróun á sviðum atvinnugreina. Viðvarandi nýsköpun.

Ég hef gaman af að fylgjast með umræðu á þingi en hef auðvitað líka gert það á fagáhuga forsendum. Ég vek athygli á að umræðan um missir tækifæra og of rýra verðmætasköpun í fiski var afar lifandi á þingi sumarið 2007 og þá var Jón Bjarnason þingmaður upphafsmaður umræðna um vandamál af þessu tagi. Hér er krækjan - en nú ber svo við að mér er ekki leyfður aðgangur að þessu skjali eða umræðu til að sanna mál mitt. Humm,humm - skrýtið! Vek þá í staðinn athygli á skrifum mínum þar sem þetta kemur fram, sem kom út nú í bókinni: Enclosing the Fisheries - People, Places and Power á vegum American Fisheries Society nú rétt fyrir jól.

Kaflinn minn heitir:

Not sure about the Shore! Transformation Effects of Individual transferable quotas on Iceland's fishing economy and communities.

Sjá bók

Það verður vonandi hltuverk nýs sjávarútvegsráðherra í hinni nýkosnu stjórn í vor að taka alvarlega á þessum málum. Ég á ekki von á að hann nái því nú í bráðabirgðastjórninni sem tjaldað verður til 2-3 mánaða. Þetta mál er mikilvægt viðreisnarmál í sjávarútvegi ásamt því að skoða hvernig hægt verður að endurútdeila veiðiheimildum og tengja auðlind byggð.

Leyfi mér svo að vera ögrandi hér í endinn:

Afhverju eru íslendingar ekki að framleiða lanolin?

Afhverju eru íslendingar ekki að framleiða álfelgur?

og svona mætti halda lengi áfram.


mbl.is Hátt í þúsund störf flutt úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Helgadóttir

góðar spurningar!

Guðrún Helgadóttir, 27.1.2009 kl. 15:19

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Vinnsla á fiski er mismunandi og svo má aftur segja að það er fokið í flest skjól ef að við getum ekki sjálf framleitt rasp. Kannski er nýsköpun í bygg-raspi eitthvað sem á framtíð fyrir sér? Það var löngum þannig að um eitt og hálf tonn fisks sem dreifa átti á fish and chips sjoppur skota var ferjað á degi hverjum í flugi. Svipað magn fór daglega á Boston svæðið og enn annað eins á London svæðið. Ég veit svo sem ekki hvort það var brauðaður fiskur en hann átti allavega eftir að vera brauðaður - svo spurningin var bara hver náði virðisaukanum útúr þeim viðskiptum? 

Það má svo auðvitað líka halda því fram að því upprunalegastur sem fiskurinn er því verðmætari er hann og það á vissulega við um nokkuð af mörkuðum. Í þeim tilfellum er betra að vera með fallega meðfarin fisk í lúxus-umboðum en palla af "bulk  products" eins og Íslendingar hafa getið sér gott orð fyrir. 

Annars hef ég almennt áhyggjur af útflutningi sjávarafurða - það virðist vera byrgðasöfnun í gangi vegna samdráttar í neyslu á fiski á meginlandi Evrópu. Ég vona að það hvetji framleiðendur til dáða að hugsa alternatívt, frekar en að gefa í, í staðlaðri fjöldaframleiðslu.

Anna Karlsdóttir, 27.1.2009 kl. 18:53

3 identicon

Sæl frænka mín,

Þetta er nú í fyrsta skipti sem ég geri athugasemd á bloggi í mínu lífi en þarna ert þú á miklum villigötum.  Reyndar ofbauð mér málflutningur Aðalsteins Baldurssonar og ekki í fyrsta skipti.

Það sem skiptir okkur meginmáli í markaðssetningu á fiski er fjölbreytni og nýting allra þeirra leiða sem þar eru færar. Útflutningur á ísfiski er ein þeirra leiða og sú sem gjarnan hefur skilað hvað hæstu meðalverði á kg upp úr sjó sem hlýtur að skipta verulegu máli.  Heill ferskur fiskur sem seldur er á ísfiskmarkaði í Englandi eða annars staðar er mun minna hráefni heldur en t.d. fiskiblokk sem á eftir að fara í gegnum töluvert vinnsluferli í verksmiðjum erlendis.  Það getur ekki verið markmið að troða fiskinum í gegnum einhverja vinnslu hérlendis til þess að minnka í honum verðmætið og eins og nú er ástatt safna honum í birgðir.

Ferskur fiskur er verðmætari vara heldur en fiskur sem búið er að setja í geymsluform hvort sem það er söltun, frysting, þurrkun eða reyking.  Ástæðan fyrir því að fiskurinn er ekki allur flakaður hérlendis er sú að geymsluþol fisksins rýrar mjög eftir flökun sem þýðir að flutningurinn verður að eiga sér stað á fljótvirkan hátt (flugfragt) og í mun dýrari og óumhverfisvænum umbúðum (frauðplastkössum).  Þar að auki er sú aðgerð að flaka fisk einföld og ódýr og hefur verið unnin hérlendis um nokkuð langt árabil af innfluttu vinnuafli að langmestu leyti.

Fullvinnsla um borð í togurum hófst hér við land í kringum 1980.  Þessum skipum hefur fækkað mjög síðustu árin, bæði vegna samdráttar í veiðiheimildum en meira út af því að eigendurnir hafa skipt yfir í ísfisk.  Og þeir selja fiskinn annað hvort til innlendra kaupenda eða senda hann á markað erlendis allt eftir því hvar þeir fá hæst verð.  Svo einfalt er það nú.

Sala og markaðssetning á fiskafurðum, aðallega heilum ferskum fiski hefur verið uppistaðan í mínu lífsstarfi og þess vegna get ég ekki látið hjá líða að gera þessar athugasemdir.

Pétur Björnsson (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 10:44

4 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Kæri frændi

Takk fyrir innlit og gagnlegar ábendingar. Ég virði komment frá reynsluboltum eins og þér. Mér sýnist helst að þú sért ósammála staðhæfingunni um að unnin fiskvara sé endilega verðmætust og það er rétt, en ég hélt einmitt að ég hefði að nokkru tekið undir það. Minn útgangspunktur var fyrst og fremst að benda á að að uppsagnir og lokanir fiskvinnslustöðva hafa verið ærnar á undanförnum árum þegar að gengið var of hátt á krónunni til að unnar vörur gætu verið samkeppnisfærar á erlendum mörkuðum. Vinnslan var því í mörgum tilfellum flutt út. Þetta er svosem ekkert nýtt þar eð um allavega sex áratuga reynsla er í því að færa vinnslu nær markaði. En nú bregður svo við að gengið er lágt og þá ætti einmitt að vera grundvöllur fyrir að vinnsla væri hér í meira mæli. Mitt erindi er ekki að gera lítið úr ævistarfi fólks sem hefur unnið hörðum höndum við að byggja sér og sínum afkomu í afleiddum greinum sjávarútvegs. Ég held að ég hafi aldrei gert lítið úr því og ef ég hef, þá á ég skömm skilið.  Það væri annars gaman að hitta þig yfir kaffibolla og spjalla - það er eitthvað svo klikkað að vera að svara ættingjum sínum í gegnum bloggið

Anna Karlsdóttir, 28.1.2009 kl. 18:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband