3.1.2009 | 21:19
Víðtækari umfjöllun um strætó þörf
Frá og með áramótum var tekin upp ný gjaldskrá hjá strætó sem ber það með sér að kostnaður þeirra sem keyra lengst með strætó, til dæmis úr nágrannabyggðarlögum (Selfossi, Akranesi, Hveragerði, Borgarnesi) er hæstur. Þetta er módel sem þekkist allst staðar í almenningssamgöngukerfum um allar borgarbyggðir heims. Það er auðvitað súrt í broti fyrir Sigríði Indriðadóttur og Hjört Hróðmarsson sem virðast reiða sig á strætó til samgangna, miðað við umfjöllun mbl.is, að gjaldið hækkar um nær helming á níu mánuðum. Þeim má þó benda á að það slagar engan veginn upp í tryggingaárgjald einnar bifreiðar, bara svo við höldum einhverjum eðlilegum kostnaðarsamanburði. Og þá á auðvitað eftir að leggja út fyrir bifreiðinni, borga bensínið, viðhald og etv. bílastæði. Í strætógjaldinu er innifalið sæti ef pláss er, bensínútgjöld, tryggingagjöld og farþegar eru ekki krafðir um bílastæðagjöld.
Þversögnin í auknu gjaldi felst fyrst og fremst í þjónustuskerðingunni - færri ferðum utan annatíma og strjálum tengingum sem gera biðina óbærilega. Það er vissulega öll ástæða fyrir notendur og njótendur strætó að láta sig þau mál varða - því hér ríkja ekki skilvirkar almenningssamgöngur heldur einungis mjór vísir að þeim.
Ég stóð ásamt mínum ágætu samtökum samtökum um bíllausan lífsstíl - fyrir umræðufundi um málefni strætó 10. desember. 2008.
Enginn fjölmiðill hafði áhuga á að koma á fundinn - það er hreinlega ekki búið að síast inn í vitund almennings hversu mikilvægt það er borgarsamfélögum til að þau fúnkeri og borgarskipulag hugsanlega breytist til hins betra og mannlíf með - að þar séu góðar og gegnar almenningsamgöngur.
Á fundinum var dreift lista með þremur spurningum sem hljóðuðu eftirfarandi.
Nefndu eina ástæðu fyrir því afhverju strætó er mikilvægur ákúrat núna?
Nefndu eina ástæðu fyrir því afhverju þú velur að nota strætó?
Nefndu einn kost við að taka strætó?
Svörin voru mörg og margbreytileg en rauði þráðurinn var samt óskin um að fjölga ferðum eða gera þær það tíðar að þær væru til yndisauka en ekki ama.
Í umræðunni í kjölfarið kom í ljós að strætóþjónustan hafa í raun versnað á síðustu 15 árum í Reykjavík sem er mjög bagalegt og síst til þess fallið að gleðja borgarana.
Á sama tíma hefur byggðin þanist út eins og sykursjúkur offitusjúklingur og ekki nóg með það - að bæjarfélögin á landsbyggðinni hafa tekið við hlutverki úthverfa borgarinnar.
Það þarf að skoða strætómálin útfrá mun víðtækara sjónarhorni en hefur verið gert. Budgettið skiptir auðvitað máli sem hluti af grunni ákvarðanatöku - en þar inní spila umhverfismál, byggðaskipulagsmál, lýðheilsa og atvinnumarkaðsmálefni og svo mætti lengi telja.
Segjast þurfa að hætta að nota Strætóferðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:27 | Facebook
Athugasemdir
Ég hugsa að þessir útreikningar séu ekki réttmætir því gera má ráð fyrir að fólk á Akranesi eigi bíla. Rekstrarkostnaður vegna ferða er sennilega eðlilegra viðmið.
Hins vegar finnst mér allt of lítið gert af því að taka tillit til annarra þátta sem þú nefnir s.s. umhverfisþátta. Mengun af bifreiðum er margþætt t.d. er hljóðmengun víða í Reykjavík óþolandi. Ég vona að almenningssamgöngur verði efldar þegar fram líða stundir. Á reyndar von á því að það gerist.
PS. ég nota ekki bíl. Fer mest um fótgangandi.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 3.1.2009 kl. 21:37
Í þrjú ár hefur strætó gengið milli Akraness og Reykjavíkur og mikil ánægja verið með það. Ég flutti upp á Skaga vegna tilkomu strætó í ársbyrjun 2006. Ég kýs að eiga ekki bíl og notaði strætó í Reykjavík í áratugi til að komast til og frá vinnu. Var áður hálftíma á leiðinni í vinnu úr Vesturbænum en frá Akranesi yfirleitt um 40 mínútur ef ég tók fyrstu ferð. Munaði ekki miklu og ég komst á ástkærar æskustöðvarnar aftur.
Akraneskaupstaður hefur borgað um 90 milljónir í strætóverkefnið frá upphafi. Ferðin hefur kostað 280 krónur fyrir okkur, eins og aðra strætónotendur, en um áramótin fór stakt fargjald upp í 840 krónur, þreföld hækkun. Ef keypt er kort þá fáum við farið á helmingi hærra verði en áður, 100% hækkun. Þjónustan var líka skert. Stórt hverfi, Grundirnar, fær nú enga stoppistöð, áður voru þar þrjár, m.a. við Dvalarheimilið Höfða.
