Róbótastarfsmenn þjóðskrár og drekinn í tölvunni.

Ég las bráðfyndna bakþanka Þórgunnar Oddsdóttur í gær í fréttablaðinu um tölvugreind starfsmanna þjóðskrár undir yfirskriftinni Tölvan segir nei.

Sumir starfsmenn virðast slökkva á hugsanabúnaði eigin heila þegar þeir hafa farið í einkennisbúning stofnunarinnar og kveikja á þessum utanliggjandi sem er að minnsta kosti með 20 sinnum lakari greindarvísitölu.

Það á sannarlega við um starfsmenn þjóðskrár, með allri virðingu fyrir því fólki.

Þegar að eldri sonur minn var nefndur leitaði ég til þjóðskrár sem tjáði mér að ekki væri hægt að feðra barnið þareð faðirinn hefði aldrei verið skráður í tölvu stofnunarinnar. Það var jú kannski eðlilegt hann hafði ekki íslenskt vegabréf eða þjóðerni og hafði ekki dvalið hér á landi svo neinu næmi nema eitt sumar við skúringar á landspítalanum.

Svar starfsmannsins var sérlega gáfulegt. Þar eð faðirinn er ekki til samkvæmt tölvunni er ekki hægt að skrá faðerni barnsins og því mun barnið verða Önnuson.

Ég held eða mig minnir að deilan við stofnunina hafi gengið á í um eitt ár en leystist við það að sendiráðspresturinn í Kaupmannahöfn kærði nafn hans inn á þjóðskrá eftir að hafa skírt barnið.

Þá mátti hann fá eftirnafn föður síns þrátt fyrir að það samræmdist ekki eða illa íslenskri nafnalöggjöf. Hann hefði mín vegna mátt vera líka önnuson, en það passaði illa inn í stafabil tölvunnar fyrrnefndu.

Það má því sannarlega líkja tölvunni í þjóðskránni við illkvittinn dreka sem vill ekki hafa skilning á blæbrigðum mannlífs, nafngifta og ættartengsla af því að hann var getinn af sérlega íhaldsömum drekaforeldrum sem innrættu honum fordóma og kvikindisskap í garð þeirra sem ekki vildu troða sér í sama mót og hann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Friðrik Skúlason sagði í blaðaviðtali að líklega væri forritið illa skrifað úr því ekki væri fljótlegt að bæta nokkrum stöfum við; vel skrifuð forrit væri yfirleitt fremur auðvelt að stækka.

Um langt árabil fékk ég ekki að heita báðum skírnarnöfnunum mínum í þjóðskránni af því að hún hafði ekki pláss fyrir fullt nafn. Ég lét mig hafa þetta fram undir fertugt en þá var loks hægt að laga þetta og síðan hef lagt á það áherslu að nota bæði skírnarnöfnin. Enn þann dag í dag lifir eftir skammstöfun á öðru af mínum tveimur skírnarnöfnum og stundum með stafnum "a" sem er hvergi í síðara skírnarnafninu mínu, af því tölva Hagstofunnar átti fyrst ekki ísl. stafi). Þetta er skammstöfun sem mér þykir vænst um að sé aldrei notuð en fremur sé Ásgeirsnafninu sleppt alveg ef það þykir farið fram á of mikið að nota fullt nafn. Ég þarf að hafa fyrir því að prófarkalesa tilkynningar um ráðstefnur og fyrirlestra, jafnvel þær þar sem ég hef beðið aðstandendur að skammstafa ekki nafnið mitt.

Á erlendum ráðstefnum læt ég "Ingó Jóhannesson" oft duga - jæja, handboltinn að byrja.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 19.1.2008 kl. 17:16

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

hahaha - það er ekki tekið með sælunni að vera með ótýpískt nafn. Kannski er það lausn allir heiti bara sama nafninu og séu númeraðir eftir fæðingardegi. Ætli Skúla þjóðskrárstjóra fyndist ekki hagræðing í því.

Anna Karlsdóttir, 20.1.2008 kl. 12:40

3 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Bætti "drekinn" við nafni handa þér, Þrymur? Jahá, ekki á hann logið ... nú er Þjóðskráin víst ekki lengur í Hagstofunni heldur í eða tengd dómsmálaráðuneytinu.

Hvað finnst ykkur annars um mannanafnanefnd?

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 20.1.2008 kl. 13:30

4 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Já það er víst að þjóðskráin er ekki lengur ígildi ráðuneytis með hagstofunni heldur orðin ein af undirstofnunum dómsmálaráðuneytis á meðan að hagstofan er undirstofnun forsætisráðuneytis. Ég tel þá tilhögun mun eðlilegri en hina fyrri.

Hvað varðar mannanafnanefnd er ég í vafa um tilvistar-löggildingu hennar, kannski að því undanskildu að mér fyndist óæskilegt að fólk nefndi börnin sín kálhaus eins og víst algengt er í Þýskalandi, eða óþolandi, vangefin, bastarður, best í heimi, flottust í heimi eða eitthvað ámóta sem síðar getur orðið áþján fyrir börnin. 

Anna Karlsdóttir, 20.1.2008 kl. 14:48

5 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Þrymur þú ert með flott nafn og vertu stoltur af því, og í Guðbergs nafninu er heldur ekkert mannskemmandi. Vei fyrir því.

Anna Karlsdóttir, 20.1.2008 kl. 23:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband