17.1.2008 | 18:20
Holdafar, matarmenning og ofát
Ég er búin að skemmta mér yfir greininni "Reading American Fat in France: Obesity and Food Culture" en hún birtist í nýjasta tölublaði samtakanna European Association for American Studies.
Skilgreining höfunda bókarinnar "Food Wars" á matarmenningu er sú að hún sé byggingarverk félagslega framleiddra gilda, viðhorfa, tengsla, bragðs og matarhefða sem birtast í matnum. Matarmenningu er líkt við regluverk sem stýri eðli og tengslum neytandans við mat.
Í franskri matarmenningu hefur því gjarnan verið haldið fram að áhersla sé á að viðhalda aga njótandans og vernda neytandann frá neikvæðum áhrifum ofáts. Þannig þykir agalega niðurlægjandi að detta í það í Frakklandi og verða of matargræðgislegur. Ameríkanar hafa á hinn bóginn dottið í það svo um munar. Þeir þurfa að leggja á sig að rifja upp tímann fyrir 1970 til að minnast tíma þar sem þeir og samborgarar þeirra voru ekki sífellt og endalaust að rífa í sig einhvern bita (snack).
Annað sem aðgreinir þá verulega er þekking og þjálfun í eldhúsinu; kunnátta í matargerð. Á meðan að Frakkinn gæti nefnt nokkra vel þekkta þjóðarrétti eins og cassoulet eða bæuf bourguignon myndi Ameríkaninn vísast detta fyrst í hug pizza, hamborgari eða tacos.
Þessi fötlun ameríkanana er víst ekki einungis félagsleg (fimm kíló af frönskum kosta minna en eplapoki), heldur einnig vegna fyrrnefndra tengsla við matinn. Eldamennska hefur þróast út í að vera frístundaiðkun sem fer fram um helgar eða á frídögum, fremur en endurtekin rútína eða lífstíll eins og að þvo af sér.
Mönnum hefur í gegnum tíðina verið holdafar hugleikið, bæði í Ameríku og Frakklandi. Þannig hafa síðustu tvær aldir verið matarspekingar sem að skrifuðu um ýmiskonar hvata og aðferðir til að halda í við kílóin.
Í bók sinni "Physiologie du Gout" frá byrjun nítjándu aldar talaði einn af gömlu eldhúsfeðrum Frakka, Brillat-Savarin um að þorri kvenna helgaði líf sitt baráttunni við að halda sér í réttum skömmtum (lesist holdum) - hvorki of mikið né of lítið. Um 1804 gaf franski læknirinn P.J Marie de Saint-Ursin út bókina "L'Ami des Femmes" tileinkaða Madame Bonaparte. Þar varaði læknirinn konur við að spikast, því það gæti bæði leitt til afmyndunar og leiða. Undir lok aldarinnar kom síðan út bókin "Lecons de Coquetterie et d'Hygiene Pratique" þar sem höfundurinn Mme de Gery, hélt staðfastlega fram að ofát væri ein af verstu fötlunum sem konur gætu orðið fyrir vegna þess að það rændi þeim sjarmanum.
Læsi maður þetta með kynjagleraugum er augljóst að ekki giltu sömu lífsreglur fyrir konur og menn. Hinsvegar var talsvert predikað fyrir karlmönnum og varað við ofáti en með nokkuð öðrum formerkjum. Tengsl heilsu, t.d getuleysis og ofáts, ófrjósemi og ofáts voru varnaðarræðan til þeirra. Árið 1904 gaf Dr.Monin út rit sem hét Secrets de Santé et de Beauté þar sem hann færði fyrir því rök að heldri stétt Frakklands væri í hættu að útrýma sjálfri sér vegna ofáts og það sem verra var, að varða leiðina fyrir verkamannastéttina til valda. Ekki gott það! Læknirinn hafði áhyggjur af áunninni sýkursýki og öðrum áunnum meinsemdum sem Frakkar væru að koma sér upp.
Eins og sjá má hefur því verið skipulögð áróðurstarfsemi í Frakklandi um að innræta hófsemi í mat. Bæði sprottin af fagurfræðilegum vangaveltum (á við um konur) og heilsufarstengdum áhyggjuefnum (á við um menn).
Í Ameríku hafa megrunarkúrar verið vinsælir eftir að landinn hóf að rífa í sig mat í tíma og ótíma og helst á sem stystum tíma.
