12.12.2008 | 21:58
Jólin nálgast
Fyrir fimm árum sagði ég upp áskriftinni að jólunum. Ég var langþreytt á neysluæðinu og átinu sem einkenndi hátíðina og flúði með fjölskylduna til Sikileyjar upp á fjall og eldaði dúfur á aðfangadagskvöld. Það voru að mörgu leyti góð jól þar sem samvera við fólk, sætar appelsínur og villiketti voru í forgrunni fremur en að æði af öllu tagi, saltur og sætur matur ásamt myrkri væru aðalsmerkið.
Í ár verð ég heima og hlakka bara til. Ég var svo heppin að vera með á fundi á Húsavík um daginn um verkefnið Wild North og í tengslum við hann fórum við um Mývatnssveitina og upplifðum sitt lítið af hverju, t.d hitti ég jólasveina í Dimmuborgum (sjá mynd að ofan) og fann aftur jólabarnið í hjarta mér, hló eins og ær og langaði að syngja jólalög (humm, það er af sem áður var). Keypti hangilæri í Vogafjósi og skellti mér í jarðböðin ásamt hópi yndæls fólks frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Noregi og Skotlandi.
Sonurinn eldri fer úr landi og mun ég sakna hans töluvert en líka una honum að fá hvíld frá neikvæðum fréttum og áhyggjum sem fylla andlegar kyrnur fólks hér á Fróni um þessar mundir. Sá yngri verður hér með mér og hans jólaskap feilar ekki.
Hvet alla til að kveikja kerti og spara við sig í ofdekri - göngutúr í snjónum getur gert meira kraftaverk en hálfur konfektkassi. ...Og svo er bara að syngja með jólasveinunum.
Meginflokkur: Dægurmál | Aukaflokkur: Ferðalög | Breytt s.d. kl. 21:59 | Facebook
Athugasemdir
Góð grein hjá þér Anna Ég er sjálfur með á hverjum degi logandi sprittkerti í 3 einföldum og ódýrum krukkum í sinnhvorum litnum sem ég keypti í rúmfatalagernum í fyrra. Fer í göngutúra í Elliðaárdalnum og hjóla í sund, því það er ódýrasta aðferðin sama hvernig veðrið er að öðlast fullsælu í heita pottinum, horfandi upp í himininn, á skýin, virða fyrir sér snjókornin, hlusta á vindinn blása, en alltaf samt notalega heitt, nema einhver tali um eitthvað úr efnahagsótíðindamiðlunum þar, það ætti reyndar að vera bannað, en er sem betur fer fátítt. Sundlaugin í Laugardal er fyrir mér eins og kirkja án veggja og fyrst þú minnist á söng, þá man ég eftir skemmtilegu atviki þar í Nóvember að sextugur kall söng þar Ítalskar aríur hástöfum meðan hann skrúbbaði á sér bakið í útisturtu. Höfuð allra sundlaugargesta snéru í átt að honum meðan á þessu stóð og undrun á hverju andliti, mætti vera meira af svona ókeypis skemmtiatriðum þar sem almenningur kemur saman
Máni Ragnar Svansson, 13.12.2008 kl. 00:29
Ég hjólaði einmitt í dag og áttaði mig á að ég spólaði minna en bílarnir. Haha Ég er sammála þér að sundlaugarnar eru eins og heilunarstaður eða kannski kirkja. Ég hef svolítið lítið stundað þær undanfarið en ætla að taka mig á því við erum svo heppin að eiga svona góðan og heilsusamlegan skemmtistað undir berum himni. Mikið vildi ég að ég hefði verið fluga á vegg þegar að karlinn upphóf raust sína. Íslendingar eru almennt hræddir við að blotta sig á þennan hátt. Þegar ég var unglingur fórum við vinkonur í strætó og sungum hástöfum það var um kvöld eitt að Kötu ég hitti, og viti menn, eldri maður sem þar sat, tók undir hástöfum með okkur. Það var kúl og skemmtilegt. Ég man þá strætóferð betur en margar aðrar þess vegna. Við verðum að vera óhræddari við að sleppa okkur meðal fólks. Ég held hreinlega að það sé bráðhollt.
Anna Karlsdóttir, 13.12.2008 kl. 20:14
yndislegt og satt. jólaandinn kemur ekki frá því veraldlega, en er aldleg orka sem við finnum ef við tjúnum inn.
KærleiksLjós til þín
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 15.12.2008 kl. 07:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.