Það sem fólk hér á Skaganum klórar sér í hausnum yfir er að ef þessir rúmlega 300 manns, sem taka alltaf strætó í vinnuna í Reykjavík, kaupa strætókort af bænum til að fá "bara" 100% hækkun í stað 200%, fær bærinn ágóðann af kortasölunni, áður fékk Strætó bs allt. Breytingarnar hljóta því að tákna nokkurt fjárhagslegt tap fyrir Strætó bs, minnst rúmar 2 milljónir á mánuði. Við sem kaupum kort getum því samkvæmt þessu rúntað "ókeypis" um í strætó í Reykjavík! Bærinn borgar sama og áður til Strætó bs, skv. því sem við höfum vitneskju um en fær nú tekjurnar af kortasölunni, kemst næstum á núllið við það. Held að margir, sem ekki fara oft á milli og kort gagnast þeim ekki, hiki nú við að nota strætó til að fara í skreppitúr til Reykjavíkur þegar það kostar nú 1.680 krónur báðar leiðir. Allur ágóði af hækkuninni sem sagt fer ekki til Strætó bs, heldur má reikna með minni innkomu! Til hvers þá að breyta þessu? Þetta er óskiljanlegt rugl.
Tímaáætlanir nýja kerfisins standast ekki, strætó heim í gær var 25 mín. of seinn, og án efa verður reynt að laga það á einhvern óþægilegan hátt fyrir farþega, eins og að fækka stoppistöðvum enn frekar.
Hér hefur fólk reiknað það út að ef fara t.d. 5 saman á bíl, hver og einn keyri einu sinni í viku með hópinn, sé það ódýrara en að taka strætó á háa gjaldinu. Fólk sem á bíl hér þarf hvort eð er að borga af honum tryggingar og slíkt þótt bíllinn standi og eigandinn taki strætó í bæinn. Hér á Skaganum er litla vinnu að fá þannig að fjöldi manns VERÐUR að vinna á höfuðborgarsvæðinu. Við hefðum frekar sætt okkur við að vera sett á gjaldsvæði 2 en gjaldsvæði 3. Borgnesingar þurfa að borga yfir 1.100 krónur fyrir eina ferð en þeir eru á gjaldsvæði 4. Mér finnst þessi breyting vera mikil afturför og eiginlega frekar klúðursleg. Þetta eiga að heita almenningssamgöngur og vera svo miklu vistvænni en ef allir fara á einkabíl. Held að þetta sé dauðadómur yfir strætóferðum hér á milli nema þessu verði eitthvað breytt. Hingað til höfum við engan rökstuðning fengið nema að við séum of dýr fyrir Strætó bs. en nú fær Strætó bs enn minna í kassann frá okkur.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 3.1.2009 kl. 22:15
Kæru Gurrý og Jakobína
Það er alveg ljóst að það þarf að skoða þessi mál betur. Takk Gurrý fyrir að útlista betur hvernig þetta hangir saman á Akranesi. Það er eitthvað óeðlilegt við þessa útreikninga, það virkar þannig. Strætósamlagsmálin þarf að skoða ofan í kjölinn. Það er engan veginn nein lógík í því að sveitarfélögin séu að græða á miðasölu í strætó - það er eitthvað fishy í slíku fyrirkomulagi. Það er líka eitthvað annarlegt að samhjálp og samkennd sé það lítil að þeim sem í raun eru að stuðla að sjálfbærari lífstíl sé gert erfiðara fyrir á meðan að þeim sem menga og eru bara á eigin sjálfhverfu forsendum sé gert léttara lífið. Dofri Hermannsson kom með ansi góða líkingu á fundinum á daginn um almenningssamgöngur. Hann sagði hvað ætli eigendum bifreiða finndist um það ef að vegakerfinu væri rúllað upp eins og dregli og óaðgengilegt bifreiðum eftir sjö á kvöldin? Hvað ætli þeim finndist um það?
Það er ljóst á þessu öllu að við þurfum að breyta hugsanagangi. Strætó er ekki kreppumál - strætó er lífæð samgöngukerfis um þéttbýlin tengd höfuðborgarsvæðinu og auðveldasta leiðin til að gera þetta blessaða svæði sem okkur öllum er vonandi annt um óskilvirkt er að reka rítunginn í kerfið með vanhugsuðum ákvörðunum sem gera notendum þess ókleift að ferðast á þess vegum.
Anna Karlsdóttir, 4.1.2009 kl. 03:39
Mig langar að koma leiðréttingu á framfæri. Svo virðist sem lítið upplýsingaflæði hafi valdið því að Skagamenn beindu undrun (reiði) sinni að Strætó bs.
Strætóaksturinn er ekki lengur á vegum Strætó bs, heldur Akraness, Hvalfjarðarsveitar og Borgarness sem hafa nú einkaleyfi á akstrinum. Þess vegna fá sveitarstjórnir ágóðann af kortakaupum og borga Strætó bs ákveðna þóknun, m.a. fyrir að við fáum að ferðast um höfuðborgina. Okkur bauðst að fá að innlimast inn í sjálft strætókerfið en væntanlega hefur það verið of dýrt fyrir sveitarfélögin fyrst það var ekki samþykkt.
Fékk bréf varðandi þetta frá Reyni Jónssyni, framkvæmdastjóra Strætó bs, sem útskýrði málið vel og vildi koma leiðréttingu að.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 5.1.2009 kl. 17:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.