Allt frá því á nítjándu öld hafa amerískir stjórnmálamenn þó verið undir stækkunarglerinu vegna holdafars, t.d Roosevelt, William Taft og William Clinton. Ameríkanar hafa gjarnan talað óskaplega mikið um holdafar, vegið og metið sitt frægðarfólk á því.
Leikkonan Kirstie Alley er ein af þeim sem hefur fengið að finna til tevatnsins í meðförum ljósmyndara og fjölmiðla á holdafari sínu og svo virðist sem ameríkanar séu um þessar mundir nánast með áráttuhugsun í tengslum við ofát.
Sjónvarpsefni, leikrit og endurminningar um fitu, ofát, spik og græðgi njóta mikilla vinsælda. T.d leikritið Fat Pig, endurminning Judith More undir nafninu Fat Girl og sjónvarpsþáttur fyrrnefndrar Alley Fat Actress.
Eins og segir í greininni. "Being fat in America, with all the shame, rage and misery it engenders, is emerging as the central focus of a new body of fictional an non-fictional works.
Mótsagnakenndar leiðbeiningar og sífelldir megrunarkúrar hafa auk þess augljóslega ruglað ameríkana í rýminu og truflað tengsl þeirra við mat sem eðlilega uppsprettu næringar og nautnar.
Að lokum ætla ég að láta fylgja hér skemmtilegar tilvitnanir úr þessari grein.
"The act of consuming food has become charged with an unbearable tension because the consumer is trapped by mixed messages.
The American paradox is notably unhealthy people obsessed with the idea of eating healthily.
If marketers can create guilt in a population saturate with fat, they can use obesity to sell both health and unhealth (Richard Klein 1994)
Og svo að lokum
Hverjum öðrum en ameríkönum dettur í hug að flækja umræðu um hnattræna hlýnun inn í umræðu um ofát?... þó samanburðurinn hér sé athyglisverður
Is it any wonder, as the New York Times pointed out in a recent article on the link between obesity and global warming, that the bad news about obesity makes overweight people want to eat more?
Paradoxically, guilt and fear about eating lead consumers to make even unhealthier choices, an to eat alone for fear of being judged.
Semsagt að því ofstækisfullari sem að umræðan um ofát verður þess meiri hætta er á að fólk sem er í vandræðum með holdafarið eða telur sig eiga í vandræðum með holdafar sitt fari að fela gjörninginn að matast. Uppsprettu bulimiu (átröskunar). Humm!
Niðurstaða greinarinnar er að Frakkland hafi nú þegar öll hjálpartæki tiltæk til að berjast gegn ofáti, en það séu sterk matarmenning sem hvetur til jákvæðrar upplifunar af mat og ánægjunnar að matast, betri opinbert heilbrigðiskerfi en ameríkanar, færri sjónvarpsstöðvar með auglýsingar og færri sjónvarpsauglýsingar, minni heilsu-átaks markaðssetningu og engar markaðsaðgerðir í skólum.
Mér fannst þetta athyglisvert. Því ef eitthvað er, erum við nær ameríkönum en frökkum hvað suma þessa þátta varðar.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Matur og drykkur, Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:34 | Facebook
Athugasemdir
Afar athyglisvert - líka ólíkar matarvenjur karla og kvenna og eftir starfsgreinum. Þegar ég tók bóklega námskeiðið Stjórnun stórra ökutækja í námi til aukinna ökuréttinda fyrir meira en tíu árum var sérstaklega farið í mikilvægi þess að borða ekki þungan og hitaeiningaríkan hádegismat og halda svo áfram með vörubílinn því að það væri meiri hætta á að maður sofnaði undir stýri, auk þess sem akstur er ekki átakavinna og krefst ekki ótal kaloría.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 18.1.2008 kl. 11:41
Já eru bifreiðastjórar ekki annálaðir fyrir að liggja yfir kjötbollum og sósum frekar en léttmeti. Í Evrópu við hraðbrautirnar eru oft sérstakir salir á bensín- og veitingastöðvum fyrir langbifreiðabílstjóra þar sem mér hefur sýnst að ekki sé borið fram neitt heilsumeti. Að minnsta kosti er steikarstybban yfir öllu. Svo það er líklega af gefinni reynslu sem að kennarar í meiraprófi draga þetta sérstaklega fram.
Anna Karlsdóttir, 19.1.2008 kl. 12:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.